22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2480 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það nálgast nú bráðum sex stundir sem þessi umræða hefur staðið. Erum við einhverju nær í þessu máli? A.m.k. sjáum við ekki fyrir endann á því enn. Það hafa verið höfð stór orð á báða bóga í þessum umræðum hér þannig að það er kannske varla hægt að segja að það sé Alþingi sæmandi margt sem hér hefur verið látið fjúka á báða bóga.

Hæstv. menntmrh. hefur stigið eitt spor í þessu máli, þ.e. hann ætlar að leggja það til, eða hefur kannske gert það þegar, að fræðslustjórinn á Norðurlandi eystra fái laun í næstu þrjá mánuði. Í sjálfu sér er hann að mínu viti búinn að falla frá því að reka hann úr starfi fyrirvaralaust, heldur væri frekar hægt að segja að nú mundi hann ætla að fara eftir 7. gr. laganna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Og í framhaldi af þessu finnst mér að ráðherrann ætti að skipa nefnd til að rannsaka þessar ávirðingar á báða bóga, hvernig ráðuneytið hefur staðið að þessu, hvernig fræðslustjóri hefur staðið að málum og fræðsluráð og samanburð á því hvað hefur gerst í þessum kjördæmum, ekki síst úti á landi.

Það var upplýst hér í umræðunni í fyrradag að það mundi halla verulega í fjármunum á hvern nemanda á Norðurlandi eystra miðað við það sem væri í Reykjavík og á Austurlandi. Og ég efast ekkert um að það hallar a.m.k. á miðað við Reykjavík þó að ég ætli ekki að fara að kveða hér upp neina dóma.

Ég stend hér upp fyrst og fremst vegna ástandsins í mínu kjördæmi. Þetta bitnar á börnunum. Ég hef sannfrétt það að varla er um annað talað í mínu kjördæmi en þetta mál, og er fylgst með umræðum hér. Kennararnir eru annars hugar og „stressaðir“, svo ég noti leiðinlegt orð, í kennslustundum og má segja að að verulegu leyti sé allt skólahald í molum eins og stendur. En erum við nokkru nær eftir þessar umræður? Ég get ekki séð það. Ég vil með fullri vinsemd segja við hæstv. menntmrh.: Það er ekki eingöngu verið að takast á við fræðslustjóra og fræðsluráð, heldur einnig skólastjóra og yfirkennara, oddvita og raunar almenning á Norðurlandi eystra. Málið er svona alvarlegt. Það er ekkert nýtt t.d. að þegar við vorum á okkar fundum, og þm. geta vitnað um það, þegar við vorum á okkar fundum í september í haust, þá komu oddvitarnir til þess að ræða þessi mál, ræða um sérkennsluna, um stuðningskennsluna, um skólaaksturinn. Það er ekki eingöngu í sambandi við þennan brottrekstur. Við megum ekki líta á það þannig.

Ég vil því í fullri vinsemd biðja og skora á hæstv. ráðh. að fara eftir 7. gr., að hlutast til um að skipuð verði nefnd, hann geri það sjálfur, að við þurfum ekki að standa hér dag eftir dag í umræðum út af þessu máli, sem mundi þá leiða af sér að skólahald í okkar kjördæmi, og e.t.v. í Norðurlandskjördæmi vestra að einhverju leyti, komist í samt lag. Það er ekki á valdi neins nema hæstv. menntmrh. að gera þetta. Ef þetta heldur áfram svona þá verðum við e.t.v. neyddir til að koma með þetta enn inn í þingið með einhverjum hætti. Það vildi ég síst gera. Þess vegna skora ég á og bið hæstv. ráðh. að skera á þennan hnút nú þegar, að fara eftir 7. gr. og hlutast sjálfur um að skipuð sé nefnd í þessu máli. Hann segir hér og hann stendur sjálfsagt í þeirri trú, og ég ætla ekki að leggja neinn dóm á það, að þetta hafi verið eðlileg ráðstöfun. Þess vegna hlýtur hæstv. ráðh. að gera það með glöðu geði að verða við mínum tilmælum.

Ég vil losna við þetta mál. Ég fullyrði að það er ekki pólitískt. Það eru skólamenn og almenningur í öllum flokkum sem líta svona á málið í mínu kjördæmi. Ég hef ekki frið fyrir hringingum út af þessu máli.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vonast til þess að stóru orðin verði ekki fleiri hjá neinum. Það leysir engan vanda. Það er einn sem getur leyst þetta mál. Það er hæstv. ráðh. sjálfur.