19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2139 í B-deild Alþingistíðinda. (1995)

1. mál, fjárlög 1987

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Með tilliti til orða virðulegs forseta áðan vil ég í fyrsta lagi segja að það er ugglaust rétt hermt að samkomulag liggi í megindráttum fyrir um afgreiðslu mála og tilhögun fundahalds þannig að því megi ljúka á þeim tíma sem ætlað hefur verið, en það er einnig rétt að hafa í huga að ýmislegt hefur borið við undir og í þessari umræðu í dag sem hefur gert það að verkum að hún hefur teygst nokkuð á langinn. Ég held að við verðum að reyna í anda þess samkomulags að sameinast um að greiða þá úr þeim óvæntu uppákomum sem hér hafa orðið. Svo að ég skýri hvað ég á við, þá eru það m.a. brtt. sem hér hafa komið fram og nýjar upplýsingar um mál undir umræðunni og kalla auðvitað á að þær séu ræddar nokkuð. Það er óhjákvæmilegt. Tilefni mitt í þennan virðulega ræðustól er einmitt slíkar brtt. og ummæli í sambandi við þær sem ég sé mér ekki fært annað, virðulegur forseti, en gera lítillega að umtalsefni. En ég skal að sjálfsögðu hafa orð virðulegs forseta í huga og reyna að stytta mál mitt eftir föngum.

Í fyrsta lagi eru brtt., reyndar tvær, á þskj. 459 frá meiri hl. fjvn. og síðan á þskj. 482 frá hv. þm. Ólafi G. Einarssyni, Halldóri Blöndal og Valdimar Indriðasyni. Ég verð að segja eins og er að báðar þessar tillögur koma mér nokkuð á óvart. Í fyrsta lagi er þarna verið að setja inn heimildarákvæði í 6. gr. af hálfu meiri hl. fjvn. til að selja dýpkunarskipið Hák að undangengnu mati o.s.frv., en síðan koma þrír hv. þm. stjórnarliðsins og flytja brtt. við brtt. meiri hl. Hér er nokkuð óvenjulega, hygg ég, að verki staðið, herra forseti, þegar hv. stjórnarliðar við 3. umr. fjárlaga koma málum sínum ekki betur saman en svo að meiri hl. fjvn. flytur eina brtt. og þrír hv. þm. úr stjórnarliðinu flytja aðra við sömu grein. Það vill einfaldlega þannig til, herra forseti, að ég er í meginatriðum andvígur þessum brtt. báðum og ég sé mér ekki annað fært eftir að þær eru komnar fram og hafa verið gerðar hér að umtalsefni en skýra nokkuð afstöðu mína til þess.

Ég er á móti því að Hafnamálastofnun eða ríkið selji síðasta tæki sitt ti dýpkunarframkvæmda. Ég er á móti því í grundvallaratriðum og ég er enn meira á móti því að staðið verði að því með þeim hætti sem hér eru fluttar tillögur um. Ég get sætt mig við út af fyrir sig að væri skipið selt væri um það samið og frá því gengið að annað tæki hliðstæðrar gerðar kæmi í landið í staðinn. Það liggur fyrir að það vantar í landið dýpkunarskip, ekki endilega sanddæluskip heldur fremur gröfuskip eða gröfupramma, sem gæti sinnt því verkefni að dýpka fastan botn. Ég hef lagt fram fsp. á Alþingi til virðulegs samgrh., einmitt á þessu þingi, um áform hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum og það kom fram að ekki er á döfinni að kaupa slíkt tæki. Nú á þvert á móti að fara að selja úr eigu ríkisins síðasta tækið sem getur sinnt svona verkefnum. Ég er algerlega andvígur því nema það liggi þá fyrir, eins og ég áður sagði, af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að annað tæki komi í staðinn. Ég tel reyndar að Hafnamálastofnun þurfi að eiga tvö skip, annað til dælingar og hitt til að dýpka fastan botn. Það væri síðan út af fyrir sig nóg að sanddæluskipið gæti annað að einhverju leyti þeim verkefnum sem fyrir liggja í sanddælingu og aðrir aðilar gætu séð um afganginn, en þá hefði Hafnamálastofnun samanburð, hún ætti sitt tæki og væri ekki algerlega ofurseld öðrum aðilum að vinna þessi verk. Ég bendi hæstv. samgrh. á það, sem talaði hér áðan og studdi þessar áætlanir, að það kynni að verða þröngt í búi hjá ýmsum smáfuglum ef ríkið á ekkert tæki til að fara á milli og vinna erfiðustu og óhagkvæmustu verkefnin. Hver á að taka að sér sanddælingu upp á nokkur þúsund rúmmetra í hinum litlu höfnum hringinn í kringum landið? Hvaða einkaaðili gerir það á hagkvæmnisgrundvelli? Það er ekki hægt, það liggur fyrir, þannig að annaðhvort er verið að ofurrselja minnstu hafnirnar því að gera þetta með mjög óhagkvæmum hætti eða þá að verið er að taka á ríkið mikið óhagræði. Ég hefði talið að það ætti að endurnýja dæluskipið Hák og kaupa annað og nýtískulegra skip, ekki endilega ýkja stórt, það mætti vera tiltölulega lítið, svipað skip og Hornfirðingar notast við í sinni höfn, og síðan þarf að fá til landsins með einhverju móti dýpkunarskip sem getur dýpkað fastan botn. Það liggur fyrir að framkvæmdir í fjöldamörgum höfnum í landinu eru stopp vegna þess að ekkert tæki er til til að sinna þessu verkefni. Ég gæti nefnt ekki færri en þrjár eða fjórar úr Norðurlandi eystra einu saman. Hæstv. ríkisstjórn hefur haft allan þennan tíma án þess að gera nokkuð í þeim efnum.

Það liggur einnig fyrir í svari frá sjálfum hæstv. samgrh. á Alþingi á þessum þingvetri að það er margra ára verkefni fram undan í landinu fyrir svona skip. Þegar kemur að því að fjárveitingar verða með eðlilegum hætti, sem vonandi verður þegar skipt verður um ríkisstjórn og önnur betri kemur í staðinn fyrir þessa, verður auðvitað farið í það verk að koma ástandinu í höfnum landsins aftur í skikkanlegt horf og til þess þarf tæki þannig að ég leggst algerlega gegn þeim hugmyndum að selja skipið með þessum hætti. Ég hefði þó frekar sætt mig við að það yrði gert ef andvirðið væri skilyrðislaust merkt þessu verkefni, þ.e. andvirðið rynni til þess að kaupa nýtt tæki til dýpkunar eða legðist í sjóð til að mæta því verkefni þó síðar yrði.

Hitt er svo annað mál að fyrri hluti brtt. hv. þm. Ólafs G. Einarssonar o.fl. er að sínu leytinu hugnanlegri að þar er gert ráð fyrir því að skipið verði selt almennri sölu á opnum markaði en ekki metið upp og afhent einhverjum sérstökum vildarvinum eins og manni býður í grun að eigi að gerast miðað við brtt. meiri hl. fjvn.

Herra forseti. Ég taldi mér því miður ekki annað fært en gera þessar athugasemdir m.a. vegna alllangra ræðuhalda hv. stjórnarsinna um þetta tiltekna atriði þar sem þeir mæltu á víxl fyrir brtt. sínum hv. þm. Ólafur G. Einarsson og hv. formaður fjvn.

Ég fagna þó í litlu sé sinnaskiptum hv. meiri hl. fjvn. um að auka lítillega framlög til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, en ég verð að segja, virðulegur forseti, að minna mátti það ekki vera og auðvitað er þessi aukning langt frá því nægjanleg, en það er sjálfsagt að meta það vel er gert þó í litlu sé. Rausn hv. fjvn. var ekki meiri en svo að henni þóknaðist að hækka þennan lið um 6 millj. kr. í öllu góðærinu og dregur þá lítið úr skömminni þó eitthvað sé.

Hér hefur nokkuð verið rætt um sölu Borgarspítalans, herra forseti, og að gefnu tilefni. Ég hef sagt það einhvern tíma áður þegar þessi mál hefur borið á góma á undanförnum sólarhringum að ég ætla ekki út af fyrir sig að blanda mér mikið í þær deilur. Mér finnst það í sjálfu sér fyrst og fremst vera mál Reykvíkinga og þm. þeirra við ríkisvaldið hvort þeir eiga þennan spítala og reka hann eða hafa það með einhverju öðru móti. Auðvitað geta heilbrigðisyfirvöld og Alþingi haft vissa stefnu í því með hvaða hætti þátttaka sveitarfélaganna í spítalarekstri er og í því tilliti má segja að Reykjavík eigi ekkert að hafa aðra stöðu en önnur sveitarfélög og það er þannig að þau eru þátttakendur að rekstri sjúkrahúsanna í stærstu sveitarfélögunum og taka einnig á sig ábyrgð á stjórnun þeirra, sbr. sjúkrahúsin á Akureyri, Ísafirði og víðar, þar sem sérstakar nefndir með aðild viðkomandi sveitarfélaga sjá um stjórnun stofnananna. Ég tel eðlilegast að það sé þá með svipuðum hætti í Reykjavík. Verði hins vegar þessi spítali seldur er óhjákvæmilegt að það fordæmisgildi komi til skoðunar í framhaldinu.

Í öðru lagi snýst þetta hins vegar um samræmingu sérhæfðrar spítalaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og í landinu og þar kannske snýr málið nokkuð öðruvísi við. Það er þannig að vissar tegundir heilbrigðisþjónustu eru svo sérhæfðar að í litlu landi eins og á Íslandi er ekki skynsamlegt að reka þær á fleiri en einum stað. Ég fullyrði að viss dæmi megi finna þess að tækjakaup og starfsemi á höfuðborgarsvæðinu séu ekki eins skynsamleg og gæti verið ef betri samræming væri á milli sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Það er mín sannfæring, það litla sem ég þykist vita um þessi mál. Ég vil því segja að það er mín skoðun að með vissri samræmingu mætti koma á meiri hagkvæmni í rekstri hinnar sérhæfðu spítalaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og það væri ávinningur að því, bæði fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins og þó ekki síður fyrir landsmenn alla sem sækja sérhæfðustu þjónustuna hingað á höfuðborgarsvæðið, að betri samræming væri á milli stofnananna á höfuðborgarsvæðinu. Þannig mætti held ég ná betri árangri að vissu leyti en nú er.

Hitt er svo annað mál að sú fjölbreytta starfsemi sem er innan veggja Borgarspítalans á í sjálfu sér ekkert sérstakt erindi öll eins og hún leggur sig undir rekstur ríkisspítalanna eða undir hatt ríkisins sem slíks. Ég held að það væri því miklu skynsamlegra að fresta þessari ákvörðun og skoða hvort það ætti að skipta þessari starfsemi eitthvað meira upp og auka sérhæfingu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu og þannig mætti ná meiri árangri.

Að síðustu vil ég segja um þetta að eins og staðið hefur verið að þessu máli, eins og því hefur verið forklúðrað af hálfu hæstv. ráðh. og borgarstjórans í Reykjavík, sem að þessu hafa unnið undanfarna sólarhringa, er í raun og veru búið að gera þessa samræmingu marklausa, það er búið að gera ómögulegt að vinna að þessu með skikkanlegum hætti. Við skulum bara setja okkur augnablik í spor þeirra manna sem ættu að taka að sér það verkefni, ef af þessum kaupum yrði í því andrúmslofti sem búið er að skapa um þau, að reyna að koma á einhverju samstarfi eða samræmingu þarna á milli. Ég segi: Það er nánast ógerlegt eins og búið er að forklúðra þessu máli. Það er nánast ógerlegt vegna þess andrúmslofts sem búið er að skapa. Er óhjákvæmilegt að fordæma þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð.

Ég ætlaði svo, af því að samgrh. heiðrar okkur nú nánast einn hæstv. ráðherra, að víkja örlítið að framlögum til flugmála. Af því að hæstv. samgrh. gaf sér tíma fyrr í kvöld til að ræða þau nokkuð ítarlega hlýtur mér að leyfast, virðulegur forseti, að gera það einnig í örfáum orðum.

Hann var nánast svo óheppinn, leyfi ég mér að segja, að nefna nýútkomna skýrslu og nýútkomið álit flugmálanefndar þar sem væri myndarlega hrint úr vör og væri sett fram mikil áætlun um uppbyggingu í flugmálum. Þetta var allt rétt og satt hjá hæstv. ráðh., en ég segi: Hann var óheppinn, hæstv. ráðh., að nefna þessa áætlun vegna þess að þar er einmitt talað um að til þess að það sé hægt að vinna þetta verkefni á ekki skemmri tíma en tíu árum þurfi yfir 200 millj. kr. fjárveitingu á hverju einasta ári í þetta verk. Þannig verður ekki sagt að það sé myndarlega hrint úr vör. Þegar verið er að undirbúa fjárlög sömu dagana og hæstv. ráðh. býður til ráðstefnu og veislu í framhaldinu af tilefni útkomu skýrslunnar eru fjárveitingar til flugmála ekki betri en raun ber vitni. Enn óheppilegra er þetta allt saman ef menn hlusta svo á fréttir sömu sólarhringa og heyra af því að flugvellir á Egilsstöðum, á Hornafirði, á Siglufirði, á Ísafirði eru meira og minna ófærir sömu daga sólarhringum saman vegna aurbleytu. Þá verður þetta allneyðarlegt, virðulegur forseti, og heppilegri tíma hefði hæstv. ráðh. getað valið sér, að ég hygg, til að kynna niðurstöðu skýrslunnar og bjóða til veislu í framhaldi af því.

Ég vil eindregið hvetja til þess að hv. alþm. skoði hug sinn um það hvort ekki sé hægt að sjá af einhverjum milljónatugum í viðbót til að leggja af stað með uppbyggingu flugbrautar á Egilsstöðum sem ég tel tvímælalaust vera forgangsverkefni númer eitt í flugsamgöngum á Íslandi. Ég tel það nánast hneyksli og móðgun við Austfirðingafjórðung ef fjárlögin verða afgreidd án þess að ætluð sé ein einasta króna til flugvallarins á Egilsstöðum eins og ástandið hefur verið þar undanfarnar vikur.

Það væri gaman, virðulegur forseti, að eiga svo smáorðastað við hæstv. samgrh. um hettumávavarp og andavarp og fleira tilheyrandi nálægt Sauðárkróksflugvelli sem hann vék að nokkrum gáfulegum orðum. Ég verð að segja alveg eins og er að eiginlega undrar mann að heyra jafnháttsettan mann í stjórnkerfinu og virðulegan samgrh. tala af slíkri gamansemi, ég segi ekki léttúð, um hluti eins og starfssvið Náttúruverndarráðs. Það sem hér er á ferðinni er auðvitað það að þarna er friðland. Þarna er löngu yfirlýst friðland á allstóru svæði, á votlendissvæði sunnan við Sauðárkróksflugvöll, friðland í fyrsta verndunarflokki og hefur lengi verið. Og það liggur alveg fyrir hverjar fuglategundir helstar verpa þarna, m.a. nokkrar sjaldgæfar andategundir. Það er þetta friðland sem Náttúruverndarráð vill vernda, enda ber því lögbundin skylda til. Það er hreinlega í landslögum að Náttúruverndarráð á að sjá um verndun friðlýstra svæða. Þetta ætti hæstv. samgrh. að kynna sér áður en hann talar af slíkri gamansemi um þessi mál.

Það sem flugráð hefur lagst gegn er ekki uppbygging varaflugvallar við Sauðárkrók út af fyrir sig. Náttúruverndarráð hefur einmitt bent á að það sé hægt að byggja a.m.k. 2300 metra langa flugbraut þar sem núverandi flugvöllur er og það dugar okkur Íslendingum fyrir okkar þarfir, en þeir hafa hins vegar lagst gegn mikilli lengingu flugbrautarinnar til suðurs inn á þetta friðlýsta svæði. Þegar talað er um allt að 1000 metra lengingu til suðurs með tilheyrandi breidd á flugbraut og öryggissvæðum til viðbótar er ljóst að mikið landsvæði færi undir malbik og möl sem nú er friðlýst svæði í háum verndarflokki. Náttúruverndarráð er einfaldlega að standa í stykki sínu, sinna lögbundinni skyldu sinni, hæstv. samgrh., þegar það bendir á þessa staðreynd. Það er reyndar ekki upp á Náttúruverndarráð að klaga heldur flugráð og aðra slíka aðila, m.a. samgrn., sem hafa verið að bollaleggja þarna alls konar framkvæmdir án þess að hafa nokkurt samráð eða leita álits Náttúruverndarráðs. Það er hið eina ámælisverða í þessu efni.

Nú fer ég senn að ljúka máli mínu, virðulegur forseti. Ég ætlaði aðeins að minnast í lokin á litla brtt. sem flutt er af virðulegum forseta Sþ. og varðar hönnunarframkvæmdir til nýbyggingar á Alþingislóðinni í Reykjavík. Ég hef hugsað mér að styðja þessa till. virðulegs forseta og vegna þeirra umræðna og þeirra ummæla sem ýmsir hv. þm. hafa haft um þetta atriði vil ég fara um það nokkrum orðum.

Í fyrsta lagi tel ég að það sé nauðsynlegt að bæta vinnuaðstöðu Alþingis. Hún er ekki nógu góð. Hún er hvorki nógu góð fyrir þm. sjálfa og þaðan af síður er hún samboðin því ágæta starfsfólki sem Alþingi hefur á að skipa. Ég tek undir orð hv. þm. Eiðs Guðnasonar þar um. Það er okkur hv. alþm., sem setjum m.a. lög um vinnuvernd, ekki til sóma hvernig búið er að starfsfólki okkar hér. Við mættum minnast þess að stundum ætlumst við til þess og raunar krefjumst þess að okkar starfsfólk vinni vinnudag sem naumast þekkist annars staðar í landinu, m.a. á stundum eins og þessum, virðulegur forseti, þegar við þurfum að halda uppi fundum nánast sólarhringunum saman. Þá vinnur okkar fólk við aðstæður sem eru langt í frá að fullnægja settum reglum um aðbúnað og hollustuhætti og vinnuaðstöðu yfirleitt.

Ég tel að Alþingi Íslendinga verði í miðborg Reykjavíkur um ókomin ár, a.m.k. áratugi. Ég er reyndar í hópi þeirra þm. sem hafa stundum bollalagt rómantíska drauma um að færa Alþingi til, jafnvel á hinn forna þingstað, en það er í raun og veru ekki ákvörðun um það eða annað sem við værum að taka með því að bæta úr húsnæðisvanda Alþingis eins og hann er í dag. Húsnæðisvandræði Alþingis eru staðreynd og það þýðir ekki að berja hausnum þar við steininn. Starfsemi Alþingis hefur breitt úr sér hér um lóðina og er nú í mörgum húsum, ég kann ekki einu sinni að telja þau, á dreifðu svæði umhverfis þessa byggingu. Það er ekki mjög hentugt fyrirkomulag. Ef það verður ekki ráðist í að bæta úr þessu með byggingu eða einhvers konar úrlausn, sem felur í sér sæmilega varanlega úrlausn um nokkra áratugi, heldur þessi þróun ugglaust áfram. Við dreifum úr okkur um enn fleiri staði í miðbæ Reykjavíkur. Er það endilega skynsamlegt að kaupa upp lóðir og hús á dýrasta byggingarstað landsins og þenja starfsemina út um víðan völl í staðinn fyrir að selja frekar þessar eignir og koma starfsemi Alþingis fyrir á einni vel skipulagðri lóð sem ekki tekur allt of mikið pláss?

Ég flutti um það allítarlega ræðu þegar rædd voru ný lög til þingskapa Alþingis á sínum tíma að það þyrfti að gera verulega bragarbót hvað varðaði starfsaðstöðu og starfsskilyrði Alþingis. Ég lýsti þar m.a. þeirri skoðun minni að það ætti að auka verulega við starfslið Alþingis, það ætti að koma á föstum riturum hjá þingnefndum og einstakir þm. ættu að fá aðstoðarfólk. Þetta þarf ekki að vera útgjaldaaukning fyrir ríkið, virðulegur forseti, heldur þvert á móti. Þetta gæti þýtt að sú þensla sem er í ráðuneytum og öðrum ríkisstofnunum gæti stöðvast og í staðinn yrði Alþingi betur í stakk búið til að sinna sínum verkum. - Og af því að hv. formaður utanrmn. situr í þingsalnum og hristir við og við hausinn án þess að því fylgi nokkur hljóð að þessu sinni (EKJ: Ég var að tala við Salome.) vil ég spyrja hv. þm.: Telur hann t.d. að það sé búið að utanrmn. Alþingis eins og maklegt væri? (EKJ: Já.) Þú telur það? (EKJ: Já.) Hv. formaður utanrmn. sér t.d. ekki ástæðu til þess að utanrmn. hafi á sínum vegum einhverja sérhæfða starfsmenn eða geti kallað slíka til, hafi t.d. ritara til að sinna verkefnum milli funda o.s.frv. (EKJ: Við höfum það úr utanrrn.) Já, þarna er svarið komið. Svona vilja menn hafa þetta. Það á að skaffa okkur vitneskjuna, það á að mata okkur, það á að matreiða ofan í okkur frv. o.s.frv. úr ráðuneytununum. Það er hlutverk löggjafarsamkomunnar að þiggja þaðan. Er það reisnin sem hv. formaður vill hafa yfir starfsemi Alþingis?

Ég held að virðing Alþingis sé ekki síst í hættu vegna þess að þm. eru spéhræddir og þeir hafa ekki þorað að gera við sjálfa sig og þingið eins og vert er og skylt er til þess að þessi stofnun geti starfað á sjálfstæðan hátt, lagt sitt sjálfstæða mat á hlutina og unnið sjálf að löggjöf eins og henni ber. Ég þekki ekki eitt einasta stjfrv. sem ekki er þannig til komið að það kemur einhverja boðleið utan úr bæ, ofan úr ráðuneytum eða utan úr kerfinu, úr einhverri stofnun eða annars staðar að. Og hvað gerist svo þegar þessi mál koma til umfjöllunar nefnda? Þau tilfelli sem ég þekki eru yfirleitt þannig að það er kallað í höfunda frv. úr ráðuneytinu eða úr viðkomandi stofnun. Þannig er hið faglega mat löggjafarsamkomunnar á málinu. Það er náð í höfundana úti í bæ og það er rætt við þá um málið. Svona á þetta ekki að vera á löggjafarsamkomu. Þar sem ég þekki til í öðrum þjóðþingum þá er þessu allt öðruvísi varið. Þingnefndirnar hafa ritara og starfsmenn. Þær hafa afl til að skoða málin sjálfstætt og til þess að þetta sé hægt þurfa menn bæði húsnæði, aðstöðu og fjárveitingar.

Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það sé ekki síst störfum Alþingis nauðsynlegt að það verði bætt úr húsnæðisástandinu. Og ég er ekki spéhræddur við að tala fyrir þessari byggingu þó að ég sé þm. af landsbyggðinni og heyri oft gagnrýni á að í Reykjavík sé nú verið að byggja þetta og hitt og hér sé hitt og þetta að hlaðast upp. Það er að vísu rétt, en úr því að Alþingi Íslendinga hefur horft á Seðlabankann byggja fyrir milljarð og Ríkisútvarpið fyrir meira o.s.frv. ætlar það þá ekki að þora að byggja yfir sig sjálft? (EKJ: Er það til eftirbreytni?) Það er ekki endilega til eftirbreytni, en ég held að ástæðan hefði þá verið meiri til að stöðva ýmislegt annað en þessa byggingu. Ég mun þora að standa frammi fyrir kjósendum mínum, hv. formaður utanrmrn., hv. þm. Norðurl. v. Eyjólfur Konráð Jónsson, sem enn þá er, og svara því hvers vegna ég er tilbúinn til að standa að því að byggja enn eina stóra byggingu í Reykjavík. Það er vegna þess að Alþingi Íslendinga er í Reykjavík, það eru ekki uppi tillögur um að flytja það annað á næstunni og hér þurfa þar af leiðandi húsnæði hús þess að vera og aðstaða til að sinna störfum sínum með sæmilegum hætti. Ég held að það sé enginn vandi fyrir þá hv. alþm. sem greiða þessari till. atkvæði að rökstyðja það og standa á því að þessi bygging sé fyllilega jafnþörf og reyndar miklu þarfari en margt annað sem verið er að gera í hinu opinbera kerfi. Ég hef ekki orðið var við það t.d. að menn hafi gagnrýnt útþenslu ráðuneytanna. Þau eru meira og minna að leggja undir sig heil hús hér í bænum. Ég er ekki viss um nema hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson ætti að skoða áform sjútvrn. í sínum húsnæðismálum á næstunni o.s.frv. Eg held að þörfin sé fyllilega jafnmikil og meiri hér en víða annars staðar að taka á húsnæðismálum og ég er þeirrar skoðunar reyndar að það eigi að byggj a þessa byggingu alla í einu og gera það á skömmum tíma vegna þess rasks sem það óhjákvæmilega hefur í för með sér að opna upp byggingarlóð í miðbænum. Það hlýtur líka að felast í því viss hagkvæmni að gera þetta þá með engri hálfvelgju ef menn fara í það á annað borð.

En að lokum, herra forseti, vil ég taka fram að það er skilningur minn að með því að styðja till. virðulegs forseta og fleiri sé ég ekki endilega að styðja í óbreyttu formi þá verðlaunatillögu sem hlaut 1. verðlaun í samkeppninni sem var s.l. vor. Það er ekki meining mín. Ég styð þessa till. í þeim skilningi að það sé meiningin að taka allar verðlaunatillögurnar og hanna hér hús þar sem ýmsar breytingar kæmu til greina, jafnvel eitthvað minni bygging en verðlaunatillagan er, og þannig gefist sem sagt tóm til að marka stefnuna um endanlega gerð hússins. Þá treysti ég því að niðurstaðan verði að lokum skynsamleg.