20.12.1986
Efri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekkert að blanda mér í þessa umræðu hér nú, kl. 20 mínútur gengin í 6 að morgni. Ég ætlaði hins vegar að segja fáein orð kannske við 3. umr. þessa máls, seinna á þessum degi. En þau ummæli sem hv. þm. Björn Dagbjartsson viðhafði hér áðan gera það að verkum að ég verð að segja hér örfáar setningar.

Í fyrsta lagi eru það hrein ósannindi að ég hafi beitt mér gegn því að hér yrði fundur í fyrrakvöld, á fimmtudagskvöldið. Ég benti á að það væri ekki nauðsynlegt að halda fund. En að ég hafi lagst gegn því að hér yrði fundur eru hrein ósannindi.

Og í öðru lagi þegar hv. þm. segir að ég hafi haldið uppi málþófi í Sþ. hér í kvöld, þá held ég í fyrsta lagi að hann viti ekki hvað málþóf er. Ég flutti tvær ræður og ég talaði ekki mjög lengi og bið engan afsökunar á því. Hafi verið um eitthvert málþóf að ræða ætti hann kannske að skoða hjá sínum flokksbræðrum í þessum umræðum. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það hafi neinu málþófi verið beitt í Sþ. í kvöld. Það voru málefnalegar og efnislegar umræður þar allan tímann og mér þykir þetta ekki mjög merkilegur málflutningur.