22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2449 í B-deild Alþingistíðinda. (2300)

225. mál, kennsla í ferðamálum

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir efni þessarar till., enda margoft búin að lýsa áhuga á eflingu ferðaþjónustu og nauðsyn þess að treysta grunn þeirrar atvinnugreinar sem vitanlega verður að byggjast á þekkingu.

Á síðasta þingi, nánar tiltekið 8. apríl s.l., svaraði hæstv. menntmrh. fsp. sem ég hafði lagt fram um það hvaða nám væri nú í boði fyrir þá sem starfa í ferðaþjónustu og hvort einhverra breytinga væri að vænta í þeim efnum. Í svari hæstv. ráðh. kom fram, sem ég raunar átti von á, að ekki er af miklu að státa í þeim efnum. Ráðherra nefndi vitanlega fyrstan Hótel- og veitingaskólann og hann nefndi einnig að Félag leiðsögumanna hefði haldið uppi námi fyrir leiðsögumenn, hann minntist á að Flugleiðir þjálfa á sínum vegum flugfreyjur og flugþjóna og að Bændaskólinn á Hvanneyri hefði veitt ferðaþjónustu fyrirgreiðslu í fræðslu um ferðamál. Hins vegar kom fram í svari hans að ekki væri annað í bígerð en það sem áformað væri í sambandi við uppbyggingu Hótel- og veitingaskólans í Kópavogi og í umræðunni kom fram það sem hér hefur verið minnst á að það hefur gengið vonum seinna að koma þeim skóla í almennilegt húsnæði og hefur náttúrlega staðið uppbyggingu fræðslu á þessu sviði fyrir þrifum.

Ég nefndi í þessari umræðu að það væri ætlun mín að leggja fram tillögu um nám í ferðaþjónustu. Hv. 2. þm. Reykn. hefur orðið mér fyrri til og er mér sannarlega sama hvaðan gott kemur. Hins vegar er þessi till. tæpast nógu rúm að mínum dómi. Mér finnst ekki nóg, eins og ég gat reyndar um í umræðunni um fsp. mína á síðasta þingi, mér finnst ekki nóg að bjóða upp á sérhæft nám á einum stað. Ég tel mjög nauðsynlegt að byggja upp nám sem gagnist víða um landið. Ég tel að það væri æskilegt að bjóða upp á námsbrautir í fjölbrautaskólunum og sjálfsagt að hafa ferðaþjónustu mjög sterklega í huga þegar leitað er leiða til að efla héraðsskólana og húsmæðraskólana að nýju. Hér gæti verið um undirstöðumenntun að ræða sem nýttist sem undirbúningur undir nám í sérhæfðum skóla eins og um ræðir í þessari till. Ég vil sérstaklega í því sambandi minna líka á fjarkennslu sem ég tel mjög kjörinn vettvang fyrir fræðslu af þessu tagi.

Hvað staðarval varðar get ég nú ekki tekið undir hugmynd síðasta ræðumanns. Ég tel fyllilega eðlilegt að byggja upp skóla, alhliða ferðamálaskóla í tengslum við Hótel- og veitingaskólann sem ákveðinn hefur verið staður í Kópavogi, en vil ítreka það sem ég sagði hér um nauðsyn undirbúningsmenntunar og námsbrauta sem væru þá undirbúningur undir nám í slíkum skóla. Og þar ítreka ég það sem ég sagði um nýtingu héraðs- og húsmæðraskóla sem efla þarf að nýju.

Að teknu tilliti til þessa sem ég hef nú sagt lýsi ég stuðningi við þessa tillögu.