20.01.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2349 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

248. mál, yfirlýsingar í tengslum við kjarasamninga

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans. Það kemur fram að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar er gefin með vitund hæstv. landbrh. Enn fremur segir hæstv. forsrh. að um málið, þ.e. efnislega um að koma á stjórnun í þessum greinum, hafi ekki verið samstaða í ríkisstjórninni og ekki hafi verið um að ræða vilja samstarfsflokksins, Sjálfstfl., við það að koma þessari stjórnun á. Ég vil aðeins upplýsa í tilefni af þessu að þetta mál hefur ekki fengið neina slíka afgreiðslu innan þingflokks Sjálfstfl. og ekki verið rætt í þingflokki mínum um það að koma í veg fyrir að slík stjórnun kæmist á, enda, eins og komið hefur fram hér hjá öðrum fyrirspyrjanda, var framkvæmd þessa máls fyrirhuguð í samræmi við gildandi lög um framleiðslu og sölu á búvörum.

Ég tel að miðað við þá miklu stjórnun sem er í framleiðslu landbúnaðarafurða sé ýmsum vorkunn sem framleiða kindakjöt í landinu, að þeir uni því báglega að miklar takmarkanir séu á framleiðslu þeirrar vöru en aðrar greinar kjötframleiðslu í landinu leiki lausum hala og séu ekki háðar neinum takmörkum.

Hér kemur hv. þm. Karl Steinar Guðnason og segir að þetta sé hagsmunamál neytenda. Ég hef trú á því að neytendur skilji að það er fyrst og fremst hagsmunamál þeirra að hafa á boðstólum fjölbreytta og góða vöru og í öðru lagi að verðlag sé lágt. Vel má vera að um stundarsakir geti verðlag verið lágt með því að slík samkeppni sé á milli framleiðenda eins og nú er í þessari grein þangað til allir hinir veikari hafa farið á höfuðið. Þá sitja hinir stærstu eftir, kannske aðeins örfáir, og hafa þá væntanlega í hendi sér að ráða verði á vörunni. Og þá er ekki víst að það verði í samræmi við hagsmuni neytenda.

Hagsmunaaðilar kjaramála hefðu auðveldlega getað sett fram þá ósk í fyrsta lagi að almennt verðlag fari ekki yfir tiltekin mörk. Ef þeir vildu skipta sér af verðlagi á tiltekinni framleiðslu, þá hefðu þeir gert kröfu til ríkisstjórnarinnar um það að verðlag á þeirri framleiðslu færi ekki yfir ákveðin mörk eða verði sett fast. Þetta hefði verið almenn krafa sem hæstv. ríkisstjórn hefði með eðlilegum hætti getað orðið við.

Ég skal svo ekki lengja mál mitt, enda tími nú á þrotum. Ég vil aðeins segja það að hér er um vandamál að tefla og það er ákaflega erfitt fyrir hæstv. ríkisstjórn að gefa yfirlýsingar um það að ekki sé hægt að fara að nýlega settum lögum í landinu um þetta efni. Það er varasamt fordæmi sem ég vil, eins og raunar hæstv. forsrh. sjálfur, hvetja menn til að hafa í huga í framtíðinni, að það er hættulegt að ganga langt inn á þá braut.