20.01.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (2253)

248. mál, yfirlýsingar í tengslum við kjarasamninga

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Fyrst vegna spurningar hv. þm. Davíðs Aðalsteinssonar. Ég sagði í svari mínu áðan að ríkisstjórnin hefði tekið það greinilega fram að samkvæmt lögum fara aðrir aðilar með verðlagsmál landbúnaðarins, en ríkisstjórnin teldi hins vegar að verðlag þyrfti ekki að fara fram úr og hefði gert ráðstafanir til að halda áburðarverði niðri. En það skal skýrt tekið fram að ef hinir löglegu aðilar ákveða þessa hækkun á lambakjöti þá getur ríkisstjórnin ekki komið í veg fyrir það. Ég sagði aðeins áðan að ég teldi að það hefði verið skynsamleg ákvörðun hjá framleiðendum að halda verðinu í skefjum. Eina leiðin sem ríkisstjórnin hefði þá væri að auka niðurgreiðslur til að halda verði niðri svo að ég vona að þetta liggi ljóst fyrir.

Þá vil ég svara hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni. Ég satt að segja verð að segja hv. þm. að ég get ekki svarað honum svo vel sé því þetta mál er á engan máta í höndum ríkisstjórnarinnar. Ég hef þarna eingöngu upplýsingar sem mér hafa verið fluttar um hvað framleiðendur sjálfir eru að gera, af hverju þeir kjósa að flytja þetta út frekar en setja á innlendan markað. Ég get ekki svarað því svo að ég verð því miður að vísa þessu frá. Þetta er algjörlega þeirra eigið frjálsa samkomulag. Mér er tjáð t.d. að í svínakjötsframleiðslu hafi náðst samkomulag á milli aðila sem stuðli að því að nokkur regla er komin á þá framleiðslu og ég segi eingöngu að ég fagna því ef kjúklingaframleiðendur sjálfir koma slíkri reglu á í sinni framleiðslu. Því að ég vil taka mjög undir það sem kom fram hjá hv. fyrsta fyrirspyrjanda að ég held satt að segja, fyrst stjórnun er höfð á hluta kjötframleiðslunnar, að skynsamlegra sé að hafa stjórnun á henni allri. Ég held að fyrir neytendur, þegar til lengri tíma er litið, muni það reynast miklu betri kostur en sá glundroði sem er t.d. núna í eggjaframleiðslunni. Þó að það sé út af fyrir sig ekki kjöt, þá er það merki um glundroða í einni framleiðslugrein. En með þessu móti virðist þó vera að komast nokkur regla á kjötframleiðsluna nema nautakjötið sem er að því er virðist án nokkurrar stjórnunar.

Ég óttast að ef t.d. fjöldi eggjaframleiðenda stöðvast núna vegna fjárhagserfiðleika, þá muni það leiða til verulegrar hækkunar á verði eggja eftir á og má vera að einhverjir nagi sig í handarbökin fyrir að hafa ekki stuðlað að meira jafnvægi í þeirri framleiðslu.