19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2160 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

1. mál, fjárlög 1987

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það er vert að þakka hv. 5. þm. landsk. þm. fyrir að vekja með tali sínu upp umræðu um þetta mál. Ég vil ekki tefja störf þingsins en ég nenni þó ekki að sitja undir þeim ásökunum og aðdróttunum sem hv. þm. hefur haft í frammi um afstöðu og skoðanir Kvennalistans. Honum væri nær að hlusta betur á mál okkar. En kannske heyrir hann ekki þó hann hlusti. Aldrei hafa þingkonur Kvennalistans lýst andstöðu við það að bæta vinnuaðstöðu starfsfólks og þingmanna á Alþingi. Hitt er annað mál að við höfum um það aðra skoðun en hann hvernig beri að leysa þau mál. Það tók ég skýrt fram í tali mínu áðan og það kom einnig fram í tali hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur, 7. landsk. þm. Afstaða okkar mótast af þeim rökum sem ég taldi upp í máli mínu áðan og hefur ekkert með vinsældaveiðar að gera. Ekki veit ég af hverju hv. þm. dettur það í hug nema það væri hans eigin hjarta nær um þessar mundir. Við höfum aldrei lýst neinni sérstakri andstöðu við hreinlætisaðstöðu þingmanna í þessu húsi eða neinu öðru. Og ég frábið mér, líkt og hv. 4. þm. Norðurl. v. , aðdróttanir um að þingkonur Kvennalistans beri virðingu Alþingis ekki fyrir brjósti líkt og aðrir þm.