13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2262 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Forsendurnar fyrir þessu lagafrv. fá ekki staðist. Rökstuðningurinn fyrir því að grípa til lagasetningar fær heldur ekki staðist. Þess vegna væri vænst að Alþingi tæki þetta mál út af dagskrá og vísaði því aftur til deiluaðila og sáttasemjara.

Hæstv. forsrh. rökstuddi þetta í rauninni hér áðan. Hann sagði nefnilega, hæstv. forsrh., að tilraunir til samkomulags voru minni en æskilegt hefði verið og nefndi þá farmannadeiluna. En sannleikurinn er sá að þetta á við að því er báðar deilurnar varðar. Tilraunir til samkomulags hafa verið minni en æskilegt hefði verið.

Það hefur verið regla hjá Alþingi að grípa ekki inn í kjaradeilur með lagasetningu öðruvísi en fullreynt væri. Alþingi hefur aldrei gripið inn í kjaradeilur öðruvísi en fullreynt væri og aldrei við þær aðstæður að flm. frv. segði að tilraunir til samkomulags séu minni en æskilegt hefði verið. Það hafa verið forsendur fyrir því að menn gripu til lagasetningar.

Rökstuðningur ríkisstjórnarinnar fyrir því að grípa til lagasetningar í þessu tilviki er tvíþættur. Annars vegar segja þeir að deiluaðilar hafi verið ásáttir um eða sammála um að frekari sáttaumleitanir væru að svo stöddu gagnslausar. Þetta er fyrri röksemdin fyrir lagasetningu. Það verður ekki séð af viðbrögðum deiluaðila að það sé tangur né tetur af sannleika í þessum rökstuðningi. Kristján Ragnarsson fulltrúi LÍÚ lætur hafa eftir sér að hann telji að þeir sem hafi stofnað til deilunnar eigi að setja hana niður og semja. Forustumenn sjómanna, bæði farmanna- og sjómannasambands, hafa mótmælt þeim tilraunum til lagasetningar sem hér eru uppi. Sjómenn hafa ítrekað látið það koma fram í fjölmiðlum undanfarið að það hafi alls ekki verið fullreynt af þeirra hálfu og þeir hafi verið að bera fram tillögur til samkomulags alveg fram á seinustu stundu. Mér er það stórlega til efs, herra forseti, að það hafi nokkurn tíma gerst áður að umræðum, samningaumleitunum væri slitið þremur klukkustundum eftir að annar aðilinn hefði borið fram sáttatilboð. Ég held að svo sé ekki og ég held að þetta sanni að forsendurnar og rökstuðningurinn fyrir þessu lagafrv. fær ekki staðist.

Önnur röksemd ríkisstjórnarinnar er sú að fiskbirgðir, afurðabirgðir sem til sölu eiga að fara, séu of litlar. En það hefur rækilega verið rakið að þar er ekki sjómönnum um að kenna, þar er ekki þessu verkfalli um að kenna. Sú staða var löngu komin upp án þess að ríkisstjórnin aðhefðist nokkurn skapaðan hlut. Því segi ég það, herra forseti: Hvorki þær forsendur sem menn hafa gefið sér til þess að grípa til lagasetningar í kjaradeilu fá staðist í þessu tilviki né heldur þær röksemdir sem á borð eru bornar fyrir þessum lögum. Hvorugt af því fær staðist. Og það var vissulega athyglisvert að forsrh. skyldi sjálfur verða til þess að staðfesta það hér í ræðu sinni.

Við Alþýðuflokksmenn erum algjörlega andvígir þessari lagasetningu og teljum að það væri sæmst fyrir Alþingi að taka málið út af dagskrá og vísa því aftur til deiluaðila og sáttasemjara.

Ég held að sannleikurinn í þessu máli sé sá að ríkisstjórnin hafi alls ekki viljað að deiluaðilar semdu. Ekki verður það sagt að samningaumleitanir hafi staðið svo lengi milli deiluaðila að það verði talið til sérstakra tíðinda hversu lengi það hafi verið. Hæstv. forsrh. upplýsti það nefnilega líka að það hefði verið á fimmtudaginn í síðustu viku sem ríkisstjórnin seint og um síðir rankaði við sér í þessu máli. Og hvað þýðir það? Það þýðir að samningaumleitanir stóðu í raun og sannleika í þrjá daga.

Að því er farmennina varðar þá er verkfall þeirra ekki nema viku gamalt, og tæplega það, fimm daga gamalt. Það hefur ekki verið til siðs að menn veifuðu lagasetningu á þriðja eða fimmta degi í samningaumleitunum eða verkföllum. Nei, ríkisstjórnin hefur greinilega ekki haft áhuga á því að það yrði samið. Ef hún hefði haft áhuga á því að það yrði samið, þá hefði hún lagt sig fram strax um áramótin um að sjá til þess að samningaumleitanir kæmust í gang, þá hefði hún ekki farið að veifa gerðardómi loksins þegar skrið var komið á samningaumleitanir. Það er nefnilega einkennileg tilviljun að þó að skrið væri komið á samningana þá fór allt skyndilega í baklás eftir að samningsaðilar voru kvaddir á fund ríkisstjórnarinnar.

Því er haldið hér fram að þetta mál sé vonlaust með öllu, bæði að því er varðar fiskimennina og að því er varðar farmennina af því að einhver hafi neitað einhverju. Er það reglan í samningaumleitunum að menn játist undir allt á stundinni? Á það að duga að einhver neiti einhverju til þess að lagasvipunni sé veifað? Má enginn skella hurð í neinum samningaumleitunum í neinu máli til þess að lagasvipan sé ekki höfð á lofti? Hér eru ný viðhorf uppi ef svo á að vera. Nei, ríkisstjórnin virðist hafa gripið fyrsta hálmstrá sem hún gat fundið til þess að veifa lagasvipunni, gerðardómi. Og það er ekki gott til afspurnar og það er afleitt að ríkisstjórnin skuli hafa komið málinu í þennan hnút. Með afskiptum sínum af þessu máli hefur ríkisstjórnin í fyrsta lagi sannað að hún hafi ekki áhuga á því að koma samningaumleitunum í gang og í annan stað að eftir að þær voru komnar á skrið brá hún í rauninni fæti fyrir samningaumleitanir og setti málið í hnút. Það voru fjölmörg atriði að leysast. Ég hef lista yfir ein 13 atriði sem voru á borðum samningamanna og það voru einungis tvö sem voru í rauninni gjörsamlega óleyst. En það er líka þó nokkur afrakstur eftir þriggja daga fundahöld eða rúmlega það. Það er þó nokkur afrakstur ef menn hafa leyst 11 mál af 13. En þessu á nú að fleygja út af borðinu.

Nei, herra forseti. Þetta var ekki óheyrilega langt verkfall. Samningaumleitanir höfðu ekki staðið í óheyrilega langan tíma, heldur einungis í fáeina daga, ég tala nú ekki um að því er farmennina varðar, þar sem menn höfðu varla tyllt sér niður og staðið upp aftur áður en lagasvipunni var veifað. Og það er auðvitað alveg sérstök orðsending frá þm. Sjálfstfl. til flokksbróður síns, sem er í formennsku fyrir Sjómannafélagi Reykjavíkur, um að hann skuli nú ekki vera að stússa í þessum samningaumleitunum því að þeir leysi þetta allt fyrir hann og ákveði með lögum. Já, forsrh. sagði að tilraunir til samkomulags hefðu verið minni en æskilegt hefði verið og það voru virkilega orð að sönnu.

Var þá ekkert svigrúm, geta menn spurt, var þá ekkert svigrúm til þess að koma til móts við sjómenn í þessari deilu? Jú, það var vissulega svigrúm því að jafnvel þótt gengið hefði verið að öllum kröfum sjómanna - og það vita menn að í samningaumleitunum gerast hlutirnir ekki þannig - þá hefði verið verulegur hagnaður áfram af útgerðinni eða um 5%. Ríkisstjórnin sjálf hefur reyndar gefið út yfirlýsingu um að það sé nægt svigrúm. Hún var nefnilega með uppástungu um það hér fyrir fáeinum vikum að taka 400 millj. kr. af útgerðinni í olíugjald, í olíuskatt sem átti að renna í ríkissjóð. En það var ekki gert. Kröfur sjómanna nema ekki einu sinni þeim skatti sem ríkisstjórnin var að tala um að leggja á útgerðina, ekki einu sinni það, þannig að svigrúmið er fyrir hendi. Það er staðfest í útreikningum Þjóðhagsstofnunar, það er staðfest af ríkisstjórninni með stuðningi við tölur Þjóðhagsstofnunar og það er sérlega staðfest af ríkisstjórninni þegar hún hafði uppi áform um það einmitt að skattleggja útgerðina og kröfur sjómanna ná ekki einu sinni að hirða allt það sem ríkisstjórnin ætlaði sér í þessum efnum.

Höfðu ekki sjómenn eitthvað til síns máls, geta menn spurt í annan stað? Jú, það hafði áður verið lækkuð skiptaprósentan. Þegar illa áraði höfðu þeir virkilega tekið á sig þungar byrðar, orðið að taka á sig þungar byrðar. Þá hafði verið lækkuð skiptaprósentan, þá höfðu kjör þeirra verið rýrð og þá var því lýst yfir, t. d. af núverandi hæstv. forsrh. að vitaskuld fengju sjómenn þetta til baka þegar olíuverðið lækkaði. En það gengur eitthvað illa að efna það loforð. En þetta höfðu sjómenn vissulega til síns máls. Og hafa menn tekið eftir því að í gögnum Þjóðhagsstofnunar kemur í ljós að öll árin 1981, 1982 og 1983 voru sjómenn að dragast aftur úr verkamönnum í launum og yfirmenn á fiskiskipum reyndar eitt árið enn, nefnilega árið 1984, svo að það er ekki fyrr en á árunum 1983-84 sem aðeins fer að rétta úr kútnum. Og hvers vegna þá? Jú, vegna meiri aflabragða og þá um leið vegna meiri vinnu sjómannanna. Þeir urðu meira á sig að leggja. Já, olíukostnaðurinn var 20% af tekjum útgerðarinnar og tapið af útgerðinni var 11% þegar skiptaprósentan var lækkuð. En núna er olíukostnaðurinn kominn niður í 8% og hagnaðurinn af útgerðinni er í 9%. Það var bæði svigrúm og eins höfðu sjómenn mikið til síns máls.

En í þriðja lagi má spyrja: Var ekki til einhvers að vinna að það mætti takast að semja í þessari samningalotu? Jú, það var til mikils að vinna. Alþingi hefur með lögum brotist inn í þessi skiptakjör aftur og aftur. Útgerðarmenn og ýmsir stjórnmálamenn hafa oft talað um það að það væri nauðsynlegt að taka tillit til tilkostnaðar í útgerðinni og þá einkanlega til olíuverðs í kjörum sjómanna. Og hvað buðu sjómenn fram í þessum samningaumleitunum núna? Þeir buðu einmitt þetta fram. Þeir brutu „prinsipp“ sem þeir höfðu verið með, meginreglu sem þeir höfðu verið með allan undanfarinn áratug og sögðu við þjóðina, sögðu við útgerðarmennina, sögðu við ríkisstjórnina: Jú, við skulum taka tillit til olíuverðsins. Við skulum tengja skiptaprósentuna við olíuverð. Auðvitað hefur þetta kostað sjómenn verulegar umþenkingar og áhyggjur og sjálfsagt þó nokkuð miklar vangaveltur innan þeirra eigin raða. Þarna voru þeir að stíga verulega stórt skref. Maður hefði getað haldið að þetta skref yrði mikils metið. En svo er ekki. Það er í rauninni slegið á þessa framréttu hönd. En hérna var stórmál á ferðinni. Og það var auðvitað meginatriði að um svona mál, um svona grundvallaratriði, um svona prinsipp-ákvörðun færu fram frjálsir samningar en ekki lagaboð. En á þetta var ekki hlustað, á þessa hönd var slegið og málin voru sett í hnút. Ég fæ ekki annað lesið út úr þessu en ríkisstjórnin hafi þvælst fyrir málinu og hjálpað til við að koma því í hnút.

Síðan segir ríkisstjórnin í þessu lagafrv. sínu að það skuli miða við sjónarmið sem hafi komið fram um það hvernig skiptaverðmæti sjávarafla skuli ákvarðast. Það eru einu sjónarmiðin sem eru tekin fram í þessu lagafrv. Önnur sjónarmið eiga ekki upp á pallborðið. Hvað er átt við með þessu? Er meiningin að þvinga fram þessa grundvallarbreytingu, þessa breytingu á prinsipp-afstöðu sem sjómennirnir sögðust vera tilbúnir til að semja um? Er meiningin að þvinga hana fram með lagasetningu? Ég bara spyr. Ég veit að það koma ýmis sjónarmið fram þegar menn eru að semja. En það er sérkennilegt að taka það fram að einungis að því er varðar þetta eina atriði skuli sjónarmið höfð til hliðsjónar. En það er ekkert í þessu lagafrv. sem segir að það skuli taka tillit til þess hvað sjómennirnir lögðu á sig í skertum kjörum á árunum 1981-1984, ekkert um það að fá neitt til baka af því. Það er ekkert um það að við ákvörðun samkvæmt þessum gerðardómi skuli líta til þess hver hagur útgerðarinnar er eða hafa það í huga að hingað til hafa menn litið á þetta sem sameiginlegan pott sjómanna og útgerðarmanna og upp úr þeim potti kæmi mismikið eftir því hvernig áraði og þess vegna bæri að hafa hliðsjón af afkomu útgerðarinnar. Nei, ríkisstjórnin er tilbúin til þess að taka það inn í svona gerðardóm og lagasetningar að það skuli líta á afkomu útgerðarinnar þegar illa árar, en það má ekki líta á hana þegar vel árar. Þetta er, herra forseti, sannleikurinn í þessu máli.

Ég tel að það sé mjög alvarlegt mál þegar ákveðið er að grípa til lagasetningar í kjaradeilum og það eigi alls ekki að gera nema fullreynt sé og ég tel að Alþingi hafi yfirleitt fylgt þeirri reglu. Ég tel að Alþingi og ríkisstjórn hafi yfirleitt verið tilbúin til að þola þó nokkuð miklar þrengingar vegna verkfalla áður en gripið yrði til lagasetningar. Og ég er sannfærður um að það er algjört einsdæmi að menn fái ekki að tala saman í alvöru í meira en þrjá daga. Það er ekki góður vitnisburður um þá ríkisstjórn sem nú situr eða þá þm. sem ætla að styðja lagafrv. af þessu tagi að þeir skuli hafa farið svo gjörsamlega á tauginni að nú vilji þeir brjóta langa hefð að því er varðar afskipti með lögum og rjúka upp með svipuna fyrirvaralaust. Nei, herra forseti. Fyrir þessu lagafrv. ríkisstjórnarinnar eru ekki þær forsendur sem Alþingi hefur gert kröfu til í sambandi við lagasetningu í kjaradeilum. Og sá rökstuðningur sem ríkisstjórnin setur fram stenst ekki heldur. Þess vegna ætti að taka þetta mál hér út af dagskrá og vísa því til deiluaðila og sáttasemjara á ný. Það væri sæmst að gera.