21.01.1987
Neðri deild: 36. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2428 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

174. mál, stjórnarskipunarlög

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þetta frv. er hið merkasta mál og vert mikillar umhugsunar og umræðu. Því miður hefur staðið svo á þegar þetta mál hefur verið til umræðu áður hér í þinginu að ég hef verið vant við látin og nú síðast reyndar í forsetastóli svo ég hef ekki getað tjáð mig um það héðan úr ræðustóli.

Hv. 5. þm. Reykv. Jón Baldvin Hannibalsson lýsti eftir stefnu Kvennalistans og afstöðu til frv. hér s.l. mánudag. Hann er nú því miður ekki viðstaddur til að hlýða á þá afstöðu. Hann ræddi m.a. mikið um þriðja stjórnsýslustigið, eins og reyndar ýmsir aðrir í þessum umræðum sem vonlegt er, og virðist ekki hafa tekið eftir svörum Kvennalistans sem birt eru í títtnefndri skýrslu byggðanefndar þingflokkanna sem kom út í júlí s.l. En aftarlega í þeirri skýrslu eru birt þessi bréfaskipti formanns byggðanefndar þingflokkanna og fulltrúa þingflokkanna. Þar er bréf frá Kvennalistanum, dagsett 2. maí 1985, eða ekki alllöngu eftir að bréf formanns barst þingflokknum, og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þingflokkur Kvennalistans hefur fjallað um þær fjórar meginspurningar sem mótast hafa í störfum byggðanefndar þingflokkanna, en er ekki tilbúinn til þess að svara þeim ákveðið og endanlega né leggja fram fastmótaðar tillögur. Aðalástæða þess er að Kvennalistinn er enn að skjóta öngum úti á landsbyggðinni, þaðan sem við viljum helst fá hugmyndir og ákveðnar tillögur um þróun byggðastefnu. Að þessum fyrirvara gefnum eru svör okkar á þessa leið:

1. Hvað eiga stjórnsýslustig í landinu að vera mörg?

Svar: Sennilega er nauðsynlegt að þau verði þrjú, sérstaklega með tilliti til þess að illa hefur gengið að fá sveitarfélög til að sameinast og auka bolmagn til framkvæmda með því móti. Við teljum rétt að leggja áherslu á minnstu eininguna og erum eindregið andvígar því að valdbjóða breytingar á hreppamörkum sem eru ákaflega viðkvæm. Öðru máli gegnir með þjónustusvæði sem ekki þarf að taka mið af öðru en landfræðilegri hagkvæmni, svo og þeim fjölda sem þarf til að bera þjónustuna uppi. Þriðja stigið, eða öllu heldur miðstigið, er því nauðsynlegt til þess að taka við verkefnum frá ríkinu. Ekki er þó hægt að líta alveg fram hjá þeirri staðreynd að með tilkomu millistigs kann ákvarðanataka að reynast flóknari og erfiðari og rifrildið færast heim í hérað í stað þess að nú geta menn látið sér nægja að skamma þingmenn kjördæmisins fyrir að taka einn skóla fram yfir annan, þessa sveit fram yfir hina.

2. Við hvað eiga stærðarmörk neðstu stjórnsýslueiningarinnar að miðast?

Svar: Samanber svarið við fyrstu spurningu teljum við hvorki rétt né fært að setja slík mörk.

3. Hvernig á að tryggja virkara lýðræði og aukna valddreifingu með skipulagi, verkefnum og kosningareglum fyrir miðstig stjórnsýslunnar?

Svar: Miðstigið taki fremur mið af landfræðilegri hagkvæmni en núverandi sýsluskipan. Miðstigið taki við verkefnum af ríkinu, svo sem á sviði menntunar og menningarmála, heilsugæslu, samgangna, brunavarna og skipulagsmála. Til þessa stjórnsýslustigs verði kosið beinni lýðræðislegri kosningu án takmörkunar á kjörgengi.

4. Hvernig á að skipta tekjustofnum og fjárhagslegri ábyrgð milli sveitarstjórna, héraðsstjórna og ríkis?

Svar: Með aukinni ábyrgð og auknu framkvæmdarvaldi verða heimastjórnir einnig að fá aukið vald til tekjuöflunar. Best væri ef þeim yrði treyst til þess að sjá um þann þátt sjálfar, auk þess sem ríkisvaldið hlýtur að verða að gefa eftir af sínum rétti til neysluskatta. Að auki hlýtur svo ríkið að veita fé beint til sérstakra framkvæmda sem eru stærri en svo að héruðin ráði við þau.“

Undir þetta ritar sú sem hér stendur því svo stóð á að þegar þessi bréfaskipti fóru fram var ég formaður þingflokks en auk þess átti ég sæti í þessari ágætu nefnd svo það má kannske segja að hér hafi ég verið að svara sjálfri mér, en allt var það nú í fullu samráði við stöllur mínar í þingflokknum.

Ég vil svo aðeins benda á það að bréfið frá formanni byggðanefndar þingflokkanna var sent 27. febr. 1985. Svar þingflokks Alþfl. barst u.þ.b. mánuði síðar og svar þingflokks Kvennalistans stuttu þar á eftir eða 2. maí 1985. Svar þingflokks framsóknarmanna barst hins vegar ekki fyrr en rúmlega ári síðar svo eitthvað hefur svarið staðið í þeim. Að vísu virðist sá sem undirritar bréfið hafa talið það eitthvað nýrra, þ.e. bréf formanns byggðanefndar, því að í upphafi bréfsins talar hann um bréf byggðanefndar þingflokkanna frá því í febrúar 1986, en það var sent 1985. Sama er að segja um svar þingflokks sjálfstæðismanna sem svöruðu enn síðar en framsóknarmenn eða í júní 1986. Svar þingflokks Alþb. barst hins vegar aldrei. (KP: Hvað sagði hv. þm.?) Svar þingflokks Alþýðubandalagsmanna barst aldrei. (KP: Aldrei?) Nei, aldrei. Það er a.m.k. ekki prentað í skýrslu byggðanefndar þingflokkanna og veit ég ekki um ástæður þess að þetta svar barst aldrei. En það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd, eins og við hv. þm. Karvel Pálmason vitum, að þingflokkur Alþb. átti hinn ágætasta fulltrúa í nefndinni.

Í þessu svari sem ég las hér áðan frá þingflokki Kvennalistans kemur sem sagt fram hugur okkar Kvennalistakvenna í sambandi við þær hugmyndir um breytingar á stjórnskipun sem til umfjöllunar voru í byggðanefnd þingflokkanna. Það þykir e.t.v. ekki nógu skorinort, mér fannst það ekki sjálfri, en eins og tekið er fram í svarinu, þá fannst okkur þetta mál ekki hafa fengið næga umfjöllun og ekki nógu víðtæka umfjöllun innan okkar raða. Þetta frv. sem hér er til umfjöllunar er að mínu mati stórmerkilegt mál. Það er ekki síst merkilegt fyrir þá staðreynd að það er samið af embættismönnum kerfisins, það er ekki samið af ráðherraskipaðri nefnd, heldur af fólkinu sjálfu, ef svo má taka til orða, þ.e. af því fólki sem má reyna allar aðstæður á eigin skinni. Það væri nú skárra ef Kvennalistinn tæki ekki mark á hugmyndum slíks hóps og væri meira en til í að ræða þær. Ekki síst þar sem ein þeirra, sem sæti á í stjórnarskrárnefnd Samtaka um jafnrétti milli landshluta, er engin önnur en fyrsta varaþingkona okkar landskjörinna Kvennalistakvenna, Málmfríður Sigurðardóttir, sem er þm. kunn eftir að hafa setið tvisvar á þingi á þessu kjörtímabili.

Landsbyggðin hefur vissulega farið halloka fyrir Reykjavíkurveldinu á síðari árum og eru sannarlega virðingarverðar allar tilraunir landsbyggðarfólks til að snúa vörn í sókn. Öflugasta aðgerðin á því sviði eru Samtök um jafnrétti milli landshluta sem starfað hafa af krafti og komið miklu róti á umræður um þessi mál. Slíkar aðgerðir, sprottnar af þörf fólks til þess að hafa áhrif á líf sitt og umhverfi, eru mjög af hinu góða.

Ástandið í byggðaþróun hér á landi er þannig að árin 1984-1985 fækkaði fólki á landsbyggðinni í beinum tölum reiknað en slíkt hefur ekki gerst síðan á árunum 1945-1946, þar eð náttúrleg fjölgun hefur vegið upp fækkun vegna flutninga. Þessi þróun á rætur í þeim erfiðleikum sem sjávarútvegur og landbúnaður eiga nú við að etja og þeim stórfelldu breytingum og endurskipulagningu sem þessar atvinnugreinar ganga nú í gegnum. Þetta er auðvitað að mörgu leyti eðlileg þróun, eðlileg afleiðing þeirrar tæknibyltingar sem veldur því að nú þurfum við mörgum sinnum færra fólk til þess að afla og framleiða margfalt meira magn afurða í þessum undirstöðugreinum okkar. En erfiðleikar landsbyggðarinnar eru einnig afleiðing af samdráttarstefnunni í ríkisfjármálum sem hefur bitnað harkalega á landsbyggðinni. Og fækkun fólks á landsbyggðinni á einnig rætur í breyttum og vaxandi kröfum fólks til félagslegrar og menningarlegrar þjónustu og fjölbreytts mannlífs á alla lund. Síauknar kröfur um menntun og sérhæfingu á öllum sviðum, breytingar á fyrirvinnuhlutverkinu, síaukin þátttaka kvenna í atvinnulífinu samhliða breyttri stöðu þeirra í þjóðfélaginu, allt eru þetta þættir sem hafa áhrif á þróunina.

Af kynnum mínum og samtölum við konur alls staðar á landinu virðist mér tvennt liggja þeim þyngst á hjarta hvar sem þær eru búsettar. Það er einhæfni atvinnulífsins og erfiðar aðstæður til menntunar. Það er fyrst og fremst þetta tvennt sem þarf að breyta. Kvennalistinn hefur gert ýmsar tillögur um að bæta aðstöðuna í skóla- og menntunarmálum, svo sem um námsgagnamiðstöðvar í öllum fræðsluumdæmum, um fjölgun skólaselja svo að engin börn undir 10 ára aldri þurfi að dveljast í heimavist. Þá hefur Kvennalistinn hvatt til eflingar fullorðinsfræðslu og lagt fram frv. til laga um fjarnám sem mundi gjörbreyta að okkar mati aðstöðu fólks um allt land til náms og símenntunar. Miðstöðvar fjarnáms gætu m.a. verið í hinum myndarlegu byggingum víða um landið sem hafa hýst héraðs- og húsmæðraskóla sem nú standa á nokkrum tímamótum.

Það skiptir ekki minna máli hvernig til tekst með atvinnuþróun á landsbyggðinni. Fjölgun starfa hefur á síðustu árum orðið fyrst og fremst í þjónustugreinum og að flestra áliti mun svo verða áfram í náinni framtíð. Það veltur því á miklu hvar á landinu þessi störf verða til. Landsbyggðin þarf að fá aukna hlutdeild í þeirri atvinnusköpun sem á sér stað í þjónustugreinunum. En líkurnar til þess að svo megi verða eru að miklu leyti háðar því hvort okkur auðnast að gera umtalsverðar breytingar á stjórnkerfi landsins sem færi landsbyggðinni aukna sjálfsstjórn og forræði um eigin málefni og aflafé.

Kvennalistinn hefur frá upphafi lagt áherslu á nauðsyn þess að færa ábyrgð og verkefni nær fólkinu sjálfu og tryggja rétt þess til þess að hafa áhrif á eigið líf og aðstæður. Og ég sé ekki betur en að það frv. sem hér er til umræðu sé að mörgu leyti í samræmi við hugmyndir okkar í þessa veru. Ég játa það nú hreinskilnislega að ég hef ekki lagst í meiri háttar vangaveltur og rannsóknir á einstökum greinum eða orðalagi, en tel mig geta fullyrt að hér er um tillögur að ræða sem Kvennalistakonur geta í meginatriðum fellt sig við og vilja gjarnan skoða betur.

Í sumum greinum höfum við jafnvel viljað ganga lengra og flutt um það tillögu. Þar á ég m.a. við 92. gr. þessa frv. Á þskj. 92 er till. til þál. um þjóðaratkvæði. Fyrsti flm. er þar María Jóhanna Lárusdóttir sem sat í stað Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur um tíma á haustþingi. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að stefnt skuli að því að tíundi hluti kosningabærra manna eða þriðjungur þingmanna geti farið fram á ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál. Komi fram slík krafa um mál, sem er til meðferðar á þingi, skal fresta endanlegri afgreiðslu þess þar til þjóðaratkvæðagreiðslan hefur farið fram. Kjósendum skal gefinn eðlilegur tími til að kynna sér það mál er kjósa á um, en niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar skal þó liggja fyrir eigi síðar en 12 vikum eftir að hennar er óskað.“

Þannig hljóðar þessi till. og gengur þannig töluvert lengra en till. sú sem borin er fram í þessu frv. til stjórnarskipunarlaga sem hér er á dagskrá.

María Jóhanna Lárusdóttir flutti einnig frv. sem er á þskj. 85, til breytinga á lögum um sveitarstjórnir sem felur í sér aukinn rétt almennra borgara til umfjöllunar um einstök sveitarstjórnarmálefni og til þess að krefjast atkvæðagreiðslu um einstök mál. Þessi þingmál sýna hug Kvennalistakvenna í þessum málum og kannske ekki miklu við þetta að bæta.

En það er eitt atriði sem mér finnst þurfa að gaumgæfa vel og það varðar rétt okkar til áhrifa á landsstjórnina. Ég hef lýst því yfir að ég og margar aðrar Kvennalistakonur teljum nauðsynlegt að koma á þriðja stjórnsýslustiginu til þess að tryggja valddreifingu og auka möguleika fólks til þess að stjórna sínum málum sjálft. Hugmyndir Samtaka um jafnrétti milli landshluta um fylkjaskipan er þeirra útfærsla á hugmyndum um þriðja stjórnsýslustigið og mér virðast þær nokkuð aðlaðandi. Hins vegar vilja menn hér breyta nokkuð um skipan Alþingis og m.a. fækka þingmönnum. Slíkar hugmyndir njóta töluverðs fylgis og oft heyrast raddir um nauðsyn þess að fækka þingmönnum og með fylgja gjarnan nokkrar athugasemdir um óþarfa nudd þeirra og nagg og lítil afköst. Ég sé í þessum hugmyndum, ef að veruleika yrðu, þá hættu að með því yrðu takmarkaðir verulega möguleikar nýrra stjórnmálasamtaka og flokka, sem oft eru smáir í sniðum, a.m.k. í fyrstu, til að fá fulltrúa á þing og ná þar fótfestu. Þetta þarf að athuga og ræða og má nú vera að fulltrúar hinna fjóru stóru hafi ekki jafnmikinn áhuga á slíku og við fulltrúar Kvennalistans.

Á móti má svo segja að með því að færa stjórnsýslu meira heim í héruðin skapist auknir möguleikar kvenna til að hasla sér völl í stjórnmálum og hafa þar áhrif því að þær eru nú einu sinni bundnari heimilum sínum en karlar og víla það oft fyrir sér að stefna til alþingisstarfa. Fylkisþing er kannske yfirstíganlegra hvað konur varðar.

Ég vil svo aðeins að lokum þakka hv. flm. frumkvæðið í þessu máli, en jafnframt hlýt ég að lýsa því að það vakti nokkra undrun mína þegar það fyrst kom fram með tilliti til þess hvernig þetta mál var kynnt í upphafi af fulltrúum Samtaka um jafnrétti milli landshluta. Ég hélt það meiningu þeirra sem standa að samtökunum að tryggja þverpólitíska samstöðu og ég minnist samtals við forustumann í þessum samtökum þegar hugmyndir þeirra höfðu nýlega verið kynntar. Það var einmitt í miðjum vorönnum hér á þingi og hann spurði um afstöðu Kvennalistans til þessara tillagna. Mig minnir nú reyndar og ég reikna með því að ég hafi verið fremur varkár í yfirlýsingum um afstöðu Kvennalistans til þessara tillagna, enda við rétt búnar að líta yfir þessar tillögur og nánast ekkert um þær fjallað sameiginlega. En hann lagði áherslu á að þetta mætti ekki verða flokkspólitískt mál og spurði einmitt um líkindi á því að fulltrúar allra þingflokka gætu sameinast um flutning máls af þessu tagi. Ég held ég muni það rétt að ég hafi svarað honum því til að mér þætti ekki ólíklegt að slík samstaða væri fáanleg, en benti honum á það að við værum í miðjum vorönnum og varla tími til að leita eftir samstöðu, rétt að láta sumarið líða og gefa mönnum tíma til að skoða þessar tillögur og kynna þær á sem breiðustum grundvelli í sínum samtökum og flokkum. Þess vegna varð ég nokkuð undrandi þegar þetta frv. birtist hér á borðum okkar á síðasta þingi. Það breytir þó hreint engu um þá skoðun mína að hér er um merkar tillögur að ræða.