22.10.1986
Neðri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

53. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Þegar stórt er spurt verður oft lítið svar. Í raun og veru flaug mér það í hug hvort hv. þm. hefði ekki frekar átt að láta kalla á yfirmann launasamninga hins opinbera í landinu, hæstv. fjmrh.

Ég hef ærnar áhyggjur, það játa ég, til að mynda út af fóstrum og ekki síður út af kennarastéttinni, þar sem við höfum setið á rökstólum um hvað til bragðs skuli taka því að bersýnilegt er að þessar mikilvægu stöður, einna mikilvægustu stöðurnar sem þjónað er í landinu vegna uppeldis ungdómsins eru ekki lengur eftirsóknarverðar. Og það sem meira er, fólk er í þann veginn að grípa til örþrifaráða, sem slíkt verður að kallast ef menn segja starfi sínu lausu og hverfa af vettvangi.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekkert auðvelt viðfangs en bendi á að þar sem ég kem til skjalanna, til að mynda vegna kennara, þá á það við allt annað en hin beinu kjör og kaup. Þar erum við að tala um starfsaðstöðu, þar erum við að tala í besta falli ef maður fær að taka upp umræðu um orlof. Við erum að ræða um endurmenntun, eftirmenntun, símenntun o.s.frv., fjarkennslu og alla þá þætti sem í þessu falli eru af þessu fólki taldir nokkurt aukaatriði. En eins og menn þekkja þá er allt, sem snýr að hinu beina kaupi og því sem verður talið í peningum, að kjörunum, ekki á vegum eða valdi menntmrn. að taka til umræðu. Þetta verður að vera skýrt og ég veit að þetta þekkja hv. þm.

Ég geri ráð fyrir því að vegna þessara ótíðinda um uppsagnir þá komi þetta mál til alvarlegrar yfirvegunar og umræðu hið bráðasta. Þessi mál eru í raun og veru alltaf til umræðu vegna þess að það lætur hátt í þeim sem búa ekki að betri kjörum en raun ber vitni um. Og það gleymir því enginn í stöðunni að hér þarf að leita leiða til viðbragða við háskasamlegu ástandi sem fer í hönd ef svo heldur fram sem horfir. Ég er ekki með patentlausnir og það þekkja þeir sem hlýða á mál mitt að hér eru engar einfaldar aðferðir til þegar menn ræða um launakerfi í landinu.

Ég vil aðeins að lokum segja þetta, að ég mun beita mér fyrir því að það, sem frsm. og síðasti ræðumaður, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, 2. landsk. þm., gat um sérstaklega í máli sínu, það mun ég gera ráð mitt við hæstv. fjmrh. um og taka þetta mál til umræðu. Öðruvísi og að öðru leyti og frekari

get ég ekki um þetta sagt eða setið fyrir frekari svörum.