20.12.1986
Neðri deild: 31. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2202 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Athugasemd mín lýtur að því að hér er enn þá gert ráð fyrir því að Framkvæmdasjóður fatlaðra fái á næsta ári 100 millj. kr., en það höfðu komið fram yfirlýsingar um það að ríkisstjórnin ætlaði af rausn sinni að hækka þá tölu í 130 millj. kr. Hv. formaður fjh.- og viðskn. hefur upplýst mig um að brtt. verði af hálfu meiri hl. nefndarinnar flutt við 3. umr. málsins. En það sem sagt lá ekki fyrir nú, þannig að ef þessi tala hefði verið samþykkt þá hefði í raun og veru verið hafnað þeirri ákvörðun um hækkun sem hæstv. fjmrh. hafði gefið yfirlýsingu um.