13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2300 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Mér sýnist alveg ljóst að það sé vilji þm. að þessum málatilbúnaði verði ekki haldið áfram. Málin eru komin í algjörlega nýja stöðu. Það liggur fyrir yfirlýsing frá ríkisstjórninni, ég verð að skilja það svo þegar hæstv. fjmrh. talar, a.m.k. formanni Sjálfstfl. um það að þetta mál eigi að fara úr farvegi þingsins og til samningsaðila. Þetta er nákvæmlega það sama og ýmsir þm. stjórnarandstöðunnar hafa verið að tala um. Þetta er reyndar nákvæmlega það sama og við þm. Alþfl. höfum flutt tillögu um. Við viljum bjóða það, þm. Alþfl., að draga okkar tillögu til baka og gefa ríkisstjórninni þannig tækifæri til að hafa frumkvæði að því að draga sína tillögu til baka. Það sem ríkisstjórnin á að gera í þessu tilviki teljum við að sé augljóslega það að draga sína tillögu til baka og þá erum við tilbúnir til þess að draga okkar tillögu til baka. Ég beini þessu til ríkisstjórnarinnar. Ég held að það væri farsæll endir á þessu máli eins og það er nú að það væri alls ekki í farvegi þingsins heldur einmitt hjá samningsaðilum eins og hæstv. fjmrh. sagði að það ætti að vera og eins og við þm. stjórnarandstöðunnar höfum bent á að það ætti að vera.