20.12.1986
Efri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2185 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa hérna mjög langt mál. Ég ætla bara að segja þetta til þess að hv. þm. viti það því að nú er klukkan rétt að verða 5 og orðið nokkuð áliðið, allavega að mér finnst.

Ég vil byrja á því að fagna þeirri umræðu sem nú hefur breyst ansi mikið á ekki lengri tíma en tveimur árum, að menn skuli vera að tala núna í alvöru um frjálst fiskverð og fiskmarkaði og það jafnvel hv. þm. sem sögðu 1984, og ég leyfi mér að vitna, með leyfi forseta, í ræðu þar sem hv. þm. Björn Dagbjartsson sagði:

„Flestir hafa fyrir löngu gert sér ljóst að erlendar fyrirmyndir svo sem uppboðskerfi og fiskmarkaðir henta ekki íslenskum aðstæðum. Öll íslenska þjóðin lifir á því sem hægt er að fá fyrir fiskafurðir og þess vegna verður verðlagning að vera sem allra næst réttu lagi, en ekki háð duttlungum óábyrgra spekúlanta.“

Þetta var sagt þegar ég lagði fram frv. til laga um Verðlagsráð sjávarútvegsins. En því ber að fagna að það tekur ekki mjög langan tíma að skipta um skoðun og sjá að skynsamlegt er að gefa fiskverð frjálst því þessar staðhæfingar eru alrangar. Og til þess að fiskverð geti verið frjálst þarf að afnema þessar lagagreinar varðandi Ríkismat sjávarafurða.

Ég gerði vinnubrögð að umtalsefni nú við 1. umr. þessa máls, hvað þetta mál er seint lagt fyrir þingið og ég tel ekki ástæðu til að endurtaka það, en það finnst mér vera til lítillar fyrirmyndar fyrir hæstv. Alþingi.

Virðulegi forseti. Ég vonast til að þm. þurfi ekki að halda mjög langa ræðu þrátt fyrir þessi tilmæli mín eða þessa tilvitnun hjá mér, en ég get ekki orða bundist.

Aðeins áfram um frjálst fiskverð því að auðvitað blandast það inn í þessa umræðu. Þess vegna erum við að samþykkja Ríkismatið að það sé hægt, ef samkomulag næst í Verðlagsráði, að framfylgja frjálsu fiskverði eftir áramótin og grundvöllur fyrir því líka að samþykkja það frv. sem nú hefur verið lagt fyrir þingið varðandi fiskmarkaði, þ.e. að það sé ekki skylda að Ríkismatið sjái um ferskfiskmat. En það voru fleiri þm. með efasemdir varðandi frjálst fiskverð og hv. þm. Valdimar Indriðason (Gripið fram í: Já, minnstu á hann aðeins.) hafði auðvitað mikinn fyrirvara á því á þeim tíma, enda var það 1983 og það eru nú heil þrjú ár síðan það var. Ég held ég vitni ekki í ummælin. Hv. þm. geta lesið það í þingtíðindum þannig að það er ástæðulaust að vitna mjög mikið í það.

En í 22 ár hefur yfirnefnd Verðlagsráðsins í flestum tilfellum ráðið fiskverði hér á landi og ég held að það sé tími til kominn að hagsmunaaðilar takist á um þetta án hjálpar ríkisvaldsins. Þess vegna ætla ég að stuðla að því eins og hægt er að þetta frv. verði að lögum og lengja ekki þessar umræður, minnug þess að það er hægt að drepa mál á tíma hér eins og selafrv. forðum daga. Tvívegis í þessari hv. deild hefur það dáið á tíma. Ég held að það verði reynt, allavega skildi ég hv. þm. Björn Dagbjartsson þannig þegar hann sagði að það væri hægt að nota tímann við 3. umr. þessa máls. Nú skilst mér, virðulegi forseti, að 3. umr. verði ekki fyrr en í fyrramálið og fundir verði ekki í þessari hv. deild fyrr en hálfellefu í fyrramálið þannig að það yrði náttúrlega mjög auðvelt að fella málið á tíma nema við ætlum þá að lengja þinghaldið. Mér þætti vænt um ef hv. þm. vildi upplýsa það því mér finnst svona skemmtilegra fyrir fram að vita hvort það á að ljúka þingstörfum hér á morgun eða mánudag. Það fer alltaf svolítið í mig ef einstaka þm. ætla að ráða þingstörfum en það sé ekki bundið þeirra skoðunum á viðkomandi frumvörpum.

Það kom fram á fundi þar sem sjútvn. fékk viðmælendur að það yrði engin breyting í raun. Þeir menn, sem núna sjá um ferskfiskmatið, mundu aðeins færast til á launaskrá, yfir á laun hjá fiskvinnslunni. Þetta kom fram hjá fiskvinnslumönnum. Síðan kom fram hjá öðrum að þeir töldu ekki þörf á nema tveim yfirmatsmönnum, en þeir verða tíu, vegna þess að ágreiningsmál yrðu ekki mjög mörg eða mikil. Og það kom einnig fram að þar sem þeir yrðu að greiða kostnaðinn sem bæðu um yfirmat, þá mundi draga mjög úr að þetta yrði notað, þannig að ég held að það sé fljótræði að samþykkja þessi lög án þess að samþykkja brtt. sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason mun mæla fyrir hér á eftir, að skipuð yrði nefnd til þess að endurskoða alla starfsemi Ríkismatsins. Sú nefnd gæti auðvitað athugað það hvort ekki mætti skera þar niður ansi marga toppa, en það hefur verið gagnrýnt að yfirmönnum hafi fjölgað á meðan undirmönnum hafi fækkað. Það eru því mjög mörg atriði í þessum málum sem liggja enn óskoðuð fyrir.

Hæstv. ráðh. gæti jafnvel útskýrt fyrir sitt leyti hvernig hann sér þetta yfirmat eiga sér stað í dag, hvort þarna verður um tíu eða tvo menn að ræða. Mér fannst ansi mikið bera á milli manna sem sátu þó frá sömu hagsmunaaðilunum á sama fundinum eða höfðu svipaða hagsmuni. Annars vegar sagði fulltrúinn frá Ríkismatinu að það þyrftu að vera tíu en frá saltfiskverkendum, ef ég man rétt, að það þyrfti ekki nema tvo.

Ég endurtek aðeins að mér finnst það þurfa að koma hér skýrt fram hvort þetta mál á eftir að lengja umræðuna. Ef svo er þá tel ég að það sé alveg óhætt að samþykkja þá brtt. sem hér liggur fyrir því að m.a. er vandamál að samþykkja þá till. þótt skynsamleg sé vegna þess að málið er þá aftur farið í Nd. Mér finnst að ef við eigum að hafa hér samkomulag um gang þingstarfa þá þurfi að liggja nokkuð skýrt fyrir vilji þm. til þess að málin séu afgreidd og hvernig, og ekki síst stjórnarsinna í þessu tilfelli.