19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (1982)

1. mál, fjárlög 1987

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Mundi hæstv. heilbr.- og trmrh. vera í grenndinni einhvers staðar? (Forseti: Það skal verða athugað hvort svo er.) Það hefur nefnilega verið ákveðið núna rétt fyrir umræðuna að ríkið kaupi Borgarspítalann og það verður rætt í minni ræðu þannig að ég óska eftir því að hæstv. ráðh. verði ekki víðs fjarri þegar sú umræða fer fram ef ekki hamla veikindi eða annað sem verður auðvitað að taka gilt.

Ég ætla ekki í mörgum orðum að gera grein fyrir brtt. þeim sem ég er með við fjárlagafrv. Það er reyndar bara ein brtt. Hún er um það að veitt skuli verða til Neytendasamtakanna heilum 2 millj. kr. á næsta ári. Neytendasamtökin eru með tiltölulega öflugt starf. Munurinn á neytendastarfi hér og í öðrum löndum, t.d. Svíþjóð, er sá að þar eru ríkisstofnanir aðallega með neytendastarfið, en hér á landi hefur þetta verið á vegum félaganna. Ríkið hefur reynt að styðja við starfsemi Neytendasamtakanna með örlitlum fjárframlögum á undanförnum árum og þau fjárframlög hafa verið veitt í gegnum viðskrn. Stundum hafa Neytendasamtökin verið sjálfstæður fjárlagaliður, en það er ekki núna. Það er gert ráð fyrir að Neytendasamtökin fái einhverja upphæð undir liðnum Yfirstjórn í viðskrn. Mér finnst það í raun og veru lágmark að leyfa þessum samtökum að vera inni sem sérstökum fjárlagalið. Ég flyt sem sagt till. um að Neytendasamtökin fái á næsta ári litlar 2 millj. kr. Það er eina brtt. sem ég flyt við fjárlagafrv. sem slíkt.

Félagar mínir úr Alþb. hafa flutt till. aðallega um tekjuöflun til fjárlaganna upp á 11/2 til 2 milljarða kr., 1 milljarð 650 millj. kr. Það er gert til að sýna fram á að það er hægt að láta endana ná saman í ríkissjóði ef menn vilja og það er hægt að halda þannig á málum að ríkissjóður þurfi ekki að taka erlend lán í því góðæri sem nú blasir við. Það tel ég vera ákaflega stórt og þýðingarmikið atriði að ríkissjóður sé þannig rekinn með sæmilegum jöfnuði við þær aðstæður sem nú eru í efnahagskerfi okkar. Ég vil hins vegar taka fram að ég tel ekki að það séu möguleikar á því að skera niður ríkissjóðsútgjöld, einn, tveir, þrír, til einstakra stofnana í stórum stíl eins og hér hafa komið fram tillögur um. Ég tel sjálfsagt að menn setji sér hins vegar aðhald í yfirstjórnarútgjöldum ríkisins með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í till. Alþb. um að heimila fjmrh. að vinna sérstaklega að sparnaði í þessum þætti mála.

Ég vil hins vegar taka fram að ég hef hugsað mér í ræðu minni að fara nokkru nánar út í með hvaða hætti það gæti gerst að ríkissjóður væri rekinn nokkurn veginn á sléttu og ekki þyrfti að hirða stórkostleg erlend lán í rekstur ríkissjóðs. Ég hef aflað mér upplýsinga um álagningu á lögaðila í öllu landinu á árinu 1986. Þessar upplýsingar eru frá fjmrn., unnar fyrir fjmrn. af ríkisskattstjóra, dags. 25. nóv. 1986. Í þessu yfirliti kemur fram að samtals eru lögaðilar í landinu sem greiða skatta, eða telja fram öllu heldur 10 573. Þeir greiða í tekjuskatt, þessir aðilar, samkvæmt þessari áætlun 1 milljarð 271 millj. kr. og það eru 2850 lögaðilar sem greiða tekjuskatt, 2850 af 10 570. Það eru 27-28% sýnist mér sem greiða einhvern tekjuskatt af öllum lögaðilum í landinu.

Ef við skoðum eignarskattinn kemur í ljós að lögaðilar greiða um 330 millj. kr. og það eru aðeins um 4500 lögaðilar sem greiða þennan skatt, um 6000 lögaðilar eru eignarskattslausir. Það eru nokkurn veginn jafnmargir sem greiða eignarskattsauka eða 4500 greiðendur og þeir borga um 86 millj. kr. Þá kemur sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Hann skilar á þessu ári 110 millj. kr. og það eru 855 lögaðilar sein greiða skatt af skrifstofu og verslunarhúsnæði. Það er nú ekki meira. Meiri hluti þessara aðila er í Reykjavík, 493, en á landsbyggðinni er hér um að ræða fáa aðila í langflestum umdæmum eins og við er að búast.

Það er fróðlegt til samanburðar í þessu efni að skoða hvað þessi fyrirtæki borga í aðstöðugjald vegna þess að þá getur maður séð hver er heildarvelta þessara fyrirtækja. Niðurstaðan er sú að í aðstöðugjald er borgaður á þessu ári 1,3 milljarðar kr. og það eru um 6800 lögaðilar sem borga aðstöðugjald. Samkvæmt þessu má ætla að velta þessara aðila sé í kringum 80-90 milljarðar kr. og af 80-90 milljarða kr. veltu borga menn í tekjuskatt 1,2 milljarða kr. Þetta er ákaflega fróðlegt og athyglisvert. Og hvernig stendur á því að fyrirtækin sleppa þetta vel við skatta? Jú, það er út af frádráttarliðunum sem við höfum verið að tala um hér að undanförnu.

Ég hef í dag aflað mér upplýsinga um hverju þessir frádráttarliðir nema í varasjóð og fjárfestingarsjóð. Í varasjóð greiðir 561 fyrirtæki á þessu ári samtals um 180 millj. kr., en tillög í fjárfestingarsjóð greiða 257 fyrirtæki, samtals 716 millj. kr., þannig að frádrættir í fjárfestingarsjóði og varasjóði nema samtals á þessu ári 900 millj. kr. Ef það væri skattlagt mundi það skila í tekjur 450 millj. kr. Á næsta ári, miðað við þær forsendur sem fjárlög byggjast á, gæti hér verið um að ræða skatttekjur hjá ríkissjóði, aðeins af þessum tveimur liðum, upp á um 500 millj. kr.

Ég held að það sé rétt að minna á í þessu sambandi að það er skoðun fjölmargra efnahagssérfræðinga okkar að það sé yfirvofandi stórfelld þensla í efnahagskerfinu á næsta ári. Á fundi fjh.- og viðskn. neðri deildar í gærmorgun spurði ég að því: Hvað teljið þið rétt að gera til að koma í veg fyrir þessa þenslu á næsta ári? Og svarið var: Hækka beina skatta. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki tiltækilegt né skynsamlegt við þær aðstæður sem nú eru uppi að hækka beina skatta einstaklinga. Ég tel þess vegna að þessi ábending þýði ekkert annað en að allir efnahagssérfræðingar segja: Hækkið þið skatta á fyrirtækjunum til að draga úr þenslu á næsta ári.

Það er rétt að benda á að sá halli sem nú er um að ræða á ríkissjóði upp á tæplega 3 milljarða kr. mun hafa í för með sér stórkostlegar hættur fyrir þær verðlagsspár sem fyrir liggja. Á fundum fjh.- og viðskn. Nd. í morgun og í gærmorgun spurðum við fulltrúa Seðlabanka, Þjóðhagsstofnunar, Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands að því: Teljið þið að verðlagsspár ársins 1987 standist? Teljið þið að það geti verið miðað við allar aðstæður nú að verðbólgan á næsta ári verði í eins stafs tölu eins og horfurnar eru núna? Fulltrúi Seðlabankans svaraði því til að það væru engar líkur á því að þetta stæðist. Samkvæmt spám Seðlabankans væri gert ráð fyrir að verðbólgutölurnar væru í kringum 11%. Síðan bættu þessir menn allir við: Það er alveg ljóst að þessi halli á ríkissjóði þýðir að forsendur kjarasamninganna sem voru gerðir núna um daginn eru að hrynja. Fulltrúar Alþýðusambands Íslands sögðu sem svo í morgun: Það er ekki hægt að slá því föstu að hrunið eigi sér stað á nákvæmlega þessum tiltekna punkti í halla á ríkisfjármálum. En þeir sögðu: Þessar forsendur eru í stórkostlegri hættu, allar forsendur þeirra kjarasamninga sem voru gerðir hér fyrir fáeinum dögum. Ríkisstjórnin er þess vegna með slappleika í stýringu ríkisfjármála að hafna þeim kjarasamningum sem voru gerðir fyrir aðeins örfáum vikum þó svo að ráðherrarnir sendu bréf og bréf aftur til aðila vinnumarkaðarins og segðu: Við ættum auðvitað að reyna að tryggja að verðlagsforsendur standist.

Í minnisblaði aðila vinnumarkaðarins um ástandið í efnahagsmálum segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nýjar lántökur samkvæmt þessu [þ.e. fjárlagafrv.] eru áætlaðar 1530 millj. kr. hærri en nemur afborgunum af erlendum lánum. Því er nettó innstreymi af langtímalánsfé 1530 millj. Mikilvægt er að snúið verði við blaði í þessu efni og dregið úr lántökum sem nemur a.m.k. 1530 millj. kr. Fyrir því ætti að vera grundvöllur, ekki síst í ljósi þess að innlendur fjármagnsmarkaður er nú í mikilli sókn. Munar þar mikið um að lífeyrissjóðirnir eru að eflast verulega og er áætlað að þeir hafi til útlána rúmar 2800 millj. eftir að hafa notað 55% af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á skuldabréfum Húsnæðisstofnunar. Með nýskipan húsnæðislána dregur úr lánveitingum til sjóðfélaga og um leið þurfa sjóðirnir á traustri og hagkvæmri ávöxtun að halda á vettvangi atvinnulífsins. Auk þess hefur almennur peningalegur sparnaður aukist. Af þessum ástæðum gæti verið eðlilegt að erlendar lántökur fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs og sveitarfélaga lækkuðu um 400 millj. kr. Eðlilegt væri að fjárfestingarlánasjóðirnir leituðu beint til lífeyrissjóða með sérstöku útboði skuldabréfa. Þetta gæti dregið úr erlendum lántökum sjóðanna um allt að 1130 millj. kr. Enn fremur er gengið út frá því að ríkissjóður taki ekki frekari erlend lán vegna A-hlutans þótt halli á ríkisrekstrinum verði meiri en áætlaður er samkvæmt fjárlagafrv. fyrir 1987.

Ýmsar aðgerðir í peningamálum geta verið nauðsynlegar til þess að takmarka erlendar lántökur og draga úr hættu á þenslu. Í því sambandi má nefna takmörkun á erlendum lántökum með ríkisábyrgð og ábyrgðum ríkisbanka, t.d. með því að setja á þessar ábyrgðir fyrir fram ákveðið þak.“

Ríkisstjórnin svaraði þessu með bréfi dags. 6. des. s.l. Og áður en ég vík aðeins að bréfinu ætla ég að vitna aftur í skýrslu aðila vinnumarkaðarins um hinar efnahagslegu forsendur kjarasamninga, en þar segir:

„Eigi umsamin kjaraþróun að ganga eftir veltur á miklu að almennar efnahagslegar forsendur styðji og verki hvetjandi fyrir slíka þróun. Það sem hér skiptir mestu máli er að útflutningsgreinarnar afli þess gjaldeyris sem þjóðin eyðir, en hann verði ekki sóttur með lántökum erlendis. Með því geta útflutningsgreinarnar og þeir staðir sem þær eru staðsettar á laðað til sín starfsfólk, fjármagn og þjónustu á jafnréttisgrundvelli við aðrar atvinnugreinar og önnur byggðarlög. Því er nauðsynlegt að koma í veg fyrir að innstreymi af erlendu lánsfé hafi áhrif á tekjumyndun í landinu. Slíkt kemur helst fram í verslunar-, þjónustu- og framkvæmdagreinum á höfuðborgarsvæðinu og ýtir undir misvægi í launa og afkomuþróun á milli atvinnugreina, starfshópa og landshluta. Erlend skuldasöfnun grefur þannig undan þeim aðalmarkmiðum sem samningsaðilar hafa sett sér, um að hækka þá sem eru lægst launaðir og stíga skref í þá átt að rétta við það misgengi sem orðið hefur í launaþróun á milli landshluta og einstakra hópa.

Ríkisstjórnin hefur á valdi sínu að beita ýmsum aðgerðum til þess að stöðva innstreymi af erlendu lánsfé inn í landið. Þessar aðgerðir geta bæði miðast við að takmarka lántökuheimildir ýmissa aðila og að stjórn peningamála hvetji til minni notkunar á erlendu lánsfé.“

Sem sagt: stöðvun á erlendum lántökum er forsenda þess að kjarasamningarnir geti tekist. Og hvað sagði ríkisstjórnin? Jú, jú, ríkisstjórnin sagði í bréfi sínu 6. des. 1986:

„Ríkisstjórnin ítrekar stefnu sína um lækkun erlendra skulda og mun leita allra leiða, m.a. með endurskoðun lánsfjáráætlunar, til að erlend lántaka verði ekki umfram afborganir á næsta ári, enda takist að beina lántökum fjárfestingarlánasjóða til lífeyrissjóðanna í ríkari mæli en ráð hefur verið fyrir gert.“

Og herra forseti. Hver er svo niðurstaðan? Niðurstaðan er sú að þrátt fyrir aukatekjur ríkissjóðs af góðærinu upp á 3800 millj. kr. eru auknar lántökur á næsta ári áætlaðar 1915 millj. kr. Það er því von að menn segi: Verðlagsforsendur kjarasamninga hér eru bersýnilega í stórfelldri hættu og það er ríkisstjórnin sem hafnar þessum kjarasamningum í raun. Stefna hennar stríðir gegn kjarasamningunum og forsendum þeirra og það er nauðsynlegt að hafa í huga nú þegar, aðeins tæpum hálfum mánuði eftir að þessir kjarasamningar hafa verið gerðir. Ég hygg að þess séu engin dæmi að ríkisstjórn hafi með þessum hætti komið fram gagnvart aðilum vinnumarkaðarins eftir samninga eins og þá sem gerðir voru fyrir fáeinum dögum sem menn hafa ekki gagnrýnt fyrir að þar væri um miklar launahækkanir að ræða heldur hafa menn gagnrýnt þá fyrir það að þar væri um of litlar launahækkanir að ræða. Í forsendunum er byggt á því að fylgt sé aðhaldsstefnu í verðlags- og peningamálum, en það er ekki gert. Í forsendunum er byggt á því að fylgt sé aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum, en það er ekki gert. Það blasir við að forsendur kjarasamninganna eru í verulegri hættu.

Ég ætla þessu næst, herra forseti, því að ég mun tala við umræður um lánsfjárlög hér á eftir í Nd., að leyfa mér að víkja að öðrum þáttum og það eru þá sérstaklega fjárlögin og elli- og örorkulífeyrir. Skyldi hæstv. heilbrmrh. ekki vera á staðnum? (Forseti: Það skal tekið fram að í upphafi þessa fundar var tilkynnt að Ragnhildur Helgadóttir heilbrmrh. hefði fjarvistarleyfi. En það verður gerð tilraun til að ná sambandi við ráðherra ef svo skyldi vilja til að ráðherra gæti mætt. En ráðherrann hefur fjarvistarleyfi.) Já, það er nauðsynlegt að vita strax hvort það næst samband við ráðherrann. Hver gegnir fyrir hæstv. ráðherra? Hver sinnir heilbr.- og trmrn. í þinginu í fjarveru ráðherra? (Forseti: Það verður athugað um þessi atriði.)

Ég ætla þá að víkja að öðru, herra forseti, meðan ég hinkra eftir ráðherra heilbrigðis- og tryggingamála. En ég hafði hugsað mér að koma á eftir að Borgarspítalanum og elli- og örorkulífeyrishækkuninni. Ég ætla aðeins að víkja að öðrum almennum atriðum og þó sérstaklega því sem er aðalatriðið í sambandi við þessi mál.

Alþb. hefur undanfarna daga lagt fram róttækar tillögur um kerfisbreytingar í skattamálum. Alþb. hefur undanfarna daga sýnt fram á hvernig hægt er að nálgast jöfnuð í ríkissjóði. Alþb. hefur hér síðustu daga sýnt fram á leiðir til að draga úr erlendum lántökum og við höfum sýnt fram á leið til að halda hér við eðlilegri félagslegri þjónustu. Það er nauðsynlegt að átta sig á að við afgreiðslu fjárlaga nú á árinu 1986 kemur glöggt fram að það eru alger skil á milli annars vegar Alþb. og hins vegar Sjálfstfl. í öllum málflutningi og tillögugerð í þessum sal. Ég tel reyndar að sumt af þeim tillögum Alþfl. sem kynntar hafa verið séu góðar og skynsamlegar tillögur miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi. Ég tel hins vegar að sumt af þeim tillögum sé með þeim hætti, einkum tillögurnar um að leggja niður ríkisstofnanir á færibandi, að þær séu ekki raunsæjar eins og þær eru settar fram. Andstæðurnar hafa þess vegna birst fyrst og fremst í okkar tillögum annars vegar og í tillögum Sjálfstfl. hins vegar. Hér er í rauninni ekki bara um það að ræða að tillögur eigi að metast gegn tillögum. Það er rétt að skoða verk gagnvart verki, skoða rekstur ríkissjóðs á þeim tíma þegar Alþb. fór með stjórn ríkisfjármála, skoða rekstur ríkissjóðs þegar Sjálfstfl. hefur farið með stjórn ríkisfjármála, skoða þróun félagslegra útgjalda þegar Alþb. hefur farið með stjórn ríkissjóðs, skoða þróun félagslegra útgjalda þegar íhaldið hefur farið með stjórn ríkissjóðs. Þar er um að ræða tvennt ólíkt, svart og hvítt svo að ég nefni eins skarpar andstæður og mögulegt er.

Lánsfjárlögin sem við afgreiddum hér í desember í fyrra gerðu ráð fyrir því að erlendar lántökur á þessu ári yrðu 3240 millj. kr., 3,2 milljarðar. Hver verða erlend lán á þessu ári? 5,9 milljarðar, hafa hækkað um 72,5% frá þeirri áætlun sem gerð var hér í desember í fyrra, og ég óttast að það sé nákvæmlega jafnlítið að marka lánsfjárlagafrv. og þar með eina meginforsendu fjárlagafrv. nú og í fyrra. Það er a.m.k. alveg ljóst að að því er varðar erlendar lántökur er engin fyrirstaða hjá núv. fjmrh. Hann er eins og sjálfvirk afgreiðsluvél í þeim efnum. Núv. fjmrh. hefur þrátt fyrir yfirlýsingar sínar um breytingar á ríkisfjármálakerfinu í rauninni sýnt ótrúlegt afrek í því að afsanna og hafna öllum yfirlýsingum Sjálfstfl. í ríkisfjármálum frá því fyrir síðustu kosningar.

Að því er varðar erlendar lántökur aukast þær í mesta góðæri síðustu áratuga. Að því er varðar skatta hefur ekkert verið gert til að laga skattakerfið í landinu. Það hefur ekkert verið gert annað en að framlengja hið almenna skattakerfi og talsmenn Sjálfstfl. hér síðustu daga hafa sagt: Þetta er gott skattakerfi. Það er alveg ástæðulaust að vera að breyta því mjög mikið. Sjálfstfl. hefur gagnrýnt það um áratuga skeið ef ríkissjóður er rekinn með halla. Matthías Mathiesen fyrrv. fjmrh. hafnaði í raun og veru þeirri kenningu með því að reka ríkissjóð með sjóðandi halla um árabil. Samt sem áður var látið í veðri vaka að Sjálfstfl. vildi jöfnuð í ríkisútgjöldum og ríkistekjum. Stefnan virtist vera sú, en formaður Sjálfstfl. og nýr fjmrh. hefur farið nákvæmlega eins að ráði sínu og sýnu verr í þessum efnum og er talin innan Sjálfstfl. þessa dagana ástæða til að hafa orð á því hér úti á Austurvelli þegar maður hittir sjálfstæðismenn sem enn þá þora að kannast við stjórnmálaskoðanir sínar að þeir séu farnir að sakna Alberts Guðmundssonar. Það er í rauninni einhver athyglisverðasta heimildin um fjármálaafrek hæstv. ráðh. Þorsteins Pálssonar sem ég hef heyrt úr munni sjálfstæðismanna síðustu dagana.

Við höfum varðandi afgreiðslu lánsfjárlaga sýnt fram á leið til að draga svo úr erlendum lántökum að þar verði ekki um að ræða aukningu heldur standist erlendar lántökur nákvæmlega á við afborganir. Þar er um að ræða tekjuöflun, sparnað og skattlagningu af ýmsu tagi þannig að erlend lán alls kæmust niður í 6300 millj. kr., en það er nokkurn veginn alveg sama talan og nemur afborgunum af erlendum lánum. Ef þessi leið okkar væri farin, að nýta góðærið til að bæta hina efnahagslegu stöðu, nýta góðærið til þess að árið 1987 yrði fyrsta árið um margra ára skeið þar sem ekki væri um að ræða krónuaukningu í erlendum lántökum, ef okkar tillögur væru samþykktar mundi það gerast. Það er hins vegar stefnt að því að þrátt fyrir góðærið verði aukning á erlendum skuldum og jafnframt verulegur halli á ríkissjóði.

Ég efast satt að segja um að nokkur fjmrh. í sögunni hafi lýst jafneindreginni uppgjöf og hruni sinnar eigin efnahagsstjórnar í jafnmiklu góðæri og hæstv. fjmrh. Þorsteinn Pálsson hefur gert. Ég bið þingheim um að nefna mér dæmi um fjmrh. sem í öðrum eins góðærum hefur skilað öðrum eins halla. Er einhver til í sögunni? Það þýðir ekki að nefna Matthías Mathiesen einu sinni í þeim efnum. Það dugir ekki til. Það þýðir ekki að nefna hæstv. ráðh. Albert Guðmundsson í þeim efnum. Það dugir ekki til. Að sjálfsögðu dugir ekki að nefna Magnús Jónsson sem fór vel með ríkisfjármál að allra mati á sínum tíma. Það væri fróðlegt ef eitthvað af þm. Sjálfstfl., sem læðast hér með veggjum og skammast sín fyrir þennan ófögnuð, nefndi mér eitt dæmi um fjmrh. í sögu Sjálfstfl. sem skilaði öðru eins fjárlagafrv. í öðru eins góðæri og hæstv. fjmrh. Þorsteinn Pálsson er að gera.

Ég kann ekki sögu íhaldsins nákvæmlega. En það eru hér fróðir menn í salnum, eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson o.fl., Guðmundur H. Garðarsson, sem hafa gegnt leiðtogahlutverki í forustustofnunum Sjálfstfl. um áratuga skeið. Þeir kunna sjálfsagt þessa sögu. Það væri fróðlegt að fá eitt dæmi um annan eins kappa í fjmrn. og hæstv. fjmrh. Þorstein Pálsson. (EKJ: Hann er sá besti.) Hann er sá versti já. (EKJ: Besti.) Ég held að þetta hafi verið mismæli. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson er þekktur fyrir að vera kokhraustur, einkum þegar líður á, en ég held að hann hafi slegið sín persónulegu met í kvöld. Hins vegar er annað orð, sem rímar við „bestur“, sem hv. þm. hefur kannske verið efst í huga.

Ég held að það sé hins vegar nauðsynlegt, ef það er þannig að Sjálfstfl. er himinlifandi með þessa stjórn og menn telja þetta bestu fjármálastjórn sem um hafi verið að ræða og þetta eigi að vera svona, að menn komi og vitni um það. Þá er best að menn komi og vitni um að ríkissjóður eigi að vera með 3 milljarða kr. halla í mesta góðæri um áratuga skeið. Þá er best að Sjálfstfl. lýsi því yfir að stefna hans í ríkisfjármálum til þessa hafi verið vitlaus. Þá er best að það komi fram að Sjálfstfl. telji að eðlilegt sé að hér vaði allt á súðum í ríkisútgjöldum og erlendum lántökum á árinu 1987. Nei, þrátt fyrir kokhreysti þess ágæta manns Eyjólfs Konráðs Jónssonar, sem er andlegur faðir sumra í Sjálfstfl., þrátt fyrir að hann sé kokhraustur, dugir það ekki til að sannfæra mig nema hann komi hér upp og þá er ég reiðubúinn að hlýða á rök og taka tilsögn eins og kostur er. Ég efast hins vegar um að það dugi. En ég áskil mér allan rétt til að hlusta og vona að hv. þm. noti tækifærið því nóg er nóttin til að biðja um orðið, taka til máls um þá alvarlegu hluti sem ég hef hér verið að ræða.

Ég ætlaði mér, herra forseti, að víkja nokkuð að lífeyrismálunum í fjárlagafrv. og sölu Borgarspítalans. Ég held að ég víki næst að lífeyrismálunum þó að hæstv. heilbr.- og trmrh. sé ekki kominn. Hæstv. fjmrh. á auðvitað að kunna þá lexíu og ég beini til hans af því tilefni nokkrum athugasemdum og spurningum. Ég hef nokkur talnagögn undir höndum sem ég óska eftir að ráðherrann setji á sig í sambandi við það sem ég ætla að spyrja um.

Aðalspurning mín er þessi: Hver verður hækkun elli- og örorkulífeyris og hvenær á hún að koma til framkvæmda? Síðan skoða ég tölur í fjárlagafrv. Samkvæmt upplýsingum hv. þm. Pálma Jónssonar, formanns fjvn., var talið að það væri 2% svigrúm til aukahækkunar lífeyris í fjárlagafrv. eins og það var. Mér telst svo til að það geri um 113 millj. kr. Síðan hefur hv. formaður fjvn. lýst því yfir að gert sé ráð fyrir að auki að hækka elli- og örorkulífeyri frá lífeyristryggingum almannatrygginga um 600 millj. kr. og síðan er gert ráð fyrir að báðar þessar tölur séu færðar upp á sömu forsendum og brtt. við fjárlögin, um 9,6%. Þá fæ ég þá útkomu að umfram verðlagsforsendur sé um að ræða í fjárlagafrv. núna til lífeyristrygginganna 782 millj. kr. Ég er að fara yfir þessar tölur, herra forseti, til að kanna hvort þetta er rétt eftir formanni fjvn. haft. Ég heyrði þetta á hlaupum, en ég reyndi að setja þessar tölur á mig. Ef þetta er rétt og ef þetta færi á allar lífeyristryggingar sýnist mér að þetta jafngildi 13,8% hækkun lífeyristrygginganna umfram almennar verðlagsbreytingar.

Nú er hægt að hugsa sér að þessi 782 millj. kr. hækkun komi fram á bótum lífeyristrygginganna með mismunandi hætti. Það má hugsa sér að tekjutryggingin hækki meira, grunnlífeyrir minna og það má hugsa sér að bætur og bótaflokkar hækki nokkuð mismunandi. Ef allt þetta fé væri tekið og það notað til að hækka elli- og örorkulífeyri og tekjutryggingu mundi það þýða um 18% hækkun á þessum liðum öllum, þ.e. á ellilífeyri og tekjutryggingu, örorkulífeyri og tekjutryggingu öryrkja, 18% hækkun þessara þátta lífeyristrygginganna umfram verðlagshækkanir og umfram almennar launahækkanir á næsta ári. Með þessu móti væru ellilífeyrir og tekjutrygging og heimilisuppbót einstaklings komin upp í kringum 20 þús. kr. á mánuði. Nú er í yfirlýsingu aðila vinnumarkaðarins gert ráð fyrir að almennar launahækkanir hafi áhrif á breytingar elli og örorkulífeyris. Þó að hugmyndir um hækkun hafi ekki verið útfærðar í einstökum atriðum vil ég fá það upplýst við þessa umræðu hvaða aðalhugmyndir ríkisstjórnin er með í þessum efnum. Á að nota þetta svigrúm til að hækka allar lífeyrisbætur? Á að nota það til að hækka hluta lífeyrisbóta? Á að nota það til að hækka lífeyrisbætur almannatrygginga, elli- og örorkulífeyri mismunandi mikið? Og er það rétt, sem ég hér sagði áðan, er það rétt tala sem ég nefndi hér áðan, að hækkun bóta almannatrygginga umfram verðlagsforsendur að mati fjmrh. væri um 782 millj. kr.?

Þessar bætur eru þannig að ellilífeyririnn er 6453 kr. á mánuði, tekjutryggingin er 9454 kr. á mánuði og heimilisuppbótin er 2844 kr. á mánuði. Þessar bætur almannatrygginga hafa hreyfst í takt við breytingar á kauptöxtum og stundum hefur verkalýðshreyfingunni tekist í kjarasamningum að knýja fram aukahækkanir á tekjutryggingunni þegar kjarasamningar hafa verið undirritaðir. Það er þess vegna ljóst að ríkisstjórnin hefur haft verulegt aðhald í þessum málum frá verkalýðshreyfingunni og stjórnarandstöðunni og hefur þess vegna neyðst til að fylgja í meginatriðum breytingum kauptaxta að því er þessa liði varðar. Hins vegar er rétt að íhuga að laun opinberra starfsmanna hafa ekki á þessu ári hækkað aðeins um þá tölu sem hér er miðað við heldur nokkru meira. Það er skoðun Alþb. að við þær aðstæður sem launaskrið er jafnmikið og raun ber vitni um núna eigi að hækka bætur almannatrygginga sem næst því almenna launaskriði sem um er að ræða hjá opinberum starfsmönnum. Við teljum að við þessar aðstæður sé ekki hægt að miða aðeins við breytingar á kauptöxtum. Þegar kauptaxtarnir eru orðnir svona svínslega lágir er í rauninni ekki hægt að miða bætur almannatrygginganna við þá eina. Það verður að taka tillit til hinna miklu yfirborgana sem um er að ræða í þjóðfélaginu um þessar mundir, yfirborgana sem hafa farið vaxandi eftir að vísitölubætur á laun voru bannaðar fyrir fáeinum árum.

Það er merkilegt, herra forseti, að þó að það hafi legið fyrir um nokkurra sólarhringa skeið að það stæði til að hækka bætur almannatrygginga aðeins meira en nemur hinum almennu verðlagsforsendum skuli hæstv. heilbr.- og trmrh. ekki hafa komið upplýsingunum til þingsins. Formaður fjvn. veit ekkert um hvað til stendur. Hvernig stendur á því að þetta er svo aftur og aftur þegar um er að ræða málefni einstakra ráðherra að menn koma upplýsingum ekki frá sér? Það er þvælst með málin langtímum saman, gefin yfirlýsing eins og hæstv. heilbr.- og trmrh. gerði í Ed. fyrir nokkrum dögum: veruleg hækkun á bótum almannatrygginga, veruleg hækkun. Því var auðvitað slegið upp hér og þar: Veruleg hækkun á bótum almannatrygginga. En svo er ekkert svar um það hver þessi verulega hækkun er. Formaður tryggingaráðs, sem hér gengur í salinn og ætti að geta svarað þessu, hefur engar upplýsingar látið koma fram um þessi efni. Ég spyr af því að formaður tryggingaráðs er hér í salnum, hv. þm. Ólafur Einarsson: Hvaða hugmyndir eru uppi í sambandi við þessi mál? Hverju á að breyta þarna? Ríkisstjórnin hlýtur að vera búin að átta sig á þessu með skara af embættismönnum í vinnu í þessari stofnun og hinu ráðuneytinu. Eitthvað eru þeir að reikna, þessir menn. Ekki eru þeir allir farnir í jólafrí eða hvað. Vonandi eru þeir að vinna fyrir kaupinu sínu. Og hver er útkoman? Þetta er dæmi sem sæmilega glöggur maður, og þarf ekki að vera hagfræðingur til, getur reiknað á 3-4 tímum, hvað hægt er að gera miðað við það svigrúm sem ríkið telur sig hafa upp á þessi hundruð milljóna kr. sem ég var að reikna áðan. Hæstv. fjmrh. gæti reiknað þetta á hnjánum á sér hér í þinginu og farið yfir hlutina og menn gætu gengið frá þessu með tiltölulega einföldum hætti. En í staðinn er þvælst með þetta út og suður. Það er verið að reikna hér og reikna þar og senda minnismiða þangað og hingað og þvæla um þetta á ríkisstjórnarfundum. Svo koma ráðherrarnir í sjónvarpið og útvarpið og Moggann og segja: Þetta er nú í athugun og skoðun. Það verður veruleg hækkun. Og gamla fólkið bíður eftir því að einhver hækkun verði. fyrir jólin, en það kemur ekki neitt.

Hver er niðurstaðan í sambandi við elli- og örorkulífeyrinn? Af hverju er ekki hægt að ganga frá þessu, herra forseti? Hvernig stendur eiginlega á því? Hvernig er með þetta starfsmannalið þarna í ráðuneytunum? Ég man eftir því að það var einn og einn maður sem kunni að reikna þarna í ráðuneytunum þegar ég var þar. Ég er ekki að segja að það hafi verið mjög útbreitt vandamál að menn væru sterkir á svellinu í þeim fræðum, en einn og einn maður var býsna góður í reikningi. Ég get ekki neitað því. Ég man t.d. eftir því að frambjóðandi Alþfl. í Norðurlandskjördæmi vestra var ansi góður reikningsmaður. Ég tel að það sé út af fyrir sig fróðlegt að vita hvað menn eru þarna að bauka. Það er sagt að nákvæmnin hafi verið svo mikil einhvers staðar að menn hafi sagt að þyrfti að hækka á bilinu 3-26%. (Gripið fram í: Það var frambjóðandi Alþfl.) Það er ljótt. Það hafa menn lært í einhverjum hæpnum bókmenntum að reikna svona ónákvæmt, bókmenntum sem þeim hafa kannske verið handgengnar umfram aðrar áður fyrr.

En hvað sem því líður, í fullri alvöru, herra forseti, vil ég fá einhverjar slíkar tölur upp á borðið. Hvað er tekjutrygging mikil á næsta ári samkvæmt fjárlagaáætluninni? Það stendur hvergi í þessum plöggum. Er hún 2000 millj.? Ég held að hún sé um 2000 millj. Hvað er elli- og örorkulífeyririnn hár á næsta ári samkvæmt þessum plöggum? Það stendur hvergi í öllum þessum haug. Hvergi nokkurs staðar er hægt að sjá hvað tekjutrygging eða hvað grunnlífeyrir er hár. Mér sýnist að það sé eftir mínum athugunum 1930 millj. eða svo. En af hverju eru þessir hlutir ekki settir þannig fram að það sé hægt að átta sig á þeim, m.a. í ræðu formanns fjvn. hér í dag þar sem menn eru að velta fyrir sér tölum upp á þúsundir kr.? Ekkert slíkt, engar upplýsingar brúklegar í þessu efni liggja fyrir.

Ég óska eftir að fá upplýst hvaða hugmyndir eru um breytingar á bótum almannatrygginga. Það þýðir ekki að ljúka þessari umræðu án þess að þær upplýsingar liggi fyrir. Og þegar menn hafa efni á því að kaupa heilan spítala seinni partinn í dag er alveg augljóst að menn hljóta að hafa efni á því að taka aðeins á málum eins og þessu. Ef menn hafa embættismannahjörð til að reikna út hvað það kostar að kaupa einn spítala í viðbót fyrir ríkið á að vera hægt að reikna út eina hækkun á bótum almannatrygginga. Það á ekki að vera ofverkið þeirra.

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir þær tilraunir sem hann hefur gert til að ná í heilbr.- og trmrh. Þær hafa ekki borið árangur enn þá og þá næst líklega ekki í ráðherrann. Þá er að fá um það upplýsingar hver gegnir fyrir heilbrmrh. Það hlýtur einhver að gera það. (Forseti: Þess er að vænta, hv. þm., að hæstv. fjmrh. geti verið í forsvari fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. á þessum fundi eftir því sem efni standa til.) Já, ég verð að segja það alveg eins og er, herra forseti, að ég tek það út af fyrir sig gott og gilt ef menn eru fjarverandi af veikindaástæðum eða einhverju þvíumlíku. Það verður þá að hafa sinn gang. En slæmt er það þegar hæstv. heilbrmrh. skrifar undir bréf í dag. Ráðherrann hefur þó komist til þess, sem betur fer haft heilsu til að komast til einhverra embættisverka og skrifar undir bréf í dag um að kaupa Borgarspítalann. Það þarf nú heilsu til þess í valddreifingarflokknum mikla, Sjálfstfl., sem hefur breyst í ríkiseinokunarflokk par exellence. Einhver vænn frjálshyggjumaður sagði á fundi í Borgarspítalanum að Ragnhildur væri orðin sovétmegin við Svavar. Það er ljótasta samlíking sem er hægt að finna upp í Sjálfstfl. að vera sovétmegin við Svavar. Ræðumaðurinn sagði reyndar líka að ef einhver sjálfstæðismaður hefði verið í salnum áður en ráðherrann hóf ræðu sína væri örugglega enginn eftir nema ef vera skyldi ráðherra sjálfur.

Hér hefur það gerst að skrifað hefur verið bréf og það hljóðar svo:

"Forsrh., fjmrh., heilbr.- og trmrh.“ Það er hausinn. En þetta er ekki skrifað á haus stjórnarráðsins. Ætli það sé Valhöll eða borgarskrifstofurnar sem hafi samið þetta bréf? Það væri fróðlegt að fá það upplýst.

„Herra borgarstjóri, Davíð Oddsson.

Að undanförnu hafa verið til umfjöllunar á vegum ríkisstjórnarinnar og Reykjavíkurborgar að frumkvæði borgarinnar“ - Hafa verið til umræðu. . . Já, þetta er ekki nógu vel samið. Hér stendur: „hafa verið til umræðu hugsanleg yfirtaka“ - Það hefði átt að standa hefur verið til umræðu. Látum það vera. - „ríkissjóðs á eignarhluta borgarinnar í Borgarspítalanum umfram þau 15% sem lögboðin eru. Í tímaþröng undanfarinna daga hefur ekki verið unnt að ganga frá samkomulagi um þetta mál eða afla nauðsynlegra heimilda Alþingis“ - í tímaþröng undanfarinna daga. „Á hinn bóginn liggur fyrir vilji ríkisstjórnarinnar til þess að verða við þeirri málaleitan að ríkið taki yfir umræddan eignarhluta og hafa drög að samningi legið fyrir, enda leiði það til hagræðingar í rekstri spítalans.

Með bréfi þessu viljum við ítreka að það er fullur vilji og ásetningur ríkisstjórnarinnar að reyna til þrautar þegar eftir áramót að ganga frá samningi um þetta mál við Reykjavíkurborg. Náist samkomulag mun nauðsynlegra lagaheimilda til þess að tryggja framgang þess aflað þegar eftir að Alþingi kemur saman á nýju ári.

Virðingarfyllst.

Steingrímur Hermannsson.

Þorsteinn Pálsson.

Ragnhildur Helgadóttir.“

Þríheilagt ráðherrabréf. Tveir ráðherrar Sjálfstfl. skipa sér þarna undir undirskrift formanns Framsfl. í þessu máli og fer einkar vel á því miðað við aðstæður.

Hvað er hér að gerast, herra forseti? Ákvörðun var tekin í ríkisstjórninni um að setja spítala á bein fjárlög. Okkar afstaða var sú að þessu ætti að fresta vegna óánægju í öllu sjúkrahúsakerfinu með þessa ákvörðun. Það ætti að fresta og ræða við menn og reyna að ná samningum en ekki keyra þetta mál fram með offorsi. Þegar ákvörðun er tekin um að setja spítalann á bein fjárlög heimtar Davíð Oddsson borgarstjóri að ríkið kaupi Borgarspítalann. Hæstv. heilbr.- og trmrh. heldur samkvæmt ummælum hennar hér á dögunum að Davíð Oddsson sé Reykjavík og Reykvíkingar. En það er misskilningur eins og kunnugt er. Reykvíkingar höfðu aldrei samþykkt sölu Borgarspítalans. Þvert á móti má segja, eins og hv. þm. Stefán Benediktsson sýndi fram á hér um daginn, að Reykvíkingar hafi í borgarstjórnarkosningunum 1982 hafnað því að selja Borgarspítalann. Borgarráð Reykjavíkur samþykkti ekki sölu Borgarspítalans. Heilbrigðismálaráð Reykjavíkur samþykkti ekki sölu Borgarspítalans. Stjórn sjúkrastofnana Reykjavíkur samþykkti ekki sölu Borgarspítalans. Sala þessarar stofnunar í hendur ríkisins var hvergi samþykkt og ekki einu sinni í fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík svo nefnd sé alveg sérstök valdastofnun í þessu samfélagi. Starfsmenn spítalans mótmæltu. En hæstv. heilbrmrh. lét borgarstjórann setja sig upp við vegg af því að hún hélt að Davíð Oddsson væri Reykjavík og Reykvíkingar. Hæstv. heilbrmrh. hóf viðræður við borgarstjórann í Reykjavík um þessi mál og einhverra hluta vegna neyddist ráðherrann til að fallast á þetta atriði þó að okkur hafi verið sagt síðustu sólarhringana að menn væru búnir að gefast upp á þessu, þetta reyndi um of á þolrifin í Sjálfstfl., hér væri verið að ganga gegn yfirlýstri stefnu flokksins, ekki aðeins að því er varðar ríkisrekstur og rekstur annarra aðila heldur líka að því er það varðar að Sjálfstfl. hefur litið á Borgarspítalann um árabil sem sitt aðalstolt. Man einhver hér annar en ég eftir bláu bókunum með litmyndunum af Borgarspítalanum, forsíðurnar af Borgarspítalanum þar sem sagt var: Þetta lét Sjálfstfl. byggja, myndir úr salarkynnum Borgarspítalans þar sem sagt var: Þetta lét Sjálfstfl. byggja, myndir af sjúklingum sem fengu þjónustu hjá Borgarspítalanum: Þessa þjónustu fær þetta fólk af því að Sjálfstfl. er svo góður? Sjálfstfl. hreykti sér af Borgarspítalanum í hverjum einustu kosningum frá 1953 þegar framkvæmdir hófust þar. Og þetta sjúkrahús, sem Sjálfstfl. var búinn að gera að tákni fyrir sig, tákni fyrir sjálfstæði Reykjavíkur andspænis ríkinu skulum við segja, er selt. Burt með það!

Þetta er kúvending sem er svo yfirgengileg hjá þessum flokki að það tekur engu tali og sérstaklega þegar þess er gætt að í kosningunum 1982 sagði Framsfl. í kosningaslagorðum: X-B, seljið Borgarspítalann. Það birtust auglýsingar í blöðunum: XB, seljum Borgarspítalann, sem Davíð Oddsson, þáv. frambjóðandi Sjálfstfl. í Reykjavík, gerði satt að segja unaðslegt grín að í þeirri kosningabaráttu. Ég hygg að Davíð Oddsson, frambjóðandi Sjálfstfl. í Reykjavík, hafi sjaldan komið á vinnustaðafundi í þessu byggðarlagi á þeim tíma án þess að gera grín að Framsfl. í leiðinni fyrir það að hann vildi selja Borgarspítalann og tókst það vel, ágætlega fyndinn í þeim efnum, góðgrínisti. En það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann. Sá sem harðast beitti sér og lét kosningarnar 1982 snúast um að framsókn væri vitlaus í sambandi við þessi mál, hún ætlaði að selja þennan borgarspítala, gengur nú fram fyrir skjöldu að framkvæma stefnu Framsfl. að selja Borgarspítalann. Mér er sagt að það hafi runnið tvær grímur á marga framsóknarmenn þegar þeir sáu að þetta átti að verða að veruleika. Mér er sagt að ýmsir mætir framsóknarmenn telji að hér sé um að ræða afar hæpna gjörð þó það sé ekki nema vegna þess, herra forseti, að þegar búið er að selja Borgarspítalann, þegar Reykjavíkurborg er búin að fá peninga fyrir Borgarspítalanum, þá koma hin sveitarfélögin á eftir og segja: Við viljum líka selja, við viljum selja þetta sjúkrahús á Sauðárkróki, Akranesi, Keflavík eða hvar þau nú eru. Við viljum fá pening líka eins og Reykjavík. Þetta er fyrsta skrefið í þá átt að rekstur sjúkrahúsa á vegum sveitarfélaganna í landinu verði lagður niður og hann verði að öllu leyti bæði í rekstri og eigu ríkisins. Og þetta skref er Sjálfstfl. að stíga. Hvar er þá allt talið um byggðastefnu og valddreifingu? Hvar er þá allt talið um að efla sjálfstæði sveitarfélaganna í landinu? Það er bersýnilegt að það er eins í þessu og í skattamálunum. Það er ekkert að marka það sem þessir menn segja. Þar stendur ekki steinn yfir steini. Það er ekki orð að marka þá. Þeir brjóta niður sínar eigin kosningayfirlýsingar aftur og aftur, þetta lið. Ja, þvílíkt!

Svo kemur bréf við 3. umr. fjárlaga, herra forseti. Það er nánast tilviljun að þannig stendur á að þetta bréf berst í hendur þm. núna í kvöldmatarhléinu þegar umræðunni hefði alveg eins getað verið lokið. Meðan 3. umr. fjárlaga stendur yfir er verið að skrifa undir bréf af þessu tagi og þar segir: „Í tímaþröng undanfarna daga hefur ekki verið unnt að ganga frá samkomulagi um þetta mál eða afla nauðsynlegra heimilda Alþingis.“ Ja, forseti vor nefnir iðulega virðinguna fyrir Alþingi, en hvar er nú sú virðing sem þessi heilaga ráðherrahjörð, þessi heilaga ráðherraþrenning sýnir Alþingi með því að skrifa undir þetta bréf í skjóli skammdegisins án þess að leggja málið fyrir þingið? Hér eru tillögur um að kaupa jörð hér, byggja hús þar, selja hús o.s.frv. en þegar um er að ræða spítala upp á hundruð milljóna er málið ekki lagt fyrir Alþingi. Alþingi er sýnd sú mikla virðing, herra forseti, að það er farið á bak við þingið af þessum ráðherrum með því að ganga frá þessum pappír sömu klukkutímana og verið er að ræða um fjárlög 3. umr. (GHelg: Það var farið á bak við ríkisstjórnina.)

Ég sé að hér er staddur í salnum hæstv. félmrh. Ég vænti þess að hann upplýsi í umræðunum á eftir hvort hann vissi um þetta. Vissu formenn þingflokka stjórnarliðsins um þetta? Vissi hv. þm. Páll Pétursson um þetta ef hann má mál mitt heyra? Hvar er hann? Vissi formaður tryggingaráðs, formaður þingflokks Sjálfstfl., um þetta? Eða var ætlunin að fela málið? Var ætlunin að fara á bak við þingið og láta engan vita af þessu? Ég spyr hv. þm. Pál Pétursson og ég spyr hv. þm. Ólaf G. Einarsson: Var þetta bréf samþykkt í þingflokkum Framsfl. og Sjálfstfl.? (PP: Nei.) Það er minni hluti þingsins á bak við þennan pappír. Það þýðir að hann er ekki pappírsins virði. Og ég bið hv. þm. Ólaf G. Einarsson að svara sömu spurningu: Var þessi pappír samþykktur í þingflokki Sjálfstfl.? (ÓE: Ég á bara eftir að gá.) Hv. þm. kýs að ræða málið nokkuð og ég fagna því. Ég skil vel að hann treysti sér ekki til að segja já eða nei í þessari stöðu.

Auðvitað hefði verið eðlilegt af þessum ráðherrum og fjmrh. sjálfum, sem er að flytja fjárlagafrv., að setja heimildarákvæði í 6. gr. og segja: Fjmrh. er heimilt að ræða um kaup á þessum spítala á árinu 1987. Auðvitað hefði það verið eðlilegt. Hér stendur: „Það er heimilt að semja við sóknarnefnd Nauteyrarkirkju. Það er heimilt að falla frá innheimtu á skuldabréfi útgefnu af sportbátafélaginu Snarfara“ og ég veit ekki hvað og hvað, semja við Skallagrím og semja við þennan og semja við hinn, lögreglustöð og allt hvað eina. En þetta er ekki nefnt hérna. Auðvitað hefði verið eðlilegt og þinglegt að taka þetta mál inn sömu klukkutímana og við erum að ræða um þessi mál. Er verið að flýta fyrir störfum Alþingis kannske með þessum vinnubrögðum hæstv. fjmrh.? Vildi hann endilega fá málið svona upp? Vildu menn kannske koma í veg fyrir að hér færi fram umræða um málið? Ætli það ekki. Ætli stjórnarliðið hafi ekki óttast að umræða færi fram hér um málið. Ætli Sjálfstfl. kjósi ekki helst að myrkur skammdegisins liggi yfir þessu máli. Ja, þvílíkt!

Svo segir í þessu einstaka bréfi hvort sem það er samið á borgarskrifstofunum eða í Valhöll: „Á hinn bóginn liggur fyrir vilji ríkisstjórnarinnar til þess að verða við þeirri málaleitan að ríkið taki yfir umræddan eignarhluta og hafa drög að samningi legið fyrir.“ Og þá kemur næsta spurning, herra forseti: Hafa drög að samningi verið lögð fyrir þingflokk Framsfl.? Hafa drög að samningi verið lögð fyrir þingflokk Sjálfstfl.? Ég krefst þess, herra forseti, að fjmrh. sýni þinginu þennan samning við þessa umræðu, þessi samningsdrög. Það er ólíðandi að fjmrh. komi fram við þingið með þeirri lítilsvirðingu sem kemur fram í þessum pappír. Það er lágmark að hann sýni þinginu þann sóma að verða við þeirri kröfu að drög að samningnum verði sýnd hér þannig að hann liggi fyrir því hann er búinn að skuldbinda ríkið í þessu efni um fjármuni. Það er ljóst.

Síðan stendur enn í þessu bréfi: „Með bréfi þessu viljum við ítreka að það er fullur vilji og ásetningur ríkisstjórnarinnar að reyna til þrautar þegar eftir áramót að ganga frá samningi um þetta mál við Reykjavíkurborg. Náist samkomulag mun nauðsynlegra lagaheimilda til þess að tryggja framgang þess aflað þegar eftir að Alþingi kemur saman á nýju ári.“

Já, það er gott að þessi ríkisstjórn ætlar að reyna eitthvað til þrautar. En það er þá það sem á að reyna til þrautar að ganga frá þessu. En ráðherrarnir þrír, tríóið, jólatríó ríkisstjórnarinnar, hefur haft 10-15 daga til að vinna í þessu máli. Af hverju gat jólatríóið ekki komið með þetta mál með eðlilegum hætti inn á dagskrá þingsins? Af hverju var það ekki gert?

Ég tel, herra forseti, að hér hafi þinginu verið sýnd lítilsvirðing. En það er hægt að bæta úr. Í þeim efnum eru tvær leiðir: Önnur er sú að þessi hópur, þrenningin, komi með tillögu hér og láti reyna á hvort hún verður samþykkt eða að tríóið komi með tillöguna og hún verði felld sem er miklu líklegra. Fyrir stjórnarandstöðuna og þá sem eru gagnrýnir á þetta mál er leikur einn að láta reyna á málið. Það er hægt að flytja tillögu um að fjmrh. hafi ekki heimild á árinu 1987 til að kaupa Borgarspítalann. Það er líka hægt að flytja tillögu um að hann hafi heimild og láta fella hana. Ef hann hefur ekki döngun í sér sjálfur til að flytja hér sínar eigin tillögur getur vel verið að einhverjir gerðu það fyrir hann til þess að það kæmi í ljós hvort embættisverk þessa ráðherra nú í skammdeginu eigi þingmeirihluta sem ber að draga í efa eftir yfirlýsingar formanns þingflokks Framsfl. áðan. Flest bendir reyndar til þess að ef hæstv. ráðh. flytti málið hér yrði samþykkt á hann vantraust í því formi að þessum embættisgjörningi hans yrði hafnað. Þannig liggur það fyrir. Það er kannske nauðsynlegt fyrir Sjálfstfl. að athuga sinn gang áður en lengra er haldið, sitjandi uppi með slíkan formann sem reynir þannig á þolrifin í þingræðinu að hann af ósvífni gengur jafnlangt og hér hefur verið lýst. (Menntmrh.: Hafðu nú ekki áhyggjur af annarra flokka formönnum.) Ég held að hæstv. menntmrh. hefði átt að vera hér í dag til að hlýða á umræður um menntamál og þykir mér vænt um að hæstv. ráðh. skuli hafa komið í salinn svo að það sé hægt að taka á þeim málum síðar, en nóg er nóttin.

Ég hygg að það sé ljóst að Reykvíkingar eru á móti sölu á Borgarspítalanum. Ég er sannfærður um það. Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík mundi t.d. leggjast gegn sölu á Borgarspítalanum ef fram færi um það allsherjaratkvæðagreiðsla í bænum. Hvað halda hv. þm. að margir Reykvíkingar styddu sölu á Borgarspítalanum? Ætli það séu 52% eins og íhaldið hefur stundum haft hér? Nei. Ætli það séu ekki svona 5%. Ég skora á forustumenn Sjálfstfl. í Reykjavík, eins og hv. þm. Guðmund H. Garðarsson, að beita sér fyrir því að það fari fram allsherjaratkvæðagreiðsla í Reykjavík um málið, leggja það hlutlaust fyrir og fá Reykvíkinga til að segja skoðun sína á þessu. Ætli kæmi ekki í ljós að Davíð Oddsson hefði svona 5% Reykvíkinga á bak við sig í besta falli.

Nei, herra forseti. Hér er um að ræða svo alvarlegt mál að það er óhjákvæmilegt að það verði tekið hér til ítarlegrar umræðu við afgreiðslu fjárlaga. Það er engin ástæða til að líða ráðherrunum að ganga frá þessu máli með þeim hætti sem þeir hafa gert. Það er meiningin að ljúka þingstörfum á morgun, hefur verið meiningin að gera það, og það eiga að vera allar aðstæður til þess ef svör manna verða skýr eins og tilefni er til við þær aðstæður sem nú eru uppi. Við munum ganga eftir svörum í þessu máli, skýrum og heiðarlegum svörum, og við munum leggja á það áherslu að Alþingi afgreiði þetta mál með eðlilegum hætti. Og við höfnum þeim myrkraverkum sem jólatríó ríkisstjórnarinnar hefur verið að vinna síðustu daga.