13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2306 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil freista þess að koma með málamiðlunartillögu um meðferð þessa máls. Ég er ekki ein af þeim sem hafa sérstaklega gaman af að heyra menn játa frumhlaup sín. Mér finnst það hins vegar ánægjulegt ef Alþingi Íslendinga kemur sér saman um að reyna að leysa þetta mál. Verði það hæstv. ríkisstj. óbærilegt að málið fari ekki í nefnd hygg ég að það megi leysa með því að við sendum það nú til nefndar með einu skilyrði, að Alþingi komi ekki saman fyrr en 19. þ.m. eins og það átti að gera. Þar með tel ég að ríkisstjórnin hafi komið svo vel til móts við samningsaðila og gefið þeim þann tíma að ég held að við þetta ættu allir að geta sætt sig.

Við skulum ekki gleyma því, sem ég held að hafi tæplega komið fram í þessari löngu umræðu hér í dag, að mönnum liggur ekki öllum á að komast til veiða. Þeir sem eru á sóknarmarki eru nokkuð rólegir og þeir sem eru á aflamarki vita að þeir ná upp þeim fiski sem þeir mega ná upp. Það eru loðnusjómennirnir og fiskimennirnir sem eru á línuveiðum sem verkfallið bitnar á. Eins og menn vita er helmingur aflans utan kvóta í janúar og febrúar. Þannig, held ég að sjómenn geti gefið sér nokkurn tíma. Ég er þess hins vegar fullviss, að eftir þá umræðu sem þeir hafa hlýtt hér í dag og áreiðanlega að ég vona búnir ofurlítið meira trausti á þessari stofnun eftir daginn, munu þeir sýna okkur það traust að þeir geri allt sem þeir geta til að flýta fyrir sínum samningum. Ég held að ef svo færi yrði meira trúnaðartraust milli samningsaðila og Alþingis eftir þennan dag en áður. Ég bið hæstv. ríkisstjórn að huga að því hvort sú lausn kynni að vera fær, að um leið og við féllumst á að senda málið til nefndar væri tryggt að við yrðum ekki kölluð hingað aftur fyrr en 19. þ.m.

Ég vil jafnframt lýsa því yfir að ég hefði að sjálfsögðu greitt atkvæði till. hv. þm. Alþfl., en þar sem mér sýnist ekki vera möguleiki á því að fá hana samþykkta held ég að þarna væri kostur sem vel væri hægt að nýta.