22.10.1986
Efri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

9. mál, lágmarkslaun

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég skal verða við óskum síðasta hv. ræðumanns og upplýsa hann um þessa setningu í grg. Hún er ályktun af þeim upplýsingum sem Þjóðhagsstofnun lét flm. frv. í té. Hún er ályktun sem er dregin af þeim upplýsingum í samráði við sérfræðinga Þjóðhagsstofnunar. Upplýsingarnar voru ræddar og þetta virtist liggja beint við. En ég tek fulla ábyrgð á orðalaginu.

Varðandi það sem hv. 8. þm. Reykv. hafði á orði... (Gripið fram í: Hann er farinn.) Hann er farinn, já. Þá er ástæðulaust að ræða mikið um það.

Hins vegar fann hann þessu frv. m.a. það til foráttu að það flytti fé úr vasa eins aðila í vasa annars og væri ákaflega hæpið fyrir Alþingi að aðhafast slíkt. Það vekur mér satt best að segja gríðarlega furðu að hv. þm. skuli hafa setið á hv. Alþingi í þrjú ár og ekki hafa tekið eftir því að þetta er það sem Alþingi er alltaf að gera í hverju lagafrv. á fætur öðru. Ég held að önnur rök hans séu eftir því og eyði því ekki frekar orðum á þau.