13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2306 í B-deild Alþingistíðinda. (2214)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að undirstrika það sérstaklega að hér er ekki bara um formsatriði að ræða. Það er rangt hjá hæstv. fjmrh. Er það eðlileg framþróun mála að samninganefndarmenn gangi annars vegar á milli ríkissáttasemjara í samningahugleiðingum og nefndar hér á Alþingi sem hefur til meðferðar gerðardóm? Þetta er alger fjarstæða. Annað hvort verða menn að velja. Það er ekki til að fara báðar leiðir. Menn semja ekki og það er ekki til þess ætlast af heilindum hjá þeim sem mæla svo að menn geti gengið milli Heródesar og Pílatusar í þessum erindum. Aðra hvora leiðina verða menn að velja. Meðan þetta mál hangir sem sverð yfir samninganefndarmönnum gerist ekkert af viti í þessari deilu. Þá eru menn að kalla yfir sig áframhald þess sem hér hefur gerst í dag, áframhald þess að ríkisstjórnin ætlar að stjórna á þennan hátt. Þetta verða menn að gera sér ljóst. Þetta vita allir sem komið hafa nálægt samningum í kjaradeilum. Þetta getur ekki gengið. Ég bið menn að athuga það. Ég bið menn líka að athuga það sem hv. þm. Svavar Gestsson vék að áðan. Ef menn fella dagskrártillöguna um að vísa málinu frá eru menn líka að fella það að gefa samninganefndarmönnum tóm til að ræða málið. Menn skulu átta sig á því. Menn ganga ekki undir jarðarmen hæstv. ríkisstjórnar í gegnum þingnefnd hér á Alþingi og síðan til sáttasemjara.

Hæstv. forsrh. kemur hér upp og segir að málið sé bara í vinnslu. Hann hafi síðast talað við sáttasemjara núna fyrir stuttu. Hvað þýða svona vinnubrögð? Ég veit það a.m.k. að velflestir samninganefndarmenn Alþýðusambands Vestfjarða fóru vestur á firði í dag. Kannske er búið að gera ráðstafanir til að kalla þá aftur hingað í kvöld. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? A að taka mark á slíkum vinnubrögðum af hálfu æðstu manna þjóðarinnar? Auðvitað er þetta hrein firra. Menn verða að velja aðra hvora leiðina, annaðhvort að draga til baka frv., og þá hefur verið lýst yfir að till. verði dregin til baka líka, ellegar ganga til atkvæða um þetta hvort tveggja. Og þá vita menn hvað þeir eru að gera ef þeir eru að fella í fullri vitneskju till. um að vísa málinu frá og þar með að hafna að menn geti undir eðlilegum kringumstæðum gengið til samningaviðræðna.