13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í B-deild Alþingistíðinda. (2200)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls í þessari umræðu og skal ekki lengja hana um of, en ég hef í allan dag hlustað á mjög marga þm. tala aðallega upp til pallanna og mér finnst lítið til þeirra leggjast sumra að nota tækifærið til þess að skattyrðast við Kristján Ragnarsson, fjarstaddan manninn. Það er alveg sama hvaða afstöðu við höfum til þessarar deilu milli sjómanna og útvegsmanna, það er óviðeigandi og ódrengilegt að níða skóinn niður af manni sem heitir Kristján Ragnarsson jafnvel þó menn haldi að hann hafi einhver áhrif í þessari deilu. Einhvern tímann hefðu menn nú hér á Alþingi staðið upp í fimm eða sex tíma umræðu og tekið upp hanskann fyrir útgerðina og talsmenn hennar.

Að þessu mæltu vildi ég segja að ég hef hlustað hér á umræður eins og aðrir þm. Ég fékk þetta frv. í hendurnar klukkan tvö eins og mér skilst að aðrir þm. hafi fyrst séð það og ég hef verið að leitast við að gera upp við mig hvort það væru svo ríkar ástæður sem réttlættu að hér væri flutt frv. til laga um að svipta sjómenn verkfalls- og samningsréttinum. Ég hef lesið frv. yfir og grg. og mér sýnist að þm. séu almennt sammála um það beggja megin borðsins að langveigamestu rökin séu þau að markaðir okkar fyrir vestan séu í hættu vegna birgðaskorts. Ég held að það hafi ekki farið á milli mála að í þessum umræðum hefur komið í ljós að þessi forsenda stenst engan veginn. Birgðaskorturinn á sér miklu lengri aðdraganda og hann verður ekki leystur þó að verkfalli verði afstýrt nú næstu daga.

Ég held að ástæðan fyrir því að birgðaskortur er fyrir hendi fyrir vestan og að markaðirnir eru í voða sé einfaldlega sú að þeir sem gera út á fisk, þeir sem lifa af því að gera út á fisk, bæði útgerð og sjómenn, hafa séð sér hag í því að selja fiskinn annað og haft meira upp úr því. Hvaða stefna er það fyrir íslenskt þjóðarbú að selja fisk upp á líf og dauða inn á þann markað sem við fáum kannske lakasta verðið á? Ég mundi telja að það sé vísvitandi lífskjaraskerðing sem ég mundi ekki fyrir mitt leyti styðja eða taka undir. Ég held að það sé ósköp eðlilegt að útgerðin og sjómennirnir standi saman um að reyna að selja fiskinn á þann markað þar sem fæst mest fyrir hann. Sú þróun er augljós og henni verður ekki snúið við hvort sem við getum afstýrt verkfalli nú eða ekki.

Mér sýnist þess vegna, herra forseti, að þetta mál snúist um tvennt. Annars vegar um það hvort nokkrir fiskkaupendur í Bandaríkjunum verði fisklausir í nokkra daga, fiskkaupendur sem borga mun lægra verð en margir aðrir, eða hins vegar hvort aðilar innan sjávarútvegsins eigi að axla þá ábyrgð að leysa sín eigin mál og að sjómenn fái eins og aðrir að halda sínum samningsrétti og verkfallsrétti í lengstu lög. Ég skal viðurkenna það, herra forseti, að ég á mjög auðvelt að gera það upp við mig að standa frekar með hagsmunum íslenskra sjómanna en hagsmunum bandarískra veitingahúsa.

Nú hefur það gerst í lok þessarar umræðu að hæstv. fjmrh. og formaður Sjálfstfl. hefur komið inn í umræðuna og lýst því yfir að hann sé fús til að styðja þau vinnubrögð að nú verði látið á það reyna hvort sjómenn og útvegsmenn geti náð samkomulagi og hann talar um að það eigi að láta á það reyna næstu sólarhringa. Ég tek undir þetta tilboð og þessa tillögu formanns Sjálfstfl. sem ég tel að sé drengileg og vel mælt og heiðarleg tilraun til að leysa þessa deilu.

Farmanna- og fiskimannasambandið mun hafa gert tillögu um að skipuð verði samninganefnd þriggja alþm. Ég segi: Auðvitað vísum við þessu máli bara aftur til sáttasemjara þar sem málið á að vera. Hvað eru menn að gera með embætti sáttasemjara ríkisins sem gefst svo upp eftir tveggja eða þriggja sólarhringa viðræður? (GJG: Oft vinnur sáttanefndin með sáttasemjara.) Já, já, alla vega skiptir það ekki meginmáli hvort það er sáttanefnd og það mega allir vera í sáttanefnd mín vegna. Ég held að málið eigi heima núna hjá sáttasemjara og eftir þetta tilboð formanns Sjálfstfl. á málið að fara beinustu leið inn í Karphús aftur og þar á að leysa það. Þess vegna styð ég tilboðið heils hugar. Ég held að það sé út af fyrir sig bæði þýðingarlaust og vitlaust að halda þessari umræðu áfram lengur og styð því þær tillögur sem fram hafa komið hér um að þessari umræðu verði nú þegar frestað.