19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (1981)

1. mál, fjárlög 1987

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 11. þm. Reykv., tók að nokkru leyti af mér ómakið þannig að ég þarf ekki að hafa ýkja mörg orð. Ég ætla að ræða sérstaklega það málefni sem hún vék allítarlega að áðan, þ.e. fjárveitingar til þróunarsamvinnu. Ég vakti athygli á þessu máli við 2. umr. fjárlaga, flutti þá brtt. um hækkun á framlögum til Þróunarsamvinnustofnunar, en kallaði hana aftur til 3. umr. í trausti þess og í von um að hv. fjvn. væri að sinna því máli, væri að vinna að því. Reyndar hafði ég ástæðu til að ætla að svo væri því mér hafði verið tjáð að meðal annarra hefði hæstv. utanrrh. ætlað að eiga orðastað við nefndina um þetta tiltekna mál. Það urðu mér því mikil vonbrigði að sjá brtt. fjvn. koma fram án þess að gerð væri tillaga um að hækka þennan lið eða framlög til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands sérstaklega um eina einustu krónu.

Ég lagði fram fsp. til hæstv. utanrrh. fyrr í haust um stöðu þessara mála hér á Íslandi með samanburði við önnur lönd og einnig nokkuð aftur í tímann. Sá samanburður er dapurlegur, herra forseti. Það kemur í ljós að Ísland er í hópi OECD-ríkja yfirleitt í röðinni frá því að vera í 2. og niður í að vera í 6. eða 7. sæti í hópi þessara mestu velmegunarríkja heimsins undanfarin tíu ár. Við komumst á árinu 1982 í 2. sæti yfir mestu velmegunarríkin. Það stingur því óneitanlega í augun að við stöndum okkur ekki betur en skyldi á þessu sviði. Það kemur einnig fram í því svari að Ísland eitt aðildarríkja OECD tekur engan þátt í samstarfi þeirra ríkja um þróunarsamvinnu. Í huga mínum finn ég enga aðra skýringu en þá að framlag okkar sé okkur slíkt feimnismál að við höfum af þeim ástæðum kosið að vera ekki með í þessum hópi.

Ég hygg að það sé ljóst, virðulegi forseti, að ef fjárveitingar til þróunarsamvinnu verða með þeim hætti sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir sé það endanlega rothögg á þann vilja Alþingis að reyna í áföngum að auka framlög til þessara mála. Í svarinu segir hæstv. utanrrh. að það sé áætlað að framlag okkar til þessara mála verði að hlutfalli 0,062 af þjóðarframleiðslu. Nú er ljóst í ljósi nýjustu þjóðhagsspár að þetta hlutfall verður mun lægra á yfirstandandi ári og það er einnig ljóst að tölur í fjárlagafrv. duga ekki til að ná hlutfallinu 0,05 eins og sagt er í svarinu. Þetta hlutfall mun verða enn lægra, ef svo heldur sem horfir, bæði með efnahagsbatann og ef þær tölur sem eru í fjárlagafrv. verða samþykktar hér óbreyttar.

Slíkt er vægast sagt hörmulegt, herra forseti, og þegar við búum við og fyrir dyrum stendur eitt mesta góðæri allra tíma í íslandssögunni, ef svo má að orði komast, er sorglegt að sjá þetta framlag fara niður á við ár frá ári. Það er einhver dapurlegasti vitnisburður um siðferðisstig þessarar ríkisstjórnar sem ég get fundið mér og mun skömm hæstv. ríkisstjórnar lengi uppi á þessu sviði.

En hv. 11. þm. Reykv. hefur gert ágætlega grein fyrir þörfinni og ég þarf þar engu við að bæta. Ég hef að vísu á minni brtt. nokkru lægri tölu og má segja að það hefði þess vegna verið hægt að flytja 100 millj. eða 200 millj. kr. hærri tölur. Út af fyrir sig er þörfin ærin og verkefnin ótæmandi. En ég taldi ekki raunhæft að sýna hv. þm. öllu meiri hækkun í einu stökki en þetta þó að hún sé auðvitað allt of lítil. Ég tók einnig mið af því að þetta framlag mundi duga Þróunarsamvinnustofnun til að standa við fastbundin verkefni, a.m.k. með sæmilegu móti, og eins er hitt að ég tel það fyllilega koma til greina að aukning framlaga á þessu sviði renni ekki endilega öll til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Ég tel t.d. fyllilega koma til greina að ýmsar hjálparstofnanir Sameinuðu þjóðanna fengju eitthvað af þeim framlögum og við Íslendingar með þeim hætti fælum þeim stofnunum að koma þeim til framkvæmda fyrir okkur. En svona virðist þetta ætla að fara, virðulegur forseti, nema meiri hlutinn sjái að sér og samþykki aðra hvora þá brtt. sem hér liggur fyrir við þennan lið.

Ég fagna því, herra forseti, að eftir þriggja ára barning er nú komið inn í brtt. fjvn. framlag til háskólakennslu á Akureyri. Ég hef við undanfarna fjárlagagerð flutt um það till. að merkja þessum lið nokkurt fé og hún hefur verið felld hér oftar en einu sinni. Ég flutti hana enn nú við 2. umr. en dró hana til baka og nú loksins hefur fjvn. sett inn í sínar till. framlag til þessa málaflokks sem reyndar er upp á krónu sama upphæð og brtt. mín við 2. umr. gekk út á eða 5 millj. kr. og fagna ég því ekki síður að okkur skuli bera svona vel saman í þessu efni.

Hv. 5. þm. Austurl. hefur vikið að tveimur fjárlagaliðum sem ég gerði einnig að umtalsefni við 2. umr., þar sem eru fjárveitingar til grunnskóla eða stuðnings- og sérkennslunnar sérstaklega og einnig fjárveitingar til aksturs og kostnaðar vegna heimavistarhalds og mötuneyta. Og ég þarf litlu við það að bæta. Ég fagna því að tekið er með vissum hætti undir að þörf sé meiri fjárveitinga til að jafna út milli fræðsluumdæma í landinu og ég lít svo á að sá 5 millj. kr. liður, ef ég hef tekið rétt eftir, sem virðuleg fjvn. flytur í þessu skyni sé hugsaður fyrst og fremst til að bæta þeim fræðsluumdæmum upp sem rýrastan hlutinn hafa í þessum efnum. Úr því svo er fagna ég því. Ég tel mig ekki dómbæran á hversu langt þessi upphæð dregur, en ég fagna því í öllu falli að þarna er viss viðleitni til að bæta úr því óréttlæti sem tvímælalaust hefði annars átt sér stað í formi mismununar milli fræðsluumdæmanna.

Ég hef einnig flutt brtt. við fjárveitingar til yfirstjórnar mannvirkjagerðar á Landspítalalóð. Svo heitir sú nefnd innan kerfisins sem fer með meiri háttar nýframkvæmdir á vegum ríkisspítala, stundum skammstafað I-mál. Ég lýsti við 2. umr. þeim áhyggjum mínum að ef fjárveitingar til þessara framkvæmda yrðu eins og þær standa nú í fjárlagafrv. kæmi til neyðarástands á Landspítalanum. Ef það yrði borðleggjandi að uppbyggingu K-byggingarinnar yrði að fresta eða hún tefðist um einhver ár eða a.m.k. eitt ár til viðbótar þeim áætlunum sem nú er unnið út frá innan ríkisspítalanna kæmi nánast til neyðarástands í húsnæðismálum þar. Allar áætlanir stjórnarnefndar ríkisspítalanna um úrlausn í húsnæðismálum ríkisspítala og Landspítalasvæðisins sérstaklega ganga nánast út frá því að þessum áætlunum verði haldið, þ.e. að unnt sé að flytja inn í K-bygginguna sem fyrst, um næstu áramót eða á þar næsta ári, og kaupa og setja þar upp þau tæki, m.a. til krabbameinslækninga, sem hér er um að ræða. Ég hef því flutt brtt. um allverulega hækkun á þessu framlagi og ég hef miðað hana við að það framlag dygði til þess að unnt yrði að bjóða út og láta vinna þá verkáfanga í K-byggingu sem nægðu til að halda áætlun um framkvæmdahraða sem yfirstjórn mannvirkjagerðar og stjórnarnefnd ríkisspítalanna vinna út frá.

Nú er mér tjáð, og ég hef aflað mér upplýsinga um það, að virðuleg fjvn. hafi fallist á að flytja brtt. við 6. gr. fjárlaga þannig að inn komi heimildarákvæði til handa fjmrh. til að taka að láni fé til að ljúka þeim framkvæmdaáföngum sem hér er um að ræða þannig að línuhraðall og önnur slík tæki komist inn í K-bygginguna á tilsettum tíma. Ég vil því segja það enn fremur, virðulegur forseti, að ég fagna þessum sinnaskiptum virðulegrar fjvn. Ég mun treysta því að fjmrh. muni í framhaldi af þessu tryggja framgang framkvæmdaáætlana við K-byggingu með þeim hætti að áætlanir stjórnarnefndar og yfirstjórnar mannvirkjagerðar á Landspítalalóð raskist ekki og þar af leiðandi sé þetta mál í höfn sem slíkt. Ég mun því taka til athugunar, þegar ég hef séð brtt. fjvn. um þetta atriði, að kalla til baka brtt. mína um hækkun framlaga. Út af fyrir sig væri að sjálfsögðu æskilegra, herra forseti, að um væri að ræða hærri beina fjárveitingu, en miðað við aðstæður hljótum við að fagna því ef þessu verki miðar áfram þó að það kosti að einhverju leyti lántökur.

Að svo mæltu hef ég ekki mikið meira um þetta blessað fjárlagafrv. að segja nema hvað ég vil taka undir með hv. 5. þm. Austurl. að það er alger hneisa að hér skuli eiga að lauma inn á síðustu stundu við afgreiðslu fjárlaga heimild fyrir ríkisstjórn til að selja jörðina Streiti í Breiðdal. Það er óhjákvæmilegt að mótmæla alveg sérstaklega þeim lymskulegu vinnubrögðum sem þar eru á ferðinni. (Gripið fram í: Og ósvífnu.) Og ósvífnu. Ég þakka þm. fyrir ábendinguna. Þau eru vissulega ósvífin. Í ljósi þess mikla skoðanaágreinings sem uppi var um þetta mál á síðasta þingi má hæstv. ríkisstjórn í raun kallast heppin ef menn fyllast ekki slíkri reiði við þessi vinnubrögð að þeir ræði fjárlög a.m.k. fram á nýár.

En hvað um það. Ég mótmæli hér þessari málsmeðferð. Ég fer fram á að þessi brtt. verði kölluð til baka þannig að ekki þurfi að standa hér stórdeilur um þetta mjög svo umdeilda atriði. Ég tel öll rök þeirra sem lögðust gegn þessu máli á s.l. vetri vera enn fyrir hendi. Það er því alveg ljóst að menn taka það óstinnt upp ef svona á að lauma þessu mikla hita- og deilumáli í gegnum þingið, hugsanlega í von um að þm. í önnum og hita dagsins yfirsæist hreinlega að þetta mál væri komið þarna inn með þessum hætti.