13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2297 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. 3. þm. Reykn. að það er komin upp algerlega ný staða í þessu máli. Stærri stjórnarflokkurinn, Sjálfstfl., eða formaður hans hefur lýst því yfir að það eigi að reyna til þrautar að ná sáttum næstu daga. Við þær aðstæður er gjörsamlega fráleitt í rauninni að knýja hér fram umræður með þeim hraða sem hefur verið í dag. Með tilliti til þessara nýju aðstæðna vil ég óska eftir því við hæstv. forseta Nd. að hann geri ráðstafanir til þess að formenn eða forustumenn þingflokkanna í þessari hv. deild geti hitt hann og hæstv. ráðherra sem hlut eiga að máli til að fara yfir þetta mál vegna þess að það hefur verið gert ráð fyrir því að það verði umræða um þetta mál hér áfram og í nefnd í kvöld og jafnvel hér í deildinni í kvöld eða nótt og síðan á morgun. Það er útilokað annað í ljósi yfirlýsinga hæstv. fjmrh., formanns Sjálfstfl., en að endurmeta stöðuna. Ég fer fram á það við hæstv. forseta Nd. að hann geri það eigi síðar en nú þegar.