20.12.1986
Efri deild: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2219 í B-deild Alþingistíðinda. (2080)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af því að jafnfrjálslyndur maður og Skúli Alexandersson skuli greiða atkvæði gegn þessu frv. Ég hef áhyggjur af því vegna þess að ég veit að allir hagsmunaaðilar og sjómenn meðtaldir eru samþykkir því að þetta frv. verði að veruleika og tel að hann sé að vaða í villu.

Það er annað sem mér finnst áhyggjuefni, sem hlýtur að snerta innstu taugar sjálfstæðismanna eins og þeir kalla sig, að með því að greiða atkvæði gegn minni tillögu, sem ég flutti við 2. umr., voru þeir að segja eins og svo oft áður: Báknið skal kyrrt. Þeir segja í kosningabaráttu: Báknið burt. En þegar á herðir segja þeir: Báknið kyrrt. Þar ætla þeir að verða og verða það áfram. En ég ítreka að ég held að það sé mjög miður ef eins vandaður maður og hv. þm. Skúli Alexandersson ætlar að verða fulltrúi forneskjunnar hér í hv. þingdeild.