22.10.1986
Neðri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

52. mál, umferðarlög

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að við búum við úrelt vegalög. Það hefur mönnum verið ljóst lengi og unnið hefur verið að endurskoðun þess lagabálks. Alveg afleitur kafli í þessum lögum er 50. gr. sem fjallar um hámarkshraða og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa þm. til upprifjunar hvernig 50. gr. gildandi laga hljóðar:

„Í þéttbýli má eigi aka hraðar en 50 km á klukkustund. Utan þéttbýlis má eigi aka hraðar en 70 km á klukkustund. Almenningsvögnum, er flytja mega 10 farþega eða fleiri, og vörubifreiðum, sem eru 3,5 smálestir eða meira að heildarþyngd, má þó eigi aka hraðar en 60 km á klukkustund. Bifreiðum sem draga tengi- eða festivagna má eigi aka hraðar en 45 km á klukkustund. Dómsmrh. getur að fenginni tillögu umferðarlaganefndar sett nánari reglur um ökuhraðann, þar á meðal ákveðið lægri hámarkshraða almennt en að framan greinir eða á einstökum vegum. Dómsmrh. getur á sama hátt ákveðið hærri hámarkshraða en að framan greinir, allt að 90 km á klukkustund á einstökum vegum (hraðbrautum) og bundið þá heimild við ákveðinn árstíma. Í kaupstöðum og kauptúnum má setja slíkar reglur í lögreglusamþykktir.“

Ég tel að ekki sé búandi við þessi ákvæði eins og þau eru og þessum ákvæðum þurfi að breyta strax og er ástæðulaust að láta það bíða eftir heildarendurskoðun vegalaga. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja frv. á þskj. 52 um breytingu á umferðarlögum nr. 40 frá 23. apríl 1968, með síðari breytingum. Þetta frv. fjallar um að hámarkshraði á þjóðvegum verði 80 km á klukkustund og þar sem vegir eru bestir og öruggastir verði með sérstakri heimild 90 km á klukkustund í stað 70 km hámarkshraða sem nú gildir. Það er höfuðatriði varðandi umferð að akstri sé ætíð hagað í samræmi við aðstæður og fyllsta öryggis sé gætt.

Núgildandi ákvæði um 70 km hámarkshraða á þjóðvegum landsins eru löngu úrelt og er enda ókleift að framfylgja þeim og vegfarendur virða þau því miður ekki. Vegakerfi landsins hefur tekið algerum stakkaskiptum síðan ákvæðin um 70 km hámarkshraða voru lögfest og öryggisbúnaður bifreiða er nú allur annar og betri en þá var og þeir bílar sem nú eru í notkun eru gerðir fyrir mun meiri ökuhraða en nú er lögleyfður. Það er óskynsamlegt að halda í úreltar reglur sem ekki eru virtar og ókleift er að framfylgja. Því er lagt til að settar verði reglur sem unnt er að fara eftir og framfylgja.

Eðlilegt er að reglur um hámarkshraða séu breytilegar eftir ástandi vega og aðstæðum. Flestar nýrri stofnbrautir landsins þar sem landslag leyfir eru hannaðar fyrir ökuhraða sem er mun meiri en hér er lagður til. Merkingar um lögleyfðan hámarkshraða þurfa að vera miklu gleggri en nú er þannig að ökuhraði sé lækkaður þar sem ástand vega eða hönnun er þannig háttað að öryggi vegfarenda sé betur borgið með því að draga úr ökuhraða.

Þá er með þessu frv. lagt til að leyfilegur hámarkshraði bifreiða sem flytja fleiri en tíu farþega, svo og bifreiða sem eru 31/2 tonn að heildarþyngd verði hinn sami og annarrar umferðar en ekki 60 km eins og nú er nema dómsmrh. setji sérreglur þar um. Sama gildi einnig um bifreiðar sem draga festi- eða tengivagna, en leyfilegur hámarkshraði þeirra er nú 45 km á klukkustund. Ökuhraði umfram það sem aðstæður leyfa er mjög háskalegur, en það sama gildir um mjög misjafnan ökuhraða vegfarenda á sama vegarkafla þannig að mikið verði um framúrakstur.

Endurskoðun umferðarlaganna er, eins og ég sagði áðan, í undirbúningi og hefur lengi verið. Sú lagabreyting getur dregist og það er nauðsynlegt að Alþingi taki af skarið varðandi ökuhraða. Ökuhraðinn verður á hverjum tíma að miðast við aðstæður og er að mínum dómi nauðsynlegt að hafa hámarksákvæði um ökuhraða lögfest. Það má deila um hvort rétt tala sé í frv. eða réttar tölur. Ég tel óskynsamlegt að hafa ökuhraða á malarvegi yfir 80 km, m.a. með tilliti til hættu sem getur skapast af grjótkasti svo og annarri slysahættu. Það er fremur spurning um hvort ekki eigi að leyfa undir bestu kringumstæðum allt að 100 km ökuhraða á vegum með bundnu slitlagi. Ég vil að ökuhraðinn verði miklu sveigjanlegri en hann er núna og ökuhraða sé breytt á vegum jafnvel á fárra kílómetra fresti. 90 km ökuhraði er eðlilegur á góðum og öruggum vegi, en 50 km hraði er kannske kappnógur þar sem skilyrði eru slæm. Í Svíþjóð og Finnlandi er mér kunnugt um að það hefur gefist vel að leiðbeina ökumönnum með hraðatakmörkunarmerkjum og þar ekur maður ekki marga tugi kílómetra öðruvísi en fá ábendingar um breytingar á ökuhraða.

Í gildandi lögum er dómsmrh. gefin heimild til að ákveða allt að 90 km hraða á einstökum vegum eins og gert er reyndar í frv. Þetta á hann að gera að fengnum tillögum umferðarlaganefndar svokallaðrar. Hún er ekki til, enda er mér ókunnugt um að dómsmrh. hafi nokkru sinni heimilað 90 km ökuhraða. Ég legg til að lögreglustjóri í viðkomandi umdæmi í samráði við vegamálastjóra gangi eftir staðfestingu dómsmrh. um 90 km hraða.

Í þéttbýli eru ökuhraðafrávik ákveðin með lögreglusamþykkt og lögreglustjóri er réttur aðili til að meta æskilegan ökuhraða ásamt með vegamálastjóra sem þekkir hönnun vega. Ég lít svo á að 90 km verði að reglu þar sem aðstæður á annað borð leyfa. Ég er talsmaður þess að menn aki með varúð og lagi sig að aðstæðum. Jafnframt vil ég ekki tefja umferð að ástæðulausu, enda skapar það slysahættu þegar einn keyrir fram úr öðrum. Reglur á að hafa skynsamlegar og reyna að halda þær.

Umferðarslys á Íslandi eru hræðilega mörg og þjóðin færir miklar fórnir vegna þeirra. Þessum slysum eigum við að reyna að fækka með skynsamlegum reglum sem stuðla að bættri umferðarmenningu.

Ég legg ekki til að kaflanum um akstursíþróttir verði breytt frá gildandi lögum. Þar verður að koma til leyfi lögreglustjóra, viðkomandi sveitarstjórnar eða sveitarstjórna og á vegum utan þéttbýlis einnig leyfi vegamálastjóra.

Eins og öllum er kunnugt er í undirbúningi að endurskoða vegalögin og frv. þess efnis hafa hvað eftir annað verið hér til meðferðar. Í þeim stjfrv. sem ég hef séð hefur ekki verið tekið nægilega vel á ökuhraðaþættinum og þess vegna er hægt að taka sjálfstætt afstöðu til þessa frv. Mig langar að vitna til 37. gr. frv. til umferðarlaga, sem lá fyrir síðasta þingi, en þar segir svo um almennar hraðatakmarkanir:

„Ökuhraði má eigi vera meiri en

a. 50 km á klst. í þéttbýli, og

b. 70 km á klst. utan þéttbýlis og 80 km á klst. á vegum með bundnu slitlagi.

Ákveða má hærri hraðamörk á tilteknum vegum, þó eigi meira en 90 km á klst. ef aðstæður leyfa og æskilegt er að greiða fyrir umferð enda mæli veigamikil öryggissjónarmið eigi gegn því. Ákveða má lægri hraðamörk þar sem æskilegt þykir til öryggis og eða af öðrum ástæðum.“

Þetta tel ég ekki vera fullnægjandi og mætti þá sníða það frv. að þeim reglum sem Alþingi setur eftir mínu frv. 70 km hámarkshraði utan þéttbýlis á malarvegum er úreltur og þeim takmörkunum verður ekki hlýtt.

Ég legg til, herra forseti, að frv. fari að lokinni umræðu til allshn. til athugunar og heiti ég á nefndarmenn að afgreiða þetta frv. eftir íhugun. Ég get hugsað mér, eins og ég sagði áðan, breytingar á ákvæðum frv. ef nefndin telur það heppilegra.