18.12.1986
Neðri deild: 29. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2005 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

88. mál, álagning tímabundinna skatta og gjalda 1987

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 411 sem meiri hl. nefndarinnar stendur að. Nefndin hefur rætt frv. Hún klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt. Minni hl. nefndarinnar skilar séráliti. Undir nál. meiri hl. skrifa Páll Pétursson, Ólafur G. Einarsson, Guðmundur Bjarnason, Halldór Blöndal og Friðrik Sophusson.

Þetta frv. fjallar um framhald álagningar og innheimtu ýmissa tímabundinna skatta og gjalda á árinu 1987. Mönnum til upprifjunar fjallar það um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, um húsnæðisgjald, um breytingu á lögum um sérstakt tímabundið vörugjald með síðari breytingum, breytingu á lögum nr. 110 frá 31. des. 1985, um breytingu á lögum nr. 120 frá 31. des. 1986, um tollskrá o.fl., með áorðnum breytingum, og síðan ýmis ákvæði. Það er sem sagt eingöngu um framlengingarbandorm að ræða.