19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2124 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

1. mál, fjárlög 1987

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Út af ummælum hv. formanns fjvn. áðan, að það hefði verið haft samráð við mig um orðalag á sölu dýpkunarskips, er það rétt að mér var sýnt orðalagið og ég gerði athugasemd við það. Ég tel enga ástæðu til þess, þó eigi að selja eldgamlan pramma og ef hann verður seldur, að það þurfi að kalla saman tíu manna nefnd til að ákvarða það eða leggja blessun sína yfir það. Sömuleiðis gerði ég líka þá athugasemd að andvirðið renni til kaupa á tækjum fyrir Hafnamálastofnun. Það liggur ekkert fyrir að það verði keypt dýpkunarskip og ef þarna yrði um einhverja peninga að ræða mega þeir gjarnan fara til nauðsynlegustu áhaldakaupa, ekki ætti að binda það á þennan veg. Þetta vildi ég að kæmi fram. Ég felli mig miklu betur við orðalagið í till. Ólafs G. Einarssonar o.fl.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir, 10. landsk. þm., spurðist fyrir um mál sem kannske er ekki beint í tengslum við fjárlögin. Það er í sambandi við Seðlabankann. Ég heyrði þennan dóm í kvöld og maður verður að sofa á þeim dómi eina nótt eða tvær, en ég get fullvissað hv. þm. um að ég mun ræða þessi mál ítarlega við bankastjórn Seðlabankans. Hins vegar er það ekkert nýtt með þessa auglýsingu um vexti, að hún hafi ekki komið. Hún kom ekki fram á sínum tíma. Það er engin ný frétt. Og það kom svar þá frá Seðlabankanum. Á þessari stundu vil ég ekki ræða þetta neitt frekar.

Tveir þm. Austfirðinga hafa flutt brtt. um hækkun til flugvallar á Egilsstöðum. Ég sá það í blaði frá öðrum flm. þessarar till. að hann er mjög óánægður með fjárveitingar til flugmála. Það geta fleiri verið það. En hann vildi koma því öllu á mig, þeim skiptingum. Þannig vill til að það er nokkurs konar stjórn í Flugmálastjórn sem heitir flugráð. Það fjallar um tillögur sem flugmálastjórnin gerir og þær tillögur koma síðan til ráðuneytisins. Þær fóru óbreyttar til fjvn. Þetta er ekki burðug upphæð og mundi lítt duga ef hún ætti að fara í einn flugvöll á landinu þó enginn annar fengi. Hins vegar hefur verið unnið mjög ítarlega að nýrri flugmálaáætlun. Þar hafa margir ágætir menn lagt hönd á plóginn. Sú áætlun hefur verið kynnt, fyrst á blaðamannafundi og síðar á stuttri ráðstefnu sem boðið var til sveitarstjórnarmönnum, flugrekstraraðilum og samgöngunefndum þingsins, og þar voru þessi mál vel rædd og hlustað á athugasemdir manna við þá tillögugerð alla. Það er unnið að því nú að leggja fram þetta sem áætlun og síðan og um leið að fara í nýja tekjuöflun til flugvalla.

Því er ekki að neita að á þessum fundi kom fram strax hörð gagnrýni á flugrekstraraðila. Þeir eigi ekki að borga heldur einhver annar. Þarna á að taka úr, eins og menn segja gjarnan þegar þeir vilja fá mikið en ekkert láta á móti, sameiginlegum sjóði landsmanna. Við höfum heyrt hvernig hann stendur núna við afgreiðslu fjárlaga. Ef hugur á að fylgja máli verður að afla fjár til þeirra hluta.

Það hefur verið talað um Sauðárkrók, að þar ætti að byggja varaflugvöll. Það komu fram athugasemdir fyrir nokkru um að það væri eiginlega ógjörningur að byggja þar flugvöll því þetta væri svo mikið varpland fyrir hettumáv, en nú hefur Náttúruverndarráð ályktað að það mótmæli algjörlega byggingu flugvallar þar því þarna sé dýrmætt andavarp. Ég veit ekki hvaða fuglategund verður næst fyrir valinu þegar næsta ráð eða stjórn fjallar um land undir varaflugvöll. Áður var sjálfsagt alls staðar að útbía allt, en núna má helst ekki hreyfa sig á nokkurn hátt.

Hinu er ekki að neita að aðkallandi framkvæmd í flugmálum er bygging flugvallar á Egilsstöðum, sú framkvæmd sem er mest aðkallandi vegna þess hvernig völlurinn er búinn, og þar er ekki um að ræða annað en byggingu nýs vallar. Sá undirbúningur hefur tekið langan tíma og það kom þegar fram í áfangaskýrslu svonefndrar flugmálanefndar.

Ég verð því að segja að það er ekki rúm innan þessara fjárlaga að samþykkja byrjunarframkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll og þessi undirbúningur verður að eiga sér stað og sömuleiðis að Alþingi fjalli um þær tillögur sem verða hér fram lagðar í næsta mánuði og þá tel ég að þessi mál verði þar ofarlega á baugi.

Af því að einn hv. þm. kom áðan inn á till. vegna sjúkrahússins á Ísafirði ætla ég að minna hv. alþm. á að þetta sjúkrahús er búið að vera tólf ár í byggingu og það er búið að flytja ákveðna starfsemi yfir í nýja húsið, en sjúklingarnir eru allir eftir í gamla húsinu og því hefur ekki verið haldið við allan þennan tíma og heilbrigðisyfirvöld eru að loka því í vor. Það er hvorki hægt að vera þar sjúklingur eða starfsmaður eins og ástandið er. Það er búið að verulegu leyti að innrétta legudeildir og eldhús sjúkrahússins, en það sem vantar er að það hafa ekki fengist leyfi til að panta áhöld, bæði fyrir skurðstofu og önnur læknisáhöld sem þar þarf og allt í eldhús. Við afgreiðslu fjárlaga er ekkert tekið þar inn svo það er sjáanlegt að ef ekkert væri að gert mundi leggjast niður sjúkrahúsrekstur þarna, en hann hefur verið samfleytt á þessum stað öll árin á þessari öld og held ég þrjú eða fjögur ár í lok síðustu þannig að við hefðum farið 90 ár aftur í tímann ef ekkert væri að gert. Undarlegt er að það skuli heyrast raddir og það á Alþingi Íslendinga sem telja að við svo búið megi una. Ég tel það ekki vera og þó að það sé í mínum gamla heimastað get ég líka litið til þess ef ástand væri jafnömurlegt annars staðar og ég þurfti oft til þess að líta á þeim árum sem ég var heilbr.- og trmrh. Mér finnst því ekki vera neitt sérstakt óhóf í því að reyna að bjarga þessu með þeim hætti og líka spara ríkissjóði peninga. Ég hygg að það kosti ekki minna en 5 millj. (GHelg: Það mætti spara hrossasirkusinn.) að kynda tvö hús í staðinn fyrir eitt og flytja sjúklingana á röntgendeildina frá morgni til kvölds í sjúkrabíl og fleira og fleira sem þarna má upp telja, fyrir utan að það er ekki hægt að bjóða sjúku fólki þá aðstöðu sem þarna er. Ég þori að fullyrða, því ég hef komið á öll sjúkrahús á landinu, að það er hvergi neitt í námunda annars staðar við það ástand sem er á Ísafirði. Það er því fullkomin ástæða til að greiða með þessum hætti fyrir því að þessi tæki séu pöntuð og þessi nýja legudeild taki til starfa helst síðast á næsta ári svo framarlega sem tæki verða komin. Þetta vildi ég að hér kæmi fram og hvað sem líður baráttumálum okkar fyrir okkar kjördæmi hygg ég að ég hefði aldrei getað við unað og mundi ekki við una ef það hefði verið traðkað á þessu máli því að ég hefði ekki þolað frekar en ýmsir aðrir að sjá þau herlegheit sem maður sér á gamla sjúkrahúsinu þar sem þetta ríka samfélag ætlar sjúkum að vera enn þá eitt árið í viðbót.