18.12.1986
Neðri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (1902)

229. mál, frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins rifja það upp, vegna þeirra umræðna sem fram fara nú, að í nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 344 gerði ég grein fyrir nokkrum brtt. við skattalögin þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„2. minni hl. fjh.- og viðskn. flytur nokkrar brtt. við skattalögin á þskj. 344. Meginefni brtt. eru sem hér segir:

1. Að draga verulega úr frádráttarheimildum fyrirtækja með því að fella niður í áföngum heimildir þeirra til þess að draga frá skatti 5% af matsverði vörubirgða,

fella niður í áföngum heimild fyrirtækja til þess að afskrifa 10% útistandandi viðskiptaskulda í árslok. Haldið er inni heimild til þess að draga frá sannanlega tapaðar viðskiptaskuldir, fella niður heimild til að draga frá skatti framlög í fjárfestingarsjóð, draga úr fyrningarheimildum fyrirtækjanna. Eru fyrningarprósentur lækkaðar í samræmi við fyrri ákvæði skattalaga.“

Þessar brtt. birtust síðan á þskj . 342, tölul. 2, stafl. a, b, c og d. Þessar brtt. komu allar til atkvæða í gær. Það er ekki kostur á því að fylgjast með því hér hvernig allir þm. greiða atkvæði, m.a. ekki embættismenn deildarinnar, en ég hygg að það hafi verið alveg ljóst að þeir hafi allir greitt atkvæði gegn þessum till. Með nafnakalli voru greidd atkvæði um eina þessara tillagna og niðurstaðan varð sú að allir þm. stjórnarliðsins greiddu atkvæði gegn till. og þar á meðal hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson.

Nú var ekki aðeins um að ræða að verið væri að fella niður hækkunarheimild skv. breytingum á skattvísitölu heldur var líka um það að ræða að á þskj. 342 gerði ég tillögu um að heill kafli skattalaganna yrði felldur niður, þ.e. kafli IV, greinar 54-55 b. Þegar þessi till. var borin upp um að fella þetta skattsvikakerfi út úr skattalögunum greiddu allir þm. stjórnarliðsins atkvæði gegn þeirri till. og þar á meðal hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson.

Ég vildi aðeins nefna þetta til glöggvunar, herra forseti. Því miður er það svo með hv. þm. að það er ekkert að marka hann í þessu máli frekar en mörgum öðrum.