13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2303 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Mér sýnist í rauninni að þetta mál sé orðið nokkuð skýrt. Það hefði verið æskilegt að forustumenn þingflokka og forseti hefðu hist út af þessu máli, en ég sé ekki betur en að stjórnarliðið sé að herða sig upp í það að hafa þá skoðun á málinu núna að það eigi að afgreiða þetta frá 1. umr. og til nefndar. Það var a.m.k. yfirlýsing hæstv. forsrh. og formanns þingflokks Framsfl. áðan. En nú er liðin sú tíð að þeir tali fyrir ríkisstjórnina. Það hefur gerst frá og með deginum í dag í þessum málum. Þannig er óhjákvæmilegt að fá upplýsingar um hvaða afstöðu Sjálfstfl. hefur í þessu máli líka, hvort hann er þeirrar skoðunar að það eigi að reyna að ljúka 1. umr. málsins og setja það í nefnd.

Ég vil fyrir mitt leyti mótmæla því mjög harðlega að þetta mál verði sett í nefnd. Ef það á að ná árangri í samningum næstu daga á að draga frv. til baka. Það er fráleitt við þessar aðstæður að vísa málinu í nefnd vegna þess að þar með er í rauninni hótunin yfir höfði manna áfram og við þær aðstæður gera menn ekki skynsamlega samninga. Það er ekki hægt. Þess vegna skora ég á hæstv. ríkisstj. að stíga nú skrefið til fulls afturábak í þessu efni og draga frv. til baka. Það liggur fyrir eftir þennan umræðudag að ríkisstjórnin telur að frv. hafi verið frumhlaup og að ákvörðunin um að kalla saman þing í dag til að fjalla um þetta mál hafi líka verið frumhlaup. Ég held að það sé nauðsynlegt að við áttum okkur á þeirri stöðu. Þess vegna skora ég enn og aftur á hæstv. ríkisstj. að hún dragi þetta mál til baka.

Ég verð hins vegar að segja, herra forseti, að hér liggur einnig fyrir till. til rökstuddrar dagskrár sem ég er samþykkur út af fyrir sig. Ef ríkisstjórnin ekki dregur frv. til baka og till. um rökstudda dagskrá verður felld, er þá meiri hluti þingsins að segja að málið megi ekki fara fyrir samningsaðila, vegna þess að innihald hinnar rökstuddu dagskrár er það að málið fari fyrir samningsaðila? Felli meiri hluti þingsins þessa rökstuddu dagskrá er hann að hafna yfirlýsingum forustumanna stjórnarflokkanna áðan. Þess vegna sé ég ekki betur en að ríkisstjórnarliðið hér hljóti, ef það vill fylgja niðurstöðum sínum og afstöðu eftir, að samþykkja þessa till. um rökstudda dagskrá. Það eitt er í samræmi við yfirlýsingar forustumanna stjórnarflokka. Ef þeir ekki fallast á þessa till. um rökstudda dagskrá eru þeir auðvitað bara að segja: Við getum ekki fallist á hana vegna þess að till. er komin frá stjórnarandstöðuflokki. Þessi till. er flutt af þm. Alþfl. Ég get fyrir mitt leyti stutt þessa till. með ánægju. Ég tel það eðlilegt við þessar aðstæður ef ríkisstjórnin vill ekki hér og nú ganga fram og segja: Burt með pappírinn. Þetta er hvort eð er tóm vitleysa. Það vita það allir eins og staðan er núna.