18.12.1986
Efri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1978 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Frsm. minni hl. sjútvn. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Sjútvn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. til laga um breytingu á Ríkismati sjávarafurða. Innan nefndarinnar varð ekki samkomulag um að skila sameiginlegu nál. þó að það væri ansi langt frá því að nefndin væri ósammála um stefnu frv.

Ég held að segja megi að við í nefndinni höfum öll viðurkennt að það sem verið er að leggja niður, þ.e. ferskfiskmat Ríkismats sjávarafurða, hafi oft og tíðum skilað frekar litlum árangri. Því væri sjálfsagt að leita einhverra annarra leiða til þess að ná því markmiði að sá afli sem að landi berst og unninn er hér heima, og reyndar fluttur líka ferskur á erlendan markað, verði betri. En vitaskuld hlýtur það að vera markmið gæðaeftirlits þó að það hafi ekki verið nefnt í þessari umræðu að ég held fyrr en núna hjá hv. 3. þm. Vesturl., frsm. meiri hl. nefndarinnar. Það hefur verið talað um allt önnur atriði þegar fjallað hefur verið um þessa lagabreytingu. Það hefur verið talað um sparnað hjá Ríkismati sjávarafurða og um stefnu og hugmyndir hagsmunaaðila og annað eftir því, en aðalatriðið hefur lítið verið til umræðu að ég tel. Vil ég reyndar ekki alveg fullyrða þetta en ég minnist þess ekki nema í ræðu hv. 3. þm. Vesturl.

Þetta frv. hefur átt svolítið sérkennilega leið hér í gegnum þingið. Það var lagt fram í hv. Nd. hinn 10. desember eftir að frést hafði um ferð þess og undirbúning að gerð þess allar götur frá því að þing kom saman í haust. Jafnvel höfðu menn haft veður af því nokkru fyrr að til stæði að leggja ferskfiskmat Ríkismats sjávarafurða niður og afhenda það gæðamat seljendum og kaupendum fersks afla. En af einhverjum sérstökum ástæðum kemur ekki frv. fram fyrr en eins og ég segi 10. desember. og það hefur verið til umræðu og umfjöllunar í hv. Nd. síðustu sjö daga og þykir ekki mikið með jafnviðamikið og mikilsvert mál sem þetta. Vitaskuld er það allt of stuttur tími sem hv. Nd. fékk til þess að fjalla um þetta mál, enda hafði virðuleg sjútvn. Nd. ekki tíma til þess að ræða við alla þá sem hún kallaði til skrafs um málið. Svo þurfti nefndin að flýta sér. Ég efast ekkert um að hv. nm. í Nd. hafi komist að rökrænni niðurstöðu þótt þeir spjölluðu ekki við fleiri en þessa, þ.e. annan hluta hagsmunaaðilanna, í sambandi við þetta mál. Fyrst og fremst voru það kaupendur, sem þeir ræddu við, reyndar við hálfan seljanda, þ.e. fulltrúa útvegsmanna, Kristján nokkurn Ragnarsson. Hann verður hálfur í þessu tilfelli af því að hann verður ekki heill nema Óskar sé með honum en þá verður hann fullgildur fulltrúi seljenda.

Það var vitaskuld mjög mikilsvert að hv. sjútvn. Nd. skyldi ræða við þá höfðingja sem hún ræddi við, þ.e. þennan hlutann, en það var náttúrlega jafnhvimleitt að ekki skyldi takast að spjalla við fulltrúa sjómanna. Það kemur síðan á daginn, nú þegar við höfum nokkra klukkutíma til umráða til þess að fjalla um þetta mál, að fulltrúar sjómanna eru það önnum kafnir við ýmiss konar skyldustörf, samninga uppi í Garðastræti, í þeirri miklu stofnun, og úti í verðlagsráði, að þeir höfðu ekki tíma meðan við vorum að störfum, sjútvn. þessarar hv. deildar, til þess að koma til okkar og spjalla við okkur um málið. Þetta sýnir að allt of mikill hraði hefur verið hafður á og það ber að átelja slík vinnubrögð. Vitaskuld er hér á ferðinni þannig lagað mál að það þurfti ekki aðeins að kalla til fulltrúa hagsmunaaðila. Það þurfti að senda út frv. og leita skriflegs álits, ekki endilega frá miðstjórnarvaldinu hér í Reykjavík heldur frá ýmsum aðilum úti um land, kannske fyrst og fremst vegna þess að það sem hér er verið að samþykkja verður að mörgu leyti erfiðara í framkvæmd víða úti um land en hér á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa. M.a. verður sums staðar miklu erfiðara að fá hina svokölluðu yfirmatsmenn, ef þá þarf að sækja til úrskurðar, úti um land en hér á þessu svæði. Ef um einhver mistök verður að ræða eða vandræði í kringum þetta í byrjun verður miklu erfiðara að leysa þau úti um land. Þess vegna hefði verið nauðsynlegt að leita álits útvegsmannafélaga, sjómannafélaga og fiskvinnslustöðva úti um land og heyra þeirra álit þó að ég efist ekki um að skoðanir þeirra fulltrúa hér séu vel marktækar gagnvart toppnum á þessum stofnunum. Ég efast um að undir þessum kringumstæðum sem nú eru séu þær fullkomlega marktækar gagnvart öllum félögum þessara aðila, enda kom það í ljós í viðræðum okkar við þessa menn að einn fulltrúinn undirstrikaði það, þ.e. Sigurður Haraldsson frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, að hann væri ekki kominn þar sem fulltrúi allra félaga þeirra samtaka. Þeir væru nú reyndar um 250 eða svo (Gripið fram í.) eða jafnvel 350, hv. þm., og hann undirstrikaði það að hann væri ekki að tala fyrir munn þeirra allra. Þess vegna hefði verið æskilegt og nauðsynlegt að okkur hefði gefist tími til þess að senda þetta frv. til umsagnar til þeirra aðila sem ég nefndi áðan.

Það hefði kannske ekki endilega verið nauðsynlegt að senda þetta til þessara 350 saltfiskframleiðenda en ég held að það hefði þó verið sérstaklega nauðsynlegt að senda það til sem flestra sjómannafélaga úti um landið þannig að þeir sem eiga tekjur sínar fyrst og fremst kannske undir þessum úrskurði og þessari framkvæmd, þ.e. launþegarnir sem þetta snertir, hefðu möguleika til þess að svara fyrir sig. Mig grunar hálfpartinn að fulltrúar sjómanna, þó að ég ætli ekki að túlka þeirra skoðun úr ræðustól á Alþingi þegar þeir hafa ekki getað komið til okkar, eða forusta sjómannasamtakanna, önnur en sú sem kom til okkar í dag, sé að nokkru leyti meðmælt þessu máli, hún muni ekki hafna þessu.

Þá var umfjöllun á Sjómannasambandsþingi á þann veg að ályktun þess getur engan veginn talist stefnumarkandi í þessu máli. Það bendir ákveðið til þess að þar hafi að einhverju leyti verið skiptar skoðanir en menn hafi leyst málið á svolítið diplómatískan hátt eins og sumum ágætum nefndarformönnum í þessari hv. deild tekst oft og tíðum.

Að mínu mati hefði því verið mjög nauðsynlegt að senda þetta frv. til umfjöllunar í sjómannafélögunum og til ýmissa annarra hagsmunaaðila sem tengjast þessu úti á landi. Ég held að það hefði verið farsælasta lausnin á þessu máli ef hæstv. sjútvrh. hefði fallist á þá beiðni mína í gær að málinu yrði eingöngu vísað til sjútvn. hv. deildar og málið unnið síðan betur, bæði á vettvangi nefndarinnar og þeirra aðila sem við blasir að eiga að taka við þessu verkefni, fram að þeim tíma sem þingið kemur saman aftur til fundar hinn 19. janúar. Þá hefðum við getað afgreitt þetta hér í deildinni á fyrstu þingdögum og yfirbragð málsins hefði verið allt annað ef það hefði verið samþykkt á grundvelli þess að um það hefði verið fjallað víðar í þjóðfélaginu en gert hefur verið. Ég er ekki í neinum vafa um að fyrir þá aðila sem nú telja sig reiðubúna að taka við þessu hlutverki Ríkismatsins hefði verið ákjósanlegt að vita að hér á hv. Alþingi væri samstaða um að afgreiða málið eftir ákveðinn tíma. Þeir hefðu þá getað á þessu tímabili markað sér stefnu í því hvernig þeir ætluðu að taka við þessu verkefni og sinna því á þann bestan máta sem þeir hefðu getað fundið leiðir til. Ég er ekki í neinum vafa um að þessir aðilar allir hafa það að leiðarljósi sem ég nefndi áðan og þegar þetta fer í þeirra hendur munu þeir keppa að því að út úr þessu komi betri afli, betra hráefni en verið hefur hingað til, þetta verði sem sagt framfaraspor. En ég er hræddur um að sú afgreiðsla sem málið hlýtur núna geti orðið til þess að þetta verði miklu frekar spor aftur á bak en áfram. Við sem höfum verið óánægðir með starfsemi Ríkismats sjávarafurða á undanförnum árum stöndum því frammi fyrir því að verða enn þá óánægðari með starfsemi þeirra aðila sem eiga að taka við þessu verkefni ef þetta frv. verður að lögum sem allt virðist benda til.

(Forseti: Þar sem hér eru auðheyrilega greinaskil í ræðu hv. þm. vek ég athygli á því að nú eru aðeins tvær mínútur þar til þessum þingdeildarfundi lýkur og þar með fundum í þessari hv. deild í dag. Þess vegna er nauðsynlegt að fresta fundi og þar með ræðu hv. 4. þm. Vesturl.)

Það er, ég segi ekki þegið með þökkum en þeim úrskurði er tekið.

Umræðu frestað.