22.10.1986
Neðri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil upplýsa og hugga hv. 3. þm. Reykv. Stjfrv. eru allnokkur á leiðinni. Þau hafa verið til umræðu í þingflokkum stjórnarliðsins. Við erum búnir að afgreiða í mínum flokki allnokkur, eitthvað á annan tug stjfrv., sem væntanlega verða þá, sum hver a.m.k., lögð fyrir næsta fund og geta þá orðið til umræðu. Það er ekki óeðlilegt að það taki örfáa daga að komast í gang með flutning stjfrv.

Við áttum eftir að fjalla um mörg þessi mál í stjórnarflokkunum og enn sem komið er er allgóð samstaða um þau frumvörp sem við erum búnir að ganga frá. Ég hygg að það sé alveg ástæðulaust að hafa áhyggjur af því að þingstörf geti ekki gengið eðlilega og að stjfrv. verði ekki hér til umræðu alveg á næstu dögum.