13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Seinasti ræðumaður, hv. 5. þm. Austurl. - eða er það misskilningur, hv. 4. landsk. þm., hann er ekki orðinn hv. 5. þm. Austurl. enn, gerði því skóna að ef starfsfólk á myndbandaleigunum, sem er auðvitað þjóðhagslega mjög hagkvæmur atvinnuvegur, færi í „stræk“ mundi ríkisstjórnin beita ofurvaldi lagasetningar á það fólk. Ég hef efasemdir um að þetta sé rétt mat. Það gæti nefnilega hugsast að hv. stjórnarliðar, þótt hugprúðir virðist vera, legðu ekki í að skapa það ástand sem yrði á Íslandi ef Dallas og Dynasty yrði nú loksins tekið út af markaðnum í löngu verkfalli. Það gæti legið við þjóðaruppreisn. Ég er ekki viss um að þeir séu svo kjarkaðir, en þeir telja samt sem áður, ganga upp í þeirri dul að því er virðist, að þeir hafi kjark og burði til að fara í sjómann við sjómannastéttina.

Þeir tala um þjóðhollustu og þjóðarhag og að sjálfsögðu gerum við ráð fyrir því að sjómenn mundu hlíta þessari lagasvipu. En hafa þeir hugsað næsta leik? Hafa þeir hugsað hvað síðan mundi gerast út frá þjóðarhag ef sjómenn ekki yndu þeim kjörum sem þeim væru þannig skömmtuð úr hnefa og afmunstruðu sig flestir hverjir af flotanum? Hvað yrði þá um birgðahaldið? Hvað yrði þá um þjóðarhaginn? Hvað yrði þá um góðærið sem þeir hafa skapað?

Þessi kjaradeila er út af fyrir sig ákaflega einföld. Það er ekki langt síðan, árið 1982, þegar olíukostnaðurinn vegna þreföldunar olíuverðs á alþjóðamörkuðum var að sliga útgerðina og þjóðarhag og bættist ofan á 11% taprekstur útgerðarinnar. Hvernig brugðust sjómenn við þá? Er ekki verið að saka þá um skort á þjóðhollustu? Minnast menn þess ekki enn að þeir gáfu eftir sinn hlut og endaði með því að hann var tekinn utan skipta? Hverjir voru það þá sem reiddu fram fé til að halda þjóðarskútunni á floti? Voru það ekki þeir menn sem nú eru sakaðir um skort á þjóðhollustu? Núna, þegar þjóðin í heild og útgerðin sérstaklega hefur notið verðhruns á olíu og hagur útgerðarinnar hefur af þeim sökum m.a. batnað mjög verulega og meðaltalsreikningar Þjóðhagsstofnunar sýna 9% hag, gerast sjómenn svo djarfir að minna menn á hvað þeir gerðu á sínum tíma og fara þess á leit í kjarasamningum að þeir fái í sinn hlut til baka eitthvað af því sem þeir á sínum tíma gáfu eftir og fara þó ekki fram á að fá það allt.

Hver er niðurstaðan síðan af rökstuðningi og forsendum þessa máls? Till. okkar um að vísa málinu frá er eins og samantekt á niðurstöðum þessarar umræðu. Hæstv. forsrh. viðurkenndi í framsöguræðu sinni og kvartaði undan því að tilraunir til samkomulags hefðu verið minni en æskilegt hefði mátt teljast. Það er m.a. með vísan til þess rökstuðnings forsrh. sjálfs sem við leggjum til að það verði tekið mark á þessum umkvörtunum hæstv. forsrh. og málinu vísað aftur þangað sem það á að vera, til samningsaðila og sáttasemjara.

Það er talað um að þessar samningaumleitanir hafi staðið yfir of lengi. Það hefur verið sýnt fram á að þær eru rétt á byrjunarstigi. Þær hafa staðið yfir fáeina daga, 3-5 daga. Það er vísað til þess venjulega að deiluaðilar hafi gefist upp og séu sammála um að málið sé komið í þrot. Það er hreinlega ekki rétt. Það hafði tekist samkomulag og var að takast samkomulag um býsna mörg af þeim deiluatriðum sem á listanum voru. Eftir stöðu tvö veigamikil deilumál. Það sem í milli ber í verðmætum talið eru ekki stærstu upphæðir sem hér hafa verið nefndar í hv. þingsölum. Deiluaðilar eru m.ö.o. ekki sammála um að fullreynt hafi verið í samningaumleitunum.

Og svo lokaröksemdafærslurnar um þjóðarhag. Það er vísað til þess að birgðahald sé skuggalega lítið og það kom ágætlega fram og var rækilega rökstutt í máli hv. 3. þm. Reykv. þegar hann spurði: Eru þetta einhver ný tíðindi? Vissu menn þetta ekki fyrir? Hvað hafa menn vitað þetta lengi? Hvar er þessi fiskur sem á að vera í birgðahaldi SH og Sambandsins á Ameríkumarkað? Er hann ekki í gámum m.a.? Hefur það ekki verið kunnugt mjög lengi? Er það kannske sök sjómanna? Bera þeir ábyrgð á birgðahaldi útflutningshringanna? A að gera þá ábyrga fyrir því? Væri ekki nær að spyrja: Hvað hefur ríkisstjórnin m.a. aðhafst? Ef hún telur þetta varða þjóðarhag, hvað hefur hún aðhafst, hvernig hefur hún beitt áhrifum sínum til að breyta þessu með aðgerðum í tæka tíð og tryggja þannig markaðsstöðu okkar á Bandaríkjamarkaði?

Þegar við drögum saman niðurstöður þessara umræðna fæ ég ekki betur séð en þær stefni allar að einni og sömu niðurstöðu. Það væri Alþingi til vansa ef menn hundsuðu þessar röksemdir, þessar niðurstöður, ef menn ekki brygðust við þeim á þann eina rökrétta máta að vísa málinu þangað sem það á heima, til deiluaðila og til sáttasemjara, vegna þess að þar var það á einhverjum vegi, og það er út í hött og styðst ekki við nein almenn rök að Alþingi grípi inn í með lagasetningu að svo stöddu.