19.01.1987
Efri deild: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2313 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

Um dagskrá

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Við hv. þm. höfum verið kallaðir hér til fundar. Reyndar vorum við kallaðir líka til fundar í síðustu viku. Nú er það eina mál sem á dagskrá er tekið út af dagskrá og borið fyrir sig að hæstv. sjútvrh., sem er flm. málsins, sé veðurtepptur austur á fjörðum trúlega. Ég hef ekki trú á því að það sé ekki hægt að komast til þings landleiðina, en með því að stóla upp á það að komast um Egilsstaðaflugvöll held ég að hæstv. ráðh. hefði átt að huga betur að málum vegna þess að sá ágæti flugvöllur er nú meira og minna ófær af öðrum sökum en að það sé ófært flugveður.

Ég mótmæli því að þannig sé staðið að málum að þm. séu kallaðir hingað til þings og hér sé ekki hægt að hefja umræðu um mál eins og þetta, ekki síst af þeim hæstv. ráðh. sem dagana fyrir þingið taldi fulla ástæðu til að þrýsta í gegnum hv. deild málum sem alls ekki voru nægilega rædd að mínu mati. Ég tel þess vegna að við þurfum að festa okkur það í minni að nú á fyrsta degi þingsins sé málefnum eins og þessum frestað og ekki tekin til umræðu.