20.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka virðulegum forseta Sþ. fyrir að leyfa þessa umræðu og sérstaklega fyrir að leyfa hana samkvæmt hinum almennu reglum um þingsköp og ég er sammála hæstv. forseta um það. Það er örugglega rétt mat hans að hér sé svo viðamikið mál á ferðinni að ekki veiti af að hafa allrúman tíma til að ræða það mál.

Ég hef kvatt mér hljóðs til að ræða þær deilur sem komið hafa upp milli menntmrn. og fræðsluráðs Norðurlands eystra, skólastjóra og kennara á Norðurlandi eystra, fræðslustjóra í landinu og fleiri aðila í kjölfar þess að menntmrh. vék Sturlu Kristjánssyni fræðslustjóra á Akureyri fyrirvaralaust úr starfi og endanlega með bréfi dags. 10. jan. s.l. Þetta mál á sér nokkurn aðdraganda og bakgrunn sem samhengisins vegna er óhjákvæmilegt að fara um nokkrum orðum.

Frá því að grunnskólalögin voru sett 1974 og allt til þessa dags hafa forsvarsmenn fræðslumála og sveitarstjórnarmenn barist fyrir því að fá byggða upp þá þjónustu sem þau kveða á um. Sem dæmi má taka þá aðstoð sem lögin gera ráð fyrir til handa börnum sem þurfa á sérstökum stuðningi eða aðstoð að halda í námi, en eiga þó að geta með slíkri aðstoð stundað nám innan hins almenna grunnskóla. Þegar reglugerð var sett um sérkennslu var staða fræðsluumdæmanna mjög misjöfn. Þessi mál máttu heita í þokkalega góðu horfi hér í Reykjavík, a.m.k. borið saman við stöðuna í umdæmum landsbyggðarinnar þar sem þessi þjónusta var tæpast til. Þau börn sem verst voru á vegi stödd voru send á sérstofnanir, en allur fjöldinn leyndist áfram án þess að á vanda þeirra væri tekið.

Nú hin síðustu ár hefur hér verið að verða breyting á. Fræðsluskrifstofurnar eru í vaxandi mæli að verða í stakk búnar til að sinna verkefnum sínum og ég hygg að á engan sé hallað þó að sagt sé að fræðsluskrifstofa Norðurlandsumdæmis eystra hafi þar verið í fararbroddi. Þar hefur t.d. hin síðari ár tekist að manna stöður með menntuðum sérfræðingum til að greina þörfina fyrir sérkennslu og aðstoð eins og lög og reglugerðir gera ráð fyrir og hafa gert um árabil. Einnig hafa verið að fást til starfa menntaðir kennarar til að takast þessi störf á hendur. Norðurland eystra hefur því verið að öðlast nokkra sérstöðu meðal fræðsluumdæma landsbyggðarinnar og af öllu þessu leiðir að áætlanir þaðan um magn stuðnings- og sérkennslu hafa vaxið ört á undanförnum árum í samræmi við þessa greindu þörf. Það er ástæða til að leggja sérstaka áherslu á að hér eru ekki einhverjar óskir eða ágiskanir á ferðinni heldur niðurstaða af greiningu sérfræðinga og enn fremur er rétt að menn hafi í huga að reglugerð um sérkennslu frá 1977 gerir ráð fyrir að kennslumagn skuli vera í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar, sbr. 15. gr., og koma að fullu til framkvæmda á fjórum árum eftir að reglugerðin er sett. Engar heimildir hafa af hálfu menntmrn. verið veittar til að skerða þessi ákvæði reglugerðarinnar.

Aðstandendur barna, þeir foreldrar sem hér eiga hlut að máli, geta því vitnað til ákvæða í lögum og reglugerðum og kallað rétt sinn til að fá þessa þjónustu. Þetta er líka í mjög mörgum tilfellum alger forsenda þess að það fólk sem hér á hlut að máli geti varið það fyrir sjálfu sér og framtíð barna sinna að búa úti um land þar sem aðgangur að sérstofnunum er enginn ef þessi börn fá ekki þessa lágmarks tilskildu aðstoð.

En síðan er að víkja að því að tillögur fræðsluráðanna eða áætlanir, sem byggja á þessari greiningu um þörf fyrir stuðnings- og sérkennslu, hafa af menntmrn. á undanförnum árum verið skornar niður þar, innan ráðuneytisins, áður en þær hafa borist Fjárlaga- og hagsýslustofnun og þaðan áleiðis til fjárlagagerðar. Þetta er m.a. staðfest af hagsýslustjóra Magnúsi Péturssyni í pappírum sem ég hef undir höndum. Barátta sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi og víðar, fræðsluráðanna og skólamanna fyrir því að fá þróun fræðsluskrifstofanna viðurkennda, að fá þörf fyrir sérkennslumagn viðurkennt, á sér því langan aðdraganda. Það á sér stoð í lögum og reglugerðum og hvað sem öllu öðru líður á það sér ríkar mannúðar- og samúðarforsendur. Hæstv. menntmrh. sjálfur hefur á stundum haft á þessu nokkurn skilning, en hann sagði á fundi með skólamönnum norður á Akureyri s.l. vor efnislega eftirfarandi:

„Leiðin inn í ráðuneytið er allt of löng fyrir þá sem utan Reykjavíkur búa. Þar eru margar dyr sem ískra á hjörum og hanga jafnvel á annarri löminni. Þetta kerfi er of þungt í vöfum og því þarf að breyta. Sérkennsla í hinum dreifðu byggðum hefur ekki átt miklum skilningi að mæta syðra. Þar hefur ofurkapp verið lagt á uppbyggingu stórra stofnana sem ætlað er að safna saman nemendum af öllu landinu án tillits til aðstæðna foreldra. Þessi stefna hefur á margan hátt staðið þjónustu í dreifbýlinu fyrir þrifum.“

Svo mörg voru þau orð hæstv. menntmrh. á fundi norður á Akureyri s.l. vor og tilvitnunin er tekin úr bréfi Guðmundar Inga Leifssonar, fræðslustjóra á Norðurlandi vestra, til ráðherra þar sem hann mótmælir áminningarbréfi ráðherra til Sturlu Kristjánssonar s.l. sumar.

Viðbrögð hæstv. menntmrh. nú eru lítt skiljanleg í ljósi þessara orða þar sem hann gerist nú vígamaður í þágu kerfisins, varðhundur miðstýringarinnar gegn samtökum manna úti um byggðir landsins.

Herra forseti. Ég hef talið nauðsynlegt að hafa þennan inngang til að gera grein fyrir aðdraganda málsins og varpa ljósi á þann grundvallarágreining sem að nokkru leyti liggur að baki þessari deilu. Samtök sveitarstjórnarmanna, fræðsluráð og skólamenn hafa um árabil barist fyrir rétti sínum í þessum málum og því er ekki að leyna og má eðlilegt kallast að öflugasta og best búna fræðsluskrifstofa landsbyggðarinnar, fræðsluskrifstofan á Akureyri, hefur verið brjóstvörnin í þessu máli. Hér er því fyrst og fremst um stefnuágreining að ræða, ágreining um framkvæmd grunnskólalaga, en ekki persónuleg afbrot eða afglöp eins manns. Skoðaðar í því ljósi verða athafnir ráðherra, er hann fyrirvaralaust rekur Sturlu Kristjánsson fræðslustjóra endanlega úr starfi, enn þá gerræðislegri en ella.

Lítum þá á þær ásakanir sem bornar eru á fræðslustjórann fyrrverandi í uppsagnarbréfi ráðuneytisins dags. 10. jan. s.l. Í uppsagnarbréfinu segir eftirfarandi:

Tilkynnt er um þá ákvörðun að leysa fræðslustjórann frá störfum frá og með 13. jan. að telja, vísað til bréfs menntmrn. frá 21. ágúst s.l. þar sem veitt var áminning vegna trúnaðarbrots í starfi og síðan segir: „Framangreind ákvörðun um að veita yður lausn er byggð á því mati ráðuneytisins að þér hafið sniðgengið fyrirmæli ráðuneytisins varðandi fjármálalega umsýslu í fræðsluumdæminu og ítrekað brotið trúnaðarskyldu þá er á yður hvílir sem starfsmanni ráðuneytisins, m.a. með framferði yðar í sambandi við útgáfu greinargerðar um málefni fræðsluumdæmisins dags. í nóvember 1986“ o.s.frv.

Hér er það fyrst til að taka að í áminningarbréfinu, sem kalla má staflið a í þeim lista ávirðinga sem bornar eru á fræðslustjóra, liggur það fyrir skjalfest af fleiri en einum og fleiri en tveimur og fleiri en þremur aðilum að þar er um hreinan misskilning að ræða. Í fyrsta lagi er Sturlu Kristjánssyni þar gefið að sök að hafa staðið fyrir blaðamannafundi sem haldinn var að tillögu Stefáns Á. Jónssonar á Kagaðarhóli, formanns fræðsluráðs Norðurlands vestra, og haldinn var á ábyrgð beggja fræðsluumdæmanna á Norðurlandi. Til þessa fundar var boðað af fræðsluráðunum og meðferð upplýsinga þar var samkvæmt venju. Það hafa allir fræðslustjórar landsins staðfest og sömuleiðis fræðsluráðin sem árlega hafa farið með þær upplýsingar sem vinnugögn, enda upplýsingarnar aldrei í allri sögu þeirra verið merktar sem trúnaðarmál. Það liggur því ljóst fyrir, stutt rökum margra mismunandi aðila, að áminningarbréfið er á hreinum misskilningi byggt og auðvitað hefði, þegar það var komið fram, átt að kalla það til baka eins og gerð var krafa um af fjölmörgum aðilum, en engin svör hafa frá ráðuneytinu borist um þær óskir að áminningarbréfið yrði kallað til baka. Ráðuneytið hefur ekki á næstum því hálfu ári haft tíma til að svara neinu einasta af þeim bréfum sem send voru af því tilefni.

Önnur höfuðsökin, að manni skilst, sem borin er á fyrrv. fræðslustjóra og hann er gerður ábyrgur fyrir er að eyðsla hafi verið umfram heimildir í rekstri fræðsluskrifstofu Norðurlandsumdæmis eystra. Í fjölmiðlum hefur hæstv. ráðh. látið hafa eftir sér að framúreyðsla hafi verið svo nemur tug milljóna króna eða meira og hefur ýmist heyrst nefnd talan 11 millj. eða tugur milljóna.

Hér ber að athuga ýmislegt. Í fyrsta lagi væri eðlilegt að ráðherrann gerði grein fyrir því hvaðan hann hefur þessar upplýsingar á þessu stigi málsins. Ég hef rætt bæði við deildarstjóra í menntmrn., Örlyg Geirsson, og skrifstofustjóra í fjmrn. og báðir hafa beðið mig sérstaklega fyrir að taka það fram í meðferð talna að á þessari stundu málsins liggi engar tölur endanlegar fyrir. Hér sé um að ræða bráðabirgðatölur um greiðslustöðu skrifstofunnar, ekki uppgjör, og það ber að hafa í huga. Slíkt liggi aldrei endanlega fyrir fyrr en á miðju ári. Þess vegna sé mjög varhugavert að taka sér í munn tölur í þessu sambandi á þessu stigi málsins. Það er einnig eftir að gera upp ýmsa liði sem komið geta hér til frádráttar eða viðbótar, svo sem óskipta liði á fjárlögum sem renna eiga til fræðsluskrifstofanna eftir nánari ákvörðun um skiptingu. Það er eftir að gera endanlega upp og bakfæra kostnað vegna framhaldsskólastarfsemi sem í byrjun er greiddur af grunnskólalið en færist síðan til baka frá framhaldsskólalið þegar uppgjöri lýkur. Það er eftir að athuga að hve miklu leyti ábyrgð sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, fyrst og fremst Akureyrarkaupstaðar, kann að dragast frá þeirri kennslu sem farið hefur fram á haustmisseri, sérstaklega í sambandi við stuðnings- og hjálparkennslu. Samkvæmt upplýsingum bæjarskrifstofu á Akureyri reikna menn þar með að þar standi skuld inni sem komið gæti til kasta Akureyrarbæjar að greiða, ef hann verður látinn standa við ábyrgð sína, upp á um 1300 þús. kr. Þaðan var ég einnig beðinn að taka sérstaklega fram að allt uppgjör milli sveitarfélaganna, Akureyrarbæjar þar með talið, og menntmrn. er eftir og lýkur ekki fyrr en á miðju ári þannig að þess fráleitara er að taka sér tölur í munn með þeim hætti sem hæstv. menntmrh. hefur gert í fjölmiðlum m.a.

Hér er því að mörgu að hyggja. Það er einnig rétt að hafa í huga í þessu sambandi að fræðsluskrifstofan á Norðurlandi eystra, fræðsluráðið og fræðslustjóri hafa ítrekað haft samband við menntmrn. á s.l. ári og óskað eftir viðræðum, óskað eftir svörum m.a. um hlutdeild umdæmisins í óskiptum lið grunnskólanna vegna þess að ella stefndi í greiðsluvandræði. Það er því ekki rétt, það er rangt að saka fræðsluskrifstofuna um að hún hafi keyrt fram úr fjárlögum vísvitandi og án þess að gera grein fyrir því hvernig greiðslustaða umdæmisins horfði.

Það liggur einnig fyrir og það er rétt að það komi fram, m.a. með tilvísan til fortíðar, að á því kennsluári sem nú er hafið, og það ættu menn að athuga, hafi ekki allir hv. þm. áttað sig á því, að fjárlagaár og skólaár fara ekki saman og veldur ýmsu óhagræði sem menn þurfa að glöggva sig á, en á því skólaári sem nú er hálfnað, á haustmisserinu, er kennsla í Norðurlandsumdæmi eystra innan heimilda. Það liggur fyrir eftir uppgjöri fræðsluskrifstofunnar, byggðu á endanlegum vinnuskýrslum fyrir haustmisseri frá hverjum einasta skóla í umdæminu sem ég hef undir höndum og munar þar því að fræðsluumdæmið mun eiga upp undir eina kennarastöðu inni eftir þetta haustmisseri og er það veruleg breyting til batnaðar frá því sem lengst af hefur verið um langt árabil. Það mættu menn hafa í huga, eins og komist er að orði í Dagblaðinu, að í fyrsta skipti um langt árabil sem fræðsluumdæminu á Norðurlandi eystra tekst að halda sig algerlega innan heimilda á haustmisseri er tækifærið notað og fræðslustjóri rekinn.

Það er einnig ástæða til að spyrja hvort ekki væri þá orsök og efni til að reka fleiri menn. Þannig hef ég þær upplýsingar að greiðslustaða Norðurlandsumdæmis vestra sé mjög slæm. Þar sé skuld upp á býsna háa tölu. (Menntmrh.: 2,9 millj.) Ef borið er saman umfang rekstrarins í því fræðsluumdæmi við umfang rekstrarins í Norðurlandsumdæmi eystra er þar um ekki ólíka stöðu að ræða, en ekki er mér kunnugt að fræðslustjórinn í því umdæmi hafi verið leystur frá störfum. Og þó að það færi svo, hv. alþm., að rekstur fræðsluskrifstofunnar í Norðurlandsumdæmi eystra lendi 2-4% fram úr áætlun á fjárlagaárinu 1986 vegna fjölmargra skýranlegra ástæðna, vegna þess m.a. að fræðsluskrifstofan hefur ekki fengið nein svör frá ráðuneytinu um hlutdeild í óskiptum liðum o.fl., telja menn þá að þar væri um slíkt algert skipbrot að ræða, slíka óhæfu að það réttlætti þær aðgerðir sem menntmrh. hefur gripið til? Telja menn þá ekki að einhver opinber starfsmaðurinn færi að verða óöruggur um sig ef þetta yrði gert að vinnureglu í rekstri hins opinbera? Hvað halda menn að margir forstöðumenn eða ábyrgðarmenn rekstrar sjúkrahúsa og spítala í landinu væru í störfum ef sömu vinnureglu væri þar ætíð beitt? Hvað halda menn að margir ráðherrar eða ráðuneytisstjórar væru í störfum eftir s.l. ár ef sömu vinnureglu væri ætíð beitt? Það er a.m.k. morgunljóst að hæstv. menntmrh. væri farinn úr sínu ráðuneyti, jafnvel með fleiri starfsmönnum eftir þau ósköp af aukafjárveitingum sem hann hefur þurft til að reka sitt batterí s.l. ár. Hér kasta því steinum úr glerhúsi þeir sem síst skyldu. Í öllu falli ættu þeir að hika við að taka upp fyrsta steininn þeir sem þannig standa að málunum.

Hvað varðar c-lið ásakananna er það skylt okkur þm. Norðurlandskjördæmis eystra að víkja þar að nokkrum orðum þar sem ráðherrann hefur sakað Sturlu Kristjánsson persónulega um að dreifa og koma á framfæri við fjölmiðla upplýsingum sem unnar voru og teknar saman fyrir alþm. Það mál snýr þannig að í fyrsta lagi var það gagn unnið á ábyrgð hóps manna, skólastjóra, fræðsluráðsmanna og fleiri aðila, og Sturla Kristjánsson er einn af mörgum sem í þeim hópi störfuðu. Í öðru lagi var það plagg af hálfu þessara aðila einungis afhent okkur þm. Norðurlands eystra. Það var tekið fram að þar væri um trúnaðarmál að ræða, vinnugagn handa okkur til að ræða við menntmrh. og til að hafa til handargagns í fjárlagagerðinni. Fyrsti maður sem kom þessari greinargerð til okkar þm. á framfæri við fjölmiðla mér vitanlega var hæstv. menntmrh. sjálfur þegar hann las upp úr henni í útvarpinu. Niðurstaða mín, herra forseti, af athugun á þessum ásökunum er eftirfarandi:

Í fyrsta lagi byggja þær að hluta til á misskilningi, misskilningi sem komið hefur í ljós og ætti að vera auðvelt að ganga úr skugga um og leiðrétta.

Í öðru lagi er fræðslustjórinn sakaður um afglöp sem eru í raun á ábyrgð annarra, á ábyrgð fræðsluráðs, á ábyrgð samstarfsmanna hans og á ábyrgð skólastjóra og yfirkennara í Norðurlandsumdæmi eystra.

Í þriðja lagi er fráleitt að henda á lofti bráðabirgðatölur um greiðsluerfiðleika umdæmisins um áramót og sakfella fræðslustjórann sérstaklega af þeim sökum þar sem ekkert endanlegt er um þá niðurstöðu að segja fyrr en á miðju næsta ári. Auk þess þyrfti að reka tugi ef ekki hundruð manna í hliðstæðum ábyrgðarstöðum ef sama vinnulag ætti að hafa alls staðar á og væru þá margir embættismennirnir farnir og teknir að leita sér að öðrum störfum og líklega býsna margir í viðbót orðnir ærið órólegir um sig.

Hér hefur því annaðhvort gerst, herra forseti og hv. alþm., að ráðherra hefur rekið á fullkomlega ruddalegan hátt opinberan starfsmann vegna misskilnings, vegna þess að hæstv. ráðh. hefur verið leiddur á villigötur eða fengið villandi upplýsingar um stöðu mála, eða þá hitt að eitthvað annað kemur til sem ekki kemur fram í uppsagnarbréfinu. Þetta segi ég að gefnu tilefni því ráðherra hefur sjálfur stundum látið í það skína að hann hafi þetta og hitt uppi í erminni sem hann geti beitt á menn ef þeir verði ekki góðir og hlýði og muni þá engu eirt, engum hlíft og illt sé að egna óbilgjarnan o.s.frv. Hirði ég ekki að rekja það frekar.

En þá er auðvitað um það að ræða, ef síðari kosturinn er hér á ferðinni, að rangar ástæður, eins og menn segja stundum á hv. Alþingi, eru tilgreindar í uppsagnarbréfinu. Og er það þá verjandi? Þess vegna er það alveg óhjákvæmilegt að öll kurl komi til grafar í þessu máli og Alþingi fái með í svörum ráðherra undanbragðalausar skýringar.

Þá vil ég örlítið víkja að þeirri aðferð sem hér var viðhöfð af hæstv. ráðh. og hv. ráðuneytisstjóra við að víkja nefndum embættismanni úr störfum.

Hér var sem sagt sú aðferð valin að víkja manninum fyrirvaralaust og endanlega úr starfi og auglýsa stöðuna skömmu síðar. M.ö.o.: það er ekki farin sú leið að leysa manninn tímabundið frá störfum meðan athugun á málavöxtum fer fram, sbr. lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 38 frá 1954. Hefði það hins vegar verið gert, sem er hin almenna venja, hefði viðkomandi starfsmaður haldið öllum réttindum sínum og a.m.k. hálfum launum og málinu verið tryggður farvegur, sbr. ákvæði 8. gr. nefndra laga, um úttekt á málsatvikum af hálfu kunnáttumanna eða dómsrannsókn að hætti opinberra mála eins og lögin kveða á um. Það er óhjákvæmilegt að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum er sá kostur tekinn hér, sem hlýtur að teljast til hreinna undantekninga og nánast flokkast undir neyðarúrræði eða neyðarrétt, að víkja embættismanninum úr starfi fyrirvaralaust og endanlega og svipta hann þar með öllum réttindum sínum og koma í veg fyrir rannsókn málsins eins og lög gera ráð fyrir ella? Um þessar aðfarir get ég, herra forseti, engin önnur orð haft en að þar sé á ferðinni hreint gerræði og valdníðsla. Ég vitna til 10. gr. laga nr. 4 frá 1963, um ábyrgð ráðherra í starfi, þar sem fjallað er um misbeitingu ráðherravalds. Alþingi getur ekki horft upp á ráðherrann beita valdi sínu með þessum hætti án þess að rannsaka málið og fá skýr svör hans.

Hæstv. menntmrh. hefur farið mikinn í fjölmiðlum undanfarið og hvergi sparað stóru orðin. Hér áður hefðu menn e.t.v. sagt að hann hefði farið með rassaköstum eða með himinloftum. En unga kynslóðin í dag mundi e.t.v, frekar orða það svo að hæstv. ráðh. hafi verið á fjölmiðlatrippi. Ráðherrann hefur í engu svarað rökstuddum mótmælum fjölmargra aðila gegn þeim ásökunum sem fyrrv. fræðslustjóri, Sturla Kristjánsson, hefur verið borinn. Ráðherrann hefur hins vegar haft í hótunum og borið lygar í fjölmiðlum á jafnvalinkunnan sæmdarmann og Þráin Þórisson, skólastjóra á Skútustöðum og formann fræðsluráðs Norðurlands eystra.

Hæstv. ráðh. hefur nafngreint fleiri fjarstadda einstaklinga og borið þá röngum sökum. Slíkt ber ekki góðum málstað vitni. Það segir sitt um karakterinn Sverri Hermannsson, eins og ráðherra sjálfur komst að orði, að vísu í öðru samhengi, í blaðaviðtali nýlega.

Hér hafa einnig legið frammi á Alþingi fyrirspurnir um mánaða skeið frá hv. 5. þm. Austurl. um ásakanir á hendur nánast öllum þeim voðamönnum sem aka skólabörnum í landinu og standa fyrir slíkum ósóma, ásakanir um sukk og spillingu sem hæstv. ráðh. hefur haft í frammi en engu svarað til um frekar. Hér hefur legið frammi fsp., herra forseti, um þetta mál til hæstv. ráðh. vikum og mánuðum saman, en engin svör hafa komið. Svo ber hæstv. ráðh. á móti því aðspurður í fjölmiðlum að hann fari með dylgjur.

Að lokum, herra forseti, vil ég svo lesa þær spurningar sem ég vil bera upp tii hæstv. ráðh. og hef afhent honum skriflega honum til hægðarauka. Ég hafði jafnframt hugsað mér að spyrja hv. formenn stjórnarflokkanna, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., og ég hafði gert þeim aðvart um það fyrr á fundinum að ég mundi bera fram slíkar fyrirspurnir. Ég mun því lesa spurningar til þeirra eða til annarra forustumanna stjórnarflokkanna. (Forseti: Forseti vill að það komi fram að hæstv. forsrh. yfirgaf þingsalinn í samráði við forseta vegna áríðandi starfa. óskar hv. þm. eftir að forsrh. komi? Hann er í húsinu?) Herra forseti. Ég óska ekki eftir því. Ég hafði gert hæstv. forsrh. grein fyrir því að ég mundi bera upp til hans spurningar. Það verða þá væntanlega einhverjir aðrir talsmenn Framsfl. til að reyna að svara þeim eða láta þá ósvarað fyrir hönd framsóknar. Það kemur í ljós. Ég tel ekki ástæðu til að ítreka það, virðulegur forseti, þar sem ég hef sjálfur komið þessum skilaboðum til formanna stjórnarflokkanna. Það verður að vera þeirra mál hvort þeir sjá sér fært að svara eða ekki. Ég vil spyrja þá, en fyrst hæstv. menntmrh. tíu spurninga sem ég nú les af blaði:

1. Hverju svarar ráðherrann rökstuddu áliti fræðsluráðs Norðurlands eystra, fræðslustjóra, skólastjóra og yfirkennara á Norðurlandi eystra, fræðsluskrifstofu Norðurlands eystra og fleiri aðila um að brottvikning Sturlu Kristjánssonar fræðslustjóra úr starfi á þeim forsendum sem tilgreindar eru í uppsagnarbréfi dagsettu 10. jan. s.l. standist ekki eða sé á misskilningi byggð?

2. Er ráðherrann til samkomulags í þessari deilu tilbúinn til að afturkalla nefnt uppsagnarbréf og áminningarbréf frá 21. ágúst s.l. og fela sérfróðum aðilum að rannsaka öll ágreiningsefni og samskipti menntmrn. og fræðsluskrifstofa og fræðsluráða undanfarin ár?

3. Hver eru helstu rök menntmrh. fyrir því að velja þá aðferð að víkja Sturlu Kristjánssyni fyrirvaralaust og endanlega úr starfi í stað þess að leysa hann frekar tímabundið frá störfum meðan málsatvik væru rannsökuð og þannig að hann héldi réttindum sínum á meðan?

4. Var það tillaga ríkislögmanns að standa svo að uppsögninni?

5. Hverju sætir að ráðherra hafði ekki samband, hvað þá samráð við fræðsluráð Norðurlands eystra um þessar aðgerðir þó ljóst sé af lögum að fræðslustjóri er jöfnum höndum starfsmaður hlutaðeigandi sveitarfélaga og fræðsluráðs eins og menntmrn.?

6. Hvaðan hafði ráðherra þær upplýsingar um fjárhagsstöðu Norðurlandsumdæmis eystra sem hann lét hafa eftir sér í fjölmiðlum og var honum ljóst að fyrir liggja einungis ónákvæmar bráðabirgðatölur um greiðslustöðu en ekkert endanlegt uppgjör?

7. Hverju sætir að ekkert varð af fundi þeim eða ráðstefnu sem ráðherra hét á fundi á Hótel KEA 30. apríl s.l. að boða til um lausnir mála með fræðsluyfirvöldum norðan heiða og starfsmönnum ráðuneytisins og halda skyldi í maí 1986?

8. Telur ráðherra ekki ástæðu til að endurmeta ákvörðun sem hann hefur tekið þegar henni er mótmælt af fræðsluráði viðkomandi umdæmis, af samtökum skólastjórnenda, af stjórn viðkomandi fjórðungssambands, af almennum kennarafundum, af almennum fundum foreldrafélaga, af samtökum kennara, af samtökum fræðslustjóra og fjölmörgum fleiri aðilum?

9. Komi í ljós að ýmsar upplýsingar sem ráðherrann byggði ákvörðun sína á voru misvísandi eða villandi og aðrar byggðar á misskilningi, telur ráðherra þá ekki skylt að endurmeta þessa ákvörðun?

10. Telur hæstv. menntmrh. að allir landshlutar búi við jafnan rétt hvað fræðslumál varðar, t.d. hvað varðar sérkennslu, og ef svo er, telur hann þá baráttu fræðsluyfirvalda og sveitarstjórnarmanna víða um land á misskilningi byggða?

Talsmenn, formenn eða hæstv. ráðh. úr stjórnarflokkunum vil ég spyrja eftirfarandi: Eru þeir tilbúnir að beita sér fyrir því að ágreiningsefni sem leiddu til brottvikningar Sturlu Kristjánssonar verði lögð til hliðar og honum veitt starfið að nýju, a.m.k. þannig að hann haldi réttindum sínum og launum, á meðan úttekt kunnáttumanna með aðild samtaka kennara, fræðslustjóra og fleiri aðila og fræðsluráðs fer fram? Eru þeir tilbúnir til að beita sér fyrir slíkum aðgerðum til samkomulags í þessari deilu eða ætla stjórnarflokkarnir, hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh. og formaður Sjálfstfl. og allir hv. þm. stjórnarliðsins, með þögn sinni einni að lýsa fullum stuðningi við aðgerðir menntmrh., við aðferðir hans og hundsa mótmæli þeirra fjölmörgu aðila sem vitnað hefur verið til og þær fjölmörgu áskoranir sem hæstv. forsrh., hæstv. ríkisstjórn og fleiri aðilar hafa fengið um aðgerðir í þessu máli? (GJG: Af hverju beinir þm. þessu bara til stjórnarliða?) Það hlýtur reyndum þm. að vera kunnugt um. (GJG: Já, þess vegna spurði ég.) Það er að sjálfsögðu öllum frjálst að svara öllum þeim spurningum sem ég hef hér borið fram og þætti mér vænt um að sem víðast að kæmu svör, góð og greinileg.

En að lokum þetta, herra forseti. Það hefur ekki farið hjá því að þetta mál og reyndar fleiri hafa leitt huga manns að því hvernig fara skal með vald. Hér var einu sinni flutt þáltill. um könnun á valdi í þjóðfélaginu. Það er nokkuð merkilegt þetta hugtak vald. Hvaðan kemur það, hvert fer það og hvernig á að nota það? Það er stundum sagt að vald spilli. Á það ætla ég ekki að leggja dóm en það er alveg ljóst að mikið vald er vandmeðfarið. Ég hef lagt þann skilning í stjórnarskrá og stjórnarskipunarlög að vald ráðherra kæmi frá Alþingi en ekki frá Guði. Það væri þingbundið vald en ekki ofan að frá eins og vald einvaldskonunga fyrr á öldum.

Hæstv. núv. menntmrh. notar, að öllum öðrum hæstv. ráðherrum ólöstuðum, oftast persónufornöfnin, jafnt beygð sem óbeygð. Það er ég, um mig, frá mér og til mín. Það er ég sjálfur. Það er út af fyrir sig, herra forseti, gott að hafa röggsama valdsmenn, ef þeir eru réttlátir. Það er nefnilega svo að röggsemi og ranglæti fara illa saman, ákaflega illa saman. Og ef ekki tekst að ná samkomulagi í þessari deilu, ef hæstv. ráðh. er ekki tilbúinn að brjóta odd af oflæti sínu og leita samkomulags við fræðsluráð Norðurlands eystra og þá fjölmörgu aðila aðra sem eru beinir aðilar að málinu óttast ég að öldur lægi ekki á næstunni.

Hæstv. ráðh. gerist stundum býsna forn í tali. Hann kannast sjálfsagt við að það bar stundum við fyrr á öldum að fjölkunnugir menn mögnuðu upp sendingar. En það bar líka stundum við að þeir sem fyrir sendingunum urðu kunnu nokkuð fyrir sér og snöruðu þeim til baka. Og þá var það jafnan eðli sendinganna að þær urðu hálfu verri viðureignar ef þær voru rétt magnaðar til baka. Fór þá stundum svo að sá sem sendinguna vakti upp í fyrstu og sendi af stað réði lítt við hana þegar hún kom til baka, varð jafnvel að gjalda fyrir með lífi sínu. Hér er að vísu fremur um pólitískt líf en efnislegt að ræða, en þá yrði ráðherra hált á fjölkynnginni ef svo færi að þessu sinni.