21.01.1987
Efri deild: 33. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2423 í B-deild Alþingistíðinda. (2283)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Björn Dagbjartsson:

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða við hv. síðasta ræðumann um fiskveiðistefnu og tengsl þessa máls við fiskveiðistefnuna sem ég sé nánast engin. Hitt er svo rétt að upplýsa hv. þm. um að ég veit ekki betur en að nú þegar hafi safnast um 20 millj. kr. í hlutafjárloforðum í fyrirtæki um fiskmarkað hér í Reykjavík og ég held að ég fari rétt með að það sé aðeins mjög lítill hluti af því frá Reykjavíkurhöfn sem væri eini aðilinn sem kallast gæti opinber.

Ég nenni heldur ekki að fara að tala við hv. þm. um rýrnun á fiski sem fer til útlanda. Ég get aftur tekið undir það með honum að við vitum ekki nákvæmlega hvað gerist með tilkomu fiskmarkaðar. Það hefur verið ótti meðal fiskverkenda og útvegsmanna úti á landi um að þeir sætu ekki við sama borð varðandi fiskverð og aðrir með tilkomu slíkra markaða hér á suðvesturhorninu. Það er líka alveg ljóst að það eru tveir aðilar við Eyjafjörð sem hafa mikinn áhuga á að setja á stofn slíkan markað. Ég veit það og veit að hv. þm. í deildinni vita það líka að t.d. Útgerðarfélag Akureyringa hefur kosið það nú að bjóða í fisk af sínum eigin skipum. Það býður sínum skipshöfnum nú að minnst 10% aflans verði seld á því verði sem fengist fyrir gámafisk á þeim tiltekna tíma. Það er augljóst hvað þetta hefur í för með sér. Maður gæti hugsað sér skip Granda hf. þar sem mér er kunnugt um að áhafnir hafa farið fram á að 15% verði seld á slíkan máta. Maður gæti vel hugsað sér að áhafnir togara gerðu þær kröfur að það nýjasta úr aflanum yrði selt á þennan hátt, það yngsta af aflanum. (SkA: Þið gætuð farið á hina hefðbundnu íslensku markaði.) Það sem hv. þm. var að segja er nú einu sinni það sem gerist. Af því að hann er fiskverkandi sjálfur þekkir hann að þar sem togarar landa fiski er byrjað á elsta fiskinum og aldrei verið að vinna nýjan fisk. Það er því miður staðreyndin, hv. þm.

Hins vegar var ég feginn því eftir allminnisstæðar ræður sem hv. þm. flutti fyrir jólin að hann getur verið sammála einhverju sem hæstv. sjútvrh. leggur fram. Hann talaði þá mikið um að við stjórnarþingmenn dönsuðum í kringum einiberjarunninn þegar hæstv. ráðh. legði fram frv. Nú virðist hann ætla að gera það líka og ég get ekki annað en fagnað því að hann sé kominn með, þó hann þyrfti náttúrlega að taka einstaka víxlspor í leiðinni.

Ég lýsi því sem sagt yfir að ég er í grundvallaratriðum sammála þessu frv. og samþykkur því. Ég tel ekki mikla hættu á því að það fari mjög margir aðilar af stað í slíkan atvinnurekstur nú þegar. Mér finnst engin ástæða til þess að við leggjum af stað með mjög stórt eða dýrt bákn í þessum efnum. Það væri svo sem ágætt ef við kæmumst af með eitt fyrirtæki. Við megum heldur ekki gera of miklar kröfur í byrjun. Ég bendi á 3. gr. frv. Þar er vitnað í lög um Ríkismat sjávarafurða og reglur sem settar eru með stoð í þeim um húsnæði og búnað. Það getur orðið nokkuð dýrt ef það ætti að fara mjög nákvæmlega út í það, en það er líka tekið fram að það sé eftir því sem við getur átt og ég get ekki ímyndað mér að menn ætlist til þess að það sé farið mjög nákvæmlega út í flísalagnir, fjölda hreinlætistækja, málningu, lýsingu o.þ.h. Reyndar finnast mér óþarflega mörg smáatriði í þessu frv. Ég ætla ekki að fara að telja þau upp. Ég tek undir það og legg áherslu á það að við fáum mjög gott tækifæri til að ræða við forstöðumenn Granda eða stærstu fyrirtækjanna í Hafnarfirði í hv. sjútvn. Ég er viss um að þeir munu skýra sín sjónarmið vel.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta öllu fleiri orðum. Ég veit að við fáum tækifæri til að ræða það betur í nefndinni og síðar í þinginu.