22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2443 í B-deild Alþingistíðinda. (2295)

217. mál, auðlindaleit í landgrunni Íslands

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka jákvæðar undirtektir hæstv. iðnrh. undir þetta mál sem ég mælti fyrir hér áðan. Það er alveg rétt sem fram kom í máli ráðherrans að á síðustu misserum hefur verið minni áhugi hjá olíuleitarfélögum á olíuleit og könnun á landgrunnsauðæfum vegna hins lága verðs á olíu í veröldinni. Það er hins vegar óvíst hve lengi það lága verð varir og fyrr en varir getur komið til breytinga í því efni. Undirbúningur slíkra reglna eða lagasetningar sem um er fjallað í tillögunni tekur þó nokkurn tíma þannig að ekki er ráð nema í tíma sé tekið.

Ég vil einnig fagna þeim upplýsingum sem fram komu hjá ráðherra er hann vék að því að þegar væru gögn fyrir hendi og undirbúningsstarf hefði þó nokkuð verið unnið í iðnrn. sem að þessu máli lýtur og ætti það að gera eftirleikinn allan auðveldari.