20.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2400 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Já, hv. 3. þm. Norðurl. e. segir að þetta sé vont mál. Það er a.m.k. ekki svo vont að menn grípi ekki tækifærið í upprennandi kosningabaráttu til að velta sér upp úr því með þessum hætti, sem dæmin sanna hér og með heldur lágkúrulegum málflutningi, m.a. með þessu sem þeir nefna, að ég hafi verið að nefna allar þessar fylkingar fólks „hyski“. Það lá alveg ljóst fyrir hvað ég var að tala um. Ég var að tala um þá Alþýðubandalagsforkólfa þar nyrðra sem öttu þessum blessuðum manni á foraðið með þeim afleiðingum sem ég óttast að geti orðið. Það liggur hér alveg ljóst fyrir.

Menn koma hér með samdar ræður frá því einhvern tíma á dögunum og virðast alls ekki hafa hlustað á það sem lesið var hér upp og mönnum greint frá, og vitnað í eigin orð, athafnir og afstöðu þess manns sem hér um ræðir, fyrrv. fræðslustjóra þar nyrðra.

Ég ætla ekki að orðfæra hér og nú um það sem hv. síðasti ræðumaður nefndi um skólaakstur. Hann veit vel eða ætti að vita að þar getum við stórbætt marga hluti. Við viljum ekki hafa slíkt vanskipulag á eins og sannanir eru fyrir um, það getum við bætt, og tillögur mínar gengu síst út á það að þeir bæru skarðari hlut sem erfiðast eiga, fátækustu félögin, heldur þvert á móti. Það eina sem ég lagði til um verulegar skerðingar á var þéttbýlið, Kópavogur, Garðabær, Ísafjörður, sem eiga að geta séð um sína strætisvagna sjálfir.

Hv. 2. landsk. þm. kom hér með ræðu sem hún er áreiðanlega fyrir löngu búin að semja, og eins hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sem ræddi um aukafjárveitingar og þvargaði um málið, um atriði sem koma þessu máli nákvæmlega ekkert við. Og lágkúran yfir málflutningnum hjá hv. 5. landsk. þm. og hv. 7. landsk. þm. er fágæt.

Ég hef ekki á takteinum aukafjárveitingar sem skýra má hjá menntmrn., hvort heldur það er stuðningur, aukafjárveiting til þess að styðja Stuðmenn í Kínaferð eða unga menn til að keppa í stærðfræði á Ólympíumóti eða Erró, Stuðmenn með kannske 400 þúsundum, Erró til sýninga á Feneyjabiennalinum með 300 þúsundum, keppni á Ólympíumóti í eðlisfræði eða hverju einu. Ég veit ekki hvort þetta eru hundruð atriða sem maður er að reyna að hjálpa til, ferðalög listamanna á sýningar. Ráðuneytið er eitt hið viðamesta eins og menn þekkja að þessu leyti. Ég man það að ég þurfti að fá 200 þús. kr. aukafjárveitingu til þess að minnast 100 ára afmælis Sigurðar Nordals og stofna þá stofnun. Ég þurfti að fá 300 og eitthvað þús. kr. til þess að sjá fyrir M-hátíðinni á Akureyri á vori liðnu. Þannig er þetta í þúsund liðum. Og að bera það eitthvað saman við þá ráðdeild sem ég las yfir mönnum hérna, hvernig rekin hefur verið skólaskrifstofa, fræðsluskrifstofa á Norðurlandskjördæmi eystra er með ólíkindum. Þessi málflutningur er ekki til neins annars en að reyna að koma höggi á mig og gjörið þið svo vel. Þið megið reyna eftir ykkar fremstu getu. En lágkúran er söm við sig. Og auðvitað er hann líka hafður í frammi vegna þess sem að nú líður óðum að kosningum.

Þessir ræðumenn, og mér þykir leitt að hv. 5. landsk. þm. er horfinn hér úr salnum vegna þess að hann vantaði upplýsingar til þess að meta embættismanninn sem í hlut átti, þótt embættismaðurinn væri búinn að tala langt mál sjálfur hér uppi um afstöðu sína og lýsa því hvers trausts hann er verður sem trúnaðarmaður menntmrn. og starfsmaður þess og trúnaðarmaður menntmrh., hann vantaði upplýsingar um það hvers vegna í ósköpunum ekki væri hægt að hafa þennan starfsmann áfram í þjónustu þessara aðila, þrátt fyrir endalausan lestur upp úr eigin verkum þessa blessaða manns.

Ég veit ekki hvað nægjanlegt er - og ég las einnig upp úr þar sem rækilega var reynt með öllu móti að koma honum til ráðs á þriggja tíma fundi og hann þverskallaðist og hélt við sitt gamla lag. Hann væri að framkvæma sín lög og sig varðaði ekkert um fjárlög eða aðrar áætlanir eða fyrirskipanir sem gefnar væru. Hvar eru takmörkin? Það er svo í annan tíma sem þetta fólk, sem hefur uppi þennan málflutning eins og hv. 7. landsk. og 5. landsk., að það er gagnrýnið á eyðslu hjá ríkinu, gagnrýnið á fjölda opinberra embættismanna. En nú hentar það, þó að blasi við einkennilegasta uppákoma sem ég hef séð hjá opinberum starfsmanni og játun allra saka af frjálsum og fúsum vilja hans, þá þarf að slá skjaldborg um það. Það er einmitt hið þveröfuga sem við þurfum, hið háa Alþingi. Það verður að hreinsa til í þessum sökum. Það er nefnilega víða pottur brotinn.

Ég er sannfærður um að að langmestu leyti erum við vel menntir af embættismönnum. Það er sannfæring mín. En hin dæmin gefast og ef að Alþingi hið háa ætlar að láta embættismönnum haldast það uppi að þeir séu ósnertanlegir í starfi sínu, sama á hverju gengur, þá er illa farið, vegna þess að í þessu falli, sem nú var nefnt og hér var rakið, finnst ekkert verra dæmi um misskilning manna á skyldum sínum og trúnaði sem ég kann, og allt lagt fyrir af fúsum og frjálsum vilja vegna grundvallarmisskilnings. Enginn ætlar þessum manni neitt illt af ráðnum hug. Hann er þessarar skoðunar og trúar og þess vegna reynist hann óhæfur í starfi sínu.

Ég spyr menn á hinu háa Alþingi: Hvað skyldi mér hafa gengið til og geta gengið til? Barnaleg svör eins og þau hjá hæstv. forsrh. að hann hafi helst álitið að maðurinn hefði farið svo í taugarnar á ráðherranum, ja, það er nú búið að svara því einu sinni og þetta er nú að vísu ekki fyndni sem hægt er að hlæja að með öllum kjaftinum. Og svör hans í Degi eru eins og vant er, að það er allt á útopnuðu án þess að hann gái að sér. Hann var hins vegar vandaður í orðbragði á ríkisstjórnarfundi þar sem hann sagði að þetta mál kæmi sér ekkert við og hann hefði ekkert um það að segja, ekki eitt einasta orð, algjörlega á annarra vegum, og hann hefði svarað öllum því til. En hann minntist ekki á Dag þar, að vísu. Ég hef ekkert fleira um svona orðbragð og uppátæki að ræða.

Að persónulegar tilfinningar kynnu einhverju að ráða í þessu, þær eru bara á þann veg að ég hefði viljað miklu til kosta að til þessa hefði ekki þurft að draga, - bara á þann veg. En menn sem ætla að gegna skyldum sínum og fara að samvisku sinni mega ekki gá að þessu heldur. Það er mála sannast að eftir þeim plöggum sem ég las upp frá árinu 1980, þá blasir það við, og menn hefðu átt að geta gert það upp við sig, að þangað og ekki lengra átti að halda með þennan mann í þessu starfi. Og af hverju er þetta þá svona í öll þessi herrans ár? Af því að stjórnmálamenn veigra sér við að taka á málum. Þeir skjóta sér undan. Embættismaðurinn er að vísu vel varður, það er rétt, en ekki þann veg að þegar svona stendur á, þá getur það ekki orðið. Og við verðum að æfa embættismenn okkar núna, einmitt nú í framhaldi af þessu, á því að svona getur þetta ekki gengið. Þeir eru ekki ósnertanlegir. Þeir verða að standa ábyrgir gerða sinna. Þeir verða að gegna trúnaðarskyldum sínum. Hvað er með sjóara sem ekki hlýðir skipstjóra sínum? Hvað verður um hann? Jafnvel einni fyrirskipun? Hann fær poka sinn og er rekinn í land og engum dettur í hug að minnast á það. Eða verkamaður sem ekki hlýðir verkstjóranum sínum? Hann er rekinn úr vinnu. Daglegt fyrirbæri hjá einkafyrirtækjum. En mikil mætti sú gæfa vera í íslensku þjóðfélagi ef þann veg stæði á um þúsundir embættismanna að þar væru allir réttir menn á réttum stöðum. Og því miður reyndist það ekki í þessu falli sem nú er um rætt hérna.

Eigum við, þrátt fyrir það sem fram er komið, að lofa embættismönnum, ef þessu verður hrundið, eins og menn eru að tala um, ef ég verð settur af fyrir verk mín, ef ég hef beitt ofríki, ef ég hef beitt valdníðslu, ef ég hef beitt lögbrotum, að fá heim sanninn um að þeim er enn óhættara en nokkru sinni fyrr, þá sjá þeir að það er nákvæmlega sama, nokkurn veginn, fyrir utan mannsmorð auðvitað, hvernig menn haga sér, þeim helst það uppi, undirmönnum og starfsmönnum menntamálaráðherra, ráðherra í landinu, þeim getur haldist slíkt uppi að hafa fyrirmæli hans að engu árum saman, þrotlaust og þindarlaust og upp í opið geðið á yfirmanninum og yfirvöldunum, ráðuneytinu, að tefla fram sínum skoðunum og framkvæma þær. Heyrðu menn ekkert hvað hann sagði sjálfur og viðhorf hans til fjárlaga? Svo þvarga menn um það að aðrir fari yfir. En hann er þeirrar skoðunar að þau séu að engu hafandi, embættismaðurinn. Eru einhverjir fleiri sem eru þeirrar skoðunar? Hann telur skyldur sínar þær að virða þau að vettugi.

Hér var verið að vitna í samþykktir og gagnrýni. Kennarafélögin og Félag skólastjóra og yfirkennara eru einu félögin sem álykta skynsamlega. Þau biðja um rannsókn og úttekt á málinu. Þau dæma mig nefnilega ekki fyrir fram, um að ég sé rækur úr embætti og hafi brotið af mér með svívirðilegum hætti. Það gera þau ekki með einu orði. Kennarasamtökin og Félag skólastjóra og yfirkennara fara bara fram á rannsókn málsins. Og ættum við ekki að spara okkur fleiri stór orð þangað til það fer fram? Ég trúi ekki öðru en að menn, sem þykjast eiga svo órækan rétt, sæki hann, þá leið dómstóla sem kveðið er á um í lögum. Ég trúi því bara ekki að þetta eigi að vinnast með trumbuslætti og málhrópum og í fjölmiðlum! Þá vinnst það ekki - og aldrei meðan ég er í þessu embætti. Það verða menn að gera sér ljóst. Og að ég hviki um hársbreidd er fjarri öllu lagi! Er fjarri öllu lagi! Menn eru með þessari framkomu sinni að skjóta loku fyrir það, sem ég hefði þó vonað lengst, að það væri hægt að ná einhverjum sáttum, að maður þyrfti ekki að haga sér þannig að fleygja ungum manni, fjölskyldumanni, á götuna launalausum, eins og hér verður að vera með öllum þeim sársauka sem þessu fylgir. Þeir spara það ekki. Og þeir menn eiga ekkert skilið annað en hyskisnafnið, sem spara ekki mann sem á í slíkum örðugleikum og hann, örfámenn klíka Alþýðubandalagsmanna sem hefur kynnt þetta svona og stjórnar allri aðferðinni og aðförinni. (Gripið fram í: Það er ekki sama hvar þeir eru á landinu.) Þessi tegund Alþýðubandalagsmanna er ekki til í Reykjavík.

Ég tók til máls hérna af því sem að ég verð að beina ósk til hæstv. forseta. - Nú frábið ég mér ekki umræður og ég er tilbúinn til þess að taka þátt í þeim svo lengi sem þörf er á. Svo lengi sem þörf er á. En af ástæðum sem hæstv. forsetinn metur fullgildar hef ég ekki tök á því að þreyta skeiðið lengur en til tæplega kl. 7. Það eru ýmis skyldustörf sem þarf að gegna. En ég beini því til hans hvort kostur er á og getur orðið samkomulag um að við héldum þá þessari umræðu áfram á fimmtudagseftirmiðdag. Þá hefur mönnum líka gefist kostur á að kynnast innihaldi þess sem hér var upplýst í málinu, því að eins og ég segi, ræður frú Jóhönnu, hv. þm., og frú Kristínar, hv. þm., eru löngu samdar, þær höfðu ekkert heyrt af þessu sem var lesið hér upp úr gögnum málsins, þannig að það gæti kannske hjálpað mönnum til þess, án þess að ég sé að biðja mér nokkurrar vægðar, að mynda sér skoðun á málinu eftir málefninu og eðli þess sjálfs, ef menn gætu andartak litið fram hjá þeirri löngun sinni að renna færi í þennan grugguga sjó. Til þess eru refirnir skornir. Að halda uppi vörnum hér með þessum hætti, í þessu máli eins og það er vaxið, fyrir embættismann sem hefur reynst með þessum hætti, viljandi og óviljandi, er auðvitað gjörsamlega vonlaus aðferð. Gjörsamlega vonlaus aðferð. Og ég hlýt að skora á menn að skoða hug sinn.

Aðeins að lokum fyrir 5. landsk. þm. hv. sem er hér horfinn af vettvangi. Var hann að tala um að ég hefði í óleyfi og fram hjá fjárlögum og öllum venjulegum löglegum aðferðum keypt hús upp á tugi milljóna? Er þetta ekki formaður þingflokks Alþfl., ef ég man rétt? Hann getur ekki verið að tala í alvöru um þetta. Allra venjulegra aðferða í því sambandi var gætt. Ég hef séð þetta áður reyndar, en mikið má mönnum liggja á að þurfa að grípa til svo heimskulegra vopna eins og þess að kenna mig við eyðslusemi vegna þess að ég var svo heppinn að fá samþykki réttra yfirvalda við að koma þessu mikla bókasafni okkar fyrir á stað sem sérfræðingar segja að henti til þess einstaklega.

Ég veit líka að það fólk sem gagnrýnir mig fyrir aukafjárveitingar getur ekki verið að tala um málverkasýningar, Kjarvalssýningu úti í Sveaborg, Erró í Feneyjum - og við verðum enn að bæta við það því að sendingarkostnaðurinn reyndist miklu dýrari, enn kannske öðrum 300 þús. kr. - eða keppni í Ólympíuleikum o.s.frv., o.s.frv. o.s.frv. sem ég skal láta safna saman. Og þið leggið þetta að jöfnu við það að af ráðnum hug er eytt, og í banni, stórfé, 22 stöðugildi opinberra starfsmanna sett upp fyrir fjármuni sem eru ekki til, sem Alþingi ákveður að veita ekki!

Ég bið hæstv. forsetann svo vel að gera að taka mína sérstöku beiðni til athugunar að þessu leyti um frestun fundar.