13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Allt þetta mál er furðulegt í allri málsmeðferð. Ég vil að það komi ljóst fram vegna þeirrar ádeilu sem hefur dunið á forsrh. að ríkisstjórnin öll og ráðherrar sem viðstaddir voru og tóku ákvörðun eru ábyrg fyrir því að málið kom hér á dagskrá. Mér er illa við að sitja undir því að einn maður sé gerður ábyrgur fyrir því sem ég tek þátt í. Þrír ráðherrar voru fjarverandi, en það voru aðrir menn, sem gegndu þeirra stöðum, viðstaddir, þannig að ríkisstjórnin öll er samábyrg fyrir því að málið kom á dagskrá Alþingis hvernig sem menn annars líta á málið sem slíkt.

Ég er sammála og sáttur við, og hefði helst óskað að sú málsmeðferð sem formaður Sjálfstfl., fjmrh., stakk upp á hefði orðið ofan á strax en það varð ekki. Ég segi eins og hann, þegar hann kom frá París, hann var ekki viðstaddur og ekkert samráð haft við hann, hann vissi ekki af fundinum: Nú hefur ný ákvörðun verið tekin án þess ég hefði hugmynd um, án þess ég væri viðstaddur, þrátt fyrir að vera í ríkisstjórn, en ég samþykki þó málsmeðferðina.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.