20.12.1986
Sameinað þing: 36. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2232 í B-deild Alþingistíðinda. (2137)

1. mál, fjárlög 1987

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er á ferðinni brtt. , sem var flutt við 2. umr. og er svo endurflutt hér á þskj. 423,III, um að hækka fjárveitingar til yfirstjórnar mannvirkjagerðar á Landspítalalóð. Til að skýra það nánar fyrir hv. þm. er þar á ferðinni K-bygging, sem svo hefur verið nefnd, fyrir krabbameinslækningar og fleiri tegundir lækninga á Landspítalalóð.

Sú fjárveiting sem stendur í fjárlagafrv. og engin till. um hækkun hefur komið við frá hv. fjvn. er alls ónóg til að halda þeim framkvæmdahraða sem gengið er út frá í áætlunum stjórnarnefndar ríkisspítala og yfirstjórnar mannvirkjagerðar á Landspítalalóð til að taka megi á móti svonefndum línuhraðli og fleiri tækjum tengdum honum á tilsettum tíma, setja þau upp og hefja starfsemi í byggingunni eins og gert hefur verið ráð fyrir.

En nú hefur á síðustu stundu orðið sú breyting á að hv. meiri hl. fjvn. hefur flutt á þskj. 459 brtt. um heimildarákvæði í 6. gr. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta: „Fjármálaráðherra er heimilt í samráði við fjvn. að taka lán ef þörf krefur til að ljúka þeim byggingaráfanga sem nauðsynlegur er til að taka á móti línuhraðli í K-byggingu Landspítalans á umsömdum tíma.“ Þó að það væri vissulega æskilegra, herra forseti, að unnt væri að hafa fjárveitinguna hærri, fara ekki inn á þá óæskilegu braut að taka lán til framkvæmdarinnar verður ekki hægt að gera allt í einu, eins og einn hv. ræðumaður komst að orði svo smekklega áðan, og í trausti þess að af þessu verði og heimildarákvæði þetta verði nýtt dreg ég til baka brtt. mína á þskj. 423 og mun styðja brtt. meiri hl fjvn.