19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

1. mál, fjárlög 1987

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég ætla að víkja að nokkrum atriðum sem beint hefur verið til mín í þessari umræðu, fyrst vegna fsp. hv. 3. þm. Reykv. í tilefni af því bréfi sem forsrh., fjmrh. og heilbr.- og trmrh. skrifuðu í dag vegna þeirra samningaumleitana sem fram hafa farið um skamma hríð milli hlutaðeigandi ráðuneyta og Reykjavíkurborgar um hugsanlega yfirtöku ríkissjóðs á Borgarspítalanum, þ.e. á þeim hluta sem er umfram þau 15% sem sveitarfélög greiða í slíkum stofnunum miðað við núverandi lagaákvæði. Bréf þetta felur í sér viljayfirlýsingu til þess að reyna til þrautar að ná samningum um þetta efni. Það hafa engir samningar verið gerðir. Í viðræðum hafa verið gerð drög að samningum, en frá þeim hefur ekki verið gengið vegna þess að samningum er einfaldlega ekki lokið og það er það sem kemur fram í þessu bréfi. Á hinn bóginn er það vilji að reyna til þrautar að ljúka þeim samningum.

Það er víðs fjarri að það sé ætlunin að fara á bak við Alþingi í þessu efni nema síður sé því það er mjög skýrt tekið fram í þessu bréfi að náist samningar verði leitað heimildar Alþingis til að ganga frá þeim samningum. Það er fullkomlega eðlilegt að leggja málið á þann veg fyrir Alþingi. Enginn samningur af þessu tagi tekur gildi fyrr en Alþingi hefur veitt þá heimild. (GHelg: En af hverju er ekki heimildarinnar leitað fyrst?) Málið liggur þannig mjög skýrt og glöggt fyrir að það er ekki verið að fara fram hjá Alþingi. Málið verður lagt fyrir þingið ef hlutaðeigandi ráðuneyti og Reykjavíkurborg ná samkomulagi og slíkur samningur mundi ekki taka gildi fyrr en Alþingi hefði samþykkt hann. Þetta kemur skýrt fram í þessu efni. Bréfið skuldbindur ekki ríkissjóð á einn eða annan hátt en er viljayfirlýsing um að freista þess að ljúka samningum um þetta efni ef efnisaðstæður svo leyfa. Þetta vildi ég að kæmi fram. Það er líka rétt að árétta að í þeim umræðum sem þegar hafa farið fram um þetta efni hefur komið skýrt fram að það er ekki ætlunin að neinar greiðslur komi á árinu 1987 og þess vegna ekki þörf á að blanda þessum viðræðum inn í afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1987.

Hv. 3. þm. Reykv. varpaði einnig fram spurningum varðandi elli- og örorkulífeyri og þær hækkanir sem á honum verða og hann innti eftir því hvort rétt væri að í fjárlagafrv. hefði verið gert ráð fyrir að ellilífeyrir hækkaði um 2% umfram almennar verðlagsbreytingar. Það er rétt og það er jafnframt rétt að það er ætlunin að elli- og örorkulífeyrir taki almennum verðlagsbreytingum á næsta ári og þar að auki er ráð fyrir því gert í þeim brtt. sem lagðar hafa verið fram að örorkulífeyrir hækki um 600 millj. kr. Það hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um með hvaða hætti þessi sérstaka hækkun kemur til framkvæmda. Það er ljóst að þeir kjarasamningar sem nýlega voru gerðir eru mjög sérstakir, einkanlega að því leyti að það var fyrst og fremst verið að semja um kjarabætur til þeirra sem lægst hafa launin í þjóðfélaginu og ekki hafa notið launaskriðs á undanförnum misserum. Að því leyti hlýtur það að kalla á sérstaka skoðun nú hvernig hækkun á elli- og örorkulífeyri kemur til framkvæmda í framhaldi af þessum samningi. Það verður tæpast gert með jafneinfaldri aðferð og venja er þegar kjarasamningar hafa verið gerðir á annan hátt en nú fyrir fáum vikum. Ég vænti þess að það taki ekki ýkja langan tíma að glöggva sig á hvernig framkvæmdin verður á þessu, en þær ákvarðanir liggja ekki fyrir eins og sakir standa. En ég geri auðvitað ráð fyrir því að sú sérstaka hækkun sem hér um ræðir komi elli- og örorkulífeyrisþegum til góða frá og með sama tíma og þeir launþegar sem sérstaklega nutu niðurstöðu síðustu kjarasamninga fengu sína réttarbót.

Hv. 2. landsk. þm. vék einnig að Framkvæmdasjóði fatlaðra í nokkrum atriðum og varpaði fram fsp. sem bornar höfðu verið fram með hefðbundnum hætti en eins og hv. þm. tók fram hafði ekki gefist tóm til að svara. Fsp. var í þremur liðum og laut að því í fyrsta lagi hve mikil skerðing hefði orðið að raungildi á lögboðnum framlögum til í fyrsta lagi Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra frá 1. jan. 1980 til 31. des. 1983 og í öðru lagi Framkvæmdasjóðs fatlaðra frá 1. jan. 1984 til 31. des. 1986. Því er til að svara að framlag til Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra var skv. fjárlögum 10,6 millj. 1980, 20,1 millj. 1981, 28,1 millj. 1982 og 40 millj. 1983. Skerðing á verðlagi 1. nóv. 1986 var 41,8 millj. 1980, 19,5 millj. 1981, 31,1 millj. 1982 og 47,5 millj. 1985.

Að því er varðar spurninguna um skerðingu á Framkvæmdasjóði fatlaðra hafa verið uppi mismunandi sjónarmið um túlkun í því efni, en í lögunum segir svo:

„Ríkissjóður skal árlega næstu fimm ár leggja sjóðnum til a.m.k. jafnvirði 55 millj. kr. miðað við 1. jan. 1983. Skal sú fjárhæð hækka í hlutfalli við byggingarvísitölu miðað við gildistöku laganna. Að þeim tíma liðnum skal endurskoða framlag ríkisins.“

Ágreiningur stendur sem sagt um hvort miða eigi vísitöluuppfærsluna við 1. jan. 1983 eða gildistöku laganna 1. jan. 1984. Sé við það miðað að vísitöluálagið komi frá 1. jan. 1983 er heildarskerðingin samkvæmt þeim upplýsingum sem hér liggja fyrir frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun 274 millj. kr., en sé miðað við gildistöku laganna 1. jan. 1984 er skerðingin 72 millj. kr.

Þá er spurt að því hverjar hafi verið tekjur af erfðafjárskatti frá 1. jan. 1980 til 31. des. 1986 að raungildi. Á verðlagi 1. nóv. 1986 eru þessar tölur sem hér segir: Árið 1980 53,3 millj., árið 1981 82 millj., árið 1982 101,2 millj., árið 1983 77,8 millj., árið 1984 79,2 millj., árið 1985 87,1 millj. og árið 1986 er áætlað að talan sé 71 millj.

Í þriðja lagi var spurt að því hver hafi verið heildarframlög vegna framkvæmda í þágu fatlaðra frá 1. jan. 1980 til 31. des. 1986. Þar er um að ræða Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra og Erfðafjársjóð á árunum 1980-1983 og Framkvæmdasjóð fatlaðra frá 1984. Miðað við verðlag 1. nóv. 1986 eru þessar tölur sem hér segir: 1980 92,3 millj., 1981 145,6 millj., 1982 135,6 millj., 1983 117,9 millj., 1984 103,3 millj., 1985 91,7 millj. og 1986 93 millj. eða samtals 779,4 millj. Því er svo við að bæta að til viðbótar kemur svo sú fjárhæð sem nú er áætlað að verja á árinu 1987 eða um 130 millj. sem er áþekk upphæð að raungildi og 1982.