22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2481 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er út af fyrir sig efnislega sammála hv. síðasta ræðumanni um það að hæstv. ráðh. getur leyst þetta mál og höggvið á þann rembihnút sem hér er á kominn. En það er ljóst að ef svo heldur sem horfir, þá hlýtur málið að koma til kasta Alþingis af því að það er Alþingi sem veitir ráðherranum vald. Þess vegna er það svo að þegar menn hafa um það þau orð að þessi umræða hafi ekki leyst málið og hér hafi fallið stór orð sem betur hefðu verið ósögð o.s.frv., þá mega menn ekki gleyma hinu, að hér á hinu virðulega Alþingi er hinn rétti vettvangur fyrir ráðherrann að svara til fyrir verk sín þegar Alþingi spyr hann. Þess vegna, herra forseti, fór ég fram á þessa umræðu og lagði fyrir hæstv. ráðh. vélritaðan lista með spurningum, tíu spurningum, greinargóðum að ég hélt, sem voru um mörg þau efnisatriði deilunnar sem menn vildu fá svör við, m.a. fræðsluráð Norðurlandsumdæmis eystra og fleiri aðilar.

Ég held að það sé fullkomlega eðlilegt og við eigum ekki að kvíða því hv. alþm. að ræðast við í fullkominni hreinskilni hér á Alþingi, og nota til það tungutak sem skilst. Auðvitað eigum við að reyna að vera málefnalegir. Og auðvitað er slæmt ef falla stærri orð en menn geta staðið við og eiga rétt á sér. Þess vegna verð ég að segja það að ég undraðist mjög þegar hæstv. ráðh. hófst allur upp úr sæti sínu og æstist mjög í kjölfarið á ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. Ingvars Gíslasonar, sem af öllum mínum kynnum er einhver dagfarsprúðasti og orðvandaðasti maður sem ég þekki. (Menntmrh.: Þér er óhætt að hæla honum, hann er hættur í framboði.) Hæstv. ráðh. ætti stundum að hlusta. Hann er sjálfur búinn að tala hér upp undir helminginn af öllum þeim ræðutíma sem verið hefur í þessari utandagskrárumræðu. Og ég hygg að hæstv. ráðh. hefði e.t.v. mátt hlusta aðeins betur á sumt það sem hér hefur verið sagt.

Það er einnig ekki við það unandi, herra forseti, að ræða efnislega um málin þegar hæstv. ráðh. nánast hótar því að ef menn taki eitthvað upp í sig, ef menn segi eitthvað óþægilegt, ja, þá skuli þeir sko taka afleiðingunum af því, þá sé hann ekkert kominn til með að spá í það hver verði niðurstaðan, þá sé úti um allar sættir o.s.frv. Eigum við að reyna að ræða málin, virðulegur forseti, undir þeim formerkjum að hin efnislega niðurstaða málsins muni hvort sem er ráðast af því hvernig skapið verður hjá hæstv. ráðh. þegar upp verður staðið? Það er óþægilegt. Ég vil trúa því að niðurstaðan geti ráðist af rökunum og gagnrökunum sem menn flytja fram fyrir máli sínu.

Ég hlýt að svara aðeins einum rangsnúningi sem hæstv. ráðh. hafði á mínum ummælum hér á þriðjudaginn síðasta, þar sem hann sagði að ég hefði talið það alls ósambærilegt hvernig háttað væri ráðningarkjörum manna til sjós og verkamanna á landi og að það ætti að vera einhver geysilegur eðlismunur a ráðningarkjörum opinberra starfsmanna og starfsréttindum og ég hefði talið það ósvinnu að ráðherra jafnaði þessu saman. Í þessu felst mikill grundvallarmisskilningur. Hv. 3. þm. Norðurl. v. útskýrði það reyndar ágætlega hvers vegna menn hafa um áratuga skeið haft í lögum ákveðin ákvæði um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og ég hef engu við það að bæta. En það er ekki svo, hæstv. menntmrh., og taktu mín orð fyrir því, að ég hafi talið það endilega sjálfgefið að aldagamlar hefðir og venjur til sjós, um að reka mætti menn fyrirvaralaust, segja þeim að taka pokann sinn, hefðir og venjur sem eftir því sem ég hef kynnt mér eru aðallega sniðnar eftir lögum úr enska og franska sjóhernum, og þaðan voru teknar fyrirmyndirnar í sjórétti, að þær eigi að ríkja um aldur og ævi. Sem betur fer eru slíkir starfsmenn nú í stéttarfélögum og hafa ýmsan rétt tryggðan og mætti hann vera meiri. Ég held engu að síður að þau ummæli sem hæstv. ráðh. lét falla um stöðu opinberra starfsmanna og þær viðvaranir, svo ég taki nú mjög vægt til orða, herra forseti, sem hann sendi opinberum starfsmönnum, starfsmönnum ríkis og bæja í gegnum þingtíðindin hér á þriðjudaginn var, þau muni vekja athygli. Það er mín trú.

Til þess að fáfræðinni verði ekki ómótmælt í þingtíðindum, herra forseti, þá hlýt ég að gera athugasemdir við samanburð hæstv. menntmrh. á fjölda þeirra barna sem þurfa á sérkennslu og hjálparkennslu að halda í Norðurlandsumdæmi eystra og Reykjanesi. Í þskj. 319, sem er svar hæstv. menntmrh. sjálfs við fsp. frá þeim er hér talar, um stuðnings- og sérkennslu, kemur það mjög skýrt fram að tvö kjördæmi í landinu hafa algjöra sérstöðu að einu leyti. Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmi hafa sérstöðu hvað það varðar að langflest börn úr þessum kjördæmum tveimur eru vistuð á sérstofnunum ríkisins af ýmsu tagi. Það er langur listi í þessu svari þar sem það kemur fram að t.d. í Öskjuhlíðarskóla, svo hæstv. ráðh. glöggvi sig á því hvað ég er að fara, voru árið 1985 63 börn úr Reykjavík og 43 af Reykjanesi, fimm af Vesturlandi, ekkert af Vestfjörðum, eitt af Norðurlandi vestra, eitt af Norðurlandi eystra, eitt af Austurlandi og fimm af Suðurlandi. Svona gæti ég áfram lesið fyrir hæstv. ráðh. nánast allar sérstofnanir ríkisins hér á þessu svæði. Eðli málsins samkvæmt er langhæsta hlutfall nemendanna héðan af þessu svæði, úr Reykjanes- og Reykjavíkurumdæmum. Og það gerir það að verkum, hæstv. ráðh., og hugleiddu það nú augnablik, að þörfin úti í hinum almenna grunnskóla er miklu minni í þessum fræðsluumdæmum. Það ætti hæstv. ráðh. að geta skilið. Á Austurlandi er engin slík stofnun og víðast hvar úti um landið. Það er ein lítil stofnun í Norðurlandi eystra. Þannig er staða þessara mála út um landsbyggðina.

Þrátt fyrir þetta hafa landsbyggðarumdæmin á undanförnum árum verið að reyna að taka þau börn sem á aðstoð þurfa að halda burtu héðan úr sérstofnunum og flytja til sinna heimkynna út um landið og það með öðru hefur aukið þrýstinginn á þörf fyrir sérkennslu í hinum almenna grunnskóla úti um landið.

Ég vil tímans vegna, herra forseti, ekki reyna að halda hér lengri kennslustund fyrir hæstv. menntmrh. í þessum efnum. En ég satt best að segja undrast að heyra talað af þvílíkri fáfræði um þessi mál, þegar m.a.s. í þinglegu skjali, svari frá hæstv. menntmrh. sjálfum, liggja fyrir mjög gagnlegar og fræðandi upplýsingar um stöðu þessara mála. Menn ættu e.t.v. að lesa betur svörin sem þeir senda frá sér hér fyrir hv. Alþingi.

Varðandi ásakanir um ógætilega málsmeðferð í sambandi við húsnæðismál fræðsluskrifstofunnar á Norðurlandskjördæmi eystra ætla ég engu við að bæta öðru en því að benda á að hæstv. ráðh. svaraði sér að einu leyti sjálfur. Hann sagði að heimildir sínar væru fundargerðir fræðsluráðs á Norðurlandi eystra. Ekki rétt með farið hæstv. ráðh.? Ég hygg svo vera. Og hvað segir það okkur? Það segir okkur að það eru auðvitað ekki Sturla Kristjánsson eða Ingólfur Ármannsson sem bera þar ábyrgð heldur yfirboðarar þeirra sem eru að hluta til fræðsluráðið og formaður fræðsluráðs á þessum tíma, Sigurður Óli Brynjólfsson, sem væntanlega hefur verið á þeim fundum sem fræðsluráð hélt um þessi mál og bókaði niðurstöður. Það er hann sem verið er að rægja hér, látinn heiðursmanninn, ekki síður en aðra.

Ég fer fram á það, herra forseti, við hæstv. menntmrh. að hann svari einu skýrt og skorinort. Ég fer ekki lengur fram á það að hann svari þeim tíu spurningum sem fyrir hann voru lagðar. Þingtíðindin munu geyma að hann gerir það ekki. En eitt er óhjákvæmilegt að fá fram og það er þáttur ríkislögmanns í því að Sturlu Kristjánssyni fræðslustjóra var sagt upp með þeim hætti sem raun ber vitni. Var það að tillögu ríkislögmanns að svo var gert eða var hann spurður ráða og í hverju fólst hans ráðgjöf? Því er nefnilega þannig farið, virðulegur forseti, að ég trúi því ekki fyrr en ég fæ það nánast skjalfest frá ríkislögmanni að hann hafi lagt til að þessi leið yrði valin. (Menntmrh.: Þetta liggur ljóst fyrir öllum.) Því trúi ég ekki. (Menntmrh.: Þetta er bara röfl.)

Síðan er það, sem hæstv. ráðh. hefur reyndar eytt hvað lengstum ræðutíma sínum í, að reyna að fá hv. þm. og aðra sem á mál hans hlýða til að trúa því að það hafi alveg sérstök manngæska og kærleikur falist í þeirri aðferð sem hann valdi við að segja nefndum starfsmanni upp. Hv. 3. þm. Norðurl. v. fór rækilega yfir að svo er ekki. Þvert á móti. Ég verð að segja að ódýr er aflausnin hjá hæstv. menntmrh. ef þriggja mánaða laun til starfsmannsins eiga að bæta þar um að fullu. Ég hygg t.a.m., svo tekið sé annað dæmi sem hér hefur stundum borið á góma, að þær bætur sem fjmrh. s.l. haust greiddi Sigurjóni Valdimarssyni, fyrrv. framkvæmdastjóra lánasjóðsins, séu léttar í vasa miðað við þær hörmungar sem sá maður og sú fjölskylda hefur mátt þola vegna ofríkis hæstv. menntmrh. Það eru mín kynni af því máli að þær bætur séu léttar í vasa á móti þeim ósköpum sem þar gengu yfir. Og ódýr verður aflausnin, það ætla ég að segja, virðulegur forseti, ef þriggja mánaða laun eiga að leysa þennan vanda. Þó ég sé ekki að lasta það út af fyrir sig að hæstv. menntmrh. getur þokað þó um þessa hársbreidd sem hann ekki gat að sögn s.l. þriðjudag.

Herra forseti. Ég ætla ekki að þreyta menn með því að fara yfir málsvörn hæstv. ráðh. Ég gerði það að nokkru í seinni ræðu minni s.l. þriðjudag og hef svo sem ekki miklu við það að bæta. En ég hef þessa tvo sólarhringa hugleitt ofurlítið hvernig starfsaðstaða opinberra starfsmanna, sem eiga slíkan húsbónda eins og hæstv. menntmrh., er nú um stundir og verður ef svo fer sem horfir. Hvernig skyldu þeir nú taka til orða í bréfum til ráðuneytisins í framtíðinni? Hvað skyldu þeir þora að segja á lokuðum trúnaðarfundum með skrifstofustjórum og deildarstjórum í ráðuneytum framvegis þegar þeir upplifa það, opinberir starfsmenn, að slík gögn eru grafin upp jafnvel árum og mörgum árum síðar og einhvers konar fundargerðir birtast á lokuðum trúnaðarfundum þar sem gefið er í skyn að vitnað sé orðrétt í samræður manna. Ég hygg að menn verði býsna varkárir. Ég er ekki viss um að menn tali í mikilli hreinskilni og miklum trúnaði um hluti sem þeir töldu sig áður vera að eiga við sína samstarfsmenn og yfirmenn inni í stofnunum hins opinbera þegar svo fer. Það gæti farið þannig að ýmislegt þyrfti þá að rifja upp fleira og grafa þyrfti upp ýmis bréfin ef á annað borð er farið að fara ofan í þetta einhvers konar registur eða curriculum vitae sem menntmrn. er nú greinilega farið að færa fyrir sína starfsmenn.

Hér er latneskri tungu nú orðið allt of sjaldan slett, virðulegur forseti, og stendur ekki upp á mig sem enga latínuna kann. Þó veit ég um eitt stöðuheiti í latínu sem mér hefur stundum dottið í hug þessa sólarhringa. Hæstv. menntmrh. hefur sennilega einhvers staðar lesið það að til var á latnesku stöðuheitið judex optimus maximus og útleggst e.t.v. á íslensku „háyfirdómari“. Ég sjálfur, „háyfirdómari“, ég ræð. Hæstv. menntmrh. lítur greinilega á sig sem judex optimus maximus, hann geti bara tekið þetta í sínar hendur og dæmt, hann þurfi enga rannsókn. Og hæstv. ráðh. velur þá aðferð við að segja starfsmanninum upp, og þá skal ég aðeins fara yfir það fyrir hæstv. ráðh., sem skilur nefndan starfsmann einan eftir launalausan, réttindalausan á götunni til að sækja sitt mál gegn kerfinu, gegn ríkislögmanni, gegn fjmrh. Það vill reyndar svo til að það er ekki hæstv. menntmrh. sem kemur til með að standa frammi fyrir dómstólunum. Hefur hæstv. ráðh. áttað sig á því að það á að stefna hæstv. fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs. Eftir öll digurmælin um að hæstv. menntmrh. vilji láta þetta fara til dóms þannig að hann verði dæmdur vill það ósköp einfaldlega þannig til að í lagasafninu stendur að í slíkum tilfellum á að stefna hæstv. fjmrh. f.h. ríkissjóðs og það kemur þá í hlut ríkislögmanns að fara með málin þannig að hæstv. menntmrh. getur verið að laxveiðum í Hrútafjarðará þess vegna þegar málið verður dómtekið.

Ég vil segja bara eitt að lokum um stöðu þeirra manna sem eru að reyna að halda uppi lögbundinni þjónustu og framkvæma grunnskólalög og ýmislegt annað. Ég vil að hv. þm. reyni að átta sig á einu og það eru tvöföldu skilaboðin sem þessir starfsmenn fá. Ég vona að menn skilji orðin tvöföld skilaboð og ég ætla að nefna dæmi.

Þegar hæstv. ríkisstjórn allt í einu fann það upp á árinu 1984 að ég hygg að nú væri nauðsynlegt að spara 2,5% í launakostnaði og 5% í öðrum rekstrargjöldum ef ég man rétt og sendi út um þetta bréf fóru margir að hugleiða: Hvernig eigum við að ná fram þessum sparnaði? Og á Akureyri, þeim ágæta stað, datt mönnum það snjallræði í hug í skólunum að hugsanlega mætti einhver dönskukennsla í 6. bekk eða 5. bekk eða 7. bekk eða einhvers staðar missa sig. Hún væri ekki svo mikilvæg þessi dönskukennsla. Það leiddist öllum í dönskutímum og það nennti enginn að kenna dönsku. Við skulum bara sleppa dönskunni. Þeir fundu út að það stemmdi. Danskan burt, 2,5% spöruð og allir yrðu glaðir. Og ákvörðunin var tilkynnt: Enga dönsku lengur hér. Málið leyst. Og hvað gerðist? Ráðuneytið hringdi norður eða sendi bréf og sagði: Nei sko, þið sleppið engri dönsku. Þið kennið dönskuna eins og námsskráin og lögin gera ráð fyrir. Eru þetta ekki tvöföld skilaboð? Sparið 2,5%. En um leið og mennirnir úti á akrinum reyna að framkvæma sparnaðinn með einhverjum tilteknum hætti neitar ráðuneytið: Nei, þið skulið kenna. M.ö.o.: sparið en haldið uppi fullri þjónustu. Og það er þetta sem þessir menn hafa mátt búa við og fjöldamargir aðrir sem eru að reyna að láta ónógar fjárveitingar endast og búa við tvöföld skilaboð og mér liggur við að segja tvöfalt siðgæði af hálfu sinna húsbænda hvað þetta varðar. Það er eins og ég hef margendurtekið óheimilt að skerða sérkennsluna samkvæmt reglugerðum og lögum sem í gildi eru. Það er óheimilt. En samt eru slík skilaboð send út. Það hlýtur að jaðra við siðleysi.

Herra forseti. Þeir stynja svo ákaft í hliðarsölunum, þessir þreyttu þjáðu menn, að ég held að við ættum að loka dyrunum. Það er líka til þess að maður þurfi ekki að horfa upp á þessi hryggðarandlit. (Forseti: Það skulu verða gerðar ráðstafanir til þess að loka þingsalnum.)

Ég hef undir höndum, herra forseti, bréf sem ég er að hugsa um að lesa upp úr. Vegna þess að hæstv. menntmrh. hefur nokkuð sótt röksemdafærslu sína í gömul bréf og skýrslur, sem starfsmenn hans í ráðuneytinu hafa verið að dunda við að taka saman dagfari og náttfari undanfarið, langar mig til að lesa upp bréf sem ég hef undir höndum frá menntmrn. Það geta nefnilega fleiri geymt bréf en menntmrn. Það vill svo til að á árinu 1984 þurfti menntmrn. að skrifa Sturlu Kristjánssyni fræðslustjóra persónulegt bréf varðandi starfskjör hans og breytingar á högum hans þegar hann tók aftur við starfi sem fræðslustjóri Norðurlands eystra. Orlofsmál og fleira kemur þar inn í og er tilgreint í þessu bréfi og þarf ekki að rekja hér þar sem það varðar persónuleg mál fræðslustjórans við sinn vinnuveitanda. Síðan segir í bréfi ráðuneytisins, með leyfi forseta, um þetta atriði sem ég hef nefnt:

„Að vandlega athuguðu máli telur núverandi menntamálaráðherra ekki ástæðu til að taka þetta mál upp að nýju. Er þessu máli því lokið af ráðuneytisins hálfu.“

En svo kemur ein setning:

„Að lokum skal það tekið fram að ráðuneytið ber fullt traust til yðar sem fræðslustjóra Norðurlandsumdæmis eystra.“ F.h. ráðherra, Knútur ráðuneytisstjóri væntanlega og Sólveig Ólafsdóttir.

Þetta bréf er sent 26. júní 1984. Það liggur fyrir skjalfest í bréfi frá menntmrn. að 26. júní 1984 naut Sturla Kristjánsson fulls og óskoraðs trausts menntmrn., Ragnhildar Helgadóttur hæstv. menntmrh., sem fræðslustjóri Norðurlands eystra.

Hvað eru svo sakirnar gamlar sem hæstv. menntmrh. er að tína til á nefndan fræðslustjóra? Þær eru frá 1980 og 1981 og jafnvel eldri. En flokkssystir hans, hæstv. núv. heilbr.- og trmrh., þáv. hæstv, menntmrh., bar fullt og óskorað traust til þessa starfsmanns síns 26. júní árið 1984.

Og enn hef ég bréf undir höndum, herra forseti, sem er dagsett 14. mars 1986, og þá er ráðherra menntamála Sverrir Hermannsson og þá er skrifað bréf úr menntmrn. aftur persónulega til nefndrar Sturlu Kristjánssonar. Það er vitnað í bréfið frá 1984 og segir:

„Af bréfi ráðuneytisins til yðar 26. júní 1984 kemur fram að máli þessu var lokið af ráðuneytisins hálfu“ o.s.frv. (Menntmrh.: Var það Þelamörk?) Nei, það er ekki Þelamörk, hæstv. ráðh. Það varðar orlofsmál fræðslustjórans þar sem hann hafði sótt um að fá að fara í námsferð til að mennta sig enn frekar á sínu starfssviði erlendis og ráðuneytið féllst á það og óskaði bara eftir því að fræðslustjórinn léti sig vita þegar hann hygðist nýta sér þessa heimild. En 14. mars 1986 er m.ö.o. tekið fram í ráðuneyti Sverris Hermannssonar bréf þar sem lýst er fullu trausti yfir Sturlu Kristjánsson sem fræðslustjóra Norðurlandsumdæmis eystra og vitnað í það og það er undirritað af ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra hæstv. ráðh. Síðan eru dregnar fram ávirðingar og sakir sem ná langt aftur fyrir þennan tíma og gerðar að aðalefni þessa máls, en þessi bréf gleymdust. Af einhverjum ástæðum, þrátt fyrir hina miklu vinnu undanfarna sólarhringa í skjalasafni menntmrn., fundust ekki þessi bréf. Það hefur valdið mér nokkurri undrun.

Þannig er það, virðulegur forseti. Ég ætla að þreyta hv. þm. örlítið meira og mér er satt best að segja alveg sama hvað hv. þm. geispa í hliðarsölum. Þeir mega alveg fara úr ónefndum lið þess vegna. Ég ætla að rekja áfram nokkur efnisatriði sem tengjast þessu máli vegna þeirra raka sem hér hafa verið flutt fram af hæstv. menntmrh. þar sem, eins og ég skil það, er höfðað til eðlislægrar þarfar hv. alþm. á að bera virðingu fyrir Alþingi og fjárveitingavaldinu og æðstu stofnunum ríkisins. Það er gott og það skulum við reyna að gera, virðulegur forseti. Ég skil vel að það líti illa út eða hljómi illa í eyrum margra hv. þm. þegar það er borið upp á menn úti á landi að þeir séu að óvirða fjárlögin. Þeir tala svo illa um fjárlögin, svo dónalegir, þetta eru ónýtir pappírar og allt það, leyfa þessir menn sér að segja. Við hérna, brjóstvörnin fyrir þessu, verðum að standa saman. Við megum ekki láta menn eyðileggja fjárlögin fyrir okkur. Þau eru alveg heilög bók. Þau eru okkar Veda. Og hvernig eru þá þessi blessuð fjárlög? Eru þau svona góð? Er þetta allt í svo góðu lagi hjá okkur að við getum héðan af Alþingi bent á menn og sagt: Þú óvirtir fjárlögin. Þau braust af þér. Ég held ekki. Því miður, virðulegur forseti. Það væri sannarlega æskilegt að svo væri, en sannleikurinn sýnist mér vera annar. Ég hef haft samband t.d. við fjmrn. út af þessu máli. Ég hef spurt um hversu algengt það sé að greiðslustaða ríkisstofnana og fyrirtækja sé neikvæð um áramót eins og hún virðist hafa verið hjá fræðsluumdæminu fyrir norðan. Svarið er: Ja, það er nú býsna algengt. Og ég var spurður af ágætum starfsmanni í fjmrn.: Þekkir ekki þm. ríkisreikninginn? Jú, ég þekki hann. Þetta er þykkur bunki sem kemur á borð mín einu sinni á ári og ég skal viðurkenna að ég hef ekki mikið lesið, en maður ætti kannske að kynna sér ögn nánar. - Ég ætla að biðja hæstv. menntmrh. að fara ekki langt.

Ég spurði ábyrgan mann í fjmrn. hversu algengar aukafjárveitingar væru. Hversu algengt er það nú að fjárlögin haldi ekki og það þurfi að breyta ýmsu og bæta við vegna þess að útgjöldin fara fram úr áætlunum? Og ég fékk svar sem tekið var saman af miklum myndarskap á stuttum tíma fyrir mig. Það er svona: Frá 1. jan. til 31. sept. 1986 voru veittar 140 aukafjárveitingar að upphæð 1 567 000 kr. Og hverjir haldið þið að eigi langlengsta listann af þessum aukafjárveitingum? Það er menntmrn. Það á 27 bókaða liði og er þá stundum slegið saman í bókarnúmer mörgum fjárveitingum. Það er með langhæstu upphæðina, um 300 millj. kr.

Svona er þetta aftur í tímann. 1985 voru aukafjárveitingarnar 281 og aftur er menntmrn. bæði með dýrastar og mestar aukafjárveitingar og iðnrn. á því ári reyndar þó nokkuð. 1984 voru aukafjárveitingarnar 184. Þannig er ekkert sérstaklega sjaldgæft að það þurfi að bæta svolítið við. Þessar 27 aukafjárveitingar sem menntmrn. var búið að fá á þessum fyrstu níu mánuðum ársins 1986 benda ekki til þess að siðferðisþrek ráðuneytisins hefði algjörlega brostið þó það hefði sótt um eina í viðbót til sérkennslumála á Norðurlandi eystra. En það var ekki gert. Óskum fræðsluumdæmisins um að fá aukafjárveitingu var ekki sinnt þrátt fyrir 27 aukafjárveitingar menntmrn.

Þá ætla ég að koma að enn skemmtilegri hlutum, virðulegur forseti, sem ég veit að mun fá menn til að veltast um af hlátri og það er ríkisreikningurinn sjálfur, það merka plagg. Nú hvet ég bæði hæstv. menntmrh., hv. þm. og kannske fjölmiðlamenn sem á mig hlýða að kynna sér það ágæta rit og hefðu menn kannske fyrr mátt gefa honum meiri gaum. Þar er margar mjög gagnlegar upplýsingar að finna.

Ég fór sem sagt í það að fletta töflum þar sem sundurliðuð eru raunveruleg gjöld, fjárlögin sjálf og fjárheimildir eins og þær eru þegar leiðrétt hefur verið fyrir ýmsum aukakostnaði og leyfðar eða heimilaðar aukafjárveitingar færðar inn. Og þá skyldi maður ætla, miðað við prinsippfestu hæstv. menntmrh. núverandi í þessum efnum, að það væri allt í lagi yfir höfuð í þessum ríkisreikningi.

Ég hirði ekki, herra forseti, að fara neðarlega í listann. Af mörgu mætti taka og víða mætti lesa, en ég ætla að fjalla aðeins um æðstu stofnanir ríkisins, sjálfan toppinn á píramídanum, sjálfa krónuna sem allir eiga að bera virðingu fyrir. Þá er það þannig, svo ég byrji á iðnrn. 1985 af því að ég vil vera sanngjarn, að þar eru fjárlög til yfirstjórnar iðnrn. upp á 12 844 þús. Fjárheimildir, eins og vonandi er skýrt fyrir öllum hv. þm., fjárlögin plús leiðréttingar og samþykktar aukafjárveitingar og annað slíkt, upp á 17 613 þús., en raunveruleg eyðsla, þ.e. reikningurinn sjálfur árið 1985, upp á 15,9 millj. Bravó fyrir hæstv. fyrrv. iðnrh. Honum tókst þrátt fyrir að hann færi auðvitað talsvert fram úr fjárlögunum að halda sig innan fjárheimildanna og skal hann eiga það.

Hvernig gekk þetta hjá hæstv. félmrh.? Það gekk þannig að hann var alveg í járnum með sinn rekstur. Fjárlögin voru upp á 13,8 millj., fjárlagaheimildirnar upp á 17,5 en reikningurinn upp á 17,2. Nokkuð gott hjá hæstv. félmrh. Þetta slapp til hjá honum.

Hversu heppinn var hæstv. dóms- og kirkjumrh.? Skyldi hann fá að halda starfi sínu? Er hann e.t.v. sekur og hans æðstu starfsmenn eins og Sturla Kristjánsson? Getur hugsast að hæstv. dóms- og kirkjumrh. hafi í sínu ráðuneyti brotið af sér á nákvæmlega sama hátt og fræðsluskrifstofan í Norðurlandsumdæmi eystra? Já, því miður. (ÓÞÞ: Hefur þá fræðsluskrifstofan brotið af sér?) Með sama hætti ef þetta er afbrot, virðulegur skrifari í hliðardyrum. (ÓÞÞ: Ég spurði beint. Þú talaðir beint.) Ef þetta er afbrot. (ÓÞÞ: Það var enginn fyrirvari í máli ræðumanns. Þá hefur hún brotið af sér.) Virðulegur forseti, nú held ég að við ættum að setja virðulegan skrifara á mælendaskrá. (Forseti: Ekki samtal á fundinum.) (ÓÞÞ: Það stendur svo á að ég er varaforseti.) Virðulegur skrifari var forseti rétt áðan.

Dóms- og kirkjumrn. hafði á fjárlögum til yfirstjórnar 20,3 millj., fjárheimildir voru upp á 25,2, eyðslan, reikningurinn 28,1. 3 millj. yfir þar. Því miður. Dómsmrh. misstir starf sitt og e.t.v. fara fleiri í gröfina með honum.

Hvernig gekk þetta hjá sjútvrh. virðulegum? Fjárlögin voru upp á 14,3 millj., fjárheimildirnar samkvæmt ríkisreikningi ársins 1985 upp á 17,2, reikningurinn upp á 18,3. Ja, ljótt er að heyra. Sjálfur varaformaður Framsfl. líka embættislaus.

Landbrn. Bóndinn frá Seglbúðum. Hvernig gekk þetta hjá honum? Fjárlögin heimiluðu honum eyðslu í yfirstjórn ráðuneytisins upp á 19 millj., fjárheimildir hafði hann upp á 22 þegar öllu hafði verið bætt við en raunveruleg eyðsla var 23,7. Því miður. Jón Helgason verður aftur að setjast að bústörfum.

Utanrrn. þar sem á þessu ári sat í embætti núverandi seðlabankastjóri. Þar skyldi nú allt vera í lagi, ætlar maður. Núverandi seðlabankastjóri hlýtur að hafa haft reiður á þessum hlutum. Hvernig gekk utanrrn. að halda sínum rekstri innan heimilda fjárlaga og ríkisreiknings? Það gekk þannig, virðulegur forseti, að yfirstjórn hafði á fjárlögum 53,3 millj., fjárheimildir voru upp á 57,6, en eyðslan, reikningurinn þegar gert er upp um áramótin sýnir 70,3. 13 millj. í súginn. Ja, ljótt er að heyra. Þetta hefur sennilega runnið til Seðlabankans. Alla vega rann maðurinn til Seðlabankans sem stóð fyrir þessari eyðslu.

Hvernig gekk þetta svo í menntmrn.? Þar var flokkssystir hæstv. núverandi menntmrh. sem hann talar mjög oft hlýlega um þegar hann fjallar um fyrrv. menntmrh. eins og við höfum fengið að heyra í þessari umræðu. Það gekk þannig að embættið hafði 40,9 millj. til að eyða samkvæmt fjárlögum til yfirstjórnar. Þegar allar nýjar heimildir höfðu verið teknar með voru þar komnar 47,7 millj. En reikningurinn hljóðar upp á 52. Því miður. Þannig fór þetta einnig þar.

Og þá er ég kominn alveg á toppinn á píramídanum, virðulegur forseti, og við sem ætlum okkur að sakfella menn úti í þjóðfélaginu fyrir að hafa ekki getað haldið sig innan ramma fjárlaganna, sem eru allt í einu orðin heilög, verðum að skoða hvernig þetta gengur hjá okkur sjálfum. Það er óhjákvæmilegt. Annars væri um hræsni og tvískinnung að ræða. Því ætla ég að lesa, virðulegur forseti, þann lið sem er ætíð upphaf fjárlaganna á hverju ári, æðsta stjórn ríkisins. Hvernig gekk þetta hjá okkur? Það gekk þannig í forsrn. að það ráðuneyti hafði 27,4 millj. samkvæmt fjárlögum, hafði fjárheimildir upp á 30,3 en eyddi 33. Síðan er það þannig að til æðstu stjórnar ríkisins ætluðu fjárlögin 176,9 millj., fjárheimildirnar voru 196,1, eyðslan var 258,6. Þarna runnu engir smáfjármunir fram hjá fjárlögunum og fjáraukaheimildunum. Yfir 60 millj. kr. fóru fram úr hjá æðstu yfirstjórn ríkisins. Og hver er þessi æðsta yfirstjórn ríkisins, virðulegur forseti: Ég veit að virðulegur forseti veit það jafnvel og ég og ég ætla að lesa það. Það er best að þingtíðindin geymi það líka úr því að við fórum út í þennan samanburð á annað borð. Það er embætti forseta Íslands, það er Alþingi Íslendinga, það er ríkisstjórnin sjálf og það er Hæstiréttur. Það eru þessir fjórir aðilar sem færast á þennan fjárlagalið, æðsta stjórn ríkisins Íslands. Nú bið ég hv. alþm. að hugleiða, og ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, hvort málflutningur Sverris Hermannssonar um alla þá óhelgi sem Sturla Kristjánsson hafði unnið sér til vegna þess að hann virðist hafa eytt eitthvað umfram fjárlög í stuðnings og hjálparkennslu við börn á Norðurlandi eystra sem þurftu á slíku að halda eigi rétt á sér. Ég held ekki.