18.12.1986
Neðri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

253. mál, heilbrigðisþjónusta

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að vekja athygli á því að það hefur á nál. láðst að geta þess að ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara. Ég ætla ekki að þreyta hv. þm. á enn einni ræðunni um þetta sama mál, en ég hef haldið nokkrar og hv. þm. ætti því að vera skoðanir mínar á þessu máli kunnar.

Hér er auðvitað um það að ræða að í Reykjavík og í Garðabæ er ekki pólitískur vilji til að framkvæma lög um heilbrigðisþjónustu og þess vegna hafa borgarstjórn og bæjarstjórn Garðabæjar ár eftir ár komið sér hjá því að fara að þeim. Þess vegna er þetta frv. og önnur viðlíka lögð fram á hverju ári.

Það væri kannske kominn tími til að spyrja hvort ætlunin væri yfirleitt að framkvæma lög um heilbrigðisþjónustu í þessum tveimur kaupstöðum eða hvort þetta frv. á að vera árvisst um allan aldur.