19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2097 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

1. mál, fjárlög 1987

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Mér sýnist að þessi afgreiðsla og umræða um fjárlögin sé að þróast með býsna sérkennilegum hætti. Af hálfu Alþfl. hefur verið gerð grein fyrir ýmsum brtt. og því hvert við teljum að nú stefni með rekstur ríkissjóðs og með ríkisfjármálin. Það stefnir í geigvænlegan halla á fjárlögunum. Það stefnir í að hér verði afgreidd meiri þenslufjárlög en nokkurn óraði fyrir. Það stefnir í að stefnt sé í hættu þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið. Það stefnir í að stefnt sé í hættu því jafnvægi sem menn hafa sagst vilja ná. Svo mætti lengi telja.

Það virðist augljóst að ríkisstjórnin er búin að missa tökin og það er margt sem staðfestir það, ekki aðeins bendir til þess heldur staðfestir það. Ég sé t.d. ekki betur en það hafi gerst núna á síðustu klukkustund eða svo að fram er komin brtt. við fjárlögin frá þremur þm. Sjálfstfl. Þetta er mjög óvenjulegt, leyfi ég mér að segja, á síðasta stigi, að fáeinir þm. annars stjórnarflokksins flytji brtt. við frv. síns ráðherra og frv. síns fjárveitinganefndarformanns. Þeir hljóta að hafa ríkar ástæður fyrir því að flytja þessa till. Ég hvet hv. þm. þess vegna til þess að kynna sér hvað hér er á seyði. Ég mun a.m.k. gera það. Það er greinilegt að það er verulegt ósamkomulag í stjórnarliðinu um fjárlagaafgreiðsluna á þessum lokastundum hennar og raunar mætti segja að allt væri upp í loft.

Auðvitað gæti maður haldið lengi áfram og gert margar athugasemdir við þetta fjárlagafrv. Ég ætla aðeins að lýsa að nýju óánægju minni með hvernig fjvn. fjallaði um fjárveitingar til grunnskóla og skólabygginga, eftir að ráðherrar menntamála og fjármála höfðu gert samning við Akranesbæ á s.l. vori um fjárveitingar þar til skólamála sem heitið var að skyldi ekki koma niður á öðrum fjárveitingum til kjördæmisins en gerir það samt óneitanlega og mjög rækilega. Ég lýsi eindreginni óánægju með hvernig að þessu máli var staðið. Þegar þm. Vesturlands fengu þessi mál í sínar hendur svo sem venja er nokkrum klukkustundum áður en gengið er frá prentun þessara tillagna var ljóst að það varð engu breytt, engu haggað og ekki við neitt ráðið.

Menn hafa í þessum umræðum gert grein fyrir ýmsum tillögum, einstökum tillögum til breytinga á fjárlögunum. Menn hafa fjallað um ýmis gæluverkefni sem svo mætti stundum kalla, misjafnlega mikilvæg og merkileg. Hér sé ég að í tillögum fjvn. hefur gengið aftur draugur sem var á ferli í fyrra og kallaður var „kvennarannsóknir“ og er nú kominn með velþóknunarstimpil fjvn. Ég hygg að fæstum þm. sé ljóst hvað þarna er um að ræða vegna þess að sá pólitíski misskilningur sem kallar sig Kvennalista hefur fengið þessu máli framgengt í fjvn. Ég er satt að segja þeirrar skoðunar, án þess að kannske sé farið út í samanburð við einstök önnur verkefni, að þessum peningum mætti verja með miklu skynsamlegri hætti til ýmissa annarra menningarmála sem þá kæmu báðum kynjum, konum og körlum, að gagni en ekki taka upp till. sem felur í sér kynjamisrétti. Þykir mér miður að fjvn. skuli hafa látið ginnast til að gera þetta mál að sínu.

Hér eru líka ýmsar tillögur á ferli þar sem mætti kannske segja að sumir þm. hefðu einhverra persónulegra hagsmuna að gæta. Slíkt finnst mér yfirleitt ákaflega óviðfelldið og óviðeigandi. En það verður hver einstakur þm. að gera þau mál upp við sína samvisku, sé hún fyrir hendi. (Gripið fram í.) Ég hygg, hv. þm. Steingrímur Sigfússon, að þeir skilji sem eiga að skilja.

Hér hefur verið rætt um sölu Borgarspítalans og hv. síðasti ræðumaður, 3. þm. Reykv., gerði það mál mjög ítarlega að umtalsefni. Hann gerði að umtalsefni þetta mál sem svo mjög hefur borið á góma í fréttum og fjölmiðlum að undanförnu og sagði þá m.a. að engu væri líkara en borgarstjórinn í Reykjavík héldi að hann væri Reykvíkingar og hann væri Reykjavík. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm. vegna þess að í viðtali í sjónvarpinu þegar borgarstjórinn í Reykjavík var spurður um þetta mál gerði hann grein fyrir nefndarskipan til að fjalla um þetta og þegar hann var að skýra frá því hvernig nefndin væri skipuð sagði borgarstjórinn í Reykjavík: Ja, það eru þessir frá ríkinu og svo er einn frá mér. Það var ekki einn frá Reykjavíkurborg. Það er einn frá mér, sagði Davíð Oddsson borgarstjóri.

Mig langar að minnast á það bréf sem hér hefur verið birt og sagt hefur verið frá í fréttum og gert var að umtalsefni áðan. Þar kemur fram að drög að samningi hafi legið fyrir og það sé fullur vilji og ásetningur ríkisstjórnarinnar að reyna til þrautar að ganga frá samningi um þetta mál, þ.e. kaupin á Borgarspítalanum, við Reykjavíkurborg á næsta ári, eftir áramót. Náist samkomulag, mun nauðsynlegra lagaheimilda til þess að tryggja framgang þess aflað þegar eftir að Alþingi kemur saman á nýju ári, segir með leyfi forseta í þessu bréfi. Ég held að þetta sé ekki nóg. Ég held að í fjárlagafrv. sem nú er verið að fjalla um þurfi tvímælalaust að vera heimild fyrir ríkisstjórnina ef hún ætlar sér að gera þetta. Ég er þessari sölu andvígur og ég held að ef ríkisstjórnin ætlar að standa við þá yfirlýsingu sem gefin er í þessu bréfi verði hún að leita sér heimildar Alþingis. Ég held að það sé alveg ótvírætt og sé raunar ekkert því til fyrirstöðu að fjvn. eða fjmrh. óski eftir að þetta ákvæði verði tekið inn á 6. gr. fjárlaga, heimildagreinina, áður en þetta mál gengur til endanlegrar afgreiðslu. Ég held að allt annað sé óþinglegt og óeðlilegt. Og ég spyr hæstv. fjmrh. hvort hann hyggist ekki afla sér þessarar heimildar frá Alþingi áður en fjárlög verða samþykkt. Ég held að það sé óhjákvæmilegt. Þá kemur þingviljinn að sjálfsögðu fram í þessu máli.

Herra forseti. Ég flutti brtt., svo að ég snúi að öðru máli, við 2. umr. fjárlagafrv. sem ég dró til baka til 3. umr. og hefur verið endurprentuð á þskj. 475 varðandi í fyrsta lagi tekjur Póst- og símamálastofnunar vegna þjónustu við ICAO, Alþjóðaflugmálastofnunina, og vegna þeirrar skattlagningar sem ætlað var að leggja á Póst og síma, 200 millj., en nú sé ég mér til mikillar ánægju að hvort tveggja hefur verið tekið upp í tillögur fjvn. þannig að fallið hefur verið frá þessari skattheimtu og Pósti og síma skilað réttum tekjum vegna þessarar þjónustu. Því, herra forseti, dreg ég til baka brtt. á þskj. 475.

En það er annað í þessu fjárlagafrv. Það er gjarnan svo að við þessa umræðu gera menn einstök atriði að sérstöku umtalsefni. Í brtt. meiri hl. fjvn. við 6. gr., þ.e. liður 5.27, hefur verið sett inn till. um að selja jarðirnar Rauðamýri í Nauteyrarhreppi og Streiti í Breiðdalshreppi. Hér er farið inn á nýjar brautir og ég bendi hæstv. fjmrh. á það að ég held að þetta séu varhugaverðar brautir og ég held að þetta sé óæskileg leið. Þetta er breyting frá þeirri venju,

sem ríkt hefur hér á Alþingi um langt skeið, að þegar ríkisjarðir hafa verið seldar hafa verið flutt um það sérstök frv. Þannig var með sölu jarðarinnar Streitis í fyrra. En þannig var líka, hæstv. fjmrh., að það frv. náði ekki fram að ganga. Það varð ekki útrætt á Alþingi. Þm. til skýringar og upprifjunar er ætlunin að selja þessa jörð manni sem er búsettur á Reykjavíkursvæðinu sem þykist ætla að stunda þar einhvers konar garðrækt og telur sig hafa einhver tengsl við þessa jörð. Ég gæti með sama hætti sagt að ég hefði tengsl við þessa jörð vegna þess að sumarlangt dvaldist ég sem snúningapiltur á næsta bæ. Ég hygg að það séu viðlíka sterk tengsl og þessi heiðursmaður í Garðabænum hefur, sem ætlar að kaupa þessa jörð til garðræktar og hygg ég að ýmsar jarðir séu betur til þess fallnar en Streiti á Austfjörðum - og hlær nú hæstv. menntmrh. sem þekkir þarna til staðhátta.

Frv. um sölu þessarar jarðar í fyrra varð ekki útrætt á Alþingi. Um það voru miklar deilur sem eðlilegt var, og ég hygg, hæstv. fjmrh., að ef á að halda þessari Streitissölu til streitu nú muni þm. þurfa að tala töluvert mikið um þetta mál sem ekki varð útrætt á sínum tíma. Ég get alveg lofað hæstv. fjmrh. því að menn munu þurfa að segja eitt og annað um þessa jarðarsölu þegar þar að kemur. Í fyrsta lagi vegna þess að mjög margir þm. eru andvígir sölu þessarar jarðar á þeim forsendum sem lagt var fyrir þingið í fyrra. Í öðru lagi vegna þess að það er óæskilegt og óþingleg leið að lauma þessu inn í 6. gr. á síðustu stundu, kannske, ég fullyrði ekkert um það, í trausti þess að í asanum og látunum hér fari þetta hreinlega fram hjá mönnum eins og ýmislegt óneitanlega gerir þegar hér er verið að afgreiða mál á síðustu stundu.

Ég á ýmislegt ósagt í sambandi við þessa jarðarsölu og ég mun láta verða af því að segja þau orð þó seint verði í kvöld eða nótt. Mér er ekkert að vanbúnaði með það, ég veit raunar að svo er um fleiri þm. Mér finnast þetta óheiðarleg vinnubrögð, mér finnast óæskileg vinnubrögð að afleggja þann sið að flytja sérstök frv. um sölu einstakra jarða úr eigu ríkisins. Hér er um prinsipmál að ræða sem ég tel skipta ákaflega miklu. Hér eru að vísu heimildir um að selja alls konar fasteignir, hús. Svo hefur lengi verið. Það er ekkert við það að athuga. Þetta er annars eðlis. Ég skora á hæstv. fjmrh. að íhuga hvort ekki er hægt að draga þetta til baka og flytja síðan sérstök frumvörp um sölu þessara jarða eins og eðlilegt hlýtur að teljast. Mér finnst þetta satt best að segja jaðra við ósvífni gagnvart þinginu, en geri mér jafnframt grein fyrir því að þessi till. er örugglega ekki runnin undan rifjum hæstv. fjmrh. Hún er einhvers staðar allt annars staðar að komin.

Þá var önnur tillaga hér, herra forseti, sem mig langar til að gera að sérstöku umtalsefni. Hún er á þskj. 404 og hefur forseti Sþ. þegar mælt fyrir henni í þessum umræðum. Það er till. um fjárframlag vegna hönnunarkostnaðar nýbyggingar Alþingis. Þessi tillaga er auðvitað flutt í beinu og eðlilegu framhaldi af þeirri þáltill. framhaldi sem Alþingi samþykkti 21. maí 1981 um að láta fara fram samkeppni um gerð og skipulag viðbótarbyggingar fyrir starfsemi þingsins á svæðinu fyrir vestan þinghúsið. Það væri óeðlilegt ef ekki væri framfylgt þessum vilja þingsins. Það er búið að efna til þessarar samkeppni, það er búið að veita verðlaun vegna þessarar samkeppni og því er það eðlilegt framhald vilja Alþingis að þarna verði hannað skrifstofuhús. Hvers vegna`? Vegna þess að vinnuaðstaðan í þessu húsi og húsum þingsins er óviðunandi. Hún er óviðunandi fyrir starfsfólk þingsins, hún er að ýmsu leyti óviðunandi fyrir þingmenn og hún er að öðru leyti óviðunandi fyrir almenning sem á erindi að sækja í þinghúsið eins og sjálfsagt er og eðlilegt. Þarna eru komnar þrjár ástæður. Ég skal fara nokkrum orðum nánar um þetta, raunar m.a. vegna þess að ég var að ræða í hliðarherbergi um þessi mál við ýmsa hv. þm. og mér kom afstaða þeirra mikið á óvart.

Í fyrsta lagi eigum við að huga að þeirri aðstöðu sem skjalavörður Alþingis býr við hér í næsta herbergi þar sem þingskjalabunkarnir þurfa að liggja á gólfinu. Ég orðaði þetta við einn hv. þm. og hann sagði: Er þetta ekki bara fínt? En þetta er ekkert fínt. Eigum við að líta á aðstöðuna sem er í eldhúsinu þar sem er það starfslið sem sinnir matar og kaffiþörfum þings, gesta og gangandi? Sú aðstaða er óviðunandi. Eigum við að líta á aðstöðuna sem er uppi á loftinu fyrir ljósritun þingsins, þessa eins konar prentsmiðju þingsins sem mikið mæðir á? Eigum við að líta á aðstöðuna uppi á hanabjálkanum þar sem starfsmönnum hefur einnig verið holað niður? - Ég skal segja ykkur það, hv. þm., að ef Vinnueftirlitið skoðaði þessa aðstöðu, sem búin er starfsfólki hér, er ég ansi hræddur um að einhverju yrði kannske lokað. Þetta er gersamlega óviðunandi.

Ég nefni sem dæmi skrifstofuhúsnæði úti í Skjaldbreið þar sem góður vatnshalli er víða á gólfum og vel það. Mér hefur verið bent á, að það hús kunni að mega flokkast sem eldgildra. Ég fullyrði ekkert um það. Ég hef ekki skoðað það með tilliti til þess og skortir kannske þá sérþekkingu sem til þarf.

Það voru stórhuga menn sem reistu þetta hús fyrir rúmum 100 árum. Sú bygging sem nú er verið að tala um fyrir starfsemi Alþingis, þannig að hún geti farið fram með eðlilegum hætti og með sóma og virðingu, er smáræði miðað við það átak sem bygging þessa húss og þeirra stórhuga manna sem stóðu að því var.

Það getur vel verið um þá leið sem Kvennalistinn hefur valið sér í þessu máli, að sumum þyki hún líkleg til vinsælda hjá almenningi, þ.e. að vilja virðingu þingsins sem minnsta, starfsaðstöðu þingsins og starfsfólksins sem lakasta og lélegasta. Það getur vel verið að menn haldi að þeir geti aflað sér einhverrar virðingar hjá almenningi, vinsælda eða atkvæða út á svona afstöðu. Þeir um það. Ég hef miklar efasemdir um það vegna þess að ég held að íslenskur almenningur vilji að þessari stofnun sé sýndur fullur sómi og að henni vel búið.

Jóhannes Borgarbóndi reisti fimm hæða hótel á einu ári hér við hliðina. Við erum að tala um að byggja hús sem er kannske eitthvað örlítið stærra í tveimur áföngum. Við eigum að byggja þetta hús í einum áfanga og við eigum að byggja það á skömmum tíma og við eigum að gera þinginu kleift að veita almenningi, kjósendum, borgurum þessa lands góða þjónustu. Við eigum að búa vel að starfsfólki þingsins og það á að búa vel að starfsaðstöðu þingmanna. Það getur vel verið að hv. þm. Kvennalistans og einhverjum öðrum þyki það næsta ómerkilegt að þm. skuli tala svona, en ég er þeirrar skoðunar að þm. eigi að hafa góða starfsaðstöðu og geta rækt sín verk vel. Það er „billegt“ að reyna að slá sér upp á því að leggjast gegn tillögu sem í rauninni snýst um virðingu og starfsaðstöðu löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Það er bæði billegt og ómerkilegt, leyfi ég mér að segja. Ég held að það sé ekki leiðin til að afla sér vinsælda hjá kjósendum, en það verður hver að hafa sína aðferð í því efni.

Eitt smáatriði hefur verið gert að sérstöku umtalsefni og menn hneykslast á því, sjálfsagt þær Kvennalistakonur líka og eru þær ekki minnst hneykslunargjarnastar þingmanna, að það skuli vera gert ráð fyrir aðstöðu til heilsuræktar í þessu nýja húsi. Ég bendi á að velflest stór fyrirtæki, sem byggja yfir starfsemi sína núna, gera ráð fyrir slíkri aðstöðu fyrir starfsfólkið, og að það geti jafnvel farið í bað. Það þykir kannske til mikils mælst. Ég man að ég orðaði það einhvern tíma fyrir fáeinum árum að það væri ekki verra ef slík aðstaða væri fyrir hendi hér að menn gætu farið í steypibað þegar menn eru hér nánast allan sólarhringinn kannske. Það þótti svo fráleitt að ég var spurður: Heyrðu, getur þú ekki farið í bað heima hjá þér? Þetta lýsir grundvallarmisskilningi á nútímalegum viðhorfum til vinnu, til starfsaðstöðu og til aðstöðu fyrir þingið. Þeir hugsuðu stórt sem byggðu þetta hús, voru stórhuga menn. En mér finnst það vera hugarfar lítilla sanda og sæva þegar menn leggjast gegn því að Alþingi sé búin viðunandi starfsaðstaða og halda sig vera að slá sig til riddara í augum kjósenda.

Herra forseti. Ég hef orðið nokkru langorðari um þetta en kannske var ætlunin. Ég mun ekki að þessu sinni flytja öllu lengra mál. En ef það er svo að þm. hreykjast á því að veita fé til hönnunar nýrrar skrifstofubyggingar fyrir Alþingi, fyrir starfsfólk þess og fyrir þingið og sem þjónustu við kjósendur og borgara þessa lands þannig að bærilega sé að þessari stofnun búið er það pólitískur heigulsháttur og ekkert annað.

Ég ætla ekki að þessu sinni að hafa fleiri orð, ég veit að það eru margir á mælendaskrá, en ég áskil mér allan rétt til að koma aftur í ræðustól og gera þá að sérstöku umtalsefni þá jarðarsölu sem ég vék að áðan og varð ekki útrædd á þingi í fyrra og hlýtur þess vegna að þurfa að takast til umræðu að nýju, sérstaklega í ljósi þess hvaða vinnubrögðum er nú beitt við að koma málinu áfram.