19.01.1987
Neðri deild: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2318 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

174. mál, stjórnarskipunarlög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er rætt, um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, var flutt á síðasta þingi að beiðni Samtaka um jafnrétti á milli landshluta og er hér komið öðru sinni fyrir þingið.

Ég tjáði mig um málið í fyrra í öllum aðalatriðum og lýsti stuðningi við meginhugmyndir sem fram koma í þessu frv. þó ég hefði fyrirvara um ýmis atriði sem þar komu fram, svo sem vænta má. En þegar ég tala um meginhugmyndir þá er um að ræða þá hugsun að leita nýrra leiða með breytingar a stjórnarskrá, eins og hér er lagt til, til að efla landsbyggðina og skapa viðspyrnu gegn þeirri ófarsælu þróun sem lengi hefur verið í gangi, en alveg sérstaklega nú hin síðustu ár, í samskiptum landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.

Sjálfur hef ég, áður en þetta frv. var kynnt hér, flutt till. inn á Alþingi um nýja byggðastefnu og valddreifingu til héraða og sveitarfélaga. Þáltill., sem ég flyt um það efni ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, er í þingnefnd í sameinuðu þingi og þar til athugunar. Sú till. var flutt í fyrra og raunar í hittiðfyrra einnig, og fyrir liggja umsagnir um hana frá mörgum aðilum, einkum þeim sem malið mest snertir, samtökum sveitarfélaga, landshlutasamtökum sveitarfélaga og fleiri aðilum út um landið, mjög jákvæðar undirtektir í öllum meginatriðum.

Ég minni einnig á það að þegar frv. til sveitarstjórnarlaga var til meðferðar hér á þinginu í fyrra þá flutti ég brtt. við frumvarpið um lögfestingu héraðaskipunar í landinu, útfærða hugmynd sem varðar þá hugsun sem fram kemur í þessu frv. til nýrra stjórnarskipunarlaga og þá hugsun sem fram kemur í 62. gr., og er vissulega skyld till. mínum um skiptingu í héruð, þar sem hér er kveðið á um að „landið skiptist í fimm fylki sem sveitarfélögin mynda. Sveitarfélög eru grunneiningar stjórnskipunar landsins.“

Munurinn á mínum till. og þeirri hugmynd sem hér kemur fram varðandi fylki er sú að í till. mínum og fleiri þm. Alþb. er gert ráð fyrir því að kosið verði beinni lýðræðislegri kosningu til héraðsþinga þannig að allir séu þar kjörgengir, einnig sveitarstjórnarmenn, en þeir eigi þar aðild með málfrelsi og tillögurétti ásamt alþm. Að öðru leyti eru þær hugmyndir, sem ég hef um þetta flutt, bæði þáltill. og brtt. við frv. til sveitarstjórnarlaga í fyrra, útfærðar einnig hvað snertir landfræðileg mörk héraða, tilhögun og kosningu til héraðsþinga, tekjustofna til þessara nýju sjálfstjórnareininga út um landið og mörg fleiri atriði sem taka þarf afstöðu til í lagatexta.

Ég get vísað til fyrirvara minna frá síðasta þingi við nokkur atriði þessa frv., og ætla ekki að endurtaka það hér, en tek það fram til að enginn misskilningur sé uppi að ég er stuðningsmaður þeirrar meginhugsunar sem þarna liggur að baki og þeirra hugmynda sem bornar hafa verið fram af áhugasamtökunum um jafnrétti milli landshluta og tel raunar að þær hugmyndir séu vonum seinna fram komnar í ljósi þeirrar þróunar, þeirrar öfugþróunar sem við höfum verið vitni að nú hin síðustu ár og raunar um alllangt skeið.

Ég held að það sé nauðsynlegt, herra forseti, að staldra hér við einmitt varðandi þessa þróun og minna þar á nokkur atriði um leið og ég mun fjalla um nokkra þætti sem snerta svæðisskiptingu landsins í héruð.

Þann 10. janúar s.l. birtu fjölmiðlar fregnir um þróun varðandi búsetu manna og búsetutilfærslu miðað við 1. desember 1986 og tilfærslur frá því árið áður. Þar kom það fram að öll fjölgun landsmanna hafði lent á höfuðborgarsvæðinu og engin af landsbyggðarkjördæmunum, ef við teljum Reykjanes ekki í þeim hópi, fær neitt í sinn hlut af fjölgun landsmanna. Þetta er verri þróun, þetta er enn stærra stökk í þessum efnum en árið 1985 miðað við árið 1984 og árið þar á undan. Þessar tölur segja okkur að það er að herða á byggðaflóttanum, hann er stríðari en nokkru sinni fyrr. Við, sem erum umbjóðendur landsbyggðarinnar, vissum raunar að þar horfði í mikið óefni, en tölurnar eru ólygnar eins og þær liggja fyrir okkur. Þó segja þessar tölur ekki alla söguna um hvað er í gangi, hvað er „í pípunum“, eins og stundum er sagt þegar talað er um uppsafnaðan vanda og afleiðingar af ríkjandi stefnu.

Það er ekki nokkur vafi á því að það er los á fjölda fólks út um landsbyggðina, meira los en oftast áður og í mörgum tilvikum eru það erfiðleikar á að losna við skuldbindingar og fasteignir sem halda í fólkið. Og ef ekki hefði orðið sú breyting af völdum stjórnarstefnunnar nú undanfarin ár, þar sem hin óhefta markaðshyggja hefur gengið í gegn á mörgum sviðum og afleiðingin verið gífurlegt verðfall á fasteignum úti um landið, þá væru afleiðingar stjórnarstefnunnar hvað snertir byggðaflóttann komnar fram í enn alvarlegri mæli en gerst hefur skv. tölulegum upplýsingum. Þetta tel ég ekki vera að mála neinn skratta á vegginn. Ég held að þetta sé nokkuð samdóma álit manna, m.a. sveitarstjórnarmanna víða út um landið, þó nokkuð hagi þar misjafnlega til eftir kjördæmum.

Ég vil nefna það, herra forseti, í sambandi við þessa þróun að það kemur fram í niðurstöðum af tölum varðandi síðustu þrjú ár að fólksfjölgunin á þessu tímabili, raunar alveg frá 1981 eða 1982, hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu. Á hverju ári 1984-86 hefur fólki fjölgað meira þar en sem nemur heildarfjölgun landsmanna svo bein fækkun hefur orðið í öðrum landshlutum samanlögðum. Fækkunin í þeim, bein blóðtaka, nam um 20 manns árið 1984, 142 árið 1985 og 321 árið 1986. Mannfjöldinn óx um 1,7% á höfuðborgarsvæðinu árið 1986 og um 0,4% á Suðurnesjum. Eina kjördæmið þar sem mannfjöldi stóð í stað var Austurlandskjördæmi, það kom skást út í þessum efnum, fékk þó ekkert í sinn hlut af 0,8% fjölgun landsmanna. Í öllum hinum kjördæmunum er um beina fólksfækkun að ræða milli ára. Á Vesturlandi og Suðurlandi er fækkunin um 0,2%, á Vestfjörðum um 0,5%, á Norðurlandi eystra um 0,6% og á Norðurlandi vestra, sem stendur höllustum fæti, er fækkunin 1,1%, hvorki meira né minna, 1,1% bein fækkun. Fjölgunin í Reykjavík hefur aldrei orðið hlutfallslega meiri milli ára en einmitt á þessu tímabili eða 1627 manns, bein fjölgun í Reykjavík á milli ára. Það er svona nokkurn veginn eins og allir íbúar í minni heimabyggð, Neskaupstað, hefðu tekið sig upp og flutt suður og lagt til þennan skammt. Fjölgunin í Reykjavík hefur hlutfallslega aldrei orðið meiri frá því 1962 og bein fjölgun í tölum ekki meiri síðan 1959.

Þetta eru staðreyndir sem við alþm. hljótum að draga okkar ályktanir af eða maður skyldi ætla það. Ég er satt að segja steinhissa á því að úr röðum stjórnarflokkanna skuli ekki koma fram meiri viðbrögð en þau sem endurspeglast í því að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson tekur á árinni í þessum málum með því að fylgja hér inn í þingið frv. til nýrra stjórnarskipunarlaga að beiðni áhugasamtaka úti um landið, og þökk sé honum fyrir það, og menn sem eru farnir að ókyrrast í Framsfl. og búið er að reka þar út af framboðslistum, eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson, hann tekur undir. En þá er líka upptalið, ef undanskilið er kvak sem heyrðist frá hæstv. forsrh., þegar hann átti að tala um byggðamál norður í landi (Gripið fram í: Var ég ekki búinn að því áður?) í sumar, og sagði eitthvað á þá leið að hann teldi nú þessar hugmyndir um fylkjaskipan eða svæðisskiptingu landsins í formi héraða allrar athygli verðar. En náttúrlega var þess gætt af hæstv. félmrh., sem fer með sveitarstjórnarmálin, að afneita þessu staðfastlega jafnóðum. Hann hefur ítrekað það margoft úr þessum stóli undanfarin ár að hann sé alger andstæðingur þess að stofna til héraðaskiptingar í landinu og vilji ríghalda í sveitarfélagaskipunina og ríkisvaldið sem hinar einu grunneiningar í samfélaginu. Virðist ekkert geta haggað hæstv. félmrh. Framsfl. í þessum efnum. Hann er við þetta heygarðshorn, enda gekkst hann ásamt stjórnarliðinu sameinuðu fyrir því að taka út úr frv. til sveitarstjórnarlaga þann vísi sem þar var til svæðisskiptingar með sérstökum kafla um héruð, hann var felldur út í heild sinni, sá veiki vísir sem hafði verið til varðandi millistig í stjórnsýslunni, að vísu vísir sem var mjög kominn úr takt við tímann, þ.e. sýsluskipanin í landinu var afnumin og henni kastað fyrir róða, og í staðinn voru settar hugmyndir sem eru með mjög sérstökum hætti. Ég held ég verði að orða það svo að sjaldan hef ég orðið meira undrandi á lagasetningu hér á Alþingi en varðandi þessi efni og þau ákvæði í nýjum sveitarstjórnarlögum um héraðanefndir og byggðasamlög sem koma ættu í staðinn fyrir sýsluskipunina. Úti um landið eru menn, sem hafa verið að reyna að kynna sér þessi nýju lög, nú að velta vöngum yfir hvernig í ósköpunum eigi að útfæra þessar hugmyndir nýrra sveitarstjórnarlaga ríkisstjórnarliðsins hér á Alþingi.

Frá hæstv. félmrh. hefur náttúrlega ekkert komið fram leiðbeinandi um þessi ósköp, enda botnar hann vafalaust ekki mikið í því hvernig eigi að útfæra þessi efni. Og nefnd, sem menn hafa haft fregnir af að ráðherrann ætlaði að skipa til þess að kafa ofan í myrkvið þessara nýju sveitarstjórnarlaga, hefur ekki verið kynnt opinberlega svo mér sé kunnugt, en kannske getur hæstv. ráðh. eitthvað sagt okkur frá því hverja hann ætlar að kveðja til til að lýsa inn í þetta gatasigti sveitarstjórnarlaganna, sem hann stóð fyrir að lögfest var hér í fyrra, sem þýddi ákvarðandi veikingu miðað við allar aðstæður fyrir landsbyggðina þar sem kippt var þá fótunum undan sýslufélögunum án þess að nokkuð bitastætt kæmi í staðinn.

Það er ekki fagur ferill Framsfl. hér á Alþingi sem fer með sveitarstjórnarmálin í þessum efnum þegar litið er til verka hans hér. Um Sjálfsttl. þarf náttúrlega ekki að tala að því leyti að hann hefur fúslega tekið undir allar hugmyndir um að opna gáttirnar fyrir óheft markaðslögmál, m.a. vaxtafrelsið sem er eitt mesta afrek, eða gjarnan tíundað sem helsta afrek - það er best að stigbreyta ekki í hástigi þegar talað er um afrek hæstv. fjmrh., en hann taldi það þegar vaxtafrelsi var lögleitt hér í hittiðfyrra líklega, var það ekki sumarið 1985 (Gripið fram í: 1984.) eða 1984, þá taldi hann það mesta afrek sem gerst hefði í tíð þessarar stjórnar og eitt þýðingarmesta skref í efnahagsmálum sem stigið hefði verið, að opna gáttirnar fyrir okrið í landinu, sem nú blasir við sem löglegt, enda var það auðvitað hugsunin hjá Sjálfstfl. að opna fyrir löglegt okur í landinu, það var engin spurning. Þeir bara brostu í kampinn þegar þeir sáu að forsrh. kom af fjöllum þegar hann áttaði sig á því að hann hafði staðið að því með sínum flokki að lögleiða okrið á Íslandi.

Annað hefur svo gengið eftir í þessum málum. Það hefur ekki staðið á að fjármagnið hefur streymt eftir lögmáli skilvindunnar, eftir lögmáli „akkúmúlasjónarinnar“, sem kallað er á erlendu máli, samþjöppunarinnar, inn á þann miðpunkt sem verið er að beina fólkinu á Íslandi í kjölfar fjármagnsins. Það eru þessir tveir flokkar sem hér hafa verið við stjórn í bráðum fjögur ár sem hafa staðið að þessu. Og geðleysi þingmanna stjórnarliðsins utan af landsbyggðinni er slíkt að það þarf að kasta mönnum út af framboðslistum, þannig að líkt er við aftöku af þeim sem fyrir verða, til þess að menn rumski í þessum efnum, en þó ekki meira en svo að hv. síðasti ræðumaður er enn að velta vöngum yfir því, rétt eins og hann gerði í fyrra, hvort það sé nú nauðsynlegt að stoppa skilvinduna stóru og að eitthvað komi í staðinn til þess að rjúfa gangverk hennar, fjármagnsins, dælunnar miklu sem færir fólkið í kjölfar fjármagnsins og atvinnutækifæranna suður.

Herra forseti. Það er fróðlegt að átta sig á því þegar stjórnarliðið er til málamynda að lýsa inn í þróun byggðamálanna í samvinnu við stjórnarandstöðuna, í kjölfar nýrra kosningalaga og loforða um það að nú skuli tekið á til jöfnunar aðstöðu í landinu og við fáum í hendur skýrslu um þróun byggðar, atvinnulífs og stjórnkerfis, skýrslu byggðanefndar þingflokkanna, að virða fyrir sér þær upplýsingar sem þar er að finna um afstöðu einstakra flokka til þessara mála, þar á meðal Sjálfstfl., þingflokks hans, sem í heild sinni hafnar öllum hugmyndum um millistig í stjórnsýslunni, hafnar öllum slíkum hugmyndum með sérstakri samþykkt. Framsfl. vísar bara á hin ágætu sveitarstjórnarlög sem hann stóð að að samþykkja undir forustu félmrh. Það er fróðlegt að velta því fyrir sér og þeim tölulegu upplýsingum sem þó koma fram í þessari skýrslu hérna. En hitt er þó kannske athyglisverðara að finna hvað ekki kemur fram í þessum efnum, hvað vantar.

Ég minni á það að á síðasta þingi flutti einn af varaþingmönnum Alþb., Þórður Skúlason, þm. Norðurl. v., þaðan sem fólksflóttinn er hvað stríðastur þessi árin, fsp. hér í þinginu um skiptingu útflutningsverðmætis eftir kjördæmum. Þá kom það fram að hæstv. viðskrh. gat ekki upplýst þetta, hvert væri útflutningsverðmæti eftir kjördæmum. Og segir þar í svari ráðherra, með leyfi hæstv. forseta:

„Upplýsingar um útflutningsverslunina er að finna í tveim ritum Hagstofu Íslands, Hagtíðindum og Verslunarskýrslum. Upplýsingar í þessum ritum eru byggðar á skýrslum þeirrar tollstöðvar sem afgreiðir útflutningsskjölin. Flestir stærstu útflytjendurnir eru í Reykjavík og fá þeir útflutningsskjöl afgreidd hjá Tollstjóraskrifstofunni í Reykjavík.“ Síðan er tekið dæmi af fiskimjöli.

Niðurstaðan hjá ráðherranum verður sú að það er bara ekkert hægt um þetta að segja. Það er ekki hægt að upplýsa á Alþingi um það hvernig útflutningsverðmæti skiptist eftir landshlutum. Þetta fer að sjálfsögðu inn í dæluna stóru hérna, gangvirki bankakerfisins og hagkerfisins hér í Reykjavík. Þar er allt stimplað og þess gætt að hagtölur um þetta, hlut landsbyggðarinnar í sambandi við verðmætasköpun í landinu, komi ekki fram. Eina vísbendingin sem hæstv. ráðh. gat gefið til þess að standa ekki beinlínis á gati og veita einhver svör var vísbending um uppruna útflutningsverðmætis sjávarafurða eftir skiptingu aflaverðmætis eftir kjördæmum. Það var það eina sem hann hafði haldbært, aflaverðmætið eftir kjördæmum. Vissulega er það vísbending um hitt, þó það segi ekki alla sögu, og það eru eingöngu þá afurðir sjávarútvegs sem þar er um að ræða, og byggir á upplýsingum sem opinberir hagstjórnaraðilar safna ekki en Fiskifélag Íslands heldur til haga og birtir. Síðustu tölurnar voru frá 1984. Þar kom fram, með leyfi forseta, ég tel rétt að rifja þetta aðeins upp fyrir hv. þm.:

Árið 1984 leggur Suðurland til 11,6% aflaverðmætis. Það eru auðvitað fyrst og fremst Vestmannaeyjar. Þótt þorp á suðurströndinni komi þar einnig við sögu þá eru það auðvitað Vestmannaeyjar, stærsta útgerðarstöð landsins, sem eiga lungann af þessu aflaverðmæti. Vesturland er með 9,6%, tæp 10%, Vestfirðir 12,9% aflaverðmætis, Norðurland vestra 7,5%, Norðurland eystra 12,6%, Austfirðir 14,9% og erlendis landað 10,6%. Og hvað skyldu svo Reykjavík og Reykjanes leggja til aflaverðmætis í landinu? Höfuðborgarsvæðið - ég undanskil Suðurnesin, þar sem er auðvitað útgerð þó að kippt hafi verið fótunum undan henni í vaxandi mæli undanfarin ár- en höfuðborgarsvæðið þar sem búa ein 56-57% af íbúafjölda landsins, er með aflaverðmætið 20 3% 1984 samkvæmt upplýsingum ráðherrans. Og það er reyndar Reykjavík og Reykjanes, það er sem sagt allt með. Útgerðarstaðirnir á Suðurnesjum eru þarna með og þá nær þetta 20,3%. Austfirðir eru með næsthæsta tölu á eftir Reykjavík og Reykjanesi, nærri 15% í aflaverðmæti á þessu ári. En hver ætli sé nú íbúatala Austurlands, sem hlutfall af heildaríbúafjölda landsins, hver ætli hún sé? Síðast þegar ég sá þessar tölur bjuggu um 5,5% landsmanna í Austurlandskjördæmi sem leggur til þrefalt það hlutfall í aflaverðmæti.

Nú er ég ekki að segja að þetta sé einhver deilitala sem eigi að útfæra alveg hárnákvæmlega sem skipti viðmiðun að öllu leyti. Menn mundu segja að fyrr mundi nú lagast en að við fengjum t.d. þetta hlutfall af skatttekjum í landinu eða eitthvað þess háttar. Ég geng ekki svo langt á þessari stundu, virðulegur forseti, að segja að það eigi að ganga fram hér og nú. En auðvitað hljótum við landsbyggðarmenn að benda á þessar staðreyndir, benda á það að á sama tíma og undirstaðan í gjaldeyrisöflun landsmanna fer fram á landsbyggðinni að 4/5 hlutum, þá er fjármagninu rænt frá atvinnuvegunum á þessum svæðum og sett inn í dæluna og uppbygginguna á afleiddum greinum þjónustu og viðskiptalífs hér í höfuðborginni.

Þetta er rán, herra forseti, það er ekki hægt að kalla það annað. Og þetta er löglegt rán, eins og okrið hefur verið lögleitt í tíð þessarar ríkisstjórnar. Og það sjást engin iðrunarmerki á stjórnarflokkunum í þessu efni, ekki hin minnstu iðrunarmerki vegna þessarar þróunar, utan frá einstaka hrópanda í eyðimörk, eins og hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, sem gengið hefur gegn sínum flokki með því að leggja hér inn frv., og mönnum sem búið er að „taka af“ á opinberum vettvangi af frammámönnum í Framsfl., sem eru aðeins farnir að skoða til veðurs, hvort það sé nú skynsamlegt að negla sig við þessa stjórnarstefnu. Og svo er Sambandi ungra framsóknarmanna leyft að láta aðeins í sér heyra þessa dagana.

Það kemur engum á óvart sem staðið hefur í samstarfi við Framsfl. að þegar kosningadagurinn er í sjónmáli, menn eru komnir með hann svona nærri í almanakinu, fari nú eitthvað að ókyrrast undir pilsföldum maddömunnar. (FrS: Hefur hv. þm. reynslu af því?) (Gripið fram í: Hann hefur verið þar.) Ég hef ekki verið undir þeim pilsföldum. Ég hef hins vegar starfað með Framsfl. og ég hef verið vitni að þeirri dæmalausu þróun sem þar hefur orðið, ekki út frá mælikvarða hv. þm. Friðriks Sophussonar því hún er auðvitað ágæt á hans mælikvarða, en dæmalausu þróun út frá mínum mælikvarða, þar sem þessi flokkur, sem einu sinni var talinn brjóstvörn landsbyggðarinnar og sótti fylgi sitt út á land í ríkum mæli og hefur gert alveg fram undir þennan dag, hefur gerst hjálparkokkur á búi auðhyggjunnar í landinu og veitt mestu auðhyggjustjórn á Íslandi á dögum lýðveldisins forsæti, og skrifað upp á allan gjörninginn og lögleitt okrið á Íslandi ofan á annað.

Ég hef verið að reyna að grafast fyrir um það með ýmsum hætti hver sé hlutur landsbyggðarinnar í sambandi við hagþróunina í landinu, eftir að það er ljóst að maður fær mjög ófullkomnar upplýsingar í gegnum þessa skýrslu byggðanefndar þingflokkanna um þau efni. Það liggja fyrir þinginu fsp. til forsrh., m.a. varðandi skiptingu aflaverðmætis fram til ársins í fyrra, útflutningsverðmæti sjávarafurða, gjaldeyrisöflun og landsframleiðslu eftir kjördæmum. Það verður fróðlegt að fá svörin frá hæstv. forsrh. um þetta efni, skrifuð. Það getur ekki staðið lengi á því að hæstv. ráðh. greini okkur frá niðurstöðum um það efni. Hann hlýtur að leggja allt kapp á það. Hann var hér í ræðustólnum áðan að segja okkur frá því að hann væri jú sá sem bæri ábyrgð á byggðamálunum í ríkisstjórninni. Ekki ætla ég að vefengja það að hann sem yfirmaður Byggðastofnunar telji sig vera þar í forsæti einnig.

Ég hef einnig lagt fram fsp. til hæstv. viðskrh. um innlán og útlán innlánsstofnana eftir kjördæmum. Ég held ég brjóti engan trúnað því hæstv. ráðh. var að segja mér það hér utan fundar að honum sýndist að þetta gæti orðið nokkuð snúið, að reiða fram upplýsingar um þetta efni, ég var reyndar búinn að heyra í embættismönnum um hið sama, að þeir eru eitthvað ókyrrir núna í jólaleyfinu eftir að þeir hafa fengið þessa fsp. og þessi verkefni í hendur, að það sé hægt að draga þessar upplýsingar upp úr embættismannaliðinu hér í Reykjavík, Seðlabankanum, starfsmönnum banka.

Nei, þau eru þykk lokin á gullkistunum hér syðra, þau eru ansi þykk. Og það skal sko ekki farið að haga hagsýslugerð í landinu, upplýsingaöflun í landinu þannig að það sé ljóst og dregið fram hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur staðið að verkum í þessum efnum, hvernig skilvindan mikla hefur unnið, sem er hv. þm. Stefán Guðmundsson, formaður stjórnar Byggðastofnunar, ef ég man rétt, sem er að moka, sem er að smala fólkinu utan af landsbyggðinni og gengur hvað harðast fram í Norðurlandskjördæmi vestra eins og nýlegar tölur sýna.

Þetta er með þeim ósköpum, þessi þróun í byggðamálunum, að pláss, þéttbýlisstaðir úti um landið, sem voru í nokkrum vexti fyrir fáum árum og var verið að byggja upp sem þjónustumiðstöðvar fyrir ákveðin svæði, tóku við fækkun sem átti sér stað í sveitunum og stöðvuðu af og skiluðu fjölgun og vógu upp á móti þessari skelfilegu þróun. En hvað ætli sé að gerast á þessum stöðum nú þessi árin? Ég lít m.a. til staða í mínu kjördæmi eins og Egilsstaða og Hafnar í Hornafirði, staða sem eru miðstöðvar í stórum landbúnaðarhéruðum og Höfn auk þess öflugur útgerðarstaður. Hvernig ætli standi með mannfjöldaþróunina þar? Jú, það bættust við á Egilsstöðum sex manns í fyrra eftir tölum. Á Höfn fækkaði um jafnmarga eða um sex, á Höfn í Hornafirði, í hitteðfyrra um 29 eða 30 manns, þannig að ár eftir ár er blóðið tekið frá stöðum þar sem fjölgunin mældist í mörgum prósentum fyrir fáum árum. Skilja menn ekki hvað klukkan slær? Ætla menn að taka þátt í þessari smalamennsku stjórnarflokkanna á fólkinu utan af landi hingað suður? Ætlar allt stjórnarliðið nánast sameinað að taka þátt í þeim göngum og eftirleitum?

Einn þáttur þessara mála sem skiptir ekki litlu er í höndum hæstv. félmrh. eins og margt fleira sem snertir byggðamálin. Það eru húsnæðismálin. Þar stóðu liðsmenn hæstv. félmrh. að því, líklega 21. apríl í fyrra, að lofa því hátíðlega í tengslum við afgreiðslu á breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins að fylgja eftir tíu tölusettum liðum í sambandi við húsnæðismál og tryggja að í byrjun þessa þings lægju fyrir undirbúin frumvörp og afstaða varðandi þá þætti. Þetta voru skuldbindandi loforð, þar á meðal varðandi félagslegt íbúðarhúsnæði, afstöðu til búseturéttaríbúða, afstöðu til misgengisins í húsnæðislánum og öllum þeim óskunda sem orðið hefur á þessu kjörtímabili undir þessari ríkisstjórn. Hæstv. félmrh. kom hér upp í nóvembermánuði einhvern tíma hygg ég að hafi verið til að svara fsp. minni um þessi efni. Og hvað ætli hann hafi sagt? Jú, jú, hann sagði: Þetta er alveg rétt. Það var lofað ýmsu og það er búið að vinna mikið í allt sumar og nú er þetta að koma, bara þessa dagana eru tillögurnar að koma. Ég skildi hæstv. ráðh. svo að þetta dagatal hans, sem er með mjög sérstæðum hætti eins og ég hef oft vakið athygli á, þýddi svona viku bið. Þó hef ég reynt það í fjölmörgum málum hér á Alþingi að tímaskyni félmrh. er þannig háttað að vika getur auðveldlega þýtt ár samkvæmt hans tímaskyni og loforðum hér á Alþingi í mörgum málaflokkum. Mér hefur fundist það raunalegt að skynja að maður af kynstofni Stjörnu-Odda skuli ekki vera betur að sér í rími en hæstv. félmrh. reynist vera, skuli ekki átta sig betur á rími tímans. Eftir þessar yfirlýsingar hér í nóvember um húsnæðismálin hefur ekki nokkuð frá hæstv. ráðh. heyrst um þessi efni meir frekar en yfirlýsingin um nokkra daga sem reyndar var tekið undir af aftökusveitinni úr Norðurlandi eystra, formanni milliþinganefndar í húsnæðismálum, hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni. Hann kom hér sérstaklega sem oddviti milliþinganefndar í húsnæðismálum og staðfesti að þetta væri alveg rétt hjá ráðherranum svo það var allt saman í einum kór í sambandi við þessar yfirlýsingar.

Við erum komin til þings eftir jólahlé 19. janúar og efndirnar eru engar frekar en í öðru sem einhverju máli skiptir og menn hafa þóst ætla að taka á þegar gengið er eftir hér á Alþingi. En nú er klukkan að renna út, nú er tíminn að renna út, nú er skeiðklukkan að nálgast sinn endapunkt á mælikvarða kjörtímabilsins og það verður ekki hægt að taka mikið mark á loforðum sem koma á næstu vikum og mánuðum um eitthvað sem skuli gert. Það er álíka merkilegt og þegar Samband ungra framsóknarmanna er látið fara að rumska yfir stjórnarsamstarfi af því tagi sem hér hefur gengið yfir landsbyggðina og landsmenn alla og þar sem ráðherrarnir ganga fram af slíkri hörku. Það er ekki bara liðsveit og forusta Framsfl. sem lætur öxina ríða á þeim mönnum sem oft hafa sýnt lit á því að standa með landsbyggðinni heldur eru ráðherrarnir, og þar fremstir í flokki ráðherrar Sjálfstfl., látnir ganga fram á völlinn og þurfa ekki mikla hvatningu því þeir tala yfirleitt í fyrstu persónu með þeim tillöguflutningi sem fyrir liggur frá hæstv. menntmrh. í sambandi við samskiptin við sveitarfélögin og landsbyggðina, tillögur hans um skólaaksturinn, mötuneytiskostnað og námsaðstoð, tillögurnar sem átti að troða í gegn bakdyramegin á Alþingi svipað og heimildinni um Streiti í sambandi við fjárlagagerðina. Það átti að nota sömu aðferðina, lauma því inn síðustu dagana fyrir jólin. Það kann að vera að sá sem tekinn var af af forustu Framsfl. í Norðurlandi eystra hafi þó brugðið fæti fyrir það þegar málin féllu á jöfnu, þegar hugsjónamál menntmrh. féll á jöfnu í þingflokki Framsfl. Fátt er svo með öllu illt. Ég þakka þeim sem þar greiddu atkvæði og lögðust gegn þeim hugsjónum að færa 90 millj. eða 100 millj. yfir á sveitarfélögin í landinu, strjálbýlu sveitarfélögin sérstaklega, sem var hugsjónamál menntmrh. í þennan umgang, og ekkert átti að koma í staðinn. Ég ætla ekki að fara að gera að umræðuefni þá glímu sem hæstv. ráðh. á í þessa dagana og tengist raunar Norðurlandi eystra sérstaklega því hann velur sér ákveðinn vígvöll. Stundum fer hann yfir landið allt, geysist fram yfir landið allt eins og Atli Húnakonungur og vinnur stóra sigra að honum sýnist trúlega. Allt er þetta í fornsagnastíl með fornsagnablæ. En síðan eru valin einstök svæði þegar svo þykir henta eða einstakir sjóðir, eins og Lánasjóður ísl. námsmanna, því að það er ekki háttur hæstv. menntmrh. frekar en Þorgeirs Hávarssonar að velja sér endilega öfluga mótherja heldur fylgja sögunni um það þegar menn geta ekki látið við bindast og láta öxina ríða, láta öxina falla, og mega eigi við bindast. Þannig gengur hann fram, sá valdsmaður, og skuldar Alþingi skýringar á því sem hann fór upp með í sumar, dylgjurnar í garð starfsmanna ráðuneytisins úti um landið, starfsmanna fræðsluskrifstofa. Ég innti hann eftir því hvað byggi þar að baki, hvers efnis þessar dylgjur væru, og hann er ekki farinn að svara mér enn. Sú fsp. var lögð fram á Alþingi 14. okt. s.l. þar sem hann var beðinn að standa fyrir máli sínu á Alþingi, en hann þegir enn og engin svör komin og hann neitar fjölmiðlum um að svara hvað búi að baki herförinni í þessu tilviki gegn skólamönnum úti um landið.

En hæstv. menntmrh. er ekki einn. Þetta er tíu manna sveit ráðherra studd af stjórnarflokkunum sameiginlega. Það er blæbrigðamunur. Það eru einstaka ráðherrar sem eru þannig búnir að þeir geysast fram úr sveitinni, tíu manna sveitinni, til að lata á sér bera og sanna mönnum það, bæði þeim sem eru á stuttum buxum og í herklæðum hér í Reykjavík, að þeir standi fyrir hugsjónum og stefnumálum auðhyggjunnar svo eftir sé tekið þó að það kosti tilfærslu fjármagns og fólks úr kjördæmum viðkomandi manna. (Gripið fram í.) Hæstv. iðnrh. Það er sannarlega gott að einhver ráðherra Sjálfstfl. sýnir sig í þessum umræðum. Hérna á vinstri hönd situr hæstv. félmrh. Framsfl. einn og yfirgefinn. Engir aðrir ráðherrar eru til að standa hér fyrir máli, en ég hefði talið eðlilegra og átt von á því, a.m.k. talið það sennilegra að einhverjir aðrir birtust hér til viðbótar við hæstv. iðnrh. og kann þó mjög vel við hans návist undir þessari umræðu því að oft þarf ekki mikið til að hreyfa hans fínu taugar þegar hallar á, eins og við þekkjum, hjá þeim sem minna mega sín. A.m.k. hefur hæstv. ráðh. það oft á orði. Hér hef ég verið að ræða um það hvernig stendur í bólið varðandi byggðamálin í landinu og þá skilvindu sem skilar sínu hingað suður í kjördæmi hæstv. iðnrh. með meiri hraða en gerst hefur nokkurn tíma á fyrri árum. Það þarf að fara aftur í árið 1959 til að sjá aðra eins fjölgun fólks utan af landsbyggðinni hér í kjördæmi hæstv. iðnrh.

Herra forseti. Ég sagði: Það er ekki bara þessi tíu manna ráðherrasveit. (Gripið fram í.) Virðulegur forseti. Það gleður mig að vakin er athygli á því að við skulum hafa skipti öðru hvoru í forsetastól. Það mætti nú víðar jafna metin í þeim efnum en gerist hér það sjaldan að hv. 7. landsk. þm. fær að tylla sér í forsetastólinn. En ég sagði: Það er tíu manna riddaralið sem þarna er á ferðinni sem engu eirir, en það er stutt af sameinuðu liði ríkisstjórnarinnar sem m.a. vann það sér til frægðar við fjárlagagerðina fyrir jólin að skerða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í landinu, skerða einn þýðingarmikinn tekjustofn sveitarfélaga í landinu svo nemur um 400 millj. kr. Þess varð ekki vart að nokkur framsóknarmaður kveinkaði sér í sambandi við þau efni og við áttum ekki von á að heyra neitt úr hinni framsæknu riddarasveit Sjálfstfl. sem telur sig hafa efni á að siga einstökum ráðherrum á landsbyggðina með þeim hætti sem dæmin sanna gegn öllum sjónarmiðum um jöfnuð í þessu landi, gegn námsmönnum, gegn einstökum hópum sem minna mega sín eins og fötluðum, gegn lágtekjufólkinu í landinu, gegn konum sem fylla láglaunahópana í landinu öðrum fremur og gegn landsbyggðarfólkinu í heild sinni.

Nei, það er svo sannarlega ástæða til þess fyrir menn að staldra við nú við umræðu af þessu tilefni og hvenær sem tilefni gefst á hv. Alþingi að vekja athygli á afrekum þessarar ríkisstjórnar og framkomu gagnvart landsbyggðinni. Sveitirnar eru ekki undanskildar því að svo illa sem stendur í sjávarþorpunum, sem bera öðrum fremur afleiðingarnar af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem miðar við löglegt okur á sama tíma og tekjurnar af útflutningsframleiðslunni eru fastar miðað við fast gengi, þá eru það þó sveitirnar sem standa enn þá verr því að því miður hefur ekki verið samtakamátturinn á ferðinni til að veifa það viðnám sem hefði þurft, enda hefur sá flokkur haft forustu um eyðingarstefnuna sein bændur settu eitt sinn traust sitt á, Framsfl. Hann hefur lagt til riddarann í tíu manna sveitinni sem hefur farið með landbúnaðarmálin með þeim afleiðingum að hundruð ef ekki þúsundir bænda hafa verið ofsóttir með þeim hætti sem við höfum orðið vitni að, rúnir tekjum, eignir þeirra gerðar upptækar með svipuðum hætti og húseignir fólksins úti um landið, í þessu tilviki með lögfestingu og reglugerðum um fullvirðisrétt, og öxin látin ríða á þeim sem veikastir standa engu síður en hinum sem til betri bænda geta talist og munu lifa þetta af.

En það er vissulega hreyfing í sveitunum. Menn eru farnir að taka eftir því hvert stefnir. Menn eru smám saman að átta sig á því að flokkurinn sem eitt sinn var kallaður flokkur bænda, flokkur samvinnu, flokkur landsbyggðar tekur undir af fullum hálsi við aðgerðir auðhyggjunnar í stjórn landsins og situr uppi með vaxtaokrið lögleitt í landinu og hefur forustu í þeirri landbúnaðarstefnu sem er að leggja heilu byggðarlögin í eyði. Og svo er egnt fyrir bændur með fjárfúlgum og sagt: Standið upp af jörðum ykkar. Ég skal kaupa af ykkur framleiðsluréttinn eða leigja hann, bara ef þið komið strax, án tillits til þess hvort jörðin þín er til búskapar fallin eða ekki. Þetta er framgangan hjá þessu liði gagnvart landsbyggðinni.

Ég vænti þess, virðulegur forseti, að þessi umræða haldi áfram, ekki bara í dag heldur næstu daga hér á Alþingi því að það er ekkert umræðuefni fremur þess virði að ræða það hér ítarlega en það óefni sem blasir við í byggðamálunum, afleiðingar af efnahagsstefnu sem fylgir leiðarljósum auðhyggjunnar, sem kallar sig frjálshyggju og þar sem báðir stjórnarflokkarnir hafa gengið fram og það fer eftir efnum og málefnum hvor reynist vaskari hverju sinni. (FrS: Hvers vegna vill enginn flokksbróðir hv. þm. hlusta á hann? Er þetta svona merkilegt?) Nú er hv. þm. Friðrik Sophusson einn af oddvitum auðhyggjunnar, einn af þeim sem heldur um skaftið á skilvindunni miklu, að gefa sig fram hér. Ég trúi ekki öðru en virðulegur forseti hafi tekið eftir því að varaformanni Sjálfstfl. er orðið dálítið órótt og tel ég þó að ýmsir fleiri ættu frekar að aka sér í sætum en hann. (Gripið fram í.) Það er misjafnt hvað hreyfir við mönnum. En ég hef e.t.v. ástæðu til að taka hér til máls síðar í þessari umræðu og vænti að varaformaður Sjálfstfl. lýsi viðhorfum sínum til þessara þýðingarmiklu mála.