19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2109 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

1. mál, fjárlög 1987

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég hef flutt á þskj. 482 brtt. við brtt. fjvn. sem er á þskj. 459 og meðflm. mínir eru þeir hv. þm. Halldór Blöndal og Valdimar Indriðason. Þessi brtt. er við 7. lið á þskj. 459 og till. er á þá leið að liður 5.25 orðist þannig: Að selja dýpkunarskipið Hák og verja andvirðinu til kaupa á tækjum fyrir Hafnamálastofnun.

Breytingin er í því fólgin að burt falla í fyrsta lagi orðin „að undangengnu mati“. Það felur það sem sagt í sér að ég tel eðlilegra að skipið verði einfaldlega auglýst þannig að í það verði gert tilboð, en það verði ekki selt að undangengnu einhverju mati.

Í öðru lagi legg ég til að niður falli orðin „að fengnu samþykki fjvn." Það þýðir m.ö.o. að ég vil ekki framselja einhverri þingnefnd framkvæmdarvaldið, jafnvel ekki fjvn. svo merkileg nefnd sem það nú er. Ég tel óeðlilegt með öllu að ef Alþingi heimilar sölu á einhverjum ríkiseignum sé salan á eftir háð samþykki þingnefndar. Þess vegna vil ég að þessi orð falli brott.

Í þriðja lagi legg ég til að í stað þess að andvirðinu verði varið til kaupa á dýpkunartækjum fyrir Hafnamálastofnun verði andvirðinu varið til kaupa á tækjum fyrir Hafnamálastofnun. Ég sé enga ástæðu til að binda í þessari heimild að þetta þurfi endilega að vera dýpkunartæki.

Þetta eru efnisatriði brtt. og ég þarf ekki að hafa um það fleiri orð.

Hv. þm. Svavar Gestsson beindi í sinni ræðu til mín tveimur fsp. Í fyrsta lagi beindi hann til mín fsp. um hvaða hugmyndir væru uppi um hækkun tryggingabóta í framhaldi af nýgerðum kjarasamningum. Þessari spurningu beindi hann víst til mín þar sem ég er formaður tryggingaráðs. Hv. þm. veit ósköp vel að það er ekki hlutverk tryggingaráðs eða formanns tryggingaráðs að ákveða upphæð tryggingabóta eða að fjalla eitthvað sérstaklega um breytingar á þeim. Þetta veit auðvitað fyrrv. heilbr.- og trmrh. mætavel og hann hefur áreiðanlega ekki framselt það vald sitt meðan hann var ráðherra til Stefáns Jónssonar, formanns tryggingaráðs í tíð hv. þm. Svavars Gestssonar sem heilbr.- og trmrh. Hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir þeim hugmyndum sem uppi eru varðandi breytingu á tryggingabótum og ég hef ekki fleiri orð um það.

Þá beindi hv. þm. til mín einnig þeirri spurningu hvort bréf það sem hæstv. ráðherrar, forsrh., fjmrh. og heilbr.- og trmrh., rituðu borgarstjóra í dag hefði verið samþykkt í þingflokki sjálfstæðismanna áður en það var sent borgarstjóra. Svar mitt er nei. Bréfið var ekki kynnt þingflokknum áður en það var sent. Ég hlýt hins vegar að vekja athygli á því, sem hefur reyndar verið þegar gert, að í þessu bréfi er aðeins greint frá þessum vilja ríkisstjórnarinnar að reynt verði til þrautar, eins og segir í bréfinu, þegar eftir áramót að ganga frá samningi um þetta mál við Reykjavíkurborg. M.ö.o.: samkomulag hefur ekki náðst enn þá með aðilum. Náist það samkomulag á Alþingi eftir að fjalla um og samþykkja nauðsynlegar lagabreytingar. Mér sýnist þess vegna óþarfi að eyða tíma þingsins nú í umræðu um þetta mál. Hún mun eiga sér stað á næsta ári þegar og ef nefnt samkomulag næst. Ég vil hins vegar af þessu tilefni upplýsa að þingflokkur sjálfstæðismanna gaf hinn 10. des. s.l. fjmrh. og heilbr.- og trmrh. ákveðið umboð til að leysa þetta mál þannig að kaupin gangi eftir, en jafnframt skyldi gefin yfirlýsing um hvernig sjálfstæði spítalans verði tryggt. Þessi yfirlýsing liggur ekki fyrir enn þá. Kaupin hafa ekki gengið fram og nefndir ráðherrar hafa ekki lokið sinni umfjöllun um málið samkvæmt því umboði sem þingflokkur sjálfstæðismanna gaf þeim. Þetta vildi ég að kæmi fram að gefnu tilefni.