20.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2405 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla að koma hér inn í þessa umræðu lítillega, skal reyna með tilliti til aðstæðna að hafa mál mitt sem allra styst. En þar sem hæstv. ráðh. hefur nú talað tvisvar og drjúga stund í bæði skiptin, þó sýnu lengur hið fyrra, þá vil ég gjarnan fá að koma hér á framfæri nokkrum athugasemdum.

Í fyrsta lagi harma ég það að þrátt fyrir 11/2 klukkustundar langa framsöguræðu tókst ráðherra ekki að svara einni einustu spurningu sem ég lagði fyrir hann, efnislega skýrt afmarkaðar á vélrituðu blaði í tíu liðum og ég hefði talið það eðlilega málsmeðferð af hálfu hæstv. ráðh. að reyna að fara yfir spurningalistann sem hann svo skilmerkilega fékk frá mér í upphafi fundarins, en ég tek það fram, herra forseti, að ég sendi þennan spurningalista ekki upp í menntmrn., hvorki í gær né í dag, þannig að ráðherra hefur að sjálfsögðu ekki annað tóm til að svara en það sem hann hafði undir umræðunni. Hvort það veldur einhverju um það að hann treysti sér ekki til að svara einu einasta atriði, um það felli ég engan dóm. En það er mjög sérkennilegt að hæstv. ráðh. skuli ekki koma til þessarar umræðu undir það búinn að svara rökstuddum athugasemdum aðila eins og fræðsluráðs Norðurlandskjördæmis eystra í þessu máli. Það er mjög sérkennilegt, herra forseti.

Ég get látið hina háreistu byrjun á ræðu hæstv. menntmrh. fram hjá mér fara þegar hann kaus að kalla, að ég taldi nú, mig og flokkssystkini mín, hvar sem þau finnast í landinu, hyski. Forseti sá ekki ástæðu til að víta slíkt orðbragð og ég get látið mér það í léttu rúmi liggja vegna þess að það er hæstv. menntmrh. Sverrir Hermannsson sem lætur þau ummæli falla. Ég kynni að hafa tekið það til mín og tekið það alvarlega ef það hefði komið frá öðrum, en í þessu efni og tilefni sé ég ekki ástæðu til slíks.

Vegna rangfærslna sem hæstv. ráðh. hefur uppi um fjarstadda menn, eins og Benedikt Sigurðarson, skólastjóra Barnaskólans á Akureyri, sem hann virðist sjá í hverju horni í þessu máli, vil ég eingöngu taka það fram til skýringar, þó það sé búið að leiðrétta opinberlega í fjölmiðlum, að hann á ekki sæti á lista Alþb. og hefur ekki átt, þó að það sé ekki sérstakt efnisatriði inn í þessa umræðu að öðru leyti en því að ráðherra dregur það sífellt fram vitandi þó betur, eða hvað, ef hann hefði fylgst með umræðum og fjölmiðlum undanfarna daga.

Síðan er það sú áhersla ráðherrans að hann hafi með því að víkja fræðslustjóranum úr embætti með þessum hætti tryggt einhverja alveg sérstaklega meðferð þessa máls. Hún er afar sérkennileg og það er óhjákvæmilegt að spyrja hann betur hvað hann eigi við. Ætlar hann að stefna fræðslustjóranum fyrir það að menntmrn. og hann sjálfur rak hann úr embætti eða hvernig ætlar hann að tryggja þá dómsrannsókn sem hann sífellt talar um? Í lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er það þannig að ef menn eru leystir frá störfum um stundarsakir fer mál þeirra sjálfkrafa í ákveðinn farveg og ákveðna rannsókn samkvæmt lögunum. Það er tryggt ef staðið er að því með þeim hætti. Ef það er hins vegar gert eins og ráðherra hefur hér staðið að málunum er málið tekið út úr þeim farvegi og manninum engin réttindi tryggð á meðan rannsókn færi fram eins og ef hinn kosturinn væri tekinn.

Ég vil síðan segja það, herra forseti, að röksemdafærsla hæstv. ráðh. var nokkuð sérkennileg. Hann hóf að lesa bréf frá 1980 og síðan hafa setið tveir eða þrír hæstv. menntmrh. og ekki hafa þeir séð ástæðu til að víkja þessum fræðslustjóra úr starfi. Ég veit ekki betur en Ingvar Gíslason, hv. 1. þm. Norðurl. e. hafi verið menntmrh. á þeim tíma sem þessi maður tók aftur við störfum sem fræðslustjóri og hefðu þá pappírar frá Birgi Thorlacius átt að liggja fyrir í ráðuneytinu þegar þar að kom að maðurinn tók aftur til starfa á fræðsluskrifstofunni.

Síðan má velta því fyrir sér hversu lengi og langt aftur í fortíðina er rétt að fara þegar menn þurfa að heyja sér rök í þeirri stöðu, sem hæstv. menntmrh. bersýnilega er í, að forðast eins og heitan eldinn að ræða efnisatriði þeirrar deilu sem hér átti að vera á dagskrá, að forðast eins og heitan eldinn að svara spurningum sem fyrir hann eru lagðar en lesa upp úr gömlum skýrslum einhvers konar syndaregistur sem starfsmenn hans í menntmrn. hafa dundað við að tína saman, sjálfsagt í næturvinnu, á undanförnum sólarhringum. Það er von að það sé á tali í menntmrn. og Þráinn Þórisson hafi ekki náð þangað sambandi í allt haust úr því að ástandið er svona og það er von að það þurfi að auka fjárveitingar til að reka sjoppuna.

Hér hefur ýmislegt athyglisvert komið fram, m.a. um þá málsmeðferð þegar fræðsluskrifstofur senda sínar tillögur áleiðis til fjárveitingavaldsins, og ég vil sérstaklega þakka þær upplýsingar sem komu fram í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og voru greinargóðar. Einnig hvað varðaði samanburð á aðstöðu Norðurlandsumdæmis eystra og t.a.m. Reykjavíkur hvað varðar fræðslu og sérkennslu inni í hinum almenna grunnskóla. Það var að mínu viti drengilega flutt ræða af hv. þm. Reykv., sem tók samanburðinn með þeim hætti, og fyrir það vil ég þakka.

Herra forseti. Það væri svo gaman að ræða svolítið við hæstv. ráðh. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, um lögin, um það viðhorf sem í ummælum hans áðan birtist til réttinda og skyldna opinberra starfsmanna. Ég vil segja það eitt að ég

hygg að opinberir starfsmenn í landinu, sem eru býsna margir, muni lesa ummæli hæstv. menntmrh., sem er einn stærsti vinnuveitandi opinberra starfsmanna, með nokkurri athygli. Ber að skilja samanburð hans t.a.m. við sjómennskuhefðir sem svo að hann vildi að þetta væri eins, þessu væri eins farið um æðstu embættismenn ríkisins og opinbera starfsmenn, að það ætti að vera hægt að sparka þessum mönnum út fyrirvaralaust? Takið þið pokann ykkar ef mér líkar ekki við ykkur. Það var það sem hæstv. menntmrh. var hér að segja í raun og veru. Hann teldi að það ætti að breyta lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eitthvað í þá veru. Það er sem sagt hans skoðun.

Það hafa ræðumenn á undan mér farið vandlega í gegnum það hvernig aðalskrifstofa menntmrn. hefur staðið fjárhagslega á þessu ári og ég hef engu við það að bæta, ekki nokkru, og hæstv. menntmrh. má reyna að fegra ástæður þess og rökstyðja þá risnu t.d. sem sú skrifstofa þarf að standa undir og þarf aukafjárveitingar til. En ég verð þó að segja það með fullri virðingu fyrir þingræðinu, herra forseti, með fullri virðingu fyrir fjárlögunum og allri stjórnskipun landsins að mér finnst það skipta nokkru máli hvort menn lenda e.t.v. eitthvað fram úr fjárlagaramma í viðleitni sinni við að halda uppi lögbundinni þjónustu t.a.m. við börn sem þurfa á aðstoð að halda í skólum eða t.a.m. við rekstur spítalanna. Ég hef litið á það öðrum augum hingað til þó að ríkisspítalarnir t.d. færu einhverjum milljónum fram úr fjárlagarammanum þegar þeir eru að veita lögbundna þjónustu samkvæmt heilbrigðislögum heldur en hitt hvort ráðuneyti og ýmsar opinberar stofnanir, sem eru þekktar fyrir ýmislegt annað en sérstaka aðhaldssemi og jafnvel eiga það til að halda býsna myndarlegar veislur, kaupa eitthvað af brennivíni og veita sér ýmislegt slíkt sem ekki verður flokkað undir brýnustu nauðsynjar, renna tugum prósenta fram úr fjárlögum. Og það skulu menn hafa hugfast að fræðsluskrifstofan á Akureyri hefur ekki farið fram úr sínum fjárlagaramma vegna veisluhalda eða brennivínskaupa. Það liggur a.m.k. fyrir og er á borðinu. Ég hef engan mann halda öðru fram en að þar séu reiður í lagi hvað slíka hluti varðar og þar tíðkist ekki flottræfilsháttur af neinu tagi sem hægt væri að kalla ósæmilegan í slíkum tilfellum.

Ég vil svo segja að frammistaða Framsfl. var heldur bág eins og hún birtist í svörum hæstv. forsrh. Hér var vitnað í ummæli hans þar sem hann hefur undanfarna daga verið mjög hissa og alveg forundrandi og efagjarn um framgöngu ráðherrans og þar fram eftir götunum og eiginlega verið mótfallinn þessari framkomu o.s.frv. En síðan hafði hann ekki annað að segja en það að það lægi ljóst fyrir að ráðherrann hefði lagalega stöðu til að gera það sem hann hafi gert. Sagan er búin. Ég get ekki tekið það öðruvísi en svo að Framsfl. með svari hæstv. forsrh. samþykki þá menntastefnu og þær aðgerðir sem hæstv. menntmrh. hefur beitt sér fyrir ef undanskilja á þá einstaka þm. sem kunna að koma sérstöðu sinni á framfæri.

Það var aðferð ráðherrans áðan að reyna eftir mætti að draga persónu Sturlu Kristjánssonar fyrrv. fræðslustjóra inn í þessa umræðu. Það hefur varla farið fram hjá mönnum hér. Nánast öll málsvörn menntmrn., sem hæstv. ráðh. flutti hér, gekk út á það að draga persónu viðkomandi manns inn í málið, reyna að forðast það eins og heitan eldinn að líta á þessa deilu í víðara samhengi og reyna að sverta viðkomandi einstakling, hann væri óhæfur, ómögulegur, dónalegur, kynni ekki að tempra sitt orðbragð o.s.frv. og svoleiðis menn gætu menn ekki haft. Ég þekki þessa aðferð. Þegar Sigurjón Valdimarsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs ísl. námsmanna, var rekinn fyrir réttu ári, í janúarkasti hæstv. menntmrh. þá, skammdegiskastinu eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir vék að áðan, var aðferðin alveg hin sama. Það var talað um persónulegt vandamál o.s.frv., sama taktík, sama orðbragð. Þetta er eitt það lágkúrulegasta, herra forseti og hv. þm., sem ég hef orðið vitni að á mínum þingferli, ég verð að segja alveg eins og er, þessi aðferð sem hæstv. menntmrh. hefur notað til að rökstyðja mannfórnir sínar síðan hann tók við húsbóndavaldi á menntmrn.

Að síðustu vil ég koma á framfæri einni leiðréttingu vegna fjarstaddra manna til að þeir liggi ekki undir meiri ágjöfum af hálfu hæstv. menntmrh. en ástæða er til vegna þess að betri upplýsingar liggja hér fyrir og þær varða það, sem borið var hér á Sturlu Kristjánsson, að hann hefði án heimilda tekið á leigu húsnæði og innréttað það í sinni tíð sem fræðslustjóri Norðurlandsumdæmis eystra. Hvað sem líður þeim heimildum eða ekki heimildum sem þar voru fyrir hendi er það ljóst að það voru Ingólfur Ármannsson, þáv. fræðslustjóri, og Sigurður Óli Brynjólfsson, formaður fræðsluráðs, sem tóku ábyrgð á þeirri ákvörðun á sínum tíma.

Skilaboð menntmrn. eins og þau birtust í varnarræðunni miklu, sem tók einn og hálfan tíma að flytja, syndaregistrinu og sakaskránni sem var lesin upp af hæstv. menntmrh., voru alveg augljós. Varnarræða kerfisins var augljós til starfsmannanna hvar sem þeir starfa. Þið skulið hlýða, skrattarnir ykkar, með leyfi þínu forseti. Það voru skilaboðin. Þið skulið sko hlýða, pöddurnar ykkar, með leyfi þínu herra forseti. Það voru skilaboðin. Og með leyfi þínu, herra forseti: Þið skulið þegja. Þið skulið þegja. Látið engar upplýsingar frá ykkur fara sem ráðuneytinu kynnu að koma illa. Það er boðorðið. Embættismennirnir eins og við viljum hafa þá eru þægir. Þeir hlýða. Þeir eru ekkert að nöldra yfir niðurskurði á sérkennslu. Nei, við viljum ekki hafa svoleiðis menn. Við viljum hafa þæga og góða opinbera starfsmenn sem eru tilbúnir til að taka pokann sinn þegar okkur hentar, ef okkur sýnist svo, án þess að múðra. Og það er óþægilegt að hafa menn eins og Sturlu Kristjánsson, sem er doktor í grunnskólalögunum og kann þau aftur á bak og áfram og allar reglugerðir þar að lútandi, sem geta verið að reka hlutina ofan í ráðuneytið. Kerfið vill ekki hafa svoleiðis menn. Það er miklu betra að hafa þæga, hlýðna og mátulega illa upplýsta starfsmenn á víð og dreif um landið og geta skipað þeim fyrir verkum héðan að sunnan. Það er okkar skipulag. Það viljum við hafa.

Ég vil svo að síðustu segja það að sú uppstilling hæstv. menntmrh. að Alþb. hafi leikið hér eitthvert sérstakt hlutverk á bak við tjöldin var svipað og McCarthy stillti þessu upp á sínum tíma í Bandaríkjunum þegar hann sá kommúnista í hverju horni, rak Charlie Chaplin úr landi o.s.frv. Það var mjög í þeim anda sem hæstv. menntmrh. stillti hlutunum hér upp. Hann sá fyrir sér eitt ljótt samsæri ljótra manna, sem voru enn þá verri en Sturla Kristjánsson, einhvers staðar norður í landi sem voru að brugga honum vélráð. Og hverjir hafa nú m.a. verið sérstaklega í bakvarðarsveit Sturlu Kristjánssonar í þessu máli? Það er forseti bæjarstjórnar á Dalvík, flokksbundinn sjálfstæðismaður, Trausti Þorsteinsson. Það er Sverrir Pálsson skólastjóri á Akureyri, það er Þráinn Þórisson skólastjóri á Skútustöðum. Ég vildi gjarnan að þessir sómamenn væru allir í Alþb., en því miður hef ég alltaf talið þá í öðrum flokkum hingað til.

Ég er ekki í þessu máli, herra forseti, hvað sem hæstv. menntmrh. heldur. Hann kemst nú engan veginn yfir það, maðurinn, að það eigi að kjósa einhvern tímann seinna á árinu. Það virðist halda svo fyrir honum vöku að í hverri einustu ræðu sem hér er flutt sér hann einhvers konar lúmska aðgerð viðkomandi ræðumanns sem tengist næstu kosningum og hrellir það hann mjög.

Ég er einfaldlega þm. Norðurlandskjördæmis eystra og þegar kennarar, skólastjórar, foreldrar, fræðsluráð, stjórn fjórðungssambandsins og aðrir aðilar á því landsvæði beina til mín erindum sem alþm., leita m.a. til mín til að ná fram rétti sínum, bregst ég við. Hvernig á ég öðruvísi að hegða mér sem þm. á þessu svæði? Og það er hvorki nýtt né gamalt að við þm. þessa umdæmis séum beðnir ásjár í þessu máli. Það er árlegur viðburður og hefur verið svo um langt árabil og það geta samþingmenn mínir væntanlega staðfest hér. Því miður, eða e.t.v. er rétt að segja sem betur fer fór það svo að hæstv. menntmrh. gat í engu rökstutt sína ákvörðun, gat engu svarað um það sem hann var hér að spurður, kaus að fara aftur í fortíðina og koma með tilvitnanir úr persónulegum bréfum máli sínu til stuðnings.

Ég lít því svo á að hér geti ekki orðið punktur, hér geti ekki orðið „amen eftir efninu.“ Það sé óhjákvæmilegt að ganga eftir því frekar að svör og skýringar fáist. Þar sem nú lítur út fyrir að þessari umræðu ljúki ekki hér og nú heldur haldi hún áfram gefst e.t.v. kostur á að hlýða frekar á mál ráðherrans. Kannske fáum við aðra tveggja tíma ræðu þar sem fluttar verða gamlar syndatölur. En hitt er jafnljóst að komi ekki fram einhverjar haldbærari skýringar á þeim aðgerðum sem hæstv. menntmrh. greip til eru þær óverjandi. Alþingi getur ekki setið undir því að valdi ráðherra sé beitt með þeim hætti og það hlýtur að bregðast við í samræmi við það.