13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2293 í B-deild Alþingistíðinda. (2195)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Nú kvað við annan tón. Núna er undanhaldið hafið. Nú þarf að stíga eitt djarfmannlegt skref fram á við í viðbót, nefnilega þetta: Dragið þið frumvarpsnefnuna til baka svo mennirnir fái tóm til þess að ljúka samningum án hótunar um lögbindingu.

Hæstv, forsrh. lét þess getið áðan að hann væri aldrei þessu vant ekkert hissa, hann væri ekkert hissa á því að stjórnarandstaðan hefði reynt í dag að koma vitinu fyrir stjórnina. Hann var ekkert hissa á því. Þetta minnir á að í útvarpsspjalli á gamlársdag kvað hv. 3. þm. Reykv. upp úr um að hann teldi það meðal markverðustu minninga sinna frá liðnu ári og árum hversu oft hæstv. forsrh. væri hissa. Hæstv. forsrh. hefur lýst hissu sinni yfir Seðlabankanum.

Hann er ákaflega hissa á Jóhannesi Nordal. Hann er furðu lostinn yfir þeim tíðindum að eina afleiðingin af stjórnvaldsaðgerðum ríkisstjórnarinnar var að afnema hámarksvexti, þ.e. lögleiða okur. Hæstv. forsrh. hefur hvað eftir annað lýst sig ákaflega hissa yfir framferði embættismanna í bankakerfi og embættismannakerfi sem gera sig digra og framkvæma ekki ákvarðanir hæstv. ríkisstjórnar. Hæstv. forsrh. hefur lýst sig ákaflega hissa á Stefáni Valgeirssyni og ekki kem ég tölu á það hversu oft hann hefur verið hissa á þingflokksformanni sínum, Páli Péturssyni, þar sem hann hefur nú reyndar í blaðaviðtölum lýst því yfir að ekki sé mark takandi á Páli. En á einu er hann ekki hissa. Hann er ekki hissa á stjórnarandstöðunni. Við stjórnarandstæðingar, sem reynum nú að koma vitinu fyrir hann og félaga hans í þessu máli, erum m.ö.o. ekki í því kompaníi. Hann treystir okkur til góðra verka.

En ég kom hér upp af einni ástæðu fyrst og fremst eða öllu heldur tveimur. Í fyrsta lagi til að samfagna þeim sáttatón sem allt í einu heyrðist frá fyrrverandi framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins, sem minntist þess greinilega að hann hafði einhvern tíma komið nærri kjarasamningum og vissi svolítið meira kannske hvernig þeir fara fram, og til að hvetja þá til að gleyma ekki þessum sáttatón og leggja á borðið með sér svolítinn verknað, nefnilega þann að draga frv. til baka.

En það er eitt atriði sem er seinasta hálmstrá stjórnarliða í þessu máli og það snýst um birgðahaldið. Þeir lýsa áhyggjum sínum yfir því - og það er raunverulega seinasta röksemdin fyrir þessu gerðardómsfrv. - að það varði þjóðarhag að birgðir séu ákaflega takmarkaðar. Enginn hefur vefengt það að þetta sé vandamál. En menn hafa spurt sem svo: Vissuð þið ekki áður að það væru háskalega litlar birgðir á Bandaríkjamarkað í landinu? Og menn hafa spurt sem svo: Hverjir bera ábyrgð á því að það er fiskleysi yfirvofandi á Bandaríkjamarkað? Menn hafa bent á að deiluaðilar, þ.e. sjómenn og farmenn, sem hérna er verið að leggja til að verði settir undir gerðardóm, hafa ekki áhrif á þetta mál. Þeir hafa ekki tekið þær ákvarðanir sem ráða neinu um það. Þeir bera ekki ábyrgð á því. Þeir verða ekki sakfelldir fyrir það.

En þýðingarmesta spurningin er þessi: Trúa hæstv. stjórnarliðar því að ef þeir keyra þetta mál í gegn með offorsi muni þeir þar með leysa birgðavandann á Bandaríkjamarkaði? Ég spyr. Birgðavandinn hefur verið þekktur lengi. Ekki voru það verkföll sem leiddu til þessa birgðavanda. Ekki voru það kjaradeilur. Birgðirnar hafa farið minnkandi án þess að það hafi verið neinar deilur uppi milli sjómanna og útgerðarmanna. Og telja menn þá líklegt að það eitt að binda enda á þessar deilur muni leysa þennan birgðavanda? Horfi menn svolítið fram í tímann. Ef sjómenn komast að þeirri niðurstöðu að þeir sætti sig ekki við óbilgirni í þessu máli, að þeim gefist ekki tóm til þess að semja, að málið sé tekið úr höndum sáttasemjara og deiluaðila þótt ýmis mál hafi verið leyst og þótt hvorugur aðilinn hafi lýst því yfir að þrautreynt hafi verið um samkomulag, ef þeir bregðast við á þann veg að afmunstra sig af skipum sínum, leysir það birgðavandann? Af hverju stafar þessi birgðavandi og hverjir bera ábyrgð á honum? Auðvitað má rekja hann til ákvörðunar útgerðarmanna. Og ég er ekkert að sakfella þá. Ég nefni sem dæmi frystihús vestur á Ísafirði, Norðurtanga, sem lengi vel beindi um 90% af framleiðsluvörum sínum á Ameríkumarkað en á s.l. ári var það hlutfall komið niður undir 20%. Hvers vegna? Rökin sem þeir nefndu voru þau að hagsmunir fyrirtækisins væru þeir að þeir beindu afurðum sínum á aðra markaði. Gengisþróun dollars hefur verið óhagstæð, kostnaður við markaðsöflun og markaðssetningu, sölu, dreifingu og umboðslaun í Bandaríkjunum er mikill. Það sem eftir stendur er tiltölulega lítið í samanburði við markaðssetningu á Evrópumörkuðum. Gengisþróun á Evrópumörkuðum hefur verið hagstæðari. Verðþróun hefur verið hagstæðari.

Á grundvelli slíkra upplýsinga um hag fyrirtækja hafa útgerðarmenn, sem stundum eru líka eigendur vinnslunnar í landinu, tekið ákvarðanir um að beina afurðunum á aðra markaði sem hefur leitt til þess, og við höfum séð það stig af stigi, að birgðahald vegna Bandaríkjamarkaðar hefur farið minnkandi. Nú spyr ég: Þeir sem bera ábyrgð og tóku þessar ákvarðanir voru útgerðarmenn. Hefur ríkisstjórnin séð einhverja ástæðu til þess að hlutast til um það að þessum ákvörðunum yrði breytt? Nú er ég ekki talsmaður þess að ríkisstjórnir séu með nefið niðri í hvers manns koppi eða úthluti mönnum fiski eða úthluti mönnum kvótum, en það er hlutverk ríkisvaldsins að grípa til ráðstafana í tæka tíð. Ef hún taldi á liðnu ári að þetta ástand væri hættulegt, þá spyr ég: Hvaða ráðstafanir gerðuð þið? Hvaða ráðstafanir gerðu þeir til að koma í veg fyrir eða draga úr þeirri hagkvæmni sem er í því að flytja óunninn fisk á Evrópumarkaði? Hvað hefði verið hægt að gera til þess? Hefði t.d. mátt gera tilraun til þess að stuðla að frjálsu fiskverði og uppboðsmörkuðum sem hefðu þá þýtt það að draga úr hvata manna til að flytja óunninn fisk úr landi? Hefði það getað stuðlað að aukinni birgðasöfnun? Hefði það dregið úr hættunni á því að við glötuðum markaðshlutdeild okkar í Bandaríkjunum? Spurningin er þessi: Hvað gerði ríkisstjórnin? Hafði hún það ekki í huga meðan hún átti að gera það að það væri að skapast hættuástand? Af hverju er hún að varpa sök, sem hún ber sjálf og aðrir aðilar í þjóðfélaginu, yfir á sjómenn og deiluaðila? Þetta eru augljósar spurningar og þeim hefur ekki verið svarað þannig að þetta seinasta hálmstrá um það að birgðavandinn sé höfuðástæðan fyrir því að ríkisstjórnin verði að grípa til gerðardóms á sjómenn stenst ekki. Jafnvel þó þessi gerðardómslög verði samþykkt og sáttatónninn frá hæstv. fjmrh. gleymist mun það ekkert leysa þennan birgðavanda. Það verður að gripa til annarra ráðstafana til þess. En einu gætu þeir kannske spurt sjálfa sig að. Menn spyrja um það í verkföllum eins og þessum hvað tap þjóðarbúsins sé mikið. Þetta er dálítið undarlegt verkfall vegna þess að það er fjöldi skipa að veiðum á sjó. Ég veit ekki nákvæmlega hvað þau eru mörg. Hinir vösku sjómenn, sem hæstv. fjmrh. nefndi hér og voru í anddyrinu áðan,sögðu að þau væru a.m.k. 30 eða 40. Það er þó nokkur afli um borð í þessum skipum. Er ríkisstjórnin reiðubúin til þess að beita áhrifum sínum á útgerðarmenn þessara skipa til þess að þau komi nú í land og þessi afli verði unninn hér heima? Ég veit að það er ekkert hagsmunamál sjómanna sem hafa verið að búa sig undir siglingu að svo verði gert. En sjómenn eru þjóðhollir menn. Þeir hafa áður sýnt í verki að þá munar ekki um að taka á sig byrðar og þeir kippa sér ekki upp við smámuni. Gæti það verið leið til að stuðla að sáttum í þessari deilu ef ríkisstjórnin beitti áhrifum sínum til þess að þessi skip kæmu í land sem sum hver hafa verið borin sökum um verkfallsbrot, að þessi fiskur yrði unninn í landinu og honum yrði beint á Ameríkumarkað?

Herra forseti. Seinasta hálmstráið, birgðavandinn, er dálítið út í hött vegna þess að það er alveg ljóst mál að jafnvel þó þessi lög væru samþykkt mundi það ekkert bægja frá dyrum okkar þeim fyrirsjáanlega vanda sem er búinn að vera augsýnilegur lengi og stafar af allt öðrum ástæðum og það er skortur á fiskafurðum á Bandaríkjamarkað til að tryggja þar markaðshlutdeild okkar.

Að lokum ein spurning í framhaldi af sáttatóninum: Hvernig væri nú að hæstv. ráðherrar svöruðu því hér og nú: Eruð þið reiðubúnir til þess að taka þetta frv. til baka? Hæstv. forsrh. hefur stundum sagt: Menn vaxa af því að viðurkenna mistök sín. Menn eiga að vera hreinskilnir og mannlegir og menn eiga að segja: Já, okkur urðu á mistök. Þetta er óundirbúið. Þetta var ótímabært. Það eru uppi sáttaumleitanir og samningavilji. En auðvitað semja menn ekki með slíkt sverð yfir höfði sér. Auðvitað er það fyrsta skilyrðið að ríkisstjórnin dragi þetta frv. til baka. Takið þið hugmyndum Farmanna- og fiskimannasambandsins vel. Setjið þið þetta mál í sáttanefnd og breytið þið vinnubrögðum. Reynið þið að ná sáttum og stuðla þannig að lausn málsins.