22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2453 í B-deild Alþingistíðinda. (2304)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Þetta er nú orðið ansi mikið þjark hérna um þetta mál og satt að segja ekkert sérstaklega spennandi að fara að taka nú svona í lokin þátt í þessari umræðu. En eigi að síður hefur mér fundist rétt að taka hér til máls vegna þess að það verður nú að segjast eins og er að þetta mál hefur á engan hátt skýrst þannig fyrir okkur hv. þm., þrátt fyrir allt, að við vitum nákvæmlega hvað hér er um að ræða. (Menntmrh.: Ekki fyrrv. ráðherra heldur?) Nú kemur hæstv. ráðh. og fer að tína til einhvern gamlan reikning. Ég hefði gaman af að sjá þennan reikning og ég hefði gaman af að fara betur ofan í það hvað hér hefur skeð. Mér skilst að þetta hafi skeð í minni tíð og ég hef sterkan grun um það að það hafi verið gert í minni tíð að heimila þessa framkvæmd sem hér um ræðir. En guð hefur gefið mér eina gáfu eins og öllum öðrum, og það er að kunna að gleyma, og satt að segja man ég ekki allt sem hefur skeð frá degi til dags í mínu lífi, hvað þá það sem hefur skeð kannske fyrir 7-8 árum, og ég man ekkert eftir þessu sérstaka tilfelli sem hæstv. ráðh. er nú að tína til, og ég hef aldrei heyrt það fyrr en núna að umræðan um þetta mál eða deilurnar um þetta mál snúist um þetta sérstaka atriði. Ég held, hæstv. ráðh., að við hv. þm. þurfum að átta okkur betur á því hvort svo er í raun og veru, hvort hér er raunverulega um nokkra sök að ræða hjá þeim aðilum sem hæstv. ráðh. nefnir þarna sérstaklega til, þ.e. Sturlu fræðslustjóra, sem var lengi, og svo formann fræðsluráðsins. Ég er ekki búinn að átta mig á því að þessir reikningar séu með þeim hætti að það sé ámælisvert og ég vil fá tækifæri til þess að kanna hvort svo sé áður en ég tek nokkra afstöðu til þessa sérstaka atriðis.

Ég neita því ekki að mér kom það í hug þegar þessi mál voru að byrja núna fyrir nokkru að fá leyfi ráðuneytisins til þess að skoða þau gömlu skjöl sem ég umgekkst í ráðuneytinu á sínum tíma, sem ég á fullan rétt á sem fyrrv. ráðherra. En ég er ekki enn þá orðinn svo á kafi í sagnfræðinni að ég hafi farið að viða að mér neinum skjölum eða hafi þau tiltæk, en mér kom þetta til hugar. Því miður fórst það nú fyrir að ég gerði það, sem m.a. stafaði af því að þeir ágætu menn sem ég ætlaði að hitta í ráðuneytinu og vissi að hefðu besta reiðu á þessu voru ekki viðstaddir, en það sýnir sig að það er full ástæða til þess fyrir mig að fara ofan í þetta og sjá hvernig þessir reikningar voru, hvernig þetta var uppáskrifað og heimilað í ráðuneytinu í minni tíð. Þetta vil ég fá að sjá.

Hér hafa orðið sem sagt gífurlega miklar umræður um þessi mál og ef ég á að segja í mjög stuttu mali hvað mér finnst um þetta, þá er það að ég verð að segja mínum ágæta vini, hæstv. menntmrh., það hreinskilnislega að ég átta mig ekki fyllilega á því hvernig á því stendur að hann grípur til slíkra aðgerða sem hann hefur gert, beitir þeim aðferðum sem hann hefur viðhaft í þessu máli.

Sannleikurinn er sá að það hefur ekkert komið hér fram, nema ef það skyldi þá vera þessi reikningur sem hæstv. ráðh. er að nefna núna og ég hef ekki heyrt minnst á fyrr í umræðunni, að það sé hægt að tala um að það hafi verið á nokkurn hátt misfarið með fé á þessari skrifstofu. Ég held að það sé alrangt. Ég þekki það að vísu að það gat verið býsna erfitt að vinna með Sturlu Kristjánssyni, (Menntmrh.: Jæja.) ég þekki það frá gamalli tíð. En ég ber ekki saman þau deilumál sem við áttum í, við Sturla, á þeirri tíð sem ég var ráðherra og það sem hæstv. ráðh. er að gera nú. Það sem skeði í minni tíð var það að Sturla var skólastjóri í Þelamerkurskóla í Hörgárdal og það tókst því miður svo illa til að það komu upp alvarlegar deilur á vinnustaðnum, í skólanum. Þessar deilur leiddu til þess að skólinn var ekki tekinn til starfa þegar komið var fram í nóvember og ég sá ekki annan kost en að flytja Sturlu á milli starfa innan norðlenska skólakerfisins, hann var aðeins settur skólastjóri á Þelamerkurskóla en ég fól honum að nýju að gegna sínu starfi sem hann var skipaður til, að vera fræðslustjóri á Norðurlandi og því hefur hann gegnt. Það sem ég hef litið til með störfum Sturlu og síðan kynnt mér þau, þá sýnist mér satt að segja að hann hafi innt þau býsna vel af hendi og það hafi a.m.k. ekki komið til þess að það hafi verið á nokkurn hátt óreiða á hans vinnustað eða vandræði með það að störf gengju þar fram, hvað þá að skólakerfið hefði á nokkurn hátt stöðvast fyrir hans tilstilli. Það er fjarri því að svo hafi til tekist. Ég veit ekki til þess að Sturla Kristjánsson sé kunnur að neinni óreiðu í fjármálum, alls ekki, og ég hygg að það muni sannast að hann hafi haft að lokum fullgilda heimild til þess að koma þokkalegu húsnæði yfir starfsemina, sem nú er verið að deila um.

En hvað sem líður nú öllu þessu, þá er það mín skoðun að þetta deilumál snúist um það, sem ýmsir hafa reyndar bent á, þetta snýst í raun og veru um þá skólamálastefnu sem ríkja skal í þessu landi og við viljum halda uppi og þá ekki síður á Norðurlandi en annars staðar. Þetta er í raun og veru, hæstv. ráðh., spurning um það hvaða fjármagn skuli vera í skólakerfinu á Norðurlandi. Ég fæ ekki betur séð en hæstv. menntmrh. hafi beinlínis ákveðið það að Norðurlandskjördæmi eystra skuli verða fyrir einhverjum alveg sérstökum aðhaldsaðgerðum í fjármálastjórn menntmrn. Og ég sé það líka alveg sérstaklega fyrir mér að hæstv. ráðh. hefur ætlað að beita aðhaldsstefnu sinni öðru fremur á einu sérstöku sviði innan skólakerfisins, þ.e. hvað varðar kostnað við sérkennsluna á Norðurlandi eystra. Þannig að áhersluatriði hæstv. ráðh. í sambandi við aðhald sitt í fjármálum varðar fyrst og fremst skólakostnað á Norðurlandi og þá alveg sér í lagi sérkennslukostnaðinn. Það er þetta sem ég mun finna mjög alvarlega að. Og ég get ekki sagt að þetta sé stórmannlegt metnaðaratriði af hæstv. ráðh. að beina skeytum sínum alveg sérstaklega að þessu atriði. Það er ekki aðeins að það sé óskiljanlegt að hæstv. ráðh. skuli fá sig til þess að beita valdi sínu svona, það er í raun og veru undarlegt að hæstv. ráðh., sem maður hefði trúað að hefði metnað í sínu starfi, skuli beita sér á þann hátt sem þarna er um að ræða. Því að þó að við viðurkennum aðhaldsaðgerðir þá er fjarri því að það sé eðlilegt að beita þeim á þann hátt sem þarna er gert.

Ég skal taka undir það að þörf sé á því að hafa aðhald, fara vel með fé, en það má ekki verða að neinu duttlungamáli hvernig aðhaldinu er beitt. Mér finnst eins og hæstv. menntmrh. hafi gerst offari í þessu máli.

Ég vil sem sagt benda á að þetta er í rauninni kjarni þessa máls. Það er kjarni þessa mals að hæstv. ráðh. hefur tekið sig til og ætlar að láta Norðurlandskjördæmi eystra verða næstum að segja út undan um skólafjármuni og hann ætlar að beita því á þennan hátt sem ég hef hér sagt. Hann ætlar að láta það koma sérstaklega niður á sérkennslustundunum.

Mér finnst þetta vera allt of einstrengingsleg afstaða í sambandi við þetta mál og reyndar kemur þarna fram mjög einstrengingsleg afstaða í viðhorfum hæstv. ráðh. gagnvart framkvæmd grunnskólalaganna því að sannleikurinn er sá að þetta vandræðastand hæstv. ráðh. núna varðar fyrst og fremst það atriði hvernig smám saman á að gera ákvæði grunnskólalaganna að veruleika. Það er býsna erfitt verkefni og það hefur vafist fyrir fræðsluyfirvöldum, vafist fyrir ráðherrum í 12 ár eða svo og ég skal ekki gera lítið úr þessum vanda, að það sé erfitt að framkvæma grunnskólalögin, svo viðamikil og kostnaðarsöm sem þau eru. Ég þekki það af eigin raun.

En má ég minna á það að í grunnskólalögunum eru ýmis nýmæli. Það voru sett inn í þau ýmis nýmæli á þeirri tíð, 1974, sem ekki voru fyrir hendi fyrir gerð þessara laga. Meðal nýmælanna var það ákvæði að koma upp fræðsluskrifstofum um landið. Auðvitað hlaut það að hafa kostnað í för með sér. Og ég vil leyfa mér að minna hæstv. Alþingi á að þetta er einhver fyrsta tilraun til þess að koma á virkri valddreifingu í landinu og draga úr einhliða miðstýringu frá Reykjavík. Það skeður einmitt með stofnun fræðsluskrifstofanna að draga úr miðstýringu frá Reykjavík. Það skeður einmitt með stofnun fræðsluskrifstofanna og með þessum ákvæðum sem sett voru í grunnskólalög á þessum tíma. Ég tel að í þessu ákvæði felist hin mesta framsýni og þarna hafi verið myndarlega að staðið. Nú erum við sífellt með það á vörunum að það þurfi að dreifa valdinu og vissulega tek ég undir það. Það þarf að dreifa valdinu. Og ég held að það væri nær hæstv. menntmrh. og öllum öðrum ráðherrum, að þeir tækju vel í það og sinntu því verkefni vel, þar sem það er beinlínis þegar lögbundið að koma því svo fyrir að slík valddreifing geti átt sér stað og það á svo sannarlega við hvað varðar fræðsluskrifstofurnar. Í því felst þá auðvitað það líka að það verður að leggja ákveðið stofnfé til þessara skrifstofa meðan verið er að koma þeim á laggirnar og það þarf því engan að undra, hvorki hæstv. ráðh. né nokkurn annan, þó að það hafi kostað á þessari tíð 3-4-5 millj. að búa fræðsluskrifstofuna á Akureyri, sem nær yfir stórt og mikið svæði og mikinn mannfjölda, þó að það kosti nokkurt fé að búa þessa skrifstofu vel. (Gripið fram í.) Nei, það er einmitt það sem er, að ég tel að það hafi verið mikil framför að fræðsluskrifstofunum og það sé mikið óþurftarmál ef nokkur ráðherra aðhefst eitthvað það sem gerir að verkum að fræðsluskrifstofurnar fá ekki að njóta þeirrar virðingar sem þeim ber.

Ég er sammála hæstv. menntmrh. um að fræðslustjórar landsins heyra undir ráðherra. Ég er alveg sammála honum um það og ég lagði ævinlega ríkt á um þetta meðan ég var menntmrh. og hélt fundi með fræðslustjórum og minnti þá á að þeir væru vissulega starfsmenn ráðuneytisins. En lögin eru nú einu sinni þannig úr garði gerð að það er líka gert ráð fyrir að þeir séu starfsmenn fræðsluráðs. Það segir í lögunum einhvers staðar að þeir séu framkvæmdastjórar fræðsluráðsins. Það er alveg rétt að svo er, en eigi að síður er ég sammála hæstv. ráðh. um það að þeir heyra undir ráðherra og þeir eru hans starfsmenn.

Hins vegar held ég líka, og vil minna á það og leggja á það áherslu reyndar, að það eigi ekki að vera neins konar einstefnuakstur í samskiptum ráðherranna við fræðslustjórana. Það á ekki að vera þar neinn einstefnuakstur. Ég held þvert á móti að það sé mjög æskilegt, m.a. til að tryggja valddreifinguna sem ég var að tala um, að menntmrh., hver sem hann er, sé milliliðalaust í sambandi við fræðslustjórana og það sem oftast.

Þetta er kannske ekki aðalatriði þess sem ég ætlaði að segja um nýmæli í grunnskólalögunum og vandann við að framkvæma þessi lög, en ég legg þó mikla áherslu á að fræðsluskrifstofurnar eru mjög mikilvægar og þetta er nýmæli í lögunum sem verður að leitast við að framkvæma eftir því sem aðstæður frekast leyfa.

Ég ætla ekki að rekja hér öll þau atriði sem benda til þess að grunnskólalögin séu ekki fullkomlega framkvæmd því að það er fjarri því að það hafi tekist. Ég ætla heldur ekkert að hneykslast á því að það hefur ekki tekist að framkvæma grunnskólalögin, hvorki í minni tíð, hvorki í tíð þessa eða hins ráðherrans né þess sem nú situr né nokkurs annars. Það er ekkert hneykslunarefni þó það hafi ekki tekist að framkvæma svo viðamikinn lagabálk. Það vil ég taka skýrt fram. Það mátti öllum vera ljóst þegar grunnskólalögin voru sett 1974 að það hlaut að taka langan tíma að fullkomna þessa framkvæmd, koma á næstum að segja alfullkomnu skólakerfi sem auðvitað er ekki hægt. Það er auðvitað ekki hægt að búa til eitthvert alfullkomið skólakerfi eins og menn geta búið til gangverk eða sigurverk sem aldrei slær feilpúst. Auðvitað verða mannaverk af því tagi, eins og skólakerfið, aldrei fullkomin og ég ætla mér þess vegna ekkert að hneykslast á því þótt núv. hæstv. menntmrh. hafi ekki tekist að koma í framkvæmd öllu því sem stendur í grunnskólalögunum. Það dettur mér ekki í hug að gera.

En það er annað sem mig langar til að segja við hæstv. ráðh. Það er að það má gera þá kröfu til fræðsluyfirvaldanna og þá alveg sérstaklega til ráðherra að hann og fræðsluyfirvöldin yfirleitt vinni sleitulaust að því að láta grunnskólalögin koma til framkvæmda í sem allra flestum efnum. Það á að vera metnaðaratriði. Það á að vera það sem menn hafa að leiðarljósi jafnvel þó menn gangi ekki svo langt að búast við því að í stuttri ráðherratíð geti menn komið öllu fram sem æskilegt væri að gera og gera allt fullkomið enda verð ég að játa að ég er ekki svo trúaður á fullkomnun yfirleitt í löggjöf eða lagaframkvæmd að það sé hægt að gera slíka kröfu. Ég hefði hins vegar haldið að það ætti að vera metnaðarmál allra ráðherra, allra menntmrh., og það hefur verið það að ég held alveg frá fyrstu tíð og þá ekki síður fræðslustjóranna, að reyna að vinda sér í það að koma sem allra flestu fram af því sem segir í grunnskólalögunum. Og mín skoðun er sú að einmitt þessir aðilar sem ég nefni, menntmrh. og fræðslustjórarnir, eigi að vera sverð og skjöldur þessara mála, og þeirra vilji ræður auðvitað miklu um það hvernig gengur að framkvæma grunnskólalögin og bæta skólakerfið á grundvelli þeirra laga. Og ef það brestur áhuga hjá þeim ráðherra sem fer með völdin í hvert sinn, eða áhuga brestur hjá fræðslustjórunum, býð ég ekki í að það komist á að framkvæma grunnskólalögin vegna þess að reynsla mín eftir margra ára ef ég segi ekki áratuga setu á Alþingi er sú að skólamálum er ekki nægilega sinnt, ekki sinnt af nægilega miklum áhuga hvorki hér í þinginu og þaðan af síður innan ríkisstjórna í heild né heldur þegar verið er að gera stjórnarsáttmála. Þetta er staðreyndin. Og ég býst við að hæstv. menntmrh. finni fyrir því, þó að við styðjum þessa ríkisstjórn báðir af alhug, að hann hefur ekki margar forskriftir í stjórnarsáttmálanum um hvernig hann eigi að stýra menntmrn. Ég held að ég hafi haft aðeins skárri fyrirmæli í þeim sáttmála sem ég hafði við að styðjast. En ég held að það sé rétt hjá mér að það séu ekki mörg fyrirmæli sem hæstv. ráðh. hefur. Þetta er náttúrlega stór galli vegna þess að þegar að því kemur svo að duglegir ráðherrar, sem hæstv. ráðh. er nú, sjá bókstaflega engar nótur til að spila eftir fara þeir bara að spila eftir eyranu og það er ekki nógu gott. (SJS: Hann er ekki músíkalskur.) Ekki veit ég um það, en alla vega finnst mér þessi pólitíska músík hans ekki nógu góð.

En ég held að þetta sé svona, að ráðherra menntamála má aldrei bregðast í þessu efni einfaldlega vegna þess að þrátt fyrir allt er eins og skólakerfið, menntamálin, eigi sér fáa formælendur þegar á reynir. Og ég vil bæta því við að það er ekki síst skylda og hlutverk ráðherranna að kveða niður hleypidóma. Mér hefur fundist stundum að ég hafi alla mína pólitísku ævi verið að kveða niður hleypidóma, alla mína ævi, og það er þó nokkurt verk. Og af því að ég þekki hæstv. menntmrh. vel frá ungum árum og þekki hans góðu kosti er ég alveg viss um að hann er mér sammála um að það er mjög æskilegt að menn reyni að gera sitt besta í því að kveða niður hleypidóma. En ég verð að segja það hins vegar að það hefur ekki tekist hjá hæstv. ráðh. sem nú fer með menntamál að kveða niður hleypidómana um uppeldisstéttirnar, um kennarastéttina, sálfræðingana, uppeldisfræðingana og aðra þá sérfræðinga sem starfa í skólakerfinu. Því miður hef ég orðið áheyrsla að því að hæstv. menntmrh. kallar þetta fólk hálfgerðum ónefnum. Mér finnst það ekki vera eðlilegt af neinum menntmrh. að gera slíkt því að maður sem fer í slíka stöðu á að vera varnarmaður þeirra stétta sem vinna að menntamálunum í landinu, kennarastéttarinnar og annarra þeirra sem gegna uppeldislegri forustu innan skólanna.

Herra forseti. Þá er ég eiginlega kominn að því að nefna til sögunnar eitt það atriði í framkvæmd grunnskólalaganna sem síst má draga á langinn. Þó að ég sé af allri minni sanngirni búinn að viðurkenna að það sé ekki hægt að ganga í það lið fyrir lið að framkvæma hverja einustu grein grunnskólalaganna ætla ég samt sem áður að leyfa mér að nefna eitt mál sem ekki má tefja, ekki má draga á langinn og ég tel reyndar að sé alveg óþarfi að draga á langinn nú orðið miðað við þá möguleika og miðað við þá aðstöðu sem fyrir hendi er víða í landinu. Þar á ég við það að koma upp sæmilegri ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu og sem víðtækastri sérkennslu og stuðningskennslu.

Má ég minna á það, herra forseti, að ákvæði grunnskólalaganna frá 1974 um þessi efni þóttu mikið nýmæli, ekkert síður en „fræðsluskrifstofubáknið“ og margir töldu að þessi ákvæði kynnu lengi að verða dauður bókstafur og þá ekki endilega vegna féleysis. Menn óttuðust ekki svo mjög að það væri fjárskortur sem hindraði það að koma á sæmilega góðri sérkennslu heldur miklu fremur að það vantaði sérmenntað fólk til að gegna slíkum störfum innan skólakerfisins í heild. Þetta átti reyndar lengi framan af við, en á síðari árum hefur orðið á þessu breyting þannig að það eru skilyrði til þess nú, ef vilji fræðsluyfirvalda er fyrir hendi, að auka allhratt þessa nauðsynlegu starfsemi í skólakerfinu. Og það er tímabært að auka þessa starfsemi en ekki að liggja á henni, hæstv. ráðh. Sérstaklega eru fyrir hendi góð skilyrði í Norðurlandskjördæmi eystra að halda uppi góðri sérkennslu og þar skortir hvorki áhuga heimamanna né sérmenntaða kennara á þessu sviði. Þetta er allt til staðar, áhuginn og sérfræðingarnir sem þurfa að sinna þessum störfum. En það kann ekki góðri lukku að stýra ef ráðherra gengur gegn þessum áhuga heimamanna og ef hann hundsar þá möguleika sem fyrir hendi eru til að framkvæma grunnskólalögin að þessu leyti. Það er einmitt þetta sem ég vil gagnrýna í því sem ég hef fylgst með í þessu máli. Það er fyrst og fremst þetta sem ég vil gagnrýna að aðgerðir hæstv. ráðh. koma niður á þessari starfsemi sem ég hef sannfæringu fyrir að er möguleiki að framkvæma með meiri hraða og án þeirra ofsafjármuna sem kannske oft er talað um í menntakerfinu.

Herra forseti. Það sem ég finn að verkum hæstv. ráðh. í þessu máli er einkum það að hann hefur beinlínis hagsmuni fólks í mínu kjördæmi í undandrætti í reynd, hvað varðar þessi tilteknu mál. Hann hefur ekki sýnt áhuga á því að setja sig inn í þau mál eins og ég tel að hann eigi að gera og eins og hann hefur stuðning til frá þingmannaliði Norðurlandskjördæmis eystra þar sem hvorki meira né minna en fimm af þm. úr því kjördæmi styðja hæstv. ráðh. beinlínis og vilja ekki sýna honum á neinn hátt vantraust og munu ekki styðja vantraust á hann.

Ég bendi hæstv. ráðh. á að með ýfingum sínum við einn tiltekinn starfsmann menntmrh. er hann að kalla yfir sig andstöðu fjölda manna gegn sér sem ekki kunna að meta skylmingar hans í ræðustól nema að mjög litlu leyti. Að hann fái beina stuðningsmenn sína úr hópi þm. kjördæmisins upp á móti sér er mál út af fyrir sig, en sambandsleysi hans við fræðsluráð Norðurlandsumdæmis eystra og sérstaklega formann fræðsluráðsins, Þráin Þórisson, er stórlega aðfinnsluvert. Það hefur ítrekað komið fram hjá hæstv. ráðh. að hann er að bera formann fræðsluráðs þeim sökum t.d. að hann hafi ekki haft samband við sig, að formaður fræðsluráðsins hafi ekki náð fundi ráðherra. Ég hef vissu fyrir því að hæstv. ráðh. fer þarna með rangt mál. Þráinn Þórisson er ekki einasta í kallfæri og hefur ætíð verið í kallfæri við ráðherra hvenær sem er á nóttu og degi, svo að ég noti nú orðfæri sjálfs hæstv. ráðh., heldur hefur Þráinn Þórisson gert margítrekaðar tilraunir til að ná tali af hæstv. ráðh. og notað til þess réttar boðleiðir, en hæstv. ráðh. hefur ekki sinnt því og hnykkir sífellt meira á í því að rjúfa allt samband við formann fræðsluráðsins eins og lesa mátti í Morgunblaðinu í morgun og eins og hæstv. ráðh. hefur endurtekið í dag. Þetta tel ég vera mjög alvarlegt mál og stóraðfinnsluvert og ég tek þetta nærri mér sem stuðningsmaður hæstv. ráðh. og sem einn af fimm, vil ég segja, mjög ákveðnum stuðningsmönnum hæstv. ráðh. í mínu kjördæmi. Ég segi það, hæstv. ráðh., að þetta getur ekki gengið lengur.

Hvað sem líður áliti hæstv. ráðh. á Sturlu Kristjánssyni og hans verkum er það viðurhlutamikið að stofna til slíks ófriðar við fræðsluráð og skólamenn sem raun ber vitni. Þessum stríðsleik verður að linna og það er á valdi hæstv. ráðh. og reyndar ráðherra eins að láta þessum leik lokið. Það er óþarfi að ljúka þessum skærum með því að annar hvor deiluaðilinn standi yfir höfuðsvörðum hins. Og síst af öllu ætti hæstv. ráðh. að gera sér slíkt að metnaðarmáli. Það getur ekki verið neitt metnaðarmál hjá honum að afhausa ekki aðeins fræðslustjórann heldur fræðsluráðsformanninn, fræðsluráðið allt og skólastjórana alla.

Herra forseti. Mér hefur borist í dag símskeyti sem ég ætla að lesa hér. Þetta símskeyti barst mér í morgun og það er stílað til mín persónulega: Ingvar Gíslason, Alþingishúsinu, Reykjavík. Með leyfi forseta les ég þetta skeyti:

„Fundur í fræðsluráði Norðurlands eystra, haldinn 21. janúar 1987 í fræðsluskrifstofunni, leitar til yðar, herra alþingismaður, sem 1. þingmanns kjördæmisins að þér beitið yður fyrir í samstarfi við þingmenn úr kjördæminu að flutt sé ályktun á Alþingi um það að það hlutist til um að skipuð sé hlutlaus rannsóknarnefnd til að gera úttekt á störfum fræðsluskrifstofu, fræðslustjóra og fræðsluráðs ásamt samskiptum við menntmrn., einkum er varðar fjármálaleg samskipti og brottvikningu fræðslustjóra úr embætti.

F.h. fræðsluráðs. Þráinn Þórisson.“

Þetta er skeytið sem mér barst í morgun og mér þykir rétt að það verði gert heyrum kunnugt undir þessum umræðum. En herra forseti. Það er fjarri því að ég hafi óskað eftir þessu skeyti. Það vil ég að komi skýrt fram. Ég hef ekki óskað eftir þessu skeyti. En skeytið segir sína sögu og það sannar það, sem ég hef verið að halda fram, að hæstv. ráðh. á í styrjöld við fræðsluráð og alla skólamenn í Norðurlandskjördæmi eystra. Hann á ekki í stríði við Sturlu Kristjánsson einan, hann á í ófriði við allt og alla. Þetta tel ég stóralvarlegt mál, en eigi að síður afleiðingu þess sem til var stofnað. Því spyr ég, herra forseti: Er ekki kominn tími til að slíðra sverðin? Er ekki kominn tími til að skoða þetta mál frá grunni?

Á þessari stundu, herra forseti, mæli ég ekki endilega með þeirri leið sem fræðsluráð leggur til í skeytinu. Mér finnst að þá leið þurfi að kanna betur. Ég hef enga löngun til þess að það verði hrapað að neinu í meðferð þessa máls frekar en orðið er og ég hefði heldur kosið að vera kallaður til afskipta af þessu máli með öðrum hætti en að beitast fyrir rannsóknarnefnd á vegum Alþingis. Þess vegna ætla ég nú að leyfa mér að enda mál mitt, herra forseti, með áskorun á hæstv. menntmrh. um að hafa sjálfur forgöngu um að slíðra sverðin og taka upp viðræður við fræðsluráðið. Ef það ber ekki árangur er e.t.v. ekki önnur leið til en að taka málið aftur fyrir til umræðu hér á hv. Alþingi.