20.01.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2354 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

Fsp. um yfirlýsingar í tengslum við kjarasamninga

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Rétt er það að sá sem hér stendur hefur oft og iðulega í pólitískum deilum verið borinn þungum sökum. Samt minnist ég þess ekki frá því að ég kom hér inn sem þm. 1982 að mönnum hafi verið synjað um að bera af sér sakir, alvarlegar sakir eins og það að fara rangt með eftir fjarstöddum manni. Þess vegna árétta ég: Ég vísa á bug athugasemd hv. þm. Pálma Jónssonar og endurtek: Á umræddum fundi stóð upp Vilhjálmur Egilsson, frambjóðandi Sjálfstfl. í Norðurlandi vestra, hafði uppi málsvörn fyrir málstað aðila vinnumarkaðarins í málinu og benti þeim á, sem héldu því fram að framleiðslustjórnun á eggja- og kjúklingabændum mundi leiða til þess að þá yrði gætt hagsmuna sauðfjárbænda, að það skyldu menn ekki ætla. Auðvitað yrði það til þess að tryggja hagsmuni eggja- og kjúklingabænda sjálfra. M.ö.o.: með því að koma þar á einokunarkerfi eins og í hinni greininni væri gengið á hlut neytenda, en að lokum væri það að ganga á hlut neytenda hið sama og að ganga á hlut bænda.