13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2270 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. sagði það réttilega að það væri neyðarbrauð að þurfa að grípa inn í vinnudeilur og þekkir hann þetta af góðri raun eins og við mörg sem höfum setið á Alþingi í langan tíma. En að þessu sinni finnst mér nokkur flumbrugangur á ferðinni í sambandi við þetta frv. sem hér er flutt og við erum nú að ræða. Við fáum að sjá það fyrst hér í dag og fáum fyrst að vita um að þetta er á ferðinni frá okkar eigin samflokksmönnum, ráðherrunum, ja, ég síðast í gær, en það kom mér hins vegar ekkert á óvart vegna þess að samninganefndarmenn, bæði fyrir hönd farmanna og fiskimanna voru búnir að segja mér að það hafi legið í loftinu dögum saman í Karphúsinu að á ferðinni væri frv. sem mundi stöðva verkföll, bæði fiskimanna og farmanna. Það er eiginlega furðulegt hvað útgerðarmenn og fiskvinnslan í þessu landi virðast alltaf eiga greiða leið til þess að ná fram slíkum boðum og bönnum eins og fylgir þessu frv.

Það er auðvitað flumbrugangur að taka málið úr höndum sáttasemjara án þess að það skuli borin fram sáttatillaga. Ef sáttasemjari gefst upp á að leita og ná sáttum á milli manna þá hefði a.m.k. mátt reyna að setja sérstaka sáttanefnd í málið eins og ég mun svo sannarlega beita mér fyrir í sjútvn. þegar málið kemur þangað, en ég á þar sæti, því ég tel að það sé ekkert einsýnt að ekki sé hægt að ná samkomulagi enn þá, t.d. í fiskimannasamningunum.

Það er auðvitað alveg út í hött eins og hér hefur verið bent á að það séu markaðir erlendis sem séu í hættu og til umhugsunar þau orð hæstv. forsrh. er hann vitnar í magntölur um áramót en gat þess ekki að það munu hafa verið núna á fyrstu dögum ársins og er kannske enn verið að losa tvö frystiskip vestur í Bandaríkjunum sem munu hafa sleikt upp nær allan þann freðfisk sem í landinu er til. Það er eins og hér kom réttilega fram áðan, það er ekki til fiskur fyrir þennan markað. Það er búið að fara á aðra markaði með þann fisk sem annars hefði farið vestur. Og ég efast um að nokkuð af þeim skipum sem nú eru á veiðum landi hér heima til vinnslu, ég geri ráð fyrir að þau sigli öll með sinn afla á Vestur-Evrópu.

Ég vík þessu því alveg til hliðar og ég ætla ekki að ræða efnislega hér um fiskimannasamningana eða stöðu þeirra þegar málið var tekið úr höndum samninganefndarmanna en ég get ekki varist því að minnast svolítið á þá staðreynd að farmenn, meðlimir í félagi mínu, félagi sem ég er búinn að vera meðlimur í yfir 40 ár og þar af hef ég gegnt trúnaðarstörfum í um 30 ár og hef verið ritari stjórnar í um aldarfjórðung og ég mun að sjálfsögðu ekki, það er gott fyrir hæstv. ríkisstjórn að vita það strax, að ég mun ekki greiða þessu frv. atkvæði mitt þótt ekki væri nema út af því að ég ætla ekki að koma í bakið á félögum mínum í sambandi við þetta mál. Farmenn eru nefnilega að koma út úr bráðabirgðalögum, þeir eru að koma út úr bráðabirgðalögum og eru að reyna að ná samningum þegar þeim er hótað með þessu frv. lögum að nýju. Ég minnist þess, eins og hv. 3. þm. Reykv. benti réttilega á, að 1979 voru sett bráðabirgðalög um gerðardóm á farmenn. Ég kynntist því máli mæta vel vegna þess að ég flutti málið fyrir gerðardómi fyrir hönd Sjómannafélags Reykjavíkur. Þá áttu sæti í ríkisstjórn Alþb., Alþfl. og að sjálfsögðu Framsfl. Þá var kveðinn upp dómur af þessum gerðardómi og fylgdu nokkur skilyrði en þáv. ríkisstjórn eða þeir sem að henni stóðu sáu enga ástæðu til þess að fylgja þessum skilyrðum eftir og var þetta ein af langri runu svika sem hafa verið reidd að farmönnum.

Ég geri ráð fyrir því að fleiri þm. í liði stjórnarflokkanna séu sömu skoðunar og ég en það hefur ekki gefist neitt tækifæri til þess að bera saman bækur sínar, menn eru kallaðir til þings í dag og þeim er kynnt þetta frv. um leið og þeir ganga í salinn.

Ég skal því ekki hafa mörg orð um þetta við 1. umr. málsins. Eins og ég sagði þá á ég þess kost að ræða málið ítarlega við aðila í sjútvn. deildarinnar og væntanlega verður af því að nefndir beggja deilda vinni saman að lausn þessa máls. En vegna þeirra orða sem féllu hér fyrr í dag hjá einum ræðumanni vil ég aðeins undirstrika að það er út í hött að vera að bera tekjur sjómanna saman við aðra þegna þessa lands, einfaldlega vegna þess að þeirra vinnutímafórn, fjarvera, aðstaða við vinnu og hætta í starfi er allt önnur en allra annarra stétta í þjóðfélaginu, þannig að það er alveg út í hött að bera þetta saman. Ég bendi á það að með auknum tekjum á síðustu misserum hjá fiskimönnum fylgir að sjálfsögðu aukin vinna. Það hefur líka flutt miklar auknar tekjur ekki aðeins til útgerðarmanna heldur til þjóðarbúsins í heild.

Ég sem sagt lýsi því yfir, herra forseti, að ég mun ekki styðja þetta frv., ég mun hins vegar vinna í nefnd að því að reyna í fyrsta lagi að betrumbæta. Ég bendi m.a. á að það liggja hér á borðum þingmannatillögur frá öryggismálanefnd þingsins sem eru undirskrifaðar af níu þm., þar á meðal fimm þm. stjórnarliðsins, en þær tillögur fjalla sérstaklega um farmenn, þ.e. annars vegar um vinnurannsóknir á kaupskipum og hins vegar ákvæði um lágmarkshvíld og svo um viðurkenningu á alþjóðasamþykkt sem fjallar um menntun, þjálfun, skilríki og vaktstöðu sjómanna. Þessar þrjár tillögur fjalla beint um aðstöðu farmanna og reyndar fleiri sjómanna og ég held að það væri ráð fyrir sjútvn. þingsins, þegar málið verður tekið til meðferðar þar, að hafa þetta skjal í huga sem undirritað er af níu alþm., þar af fimm úr stuðningsliði stjórnarliðsins.