18.12.1986
Neðri deild: 29. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2005 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

88. mál, álagning tímabundinna skatta og gjalda 1987

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. Páll Pétursson, 2. þm. Norðurl. v. og frsm. meiri hl. nefndarinnar, hefur gert grein fyrir eru hér tíndir saman ýmsir skattar og framlengingar af ýmsu tagi, en þar á meðal eru svonefnd húsnæðisgjöld.

Eins og menn rekur minni til í þessari deild og hér á Alþingi var það sérstakt samkomulag allra flokka að leggja á viðbótarprósentustig í söluskatti, húsnæðisgjald, til að leysa úr brýnum þörfum á því sviði. Nú er gert ráð fyrir því að þetta gjald renni í ríkissjóð eins og ekkert hafi gerst. Það er skoðun okkar Alþýðuflokksmanna að svo framarlega sem framlenging eigi að eiga sér stað á þessu húsnæðisgjaldi eigi það að renna til sömu þarfa, sem enn eru mjög brýnar, renna til að leysa sama viðfangsefni, sama vandamál og upprunalega var áformað.

Það hefur komið fram í umræðum undanfarna daga hvernig hvert bjargráðið á fætur öðru, sem heitið hafði verið því fólki sem illa hafði farið út úr íbúðaöflun, hefur runnið út í sandinn. Við hlustuðum á fróðlegar umræður þegar hæstv. félmrh. tók kollhnís einu sinni enn hér um daginn. Þá kom í ljós að ekkert hafði verið efnt af því sem hafði verið lofað fyrir þremur árum. Ráðherra taldi að vísu að nú væri loksins ráð að fara að flýta sér.

Áfram mætti telja. Því hafði verið lofað í sambandi við síðustu kjarasamninga að upp yrði tekinn sérstakur húsnæðisfrádráttur á skattaframtali. Ekkert af því hefur séð dagsins ljós. Það var upplýst í umræðum í gær. Enn situr þetta fólk án þess að hafa fengið úrlausn. Og það sem er verst af öllu: Það er búið að skipta þjóðfélaginu niður í hópa sem eru misvel settir. Einn hópurinn hefur verið skilinn eftir í súpunni. Þeir sem öfluðu sér íbúðarhúsnæðis fyrir 1980 nutu til þess aðstoðar verðbólgunnar sem svo er nefnd, sluppu tiltölulega vel. Nú hefur verið tekið upp nýtt húsnæðislánakerfi sem er fólki mun hagstæðara en hefur verið um árabil, en eftir situr þá sá hópur sem aflaði sér húsnæðis á árunum 1980-1985 og hefur enga úrlausn fengið.

Þetta er hreint þjóðfélagslegt óréttlæti vegna þess að þessi hópur fólks hefur unnið sér það eitt til óhelgis að hafa aflað sér íbúðar, byggt sér íbúð á árunum 1980-1985. Fyrir þetta er honum refsað með þeim hætti að hann er gerður meira og minna eignalaus. Hann getur ekki risið undir þeim skuldbindingum sem hann hefur tekið á sig. Margir hafa farið á hausinn. Sumir reyna að klóra í bakkann. En eignarlega séð standa þeir langtum verr en aðrir þjóðfélagshópar. Um þetta var m.a. rætt fyrir ári þegar húsnæðisgjaldið var tekið upp og samkomulag um að nota það til að leysa bráðasta vandann. En eins og ég segi: Málið er ekki enn leyst. Þess vegna er fyllsta ástæða til þess að þetta húsnæðisgjald renni til þeirra þarfa sem hér um ræðir, því sé varið í samræmi við það samkomulag sem var milli flokkanna. Og samkomulagið var engin tilviljun. Menn náðu saman af því að menn sáu að þörfin var brýn. En enn vantar efndirnar. Þess vegna veitir ekki af að þessu gjaldi verði varið til þessara þarfa. Það er í samræmi við þetta sjónarmið og í raun til þess að leitast við að staðfesta það samkomulag sem gert var um þetta efni og til þess að halda ríkisstjórninni við efnið og til að sýna þessu fólki og þjóðinni allri fram á að samkomulag sem gert er innan þingsins sé haldið en ekki rofið nokkrum mánuðum síðar.

Ég tel að ef sú till. sem ég hef hér flutt varðandi þetta efni verði samþykkt sé óhætt að segja að samkomulagið fái að haldast. Ef hún verður felld og svo fer fram sem hér er lagt til um að þetta buni inn í ríkissjóð, í hítina þar, hefur þetta samkomulag verið rofið og enn stendur eftir að mæta þörfum þessa fólks.

Á þskj. 421 geri ég grein fyrir því að ég flytji brtt. varðandi 9. gr. þess frv. sem hér um ræðir. Brtt. er í því einu fólgin að seinasta setningin í 9. gr., þar sem stendur að gjaldið skuli renna óskipt í ríkissjóð o.s.frv., skuli niður falla, en í þess stað komi: Helmingur þess gjalds sem þannig innheimtist, þ.e. húsnæðisgjaldsins, skal renna til að lækka skuldir þeirra sem keyptu eða byggðu íbúð á árunum 19801985 samkvæmt nánari reglum sem félmrh. setur að fengnum tillögum Húsnæðisstofnunar. Helmingur gjaldsins skal á hinn bóginn renna í Byggingarsjóð verkamanna til viðbótar framlagi skv. fjárlögum.

Ég þarf ekki að fjölyrða frekar um þetta, hæstv. forseti. Þetta 1% mun nema um 650 millj. kr. Það er hvorki meira né minna að raungildi en það var þegar ákvörðunin var tekin. En vandi þess fólks sem hér um ræðir er enn brýnni nú og enn frekar stendur upp á Alþingi að standa við ýmis þau heit sem gefin hafa verið um að rétta hlut þessa fólks.