22.10.1986
Neðri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

52. mál, umferðarlög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Á þskj. 52 flytur hv. 2. þm. Norðurl. v. frv. til l. um breyting á umferðarlögum. Í þessu frv., sem hv. þm. hefur nú þegar gert grein fyrir, er fjallað um eitt atriði umferðarlöggjafar, þ.e. umferðarhraða. Það má vel vera að ýmsir af alþm. geti stutt þetta frv. Ég skal ekki neinn dóm á það leggja. Það er hreyft hér mikilsverðu máli. En ég bendi á að það er aðeins eitt einasta atriði úr allri umferðarlöggjöfinni sem hér er fjallað um. Að vísu mikilvægt atriði.

Það er ósköp eðlilegt að hv. alþm. séu orðnir nokkuð langeygðir eftir að sjá frv., sem við vitum að er einhvers staðar á leiðinni, til umferðarlaga.

Nú er þar til máls að taka að síðsumars 1980 setti dómsmrh. saman nefnd hinna færustu manna til að hafa á hendi heildarendurskoðun á umferðarlöggjöfinni. Þessi nefnd vann mjög gott starf, en starfstími hennar varð að vísu nokkuð langur eins og verða vill. Ég held að hún hafi skilað af sér störfum seint á árinu 1983. Frv. byggt á störfum hennar var lagt fyrir Alþingi í upphafi árs 1984, þ.e. á 107. löggjafarþingi. Um það var fjallað, en það varð ekki útrætt. Á 108. löggjafarþingi, þ.e. á síðasta Alþingi, var sama frv. lagt fram í upphafi haustþings. Um það vænti ég að hafi verið fjallað allan s.l. vetur og ég held að það hafi einnig verið til athugunar allt s.l. sumar.

Nú er það svo með umferðarlöggjöfina að um ýmsa þætti hennar má endalaust rökræða og endalaust deila. Þar geta allir tekið til máls, því að við erum öll í umferðinni daglega. En það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að treina heildarendurskoðun á slíkri löggjöf lengi. Nú erum við enn og aftur að bíða eftir þessu frv. á 109. löggjafarþingi. Ég sé að það er á verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar. En við vitum að þessi löggjöf er bráðnauðsynleg af ýmsum ástæðum. Það voru færð fram þau rök haustið 1980 að margir þættir umferðarlöggjafarinnar væru orðnir úreltir. Það þyrfti að samræma löggjöfina nýjustu lagaákvæðum á Norðurlöndum og víðar um lönd og svo væri góð umferðarlöggjöf einn þáttur í því að skapa öryggi í umferð á hverjum tíma.

Ég held ég ræði þetta mál ekki efnislega mikið að þessu sinni. En væri til of mikils mælst að við hv. alþm. reyndum að sameinast um þá ósk og þá kröfu að þetta stjfrv. líti sem fyrst dagsins ljós svo að við getum farið að ræða það í heild og setjum okkur það mark að afgreiða það sem lög á þessu þingi? Minna má ekki vera.