22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2477 í B-deild Alþingistíðinda. (2308)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég hafði raunar ekki ætlað mér að kveðja mér hljóðs að nýju í þessari umræðu en tel mig þó knúinn til þess af ástæðum sem ég kem kannske að hér síðar í máli mínu.

Það var vissulega sáttatónn í fyrri ræðu hæstv. menntmrh. hér áðan og ber að fagna því. Raunar eru í mínum huga verulegar efasemdir um það hverjum það sé til góða að þessi umræða haldi mikið lengur áfram í þessum farvegi. Það er búið að æskja þess við ráðherra að hann taki þetta mál til endurskoðunar og það hafa fleiri en einn og fleiri en tveir gert. Ég tek undir og ítreka það og beini þeim eindregnu tilmælum til hans. En vegna þess að hér hefur líka spunnist inn umræða um sérkennsluna, stöðu hennar og stöðu landsbyggðarinnar þá vildi ég víkja að því nokkrum orðum.

Ráðherrann hefur m.a. bent á hygg ég að það sé ekki unnt að bera saman dreifbýlið og Reykjavíkursvæðið vegna þess hve lengi þessi mál hafi þróast hér í Reykjavík og það er auðvitað alveg rétt. En ég get nefnt það að í Vesturlandskjördæmi, þar sem ég þekki einna skást til, hefur s.l. fjögur ár ekki átt sér stað nein aukning á sérkennslu. Allar tillögur um slíkt hafa verið teknar út af fjárhagsáætlunum, öll aukning í þá veru. Það er jú ekki góð aðstaða fyrir þá sem vinna að því að meta þörfina í þessum málum og senda inn greinargerðir byggðar á traustum rökum ef síðan er ekki á þá hlustað og þeim bara sagt að reyna að bjargast eftir bestu getu. Gagnvart foreldrum þeirra barna sem þarna eiga í hlut er þetta óskaplega erfið staða vegna þess að þessir foreldrar hljóta að spyrja: Á ekki barnið mitt rétt á þessum tímum? Og þeir sem spurðir eru geta ekki sagt annað en já. En þeir verða að bæta við: Það er skorið niður á fjárlögum og verður að taka tillit til þess. Ég skil ákaflega vel að fólk á erfitt með að sætta sig við þetta og erfitt með að skilja þetta, að geta ekki setið við sama borð að því er þetta varðar og þeir sem búa hér á mölinni.

Í öðru lagi langar mig til að víkja að því að það var talað hér um sálfræðiþjónustuna og ég heyrði það, henti það á lofti að hæstv. ráðh. talaði um að, ja, þar hefðu menn nú sálfræðing á hverjum fingri. Þetta sagði hæstv. ráðh. hér úr þessum ræðustól. Ég held að það sé hins vegar staðreynd að ótrúlega seint hefur gengið að manna þessar deildir úti á landsbyggðinni. Þær eru áreiðanlega vel mannaðar og fullmannaðar hér. En úti á landsbyggðinni hefur það gengið ótrúlega hægt. Ég hef raunar grunsemdir um að það sé hvergi nema hér í Reykjavík sem sálfræðideildirnar eru fullmannaðar. Og ég veit að ýmsum skólamönnum úti á landsbyggðinni er þetta mikið áhyggjuefni. Þetta er enn ein mismununin sem landsbyggðarfólk verður að una ofan á allt annað.

Í þriðja lagi langar mig til að nefna, vegna þess að það er verið að tala um að rannsaka þessi mál öll mjög ítarlega, og áreiðanlega er ástæða til þess svo að menn geti betur glöggvað sig á því hver staðan er og hvað er hér um að tefla. Ég veit að það hafa komið fram óskir um að þetta verði endurskoðað, einkum að því er dreifbýlið varðar, og ég hygg raunar að það sé kveðið á um þessa endurskoðun í reglugerð um ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu. En þessi endurskoðun hefur aldrei farið fram. Fræðsluráð Vesturlands ályktaði nýlega um þetta í þriðja sinn. Þessu hefur aldrei verið svarað, þarna er ævinlega talað fyrir daufum eyrum. Í þessu máli öllu finnst mér að menn verði líka að horfa á þetta misrétti og misræmi sem kannske er undirrót alls þess miður heppilega sem hér hefur gerst. Ég held að menn verði svolítið að líta á þetta frá öðrum sjónarhornum og skoða það sem er hin raunverulega undirrót þess vanda sem tekið hefur á sig þá mynd sem við erum hér að ræða í löngu máli.

Það er m.a. þess vegna sem níu þm. Alþfl. hafa lagt hér fram á þskj. 511 beiðni um skýrslu frá menntmrh. um framkvæmd reglugerðar um sérkennslu, nr. 270 frá 1977. Hér eru í löngu máli ítarlegar spurningar um þetta mál. Við teljum það afar brýnt að staðreyndirnar sem hér er óskað eftir liggi fyrir.

Hæstv. ráðh. gerði hér að umtalsefni athyglisverða grein sem fyrrv. ráðuneytisstjóri í fjmrn. skrifaði og birt var í Morgunblaðinu s.l. þriðjudag. Ég segi eins og hann: Ég get tekið undir afar margt af því sem Jón Sigurðsson segir. Ég mæli því ekki bót að embættismenn fari út fyrir sín valdmörk. Það er enginn að afsaka það, það er enginn að mæla því bót. En ég tek ekki undir allt sem Jón Sigurðsson, fyrrv. ráðuneytisstjóri, segir í þessari grein. Hann segir hér, með leyfi forseta:

„Sá ósiður Alþingis er orðinn býsna gamall að marka stefnu með setningu laga sem það síðan treystist ekki til að standa við þegar kemur til fjárveitinga.“ Þetta er rétt ábending og þetta sjáum við á hverju ári þegar lánsfjárlög er afgreidd að þá kemur heill kapítuli þeirra laga þar sem segir: Þrátt fyrir allar fyrri ákvarðanir Alþingis um framlög t.d. í Framkvæmdasjóð fatlaðra og ýmislegt fleira, þá skal nú skera það allt saman niður við trog. Þetta er alveg rétt, þetta er vond lögfræði og um það erum við hæstv. menntmrh. áreiðanlega sammála.

Síðan segir, með leyfi forseta, í þessari grein: „Af þessari tegund þykjustulaga er orðinn urmull og ein þeirra eru grunnskólalögin.“ Þótt ekki hafi enn tekist að framfylgja öllum ákvæðum grunnskólalaga þá er mér ómögulegt að taka undir það að grunnskólalögin séu „þykjustulög“. En hæstv. ráðh. tók undir efnisatriði þessarar greinar án nokkurs fyrirvara.

Ég skal reyna að egna ekki hæstv. ráðh., hann hefur svo sem varað menn við því. Ég er svo sem ekkert hræddur við það en það getur verið að mínir skapsmunir geri það líka að verkum að það hreyfi einhvers staðar við honum. Ég uni því illa að sitja undir þeim ummælum hans að minn málflutningur hér, í þeirri ræðu sem ég flutti í fyrradag, hafi verið með þeim hætti að lágkúran þar hafi verið fágæt. Ég uni því heldur illa. Ég var ekki að bera blak af því að menn færu ekki að lögum og fyrirmælum yfirboðara sinna, síður en svo, en ég benti á að það hefði verið öllu heppilegra ef ráðherrann hefði haft aðrar aðferðir í þessu máli, þ.e. að víkja viðkomandi starfsmanni frá um stundarsakir meðan málið skýrðist frekar.

Ég gæti sagt sitthvað um þá fullyrðingu ráðherrans þegar hann stóð hér í þessum ræðustóli og fjasaði um það að svo gott væri nú ástandið í hans kjördæmi að þar þyrfti ekki á svona mörgum sálfræðingum eða svo mikilli sérkennslu að halda. Sá málflutningur, hann var ekki háreistur! Ég endurtek það sem ég sagði hér í fyrri ræðu minni að ég hygg að hæstv. menntmrh. hafi svona í hita augnabliksins orðið það á að taka svona til orða. En þetta var afar óheppilegt, að ekki sé meira sagt. Hann hefði verið meiri maður af ef hann hefði dregið þessi ummæli sín til baka. En um það skal ég ekki hafa fleiri orð.

Hitt er svo það að ef reka á með þessum hætti og þessum aðferðum alla þá embættismenn í ríkiskerfinu sem ekki hafa sýnt fjárlögum og fyrirmælum sinna yfirboðara alveg fullkomna og bókstaflega hlýðni, þá held ég að ráðherrann hæstv. gæti fengið nóg að gera við að reka menn. Ég gæti verið hæstv. ráðh. innan handar með að benda honum á kannske einn og kannske tvo og kannske fleiri embættismenn sem hafa farið fram úr fjárlögum um hærri tölur en hér hafa verið nefndar og enginn talar um að neitt þurfi við að athuga né við að segja, hvað þá að reka með þeim hætti sem hér var gert. Ég sé það t.d. í hendi mér þar sem ég á sæti í útvarpsráði að dagskrárstjóri innlendrar dagskrárgerðar í sjónvarpi hefur farið býsna frílega fram úr þeim áætlunum og skorðum sem honum voru settar (Menntmrh.: Hvað gerir útvarpsráð þá?) sem hefur þá dregið tæknideildina töluvert mikið fram úr áætlun. Ég skal segja hæstv. ráðh. það að ég mun gagnrýna þetta í útvarpsráði. En hæstv. ráðh. er húsbóndi þessa manns með öðrum hætti en ég er sem fulltrúi í útvarpsráði. (Menntmrh.: Er ekki Markús Örn húsbóndi hans?) Jú, en hver er húsbóndi útvarpsstjóra? Er það ekki hæstv. menntmrh.? Ég veit ekki betur en svo sé. (Forseti: Ekki samtal í salnum.) Ég veit ekki betur en að svo sé. Það hafa ýmsir hlutir gerst í þeirri ágætu stofnun, miður góðir varðandi þetta, en ég hef ekki heyrt hæstv. ráðh. tala um að reka einn eða neinn þar. Ég hygg að þau mál kunni þó e.t.v. að snúast um stærri upphæðir en hér er um að tefla. (Menntmrh.: Þú berð ábyrgðina.) Ég held nú að það sé hæstv. ráðh. sem ber ábyrgðina í því efni ef allt er rakið til enda og öllum þráðum fylgt. Það er útvarpsráð sem gerir áætlanir um dagskrárgerð en það hefur hins vegar ekki tök á því að beita neinum viðurlögum, enda veit ég ekki hvort er nokkur vilji til þess þar. En það er auðvitað ráðherra sem á að sjá um að allir embættismenn fylgi þessum reglum. Hér verður eitt yfir alla að ganga og vissulega skal ég taka undir það, hæstv. ráðh., það eru fjölmörg atriði í rekstri Ríkisútvarpsins sem ástæða er til að gaumgæfa núna á tímum fjárhagslegra þrenginga þess og beita meira aðhaldi og sjá til þess að þar sé settum reglum fylgt.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri að sinni, en ég ítreka að ég held að það væri skynsamlegast og það væri heppilegast og það væri raunar það allra besta sem hæstv. ráðh. gæti gert í þessu máli úr því sem komið er að fara nú fram með þeim sáttarhug sem mér fannst hans fyrsta ræða gefa til kynna, þó honum hitnaði í hamsi eftir á, ég skil það ákaflega vel, hafandi hlýtt á þær ræður sem ja, hleyptu honum upp að nýju, þá skil ég það ákaflega vel í rauninni. En það er ekki hægt að standa í svona skólastríði vegna þess að það bitnar líka á þeim sem síst skyldi og það er jú áreiðanlega ekki tilgangurinn.